Þegar ég var í menntaskóla er ég alveg viss um að íslenskukennarinn sagði að það væri til orð um það þegar sól og tungl sæjust bæði á himni. Ég get ekki munað orðið og enginn kannast við það. Kannist þið við þetta orð?Ég hef spurst víða fyrir um orðið sem spurt var um en ekki haft erindi sem erfiði. Enginn mundi eftir sérstöku orði haft um það þegar sól og tungl sjást samtímis á himni. Ég leitaði meðal annars til stjarneðlisfræðings sem mundi ekki eftir neinu sérstöku orði yfir atburðinn en sagði að ekki væri sjaldgæft að sól og tungl sæjust samtímis á himni. Það kæmi oftast fyrir þegar tungl er á fyrsta eða þriðja kvartili. Ef til vill les einhver þetta svar sem þekkir orðið og væri þá gott að frétta af því. Minna má á söguna af Sól og Mána í Gylfaginningu Snorra-Eddu og hvernig þau komust á himininn. Maður var nefndur Mundilfari sem átti tvö börn. Þau voru svo fögur að hann nefndi son sinn Mána en dóttur sína Sól. Goðin reiddust ofdrambi hans og tóku systkinin og settu upp á himininn „og létu Sól keyra hesta, er drógu kerru sólarinnar, þeirrar er goðin höfðu skapað til að lýsa heimana af þeirri síu, er flaug úr Múspellsheimi. … Máni stýrir göngu tungls og ræður nýjum og niðum.“ (Edda Snorra Sturlusonar 1954:21–22 (stafsetningu lítillega breytt)). Heimild og mynd:
- Edda Snorra Sturlusonar. 1954. Guðni Jónsson bjó til prentunar. Íslendingasagnaútgáfan, Akureyri.
- Piyush24r. (2017, 8. desember). Sun and moonTogether.jpg. Wikimedia Commons. Birt undir CC BY-SA 4.0 leyfi. https://commons.wikimedia.org/wiki/File:Sun_and_moonTogether.jpg