Mér var sagt eitt sinn að ef Grænlandsjökull myndi bráðna allur myndi yfirborð sjávar við Ísland lækka verulega vegna áhrifa þyngdarkrafts jökulsins sem togaði yfirborðið upp í dag. Áhrifin myndu hins vegar fjara út við Skotland og hækka annars staðar. Eruð þið ekki með einhverja reiknimeistara á ykkar snærum sem geta svarað þessu?Grænlandsjökull er 1,7 milljón km² að flatarmáli. Hann er að meðaltali um 1670 m þykkur og rúmlega 3000 m þar sem hann er þykkastur. Vatnið sem þar er bundið sem ís eru tæpir 3 milljónir km³. Ef jökullinn bráðnaði allur mundi sjávarborð jarðar hækka að meðaltali um 7,4 m. Engin hætta er talin á að það gerist næstu þúsund ár, en á næstu áratugum gæti hlýnun jarðar þó valdið svo mikilli bráðnun ísbreiðunnar að sjávarborðið hækkaði hnattrænt að meðaltali um 10 cm. Hækkunin er mjög háð því hversu mikið hlýnar. Bræðsluvatnið mundi þó ekki dreifast jafnt um allan hnöttinn vegna þyngdarsviðsaflögunar ísbreiðunnar sem viðheldur hárri sjávarstöðu næst jöklinum. Þegar massi jökulsins minnkar dregur úr þyngdarkrafti umhverfis hann, sjór dregst því minna en áður að jöklinum og sjávarborðið lækkar í næsta nágrenni Grænlands en hækkar fjær. Línan sem skilur að svæði með lækkun og hækkun sjávarstöðu vegna massataps Grænlandsjökuls liggur í gegnum Skandinavíu, Stóra-Bretland, yfir Atlantshafið og rétt sunnan við Hudsonflóa í Norður Ameríku.

Skýringarmynd sem sýnir afstæða breytingu á yfirborði sjávar (mm/ári) vegna þyngdarkraftsáhrifa bráðnunar Grænlandsjökuls á tímabilinu 2000-2008 (mynd 2a í grein Bamber og Riva (2010)). Bláu litatónarnir tákna að sjávarstaða lækkar en gulu og rauðu tónarnir sýna hækkun.
- ^ Berglind Pétursdóttir (2023). Áhrif massataps Grænlandsísbreiðu á sjávarstöðu umhverfis Ísland. BS-verkefni í jarðeðlisfræði. https://skemman.is/bitstream/1946/44536/1/BS_verkefni_Berglind.pdf. (Sótt 1.12.2025).
- Yfirlitsmynd: Greenland ice sheet USGS.jpg. Wikimedia Commons. https://commons.wikimedia.org/wiki/File:Greenland_ice_sheet_USGS.jpg
- J. Bamber, R. Riva, The sea level fingerprint of recent ice mass fluxes. Cryosphere 4, 621–627 (2010).