Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Getið þið útskýrt framhlaup jökla? Heyrist mikið hljóð? Gerist þetta á skömmum tíma? Er hægt að spá fyrir um framhlaup?
Jöklar hníga fram við aflögun íss undan eigin fargi og renna jafnframt á sleipum botni. Einnig geta deig setlög undir jöklunum mjakast fram. Að sumri er skriðhraðinn meiri en að vetri vegna þess að bræðsluvatn smyrst þá eftir botni jöklanna og dregur það úr viðnámi. Að jafnaði rennur vatn í stökum kvíslum eftir jökulbotninum fram að upptökum ánna við jökuljaðarinn.
Hraðast hreyfast jöklar á Íslandi um 1 metra á sólarhring. Þessi regla helst árum saman en svo getur botnskrið sumra jökla skyndilega aukist, tíu- til hundraðfaldast miðað við venjulegan hraða, og skriðið svo hratt fram mánuðum saman, að nemur tugum metra á sólarhring. Þá getur jökulsporðurinn flust fram um hundruð metra, jafnvel nokkra kílómetra. Jökullinn hleypur fram, ís berst hratt niður hann, efsti hlutinn lækkar um tugi metra, en sporðurinn hækkar og lengist. Allur jökulinn springur og er ófær með öllu. Við framhlaupið dreifist vatn undir jökulinn og nær miklum þrýstingi svo að viðnám við botn hans minnkar og skriðhraði vex. Vatn hættir þá að koma undan jöklinum í stökum ám og flæðir undan öllum sporðinum. Því fylgja oft flóð í ám og aurburður margfaldast.
Framhlaup Eystri-Hagafellsjökuls 1999.
Framhlaup byrja oft ofarlega á jöklinum og berast niður hann undan halla, en dæmi eru um að þau nái ekki fram á jökulsporð, þau ýfi aðeins upp hluta meginjökulsins, eins og sjá má af staðbundnum sprungum inni á jökli. Dæmi eru um að sprungusvæði færist upp eftir jöklum. Framhlaupinu lýkur þegar vatn tæmist undan jöklinum, þrýstingur minnkar og jökullinn stöðvast.
Að loknu hlaupi tekur aftur við reglubundin hreyfing og jöklarnir verða ár frá ári brattari á ný. Flestir framhlaupsjöklar eru flatir og hreyfast of hægt til þess að bera afkomu nægilega hratt niður á leysingarsvæðin. Jökullinn þykknar því á safnsvæðinu en þynnist á leysingarsvæðinu, sporðurinn hopar og jökullinn verður stöðugt brattari. Með mælingum á afkomu og hreyfingu jökla má oft meta hvort jökull hreyfist nægilega hratt til þess að bera afkomuna jafnt niður að leysingarsvæðinu og íhuga þannig hvort stefni í nýtt framhlaup.
Nokkrir jöklar hér á landi hlaupa fram með allreglulegu millibil, aðrir alls ekki. Framhlaupa gætir í flestum stærstu skriðjöklum Íslands og allmörgum hinna minni. Heimildir eru um framhlaup sem hafa náð yfir 80% af flatarmáli jökla hér á landi. Mikil framhlaup hafa orðið í Brúarjökli á 70–100 ára fresti (1625, 1710, 1810, 1890, 1963–64), allt að 9-10 km. Er það með mestu framhlaupum sem þekkt eru á jörðinni. Framhlaup verða með 25–50 ára millibili í vestanverðum Vatnajökli (Síðujökli, Tungnaárjökli og Dyngjujökli), en 5–20 ár hafa verið á milli framhlaupa í Múlajökli. Sagt er að dunur og dynkir hafi heyrst til byggða við framhlaup Brúarjökuls árið 1890 en venjulega heyrist aðeins brak frá jökuljaðrinum þegar jökullinn rykkist fram líkt og hraunstraumur. Í Skaftafellssýslum er málvenja að segja gang vera í jöklinum.
Framhlaup Síðujökuls 1994.
Framhlaup jökla eru algeng á Svalbarða og á heimskautasvæðum Kanada og Alaska, einnig í háfjöllum Karakoram og Pamir í Asíu. Þau eru hins vegar fátíð í öðrum jöklasvæðum heims. Margt er enn óljóst um orsakir framhlaupa svo sem hvað veldur mismunandi tímabili milli framhlaupa í sama jökli og hvers vegna framhlaup eru tíðari á sumum svæðum jarðar en öðrum.
Myndir:
Helgi Björnsson.
Yfirlitsmyndin sýnir framhlaup Tugnaárjökuls 1994.