Hvernig komst ófleygur geirfugl í ókleyfa Eldey?Geirfuglasker undan Reykjanesi eyðilagðist í eldsumbrotum sem hófust 6. eða 7. mars 1830 og stóðu á annað ár: „sökk það alveg í sæ svo að nú sést ekkert í það, þó að sagt sé að stundum megi sjá öldur brotna á því“, hafði fuglafræðingurinn Alfred Newton eftir mönnum sumarið 1858.[1] Þeir fáu geirfuglar sem voru eftir á svæðinu leituðu í Eldey, sem danski fuglafræðingurinn Frederik Faber hafði lýst svo árið 1821: „Hún er hár og breiður, ókleifur klettur, þar sem eingöngu er Sula alba [súla]“ (65). Snemma sumars 1830 fékk Brandur Guðmundsson bóndi í Kirkjuvogi þá hugmynd að fara í Eldey og hafði þó enginn heyrt af geirfugli þar áður. Í tveimur ferðum náðust 20 eða 21 fugl. Í fyrri ferðinni gengu allir skipverjarnir á land en bara fjórir í seinni ferðinni, því veðrið var verra. Árið eftir náðust 24 fuglar (82–83). Alfred Newton orðar það svo að eyjan sé „lóðrétt bjarg allan hringinn“, en stallur sé að norðaustanverðu sem „hallast upp frá sjónum og endar talsvert hærra upp við klettaveginn. Neðst við þessa hallandi klöpp er eini staðurinn þar sem er hægt að komast á land, og ofarlega, þar sem öldurnar ná ekki til, er svæðið sem geirfuglarnir helguðu sér“ (83). Stallur þessi, sem menn nefndu Undirlendið, sést greinilega á myndinni, og hefur geirfuglinn getað klöngrast í land eða látið ölduna bera sig.

Þegar Geirfuglasker undan Reykjanesi eyðilagðist í eldsumbrotum 1830 leituðu þeir fáu fuglar sem eftir voru í Eldey.
- ^ Sigurjón Páll Ísaksson, Úr sögu geirfuglsins, bls. 75.
- Sigurjón Páll Ísaksson, Úr sögu geirfuglsins á Íslandi. Reykjavík: Höfundur 2021.
- Yfirlitsmynd: Great auk - Wikipedia. (Sótt 22.12.2025). Myndina tók Kim Bach og hún er birt undir CC-leyfi.
- Ferlir.is. (Sótt 22.12.2025).