Sólin Sólin Rís 10:55 • sest 15:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:21 • Sest 14:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:08 • Síðdegis: 24:54 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:43 • Síðdegis: 18:36 í Reykjavík

Hver hagnast þegar stýrivextir hækka?

Gylfi Magnússon

Öll spurningin hljóðaði svona:

Margir kvarta undan því að vaxtakostnaður þeirra hækki með hækkun stýrivaxta. Spurning mín er: Ef ég borga hærri vexti í dag en í gær vegna hækkunar stýrivaxta, hvar lendir þá það fé sem nemur hækkuninni? Sem sagt: hver hagnast?

Það er tiltölulega flókið að rekja allar afleiðingar stýrivaxtabreytinga og verður ekki reynt hér. Þó er hægt að nefna nokkur atriði.

Seðlabankinn beitir stýrivöxtum fyrst og fremst til að ná verðbólgumarkmiði sínu, það er 2,5% verðbólgu. Hækkun stýrivaxta dregur úr eftirspurn í hagkerfinu, bæði vegna neyslu og fjárfestinga. Hærri vextir hvetja jafnframt til sparnaðar. Auk þess getur hækkun stýrivaxta haft áhrif á gengi krónunnar, til styrkingar. Allt spornar þetta gegn verðbólgu.

Það er auðvitað hagsmunamál flestra að vinna bug á verðbólgu, til dæmis launþega sem sjá þá síður kaupmátt launa sinna brenna upp á verðbólgubálinu. Þannig njóta margir góðs af hækkun stýrivaxta vegna þess að þeir verða þá síður fyrir tjóni vegna verðbólgu.

Það er auðvitað hagsmunamál flestra að vinna bug á verðbólgu, til dæmis launþega sem sjá þá síður kaupmátt launa sinna brenna upp á verðbólgubálinu.

Þetta er þó auðvitað ekki öll sagan. Þeir sem eru með lán geta horft fram á lakari lánskjör, það er hærri vexti, ef stýrivextir eru hækkaðir. Hækkun stýrivaxta skilar sér almennt í hærri útlánsvöxtum þótt það gerist með ýmiss konar rykkjum og skrykkjum. Sum lán eru með föstum vöxtum, önnur með breytilegum og þau síðarnefndu eru með ýmsum útfærslum. Þá eru sum lán verðtryggð og önnur óverðtryggð og stýrivextir hafa miklu minni áhrif á vaxtakjör á þeim fyrrnefndu. Almennt er þó hægt að gera ráð fyrir að hækkun stýrivaxta sé ekki fagnaðarefni fyrir þá sem skulda.

Á móti kemur svo vitaskuld að aðrir eiga ýmiss konar vaxtaberandi eignir, svo sem innlán og skuldabréf. Hækkun stýrivaxta er jákvæðari frá þeirra sjónarhóli. Skuldabréfaeigendur geta þó tapað á hækkun stýrivaxta ef skuldabréfin sem þeir eiga eru með föstum vöxtum. Þeir sem kaupa ný skuldabréf fá hins vegar líklega hærri vexti á þau þegar stýrivextir eru háir.

Til að flækja málið enn frekar þá er rétt að hafa í huga að vexti má skoða sem annað hvort nafnvexti eða raunvexti. Nafnvextir skipta mestu fyrir greiðslubyrði lána en raunvextir meiru að öðru leyti. Ef verðbólga rýkur allt í einu upp og Seðlabankinn bregst við með því að hækka stýrivexti getur vel verið að raunvextir séu engu að síður neikvæðir. Þá rýrna að raunvirði bæði innlán og útlán sem eru með það lágum nafnvöxtum að þeir halda ekki í við verðbólguna. Þetta gerðist til dæmis árið 2022, þá hækkaði Seðlabankinn ítrekað stýrivexti sína en þeir voru mun lægri en verðbólga. Innlánsvextir banka fóru líka hækkandi á þessum tíma en þeir voru lægri en stýrivextirnir og því langt frá því að halda í við verðbólguna. Innstæður brunnu því upp á verðbólgubálinu, þótt stýrivextir færu hækkandi en hækkun stýrivaxtanna hægði aðeins á brunanum og var auðvitað ætla að slökkva verðbólgubálið. Á sama tíma hækkuðu vextir á útlánum, bæði nýjum útlánum og áður veittum lánum sem voru með breytilegum vöxtum. Það var auðvitað ekki fagnaðarefni fyrir lántakendur, m.a. vegna þess að greiðslubyrði lána þeirra þyngdist, en mörg lánanna voru engu að síður ekki með háum raunvöxtum, jafnvel neikvæðum.

Til að átta sig á áhrifum á lántakendur og lánveitendur til fulls verður svo að taka tillit til þess að þetta er að uppistöðu til sama fólkið! Útlendingar eiga ekki mikið af skuldabréfum eða innlánum í krónum og gera nánast ekkert af því að taka lán í íslenskum krónum. Það eru því Íslendingar sem lána hver öðrum krónur. Reikningurinn fyrir vexti í krónum fer því ekki út fyrir landsteinana.

Útlendingar eiga ekki mikið af skuldabréfum eða innlánum í krónum og gera nánast ekkert af því að taka lán í íslenskum krónum. Það eru því Íslendingar sem lána hver öðrum krónur.

Ef við skoðum efnahagsreikninga íslenskra heimila eins og þeir birtast í samantektum Hagstofunnar, sem vinnur upp úr skattframtölum, þá virðast engu að síður íslensk heimili skulda miklu meira af krónum en þau eiga af krónum í formi innlána og skuldabréfa. Það er hins vegar vel innan við hálf sagan því að heimilin eiga mikið af innlánum og skuldabréfum í krónum í gegnum lífeyriskerfið, bæði séreign og þó sérstaklega samtryggingu. Þegar tekið er tillit til þess alls eiga heimilin í heild mun meiri vaxtaberandi eignir í krónum en þau skulda í krónum. Í ljósi þess ætti vaxtahækkun í raun að vera fagnaðarefni fyrir íslensk heimili. Þau skynja það auðvitað ekki þannig. Það er líklega fyrst og fremst vegna þess að þau finna beint fyrir reikningunum sem berast í heimabankann um hver mánaðamót en skynja ekki með sama hætti ávinninginn sem fæst í gegnum lífeyriskerfið.

Til að flækja málið enn frekar má svo hafa í huga að ávöxtun lífeyriskerfisins rennur að verulegu leyti til ríkis og sveitarfélaga, vegna tekjuskatts og útsvars og tekjutenginga í almannatryggingakerfinu. Þeir peningar fara þó ekki langt því að tekjur ríkis og sveitarfélaga renna aftur inn í samfélagið með ýmsum hætti.

En ef heimilin eiga fleiri vaxtaberandi eignir en skuldir í krónum hver er þá mótaðilinn, það er hverjir skulda meira í krónum en þeir eiga í vaxtaberandi krónueignum? Það eru annars vegar fyrirtæki og hins vegar hið opinbera, það er ríki og sveitarfélög. Fyrirtækin eru svo í flestum tilfellum í eigu innlendra aðila, raunar oft lífeyrissjóða, þannig að kostnaður þeirra vegna vaxtagreiðslna lendir að verulegu leyti fyrr eða síðar hjá heimilum. Það sama má segja um vaxtagreiðslur ríkis og sveitarfélaga, skattgreiðendur borga þær fyrr eða síðar. Þegar tekið er tillit til alls þessa þá eru áhrif hærri stýrivaxta að verulegu leyti bara þau að færa peninga úr einum vasa í annan á sömu flíkinni.

Það er þó aðeins of mikil einföldun því að staða heimila er nokkuð mismunandi. Ungar fjölskyldur eiga oftast lítið sparifé og lítil lífeyrisréttindi en geta skuldað mikið, sérstaklega fasteignalán en einnig önnur lán, svo sem námslán, bílalán og ýmiss konar neyslulán. Þeir sem eldri eru eiga miklu frekar skuldlítið eða -laust húsnæði og meiri lífeyrisréttindi. Þannig eru áhrifin af hærri vöxtum mismunandi eftir aldri og raunar líka annarri skiptingu í þjóðfélagshópa. Ef við horfum á ævina í heild þá skiptir þetta þó minna máli því að þótt ein kynslóð taki lán af eldri kynslóðum í upphafi starfsævinnar þá kemur á móti að hún veitir lán til sér yngri kynslóða síðar á ævinni. Það jafnast að einhverju marki út við eðlilegar aðstæður.

Aðstæður eru þó ekki alltaf eðlilegar! Sem dæmi má nefna að á áttunda áratug síðustu aldar var mikið verðbólgubál en vextir lágir og bæði inn- og útlánsvextir lengst af mun lægri en verðbólga. Það þýddi að sparifé brann upp og varð nánast einskis virði en skuldir þurfti heldur ekki að endurgreiða, nema með málamyndaupphæðum sem voru í engu samræmi við verðmætin sem höfðu verið tekin að láni. Það leiddi vitaskuld til þess að fáir vildu spara og framboð af lánsfé því lítið en eftirspurnin mikil, raunar nánast ótakmörkuð. Það þurfti því að skammta lánsfé. Þetta var skelfilegt ástand og raunar má líkja hruni fjármálamarkaðarins á þessum árum við það sem varð 2008, það tók bara mun lengri tíma.

Ástæða þess að vextir voru langt undir því sem hefði verið eðlilegt á áttunda áratuginum var að þeir voru ákveðnir af stjórnvöldum. Vextir réðust því af pólitískum forsendum. Það tók langan tíma að vinda ofan af þessu og þeir sem höfðu séð sparifé sitt eða lífeyri brenna upp fengu það aldrei bætt – en höfðu vitaskuld líka í einhverjum tilfellum tekið lán sem þeir þurftu ekki að endurgreiða. Fyrsta skrefið í að endurreisa lánsfjármarkaðinn eftir hrun áttunda áratugarins var að bjóða upp á verðtryggingu inn- og útlána árið 1979 og svo voru vextir gefnir frjálsir í tveimur áföngum á níunda áratugnum. Raunvextir voru mjög háir fyrstu árin eftir að þeir voru gefnir frjálsir, það var ein afleiðing hremminga áttunda áratugarins. Síðan hafa þeir farið almennt lækkandi og eru miklu lægri nú en þegar þeir voru hæstir.

Myndir:

Höfundur

Gylfi Magnússon

prófessor í hagfræði við HÍ

Útgáfudagur

13.11.2023

Spyrjandi

Einar Ólafsson

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Hver hagnast þegar stýrivextir hækka?“ Vísindavefurinn, 13. nóvember 2023. Sótt 5. desember 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=85758.

Gylfi Magnússon. (2023, 13. nóvember). Hver hagnast þegar stýrivextir hækka? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=85758

Gylfi Magnússon. „Hver hagnast þegar stýrivextir hækka?“ Vísindavefurinn. 13. nóv. 2023. Vefsíða. 5. des. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=85758>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver hagnast þegar stýrivextir hækka?
Öll spurningin hljóðaði svona:

Margir kvarta undan því að vaxtakostnaður þeirra hækki með hækkun stýrivaxta. Spurning mín er: Ef ég borga hærri vexti í dag en í gær vegna hækkunar stýrivaxta, hvar lendir þá það fé sem nemur hækkuninni? Sem sagt: hver hagnast?

Það er tiltölulega flókið að rekja allar afleiðingar stýrivaxtabreytinga og verður ekki reynt hér. Þó er hægt að nefna nokkur atriði.

Seðlabankinn beitir stýrivöxtum fyrst og fremst til að ná verðbólgumarkmiði sínu, það er 2,5% verðbólgu. Hækkun stýrivaxta dregur úr eftirspurn í hagkerfinu, bæði vegna neyslu og fjárfestinga. Hærri vextir hvetja jafnframt til sparnaðar. Auk þess getur hækkun stýrivaxta haft áhrif á gengi krónunnar, til styrkingar. Allt spornar þetta gegn verðbólgu.

Það er auðvitað hagsmunamál flestra að vinna bug á verðbólgu, til dæmis launþega sem sjá þá síður kaupmátt launa sinna brenna upp á verðbólgubálinu. Þannig njóta margir góðs af hækkun stýrivaxta vegna þess að þeir verða þá síður fyrir tjóni vegna verðbólgu.

Það er auðvitað hagsmunamál flestra að vinna bug á verðbólgu, til dæmis launþega sem sjá þá síður kaupmátt launa sinna brenna upp á verðbólgubálinu.

Þetta er þó auðvitað ekki öll sagan. Þeir sem eru með lán geta horft fram á lakari lánskjör, það er hærri vexti, ef stýrivextir eru hækkaðir. Hækkun stýrivaxta skilar sér almennt í hærri útlánsvöxtum þótt það gerist með ýmiss konar rykkjum og skrykkjum. Sum lán eru með föstum vöxtum, önnur með breytilegum og þau síðarnefndu eru með ýmsum útfærslum. Þá eru sum lán verðtryggð og önnur óverðtryggð og stýrivextir hafa miklu minni áhrif á vaxtakjör á þeim fyrrnefndu. Almennt er þó hægt að gera ráð fyrir að hækkun stýrivaxta sé ekki fagnaðarefni fyrir þá sem skulda.

Á móti kemur svo vitaskuld að aðrir eiga ýmiss konar vaxtaberandi eignir, svo sem innlán og skuldabréf. Hækkun stýrivaxta er jákvæðari frá þeirra sjónarhóli. Skuldabréfaeigendur geta þó tapað á hækkun stýrivaxta ef skuldabréfin sem þeir eiga eru með föstum vöxtum. Þeir sem kaupa ný skuldabréf fá hins vegar líklega hærri vexti á þau þegar stýrivextir eru háir.

Til að flækja málið enn frekar þá er rétt að hafa í huga að vexti má skoða sem annað hvort nafnvexti eða raunvexti. Nafnvextir skipta mestu fyrir greiðslubyrði lána en raunvextir meiru að öðru leyti. Ef verðbólga rýkur allt í einu upp og Seðlabankinn bregst við með því að hækka stýrivexti getur vel verið að raunvextir séu engu að síður neikvæðir. Þá rýrna að raunvirði bæði innlán og útlán sem eru með það lágum nafnvöxtum að þeir halda ekki í við verðbólguna. Þetta gerðist til dæmis árið 2022, þá hækkaði Seðlabankinn ítrekað stýrivexti sína en þeir voru mun lægri en verðbólga. Innlánsvextir banka fóru líka hækkandi á þessum tíma en þeir voru lægri en stýrivextirnir og því langt frá því að halda í við verðbólguna. Innstæður brunnu því upp á verðbólgubálinu, þótt stýrivextir færu hækkandi en hækkun stýrivaxtanna hægði aðeins á brunanum og var auðvitað ætla að slökkva verðbólgubálið. Á sama tíma hækkuðu vextir á útlánum, bæði nýjum útlánum og áður veittum lánum sem voru með breytilegum vöxtum. Það var auðvitað ekki fagnaðarefni fyrir lántakendur, m.a. vegna þess að greiðslubyrði lána þeirra þyngdist, en mörg lánanna voru engu að síður ekki með háum raunvöxtum, jafnvel neikvæðum.

Til að átta sig á áhrifum á lántakendur og lánveitendur til fulls verður svo að taka tillit til þess að þetta er að uppistöðu til sama fólkið! Útlendingar eiga ekki mikið af skuldabréfum eða innlánum í krónum og gera nánast ekkert af því að taka lán í íslenskum krónum. Það eru því Íslendingar sem lána hver öðrum krónur. Reikningurinn fyrir vexti í krónum fer því ekki út fyrir landsteinana.

Útlendingar eiga ekki mikið af skuldabréfum eða innlánum í krónum og gera nánast ekkert af því að taka lán í íslenskum krónum. Það eru því Íslendingar sem lána hver öðrum krónur.

Ef við skoðum efnahagsreikninga íslenskra heimila eins og þeir birtast í samantektum Hagstofunnar, sem vinnur upp úr skattframtölum, þá virðast engu að síður íslensk heimili skulda miklu meira af krónum en þau eiga af krónum í formi innlána og skuldabréfa. Það er hins vegar vel innan við hálf sagan því að heimilin eiga mikið af innlánum og skuldabréfum í krónum í gegnum lífeyriskerfið, bæði séreign og þó sérstaklega samtryggingu. Þegar tekið er tillit til þess alls eiga heimilin í heild mun meiri vaxtaberandi eignir í krónum en þau skulda í krónum. Í ljósi þess ætti vaxtahækkun í raun að vera fagnaðarefni fyrir íslensk heimili. Þau skynja það auðvitað ekki þannig. Það er líklega fyrst og fremst vegna þess að þau finna beint fyrir reikningunum sem berast í heimabankann um hver mánaðamót en skynja ekki með sama hætti ávinninginn sem fæst í gegnum lífeyriskerfið.

Til að flækja málið enn frekar má svo hafa í huga að ávöxtun lífeyriskerfisins rennur að verulegu leyti til ríkis og sveitarfélaga, vegna tekjuskatts og útsvars og tekjutenginga í almannatryggingakerfinu. Þeir peningar fara þó ekki langt því að tekjur ríkis og sveitarfélaga renna aftur inn í samfélagið með ýmsum hætti.

En ef heimilin eiga fleiri vaxtaberandi eignir en skuldir í krónum hver er þá mótaðilinn, það er hverjir skulda meira í krónum en þeir eiga í vaxtaberandi krónueignum? Það eru annars vegar fyrirtæki og hins vegar hið opinbera, það er ríki og sveitarfélög. Fyrirtækin eru svo í flestum tilfellum í eigu innlendra aðila, raunar oft lífeyrissjóða, þannig að kostnaður þeirra vegna vaxtagreiðslna lendir að verulegu leyti fyrr eða síðar hjá heimilum. Það sama má segja um vaxtagreiðslur ríkis og sveitarfélaga, skattgreiðendur borga þær fyrr eða síðar. Þegar tekið er tillit til alls þessa þá eru áhrif hærri stýrivaxta að verulegu leyti bara þau að færa peninga úr einum vasa í annan á sömu flíkinni.

Það er þó aðeins of mikil einföldun því að staða heimila er nokkuð mismunandi. Ungar fjölskyldur eiga oftast lítið sparifé og lítil lífeyrisréttindi en geta skuldað mikið, sérstaklega fasteignalán en einnig önnur lán, svo sem námslán, bílalán og ýmiss konar neyslulán. Þeir sem eldri eru eiga miklu frekar skuldlítið eða -laust húsnæði og meiri lífeyrisréttindi. Þannig eru áhrifin af hærri vöxtum mismunandi eftir aldri og raunar líka annarri skiptingu í þjóðfélagshópa. Ef við horfum á ævina í heild þá skiptir þetta þó minna máli því að þótt ein kynslóð taki lán af eldri kynslóðum í upphafi starfsævinnar þá kemur á móti að hún veitir lán til sér yngri kynslóða síðar á ævinni. Það jafnast að einhverju marki út við eðlilegar aðstæður.

Aðstæður eru þó ekki alltaf eðlilegar! Sem dæmi má nefna að á áttunda áratug síðustu aldar var mikið verðbólgubál en vextir lágir og bæði inn- og útlánsvextir lengst af mun lægri en verðbólga. Það þýddi að sparifé brann upp og varð nánast einskis virði en skuldir þurfti heldur ekki að endurgreiða, nema með málamyndaupphæðum sem voru í engu samræmi við verðmætin sem höfðu verið tekin að láni. Það leiddi vitaskuld til þess að fáir vildu spara og framboð af lánsfé því lítið en eftirspurnin mikil, raunar nánast ótakmörkuð. Það þurfti því að skammta lánsfé. Þetta var skelfilegt ástand og raunar má líkja hruni fjármálamarkaðarins á þessum árum við það sem varð 2008, það tók bara mun lengri tíma.

Ástæða þess að vextir voru langt undir því sem hefði verið eðlilegt á áttunda áratuginum var að þeir voru ákveðnir af stjórnvöldum. Vextir réðust því af pólitískum forsendum. Það tók langan tíma að vinda ofan af þessu og þeir sem höfðu séð sparifé sitt eða lífeyri brenna upp fengu það aldrei bætt – en höfðu vitaskuld líka í einhverjum tilfellum tekið lán sem þeir þurftu ekki að endurgreiða. Fyrsta skrefið í að endurreisa lánsfjármarkaðinn eftir hrun áttunda áratugarins var að bjóða upp á verðtryggingu inn- og útlána árið 1979 og svo voru vextir gefnir frjálsir í tveimur áföngum á níunda áratugnum. Raunvextir voru mjög háir fyrstu árin eftir að þeir voru gefnir frjálsir, það var ein afleiðing hremminga áttunda áratugarins. Síðan hafa þeir farið almennt lækkandi og eru miklu lægri nú en þegar þeir voru hæstir.

Myndir:...