Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í nokkur ár hafa bæði Árnastofnun og hlustendur Ríkisútvarpsins valið orð ársins á Íslandi og byggt á mismunandi forsendum. Árið 2023 varð gervigreind fyrir valinu hjá báðum aðilum. Sambærilegt val fer fram víða erlendis en á mismunandi forsendum eftir löndum – sums staðar kjósa málnotendur orðið, annars staðar eru það opinberar málræktarstofnanir sem sjá um valið og enn annars staðar fyrirtæki á sviði orðabókagerðar. Oxford orðabókin valdi rizz sem orð ársins í Bretlandi en í Bandaríkjunum valdi Merriam-Webster orðabókin aftur á móti authentic þótt rizz væri einnig ofarlega á blaði þar. Í Danmörku er valið úr tillögum málnotenda í samvinnu dönsku málnefndarinnar, Dansk Sprognævn, og útvarpsþáttarins „Klog på Sprog“.
Orðið sem varð fyrir valinu í Danmörku árið 2023 er ChatGPT. Það er vitanlega mjög sérstakt orð, ef orð skyldi kalla – fyrri hlutinn er enska orðið chat og borinn fram eins og það orð, en seinni hlutinn er skammstöfunin GPT sem stendur fyrir Generative Pre-trained Transformer, og sá hluti er ekki borinn fram sem heild heldur hver bókstafur fyrir sig. Þessi samsetning er vitanlega orðin mjög algeng í íslensku samhengi líka en ég býst þó varla við því að hún komi til álita sem orð ársins í íslensku. Þótt tökuorð úr ensku eigi tiltölulega greiða leið inn í málið og falli oft ágætlega að því er mér til efs að við myndum nokkurn tíma kalla þetta íslenskt orð – eða orð yfirleitt – til þess er bæði orðhlutagerð þess og hljóðafar of framandi.
ChatGTP er sammála höfundi þessa svars um að „ChatGTP“ sé ekki íslenskt orð!
Orð með skammstöfun sem seinni lið á sér ekki fordæmi í íslensku og kemur í veg fyrir að hægt sé að taka ChatGPT inn í málið í óbreyttri mynd. En við það bætist hljóðafarið. Orðið chat er í ensku borið fram [tʃæt] og hvorki [tʃ] né [æ] eru venjuleg íslensk málhljóð. Við setjum a í stað [æ] og getum sett tsj í stað [tʃ] en engin íslensk orð byrja á tsj- þótt vissulega séu tökuorð eins og tsjilla algeng í óformlegu máli. Svo er spurning hvernig lesum úr seinni hlutanum, GPT, sem ekki hefur að geyma nein sérhljóð og er því ekki hægt að bera fram sem orð. Notum við ensk heiti bókstafanna (aðlöguð íslenskum framburði) og segjum tsjattdsjípítí eða eitthvað í þá átt, eða notum við íslensku heitin og segjum tsjattgépété? Tíminn verður að leiða það í ljós.
Mynd:
Skjáskot af spurningu sem sett var fram í chat.openai.com. (Sótt 10.4.2024).
Þetta svar birtist upprunalega á heimasíðu höfundar en var endurskoðað fyrir birtingu á Vísindavefnum.
Eiríkur Rögnvaldsson. „Gæti ChatGPT verið íslenskt orð?“ Vísindavefurinn, 21. maí 2024, sótt 5. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=86474.
Eiríkur Rögnvaldsson. (2024, 21. maí). Gæti ChatGPT verið íslenskt orð? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=86474
Eiríkur Rögnvaldsson. „Gæti ChatGPT verið íslenskt orð?“ Vísindavefurinn. 21. maí. 2024. Vefsíða. 5. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=86474>.