Sólin Sólin Rís 08:51 • sest 18:32 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:50 • Sest 09:27 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:10 • Síðdegis: 19:28 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:03 • Síðdegis: 13:25 í Reykjavík

Hvaða áhrif hafði pillan á líf íslenskra kvenna?

Ása Ester Sigurðardóttir

Getnaðarvarnarpillan kom fyrst á markaðinn um 1960 og varð fljótlega vinsæl meðal íslenskra kvenna. Ekki aðeins gerði hún konum kleift að koma í veg fyrir getnað á skilvirkari máta en nokkur önnur getnaðarvörn fram að því, heldur var notkun hennar á ábyrgð kvennanna sjálfra og hún tekin óháð kynlífsathöfninni. Pillan þótti því vera afar hentug og þægileg leið til að koma í veg fyrir ótímabærar þunganir.

Það að geta stjórnað barneignum sínum örugglega gerði konum mögulegt að skipuleggja líf sitt betur en áður.[1] Með pillunni gátu konur ákveðið hversu mörg börn þær vildu eiga, hvenær þær vildu eignast þau og jafnvel hvort þær vildu eignast börn. Á sjöunda og áttunda áratug tuttugustu aldar, þegar pillan var nýkomin á markað, var íslenskt samfélag að taka breytingum í kjölfar aukinnar velmegunar og öflugra velferðarkerfis. Neysla almennings jókst og fjárhagur heimilanna þurfti að geta staðið undir þessum breytingum. Það birtist meðal annars í aukinni atvinnuþátttöku giftra kvenna á Íslandi, úr 26% árið 1965 í 57% árið 1975.[2] Aukin sókn kvenna á vinnumarkaðinn breytti samfélagsgerðinni og það sýndi sig meðal annars í kröfunni um aukið aðgengi að getnaðarvörnum.

Á sjöunda og áttunda áratug tuttugustu aldar, þegar pillan var nýkomin á markað, var íslenskt samfélag að taka breytingum í kjölfar aukinnar velmegunar og öflugra velferðarkerfis. Myndin er tekin á Lækjartorgi um miðjan áttunda áratug 20. aldar.

Konur sem notuðu pilluna á fyrstu árum hennar á Íslandi hafa lýst áhrifunum á þann hátt að með notkun hennar hafi þær getað tekið ákvarðanir um hvort og hvenær þær vildu sækja sér menntun eða fara út á atvinnumarkaðinn með þeirri fullvissu að þær yrðu ekki þungaðar eða með ungbarn á næstu árum sem myndi krefjast frekari athygli þeirra. Pillan gerði konum þar af leiðandi auðveldara að dreyma um eða lifa öðruvísi lífi heldur en formæður þeirra höfðu lifað, lífi sem var ekki eins bundið við heimilið og áður hafði verið.[3]

Getnaðarvarnarpillan hafði einnig þau áhrif að margar konur fóru að njóta kynlífs meira en áður. Þar sem pillan var með öruggari getnaðarvörnum sem í boði voru, höfðu margar konur minni áhyggjur af ótímabærum þungunum, einhverju sem hafði áður fyrr plagað margar þeirra á meðan kynlífsathöfninni stóð og því dregið úr getu þeirra til að njóta sín.[4] Þetta þótti vissulega jákvætt en hafði þó, samkvæmt sumum, flóknari áhrif. Dæmi eru um að sumar konur hafi fundið fyrir meiri þrýstingi til þess að stunda kynlíf en áður, vegna þeirrar auknu nautnar og frelsis sem talað var um að pillan hefði óbeint í för með sér fyrir konur.[5]

Getnaðarvarnarpillan hafði því að minnsta kosti tvennt í för með sér. Konur öðluðust meiri stjórn yfir eigin líkama og lífi og þær gátu einnig tekið virkari þátt í þeim breyttu samfélagsháttum sem urðu í kjölfar aukinnar velmegunar og aukinnar neyslu. Pillan gerði konum bæði kleift að vinna utan heimilis og sækja sér menntun. Því er hægt að segja að pillan hafi leyft konum að skipuleggja líf sitt í kringum barneignir á skilvirkari máta en aðrar getnaðarvarnir höfðu gert.

Tilvísanir:
 1. ^ Viðtöl við konur vegna: Ása Ester Sigurðardóttir, Í átt að auknu frelsi?; sjá einnig: Ása Ester Sigurðardóttir, „Frelsi, fagnaðarefni og hættuspil. Getnaðarvarnarpillan á Íslandi 1960-1980“, 88-89.
 2. ^ Guðrún Guðmundsdóttir, „Atvinna og laun kvenna“, 79; Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, „1974 - Þær þorðu, vildu og gátu“, 447.
 3. ^ Viðtöl við konur vegna: Ása Ester Sigurðardóttir, Í átt að auknu frelsi?; sjá einnig: Ása Ester Sigurðardóttir, „Frelsi, fagnaðarefni og hættuspil. Getnaðarvarnarpillan á Íslandi 1960-1980“, 88-89.
 4. ^ Kristín Svava Tómasdóttir, Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar, 28; Herzog, Sexuality in Europe. A Twentieth-Century History, 137.
 5. ^ Kristín Svava Tómasdóttir, Stund klámsins, 29; Gestur Guðmundsson og Kristín Ólafsdóttir, '68: Hugarflug úr viðjum vanans, 228; Hjördís Hjartardóttir, „Rétturinn til að segja nei“, 6-7.

Heimildir:

 • Ása Ester Sigurðardóttir, „Frelsi, fagnaðarefni og hættuspil. Getnaðarvarnarpillan á Íslandi 1960-1980“, Saga 61, nr. 1 (2023):79-105.
 • Ása Ester Sigurðardóttir. Í átt að auknu frelsi? Getnaðarvarnarpillan á Íslandi 1960-1980 (meistararitgerð, HÍ, 2022).
 • Gestur Guðmundsson og Kristín Ólafsdóttir, '68: Hugarflug úr viðjum vanans (Reykjavík: Tákn bókaútgáfa, 1987).
 • Guðrún Guðmundsdóttir, „Atvinna og laun kvenna,“ í Konur, hvað nú? Staða íslenskra kvenna í kjölfar kvennaárs og kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna 1975-1985 (Reykjavík: Jafnréttisráð, 1985).
 • Herzog, Sexuality in Europe. A Twentieth-Century History (Cambrigde: Cambridge University Press, 2011).
 • Hjördís Hjartardóttir, „Rétturinn til að segja nei“, Vera, 1. apríl 1985, 6-7.
 • Kristín Svava Tómasdóttir, Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar (Reykjavík: Sögufélag, 2018).
 • Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, „1974 - Þær þorðu, vildu og gátu“ í Konur sem kjósa. Aldarsaga, ritstj. Helga Jóna Eiríksdóttir (Reykjavík: Sögufélag, 2020), 399-468.

Mynd:

Höfundur

Útgáfudagur

4.1.2024

Spyrjandi

Hafdís Huld Björnsdóttir, ritstjórn

Tilvísun

Ása Ester Sigurðardóttir. „Hvaða áhrif hafði pillan á líf íslenskra kvenna?“ Vísindavefurinn, 4. janúar 2024. Sótt 25. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=85905.

Ása Ester Sigurðardóttir. (2024, 4. janúar). Hvaða áhrif hafði pillan á líf íslenskra kvenna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=85905

Ása Ester Sigurðardóttir. „Hvaða áhrif hafði pillan á líf íslenskra kvenna?“ Vísindavefurinn. 4. jan. 2024. Vefsíða. 25. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=85905>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða áhrif hafði pillan á líf íslenskra kvenna?
Getnaðarvarnarpillan kom fyrst á markaðinn um 1960 og varð fljótlega vinsæl meðal íslenskra kvenna. Ekki aðeins gerði hún konum kleift að koma í veg fyrir getnað á skilvirkari máta en nokkur önnur getnaðarvörn fram að því, heldur var notkun hennar á ábyrgð kvennanna sjálfra og hún tekin óháð kynlífsathöfninni. Pillan þótti því vera afar hentug og þægileg leið til að koma í veg fyrir ótímabærar þunganir.

Það að geta stjórnað barneignum sínum örugglega gerði konum mögulegt að skipuleggja líf sitt betur en áður.[1] Með pillunni gátu konur ákveðið hversu mörg börn þær vildu eiga, hvenær þær vildu eignast þau og jafnvel hvort þær vildu eignast börn. Á sjöunda og áttunda áratug tuttugustu aldar, þegar pillan var nýkomin á markað, var íslenskt samfélag að taka breytingum í kjölfar aukinnar velmegunar og öflugra velferðarkerfis. Neysla almennings jókst og fjárhagur heimilanna þurfti að geta staðið undir þessum breytingum. Það birtist meðal annars í aukinni atvinnuþátttöku giftra kvenna á Íslandi, úr 26% árið 1965 í 57% árið 1975.[2] Aukin sókn kvenna á vinnumarkaðinn breytti samfélagsgerðinni og það sýndi sig meðal annars í kröfunni um aukið aðgengi að getnaðarvörnum.

Á sjöunda og áttunda áratug tuttugustu aldar, þegar pillan var nýkomin á markað, var íslenskt samfélag að taka breytingum í kjölfar aukinnar velmegunar og öflugra velferðarkerfis. Myndin er tekin á Lækjartorgi um miðjan áttunda áratug 20. aldar.

Konur sem notuðu pilluna á fyrstu árum hennar á Íslandi hafa lýst áhrifunum á þann hátt að með notkun hennar hafi þær getað tekið ákvarðanir um hvort og hvenær þær vildu sækja sér menntun eða fara út á atvinnumarkaðinn með þeirri fullvissu að þær yrðu ekki þungaðar eða með ungbarn á næstu árum sem myndi krefjast frekari athygli þeirra. Pillan gerði konum þar af leiðandi auðveldara að dreyma um eða lifa öðruvísi lífi heldur en formæður þeirra höfðu lifað, lífi sem var ekki eins bundið við heimilið og áður hafði verið.[3]

Getnaðarvarnarpillan hafði einnig þau áhrif að margar konur fóru að njóta kynlífs meira en áður. Þar sem pillan var með öruggari getnaðarvörnum sem í boði voru, höfðu margar konur minni áhyggjur af ótímabærum þungunum, einhverju sem hafði áður fyrr plagað margar þeirra á meðan kynlífsathöfninni stóð og því dregið úr getu þeirra til að njóta sín.[4] Þetta þótti vissulega jákvætt en hafði þó, samkvæmt sumum, flóknari áhrif. Dæmi eru um að sumar konur hafi fundið fyrir meiri þrýstingi til þess að stunda kynlíf en áður, vegna þeirrar auknu nautnar og frelsis sem talað var um að pillan hefði óbeint í för með sér fyrir konur.[5]

Getnaðarvarnarpillan hafði því að minnsta kosti tvennt í för með sér. Konur öðluðust meiri stjórn yfir eigin líkama og lífi og þær gátu einnig tekið virkari þátt í þeim breyttu samfélagsháttum sem urðu í kjölfar aukinnar velmegunar og aukinnar neyslu. Pillan gerði konum bæði kleift að vinna utan heimilis og sækja sér menntun. Því er hægt að segja að pillan hafi leyft konum að skipuleggja líf sitt í kringum barneignir á skilvirkari máta en aðrar getnaðarvarnir höfðu gert.

Tilvísanir:
 1. ^ Viðtöl við konur vegna: Ása Ester Sigurðardóttir, Í átt að auknu frelsi?; sjá einnig: Ása Ester Sigurðardóttir, „Frelsi, fagnaðarefni og hættuspil. Getnaðarvarnarpillan á Íslandi 1960-1980“, 88-89.
 2. ^ Guðrún Guðmundsdóttir, „Atvinna og laun kvenna“, 79; Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, „1974 - Þær þorðu, vildu og gátu“, 447.
 3. ^ Viðtöl við konur vegna: Ása Ester Sigurðardóttir, Í átt að auknu frelsi?; sjá einnig: Ása Ester Sigurðardóttir, „Frelsi, fagnaðarefni og hættuspil. Getnaðarvarnarpillan á Íslandi 1960-1980“, 88-89.
 4. ^ Kristín Svava Tómasdóttir, Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar, 28; Herzog, Sexuality in Europe. A Twentieth-Century History, 137.
 5. ^ Kristín Svava Tómasdóttir, Stund klámsins, 29; Gestur Guðmundsson og Kristín Ólafsdóttir, '68: Hugarflug úr viðjum vanans, 228; Hjördís Hjartardóttir, „Rétturinn til að segja nei“, 6-7.

Heimildir:

 • Ása Ester Sigurðardóttir, „Frelsi, fagnaðarefni og hættuspil. Getnaðarvarnarpillan á Íslandi 1960-1980“, Saga 61, nr. 1 (2023):79-105.
 • Ása Ester Sigurðardóttir. Í átt að auknu frelsi? Getnaðarvarnarpillan á Íslandi 1960-1980 (meistararitgerð, HÍ, 2022).
 • Gestur Guðmundsson og Kristín Ólafsdóttir, '68: Hugarflug úr viðjum vanans (Reykjavík: Tákn bókaútgáfa, 1987).
 • Guðrún Guðmundsdóttir, „Atvinna og laun kvenna,“ í Konur, hvað nú? Staða íslenskra kvenna í kjölfar kvennaárs og kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna 1975-1985 (Reykjavík: Jafnréttisráð, 1985).
 • Herzog, Sexuality in Europe. A Twentieth-Century History (Cambrigde: Cambridge University Press, 2011).
 • Hjördís Hjartardóttir, „Rétturinn til að segja nei“, Vera, 1. apríl 1985, 6-7.
 • Kristín Svava Tómasdóttir, Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar (Reykjavík: Sögufélag, 2018).
 • Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, „1974 - Þær þorðu, vildu og gátu“ í Konur sem kjósa. Aldarsaga, ritstj. Helga Jóna Eiríksdóttir (Reykjavík: Sögufélag, 2020), 399-468.

Mynd:...