Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Stutta svarið er að sú fullyrðing að 50% skóladrengja séu ólæsir eftir 10 ára skólagöngu stenst ekki heldur byggir á misskilningi á því hvernig læsi er skilgreint og hvernig niðurstöður lestrarkannana eru túlkaðar.
Skilgreining á læsi hefur breyst í áranna rás og felur í sér meira en hæfnina að lesa úr bókstöfum. Skilgreining Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna UNESCO,[1] felur í sér hæfni til að greina, skilja, túlka og nota ritað mál í mismunandi samhengi, svo sem til að afla sér upplýsinga, tjá eigin hugmyndir og miðla þeim til annarra. Þetta endurspeglast í prófum PISA (e. The Programme for International Student Assessment) sem reglulega eru lögð eru fyrir nemendur við lok grunnskólagöngu eða um 15 ára aldur. Í PISA-prófum er skilningur metinn á lesnum texta eða textalæsi (e. reading literacy) sem er skilgreint þannig að nemendur geti skilið, notað, metið, ígrundað og ástundað lestur til að ná markmiðum sínum, þroska þekkingu og hæfileika og taka þátt í samfélaginu.[2]
Mun eldri skilgreining á læsi frá UNESCO var töluvert einfaldari, en þá var sá talinn læs sem gat lesið og skrifað stutta einfalda setningu skiljanlega. Að sama skapi var sá ólæs sem ekki gat gert það en einungis lesið og skrifað tölustafi og nafnið sitt eða texta sem hafði verið lærður utanbókar.[3]
Í PISA eru hæfniþrep þar sem þrep 2 er skilgreint sem grunnhæfni sem þarf til að taka að fullu þátt í samfélaginu.[4] Í nýjustu niðurstöðum PISA voru 47% drengja á Íslandi undir 2. þrepi í lesskilningi. Þrepi 1 er skipt upp í þrjá hluta og er skilgreining á þrepi 1c, sem er minnsta færnin, eftirfarandi:
Lesendur á þrepi 1c geta skilið og skýrt bókstaflega merkingu setninga sem eru stuttar og setningafræðilega einfaldar. Þeir geta lesið með skýru og einföldu markmiði innan stuttra tímamarka. Verkefni á þessu þrepi byggja á einföldum orðaforða og einfaldri setningaskipan.
Þó að verkefni á þrepi 1 séu einföld jafngilda þau ekki ólæsi. Af þeim 47% drengja sem voru undir þrepi 2 voru 5,5% á þrepi 1c og 0,7% neðar. Þegar þetta er borið saman við skilgreiningu á ólæsi hér að ofan kemur í ljós að það eru aðeins þau 0,7% drengja sem voru fyrir neðan þrep 1c sem gætu hugsanlega talist ólæsir.
Sé miðað við skilgreiningu UNESCO á ólæsi kemur í ljós að samkvæmt nýjustu niðurstöðum PISA gætu 0,7% drengja á Íslandi hugsanlega talist ólæsir, en ekki er hægt að slá því föstu nema meta þá sérstaklega.
Einnig má finna upplýsingar um lestrarfærni íslenskra ungmenna á Skólagátt sem sýnir niðurstöður lesfimiprófa Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu (áður Menntamálastofnun). Í lesfimiprófum er nákvæmni og sjálfvirkni lestrar metin, og útkoman gefin í rétt lesnum orðum á mínútu. Lesfimi styður við lesskilning með þeim hætti að einstaklingur sem hefur næga lesfimi getur einbeitt sér að innihaldi texta þegar hann les, því sjálf tæknin að lesa er orðin sjálfvirk.[5] Því er ljóst að sá sem hefur mjög slaka lesfimi mun eiga erfitt með að ná yfir 2. þrep í PISA, þar sem ekki er nóg að geta lesið textann heldur þarf að hafa svigrúm til að meta og nýta textann til skilnings. Lesfimi er þannig nauðsynleg færni við úrlausn verkefna eins og í PISA þó hún sé ekki nægjanleg ein og sér.
Lesfiminiðurstöður undanfarinna ára má sjá á Skólagátt Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu,[6] en þær eru ekki brotnar upp eftir kyni. Sýnt er það hlutfall nemenda í hverjum árgangi sem er undir viðmiði 1, milli viðmiða 1 og 2, milli viðmiða 2 og 3 og yfir viðmiði 3. Viðmið 1 í 10. bekk er 145 rétt lesin orð á mínútu og vorið 2025 voru 23,5% nemenda í 10. bekk undir því. Nauðsynlegt er þó að hafa í huga að skráðar voru inn niðurstöður fyrir um 75% nemenda í 10. bekk en ekki allan árganginn. Ekki er hægt að vita hvernig þau 25% standa sem ekki voru prófuð og ekki heldur nákvæma stöðu þeirra nemenda sem voru undir lágmarksviðmiðinu. Síðast en ekki síst er ekki hægt að sjá kynjaskiptingu.
Þegar skilgreining á ólæsi er borin saman við nýjustu niðurstöður PISA og lesfimimælinga er ljóst að ekki er hægt að halda því fram að 50% drengja séu ólæsir. Þetta dregur þó ekki úr þeirri mikilvægu staðreynd að of hátt hlutfall bæði drengja og stúlkna ná ekki þeirri grunnhæfni PISA sem talin er nauðsynleg til fullrar þátttöku í samfélaginu og þurfa því meiri stuðning við lestrarnám sitt.
Tilvísanir:
^ Kuhn, M. R., Schwanenflugel, P. J., og Meisinger, E. B. (2010). Aligning theory and assessment of reading fluency: Automaticity, prosody, and definitions of fluency. Reading Research Quarterly, 45(2), 230–251. https://doi.org/10.1598/RRQ.45.2.4. (Sótt 19.01.2026).
Auður Soffíu Björgvinsdóttir. „Eru um 50% skóladrengja ólæsir eftir 10 ára skólagöngu?“ Vísindavefurinn, 20. janúar 2026, sótt 20. janúar 2026, https://visindavefur.is/svar.php?id=88398.
Auður Soffíu Björgvinsdóttir. (2026, 20. janúar). Eru um 50% skóladrengja ólæsir eftir 10 ára skólagöngu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=88398
Auður Soffíu Björgvinsdóttir. „Eru um 50% skóladrengja ólæsir eftir 10 ára skólagöngu?“ Vísindavefurinn. 20. jan. 2026. Vefsíða. 20. jan. 2026. <https://visindavefur.is/svar.php?id=88398>.