Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Get ég fengið lýsingu á knörr á tímum Eiríks rauða?
Hvernig var knörr að gerð og hvernig notaður? Ólafur digri Haraldsson hélt frá Englandi til Noregs með menn sína á tveimur knörrum, víst haustið 1014. Um þessa för getur samtímaskáldið Óttar svarti í tveimur dróttkvæðum vísum og segir þar meðal annars að Ólafur hafi búið vestan tvo knörru. Sjór var úfinn og háar öldur í Noregsferðinni, segir skáldið enn. Ólafur hafði stundað hernað á langskipum á Englandi, samkvæmt megintexta í Ólafs sögu ins helga í Heimskringlu, en mun hafa treyst best á knerrina til að komast til Noregs að hausti þegar var allra veðra von. Við komuna til Noregs yfirbugaði Ólafur óvin með brögðum en beitti ekki knörrunum sem herskipum, að sögn Ólafssögu.[1] Í annarri af vísunum kallar skáldið knerrina beinlínis „kaupskip“ og segir í megintexta Ólafssögu að þetta hafi blekkt óvininn, hann uggði ekki að sér fyrst kaupmenn virtust vera á ferð. Knerrir voru ekki herskip, segja fræðimenn, af því að verið hafi erfitt að róa þeim, þeir hafi verið of borðháir og þungir. Hugmyndin um knerri sem borðhá skip er meðal annars sótt í það að stofninn í „hnarr“ í orðinu hnarrreistur (merkir beinn, hár og brattur) er hinn sami og í knörr (samanber hnöttur/knöttur, hnífur/knífur).
Eftir að skip fannst í Hróarskeldufirði, nefnt Skuldelev 1, telja fræðimenn sig vita hvernig knörr var að gerð. Skipið er 16 m langt, um 4,5 m að breidd og telst hafa borið 24 tonn, er til dæmis allmiklu lengra en íslenskir tólfæringar sem náðu kannski 11 m að lengd. Það mun hafa verið smíðað um 1030. Endurgert er skipið sterklegt og borðhátt. Svona munu knerrirnir sem Ólafur digri beitti hafa litið út, eða því sem næst.[2]
Fræðimenn telja að skipið Skuldelev 1 sem fannst í Hróarskeldufirði gefi góða mynd af því hvernig knörr leit út.
Kenning fræðimanna er sú að skip af þessari gerð hafi þróast í siglingum í Norður-Atlantshafi á 10. öld. Á landnámstíma Íslands hafi hin bestu og stærstu skip líklega verið lík Gokstadskipinu norska, það var hvorki borðhátt hlutfallslega né burðarmikið, 23,3 m langt og 5,25 m breitt miðskips. Skip af gerðinni Skuldelev 1 tóku þessu skipi fram í siglingum til Íslands, hafa verið mun öruggari og gagnast í tvísýnu veðri um Norðursjó, til skosku eyjanna og Færeyja og loks til Grænlands. En hvenær þessi gerð kom fram fullmótuð vitum við ekki, kannski ekki fyrr en um 1000, áður en Eiríkur rauði skal hafa siglt til Grænlands.[3] Knerrir voru hafðir í Grænlandssiglingum, síðar meir, öðrum skipum fremur, löngu eftir að aðrar skipstegundir urðu fyrirferðarmeiri í Íslandssiglingum. Þeir þóttu alltraust sjóskip.[4]
Fræðilegum svörum fylgja oft „vandamál“, benda má á að í svonefndu Haraldskvæði um úrslitaorrustuna í Hafursfirði, þar sem Haraldur hárfagri er sagður hafa sigrað, segir að óvinir hans hafi komið austan á knörrum (knerrir komu austan).[5] Þetta var nærri öld áður en Eiríkur rauði skal hafa fundið Grænland. Ætla má að knerrir merki hér borðhá skip en meira vitum við ekki. Fyrst óvinir Haralds komu að austan, ef til vill langt að, hafa þeir kannski valið burðarmikil skip frekar en létt herskip (langskip) til að sigla með menn og farangur. Þar sem knerrir eftir 1000 voru fremur þungir, þurfti að draga þá með sérstökum eftirbátum sem menn reru til að færa þá úr stað, til dæmis til að koma þeim inn á hafnir. Þetta var sjálfsagt óheppilegt í sjóhernaði. Mörgum hefur þótt kveðskapurinn um sigur Haralds fremur tortyggilegur og sumir jafnvel talið að Haraldur hafi ekki verið til.[6]
Á landnámstíma Íslands voru bestu og stærstu skip líklega lík Gokstadskipinu norska.
Önnur vísa um knörr, sem skal ort löngu fyrir 1000, þykir ekki traust heimild um skipasögu. Það er vísa piltsins Egils Skallagrímssonar sem sá sjálfan sig í anda stýra dýrum knerri í hernaði og þessu skipi fylgdu fagrar árar í draumsýninni. Sigurður Nordal taldi trúlegt að barnið Egill hefði ort vísuna en ekki verið vel að sér um hafskip og ímyndað sér ranglega að knerri mætti knýja áfram með árum og að þeir nýttust vel í hernaði.[7]
Ekki virðist unnt að þvertaka fyrir að einhvers konar knerrir hafi verið til á 10. öld, líklega borðháir en kannski frábrugðnir Skuldelev 1 á einhvern hátt. Varla verður vitað hvort Eiríkur rauði átti slíkt far eða eitthvert annað líkara Gokstadskipinu eða hvorugt. Ýmist segir að Eiríkur hafi komið út frá Noregi með sekum föður sínum og sest að á Ströndum eða verið innfæddur Breiðfirðingur, venslaður höfðingjum við Breiðafjörð. Hafi hann komið, ekki löngu fyrir Grænlandsförina, landflótta frá Noregi hefur hann kannski haft haffært skip til ráðstöfunar. 25 skip eiga að hafa farið með fólk til landnáms á Grænlandi frá Borgarfirði og Breiðafirði en einungis 14 komist alla leið. Þessi sögn er frá Ara fróða og þykir trúverðug.[8] Ellefu skip hröktust aftur eða týndust og hefur verið rökstutt að Breiðfirðingar sem lögðu af stað áleiðis hafi reynt að komast til Grænlands á áttæringum og teinæringum, enda hinn gamli floti landnámsmanna á Íslandi að mestu úr sér genginn um 985.[9] Grænlandsfarar úr Borgarfirði nýttu sér ef til vill svipaða báta. Þessir bátar hafa verið miklum mun styttri, borðlægri og burðarminni en knerrir.
Tilvísanir:
^ Ólafs saga ins helga, Heimskringla II, útg. Bjarni Aðalbjarnarson, Íslenzk fornrit XXVII (1945), bls. 34-6.
^ Sjá t.d. Helgi Þorláksson, „Frá landnámi til einokunar“, Líftaug landsins I (2017), bls. 27-9 og rit sem þar er vísað til.
^ Jan Bill, „The cargo vessels“. Cogs, Cargoes, and Commerce. Maritime Bulk Trade in Northern Europe 1150-1400, ritstj. Berggren, Hybel, Landen (2002), bls. 92-112.
^ Helgi Þorláksson, „Frá landnámi til einokunar“, bls. 95.
^ Haralds saga ins hárfagra, Heimskringla I, útg. Bjarni Aðalbjarnarson, Íslenzk fornrit XXVI (1941), bls. 116. Ágrip af Nóregkonunga s?gum, útg. Bjarni Einarsson, Íslenzk fornrit XXIX (1984 ), bls. 67.
^ Sverrir Jakobsson, „“Erindringen om en mægtig Personlighed”; den dansk-islandske historiske tradisjon om Harald Hårfagre i et kildekritisk perspektiv“. Historisk tidsskrift 81:2 (2022).
^ Egils saga Skalla-Grímssonar, útg. Sigurður Nordal, Íslenzk fornrit II (1933), bls. 100-101.
^ Íslendingabók, Landnámabók, útg. Jakob Benediktsson, Íslenzk fornrit I (1968), bls. 12-13, 130-32.
^ Lúðvík Kristjánsson, „Grænlenzki landnemaflotinn og breiðfirzki báturinn“, Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1964 (1965), bls. 20-68. Bergsveinn Skúlason, Áratog. Þættir úr atvinnusögu Breiðfirðinga (1970), bls. 28.
Helgi Þorláksson. „Hver konar skip var knörr á tímum Eiríks rauða?“ Vísindavefurinn, 29. janúar 2024, sótt 10. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=86011.
Helgi Þorláksson. (2024, 29. janúar). Hver konar skip var knörr á tímum Eiríks rauða? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=86011
Helgi Þorláksson. „Hver konar skip var knörr á tímum Eiríks rauða?“ Vísindavefurinn. 29. jan. 2024. Vefsíða. 10. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=86011>.