Hvaða færni þurfa nemendur að búa yfir til að geta lesið sér til gagns?Að lesa sér til gagns merkir, eins og orðasambandið vísar til, að geta lesið þannig að það sé gagnlegt. Það getur verið lestur sem við fáumst við í daglegu lífi, til dæmis að lesa bæklinga, fréttamiðla, upplýsingar á vefsíðum, og ekki síst að lesa bókmenntir af ýmsu tagi sér til ánægju. Að geta lesið sér til gagns felur líka í sér getu til að bæta við sig þekkingu í gegnum lestur, lesa sér til þekkingarauka. Á það reynir verulega í námi, á öllum sviðum grunn-, framhalds- og háskóla. Til að geta lesið sér til gagns þurfa nemendur að búa yfir tvenns konar færni, það er tvenns konar hæfileikum. Í fyrsta lagi þurfa nemendur að geta lesið úr bókstöfum: að lesa hljóð bókstafa og kalla þannig fram orð og setningar. Í öðru lagi þurfa nemendur líka að skilja lesinn texta: Það þarf góðan skilning á tungumálinu. Hér á eftir er fjallað um fyrra atriðið, að geta lesið úr bókstöfum. Um seinna atriðið er fjallað í svari sama höfundar við spurningunni Hvaða færni þarf til að skilja lesinn texta? Lestrarkennsla er það kallað þegar börnum eru kennd hljóð bókstafa og hvernig ber að tengja hljóðin saman til að ná að lesa heil orð, til dæmis sól. Lestrarnám er það kallað þegar börn læra að lesa úr bókstöfum og æfa lestur bókstafa þannig að lesturinn verði smám saman áreynslulaus. Á fyrsta ári grunnskólans þarf að gæta þess að öll börn læri hljóð allra bókstafanna og að börnin séu komin vel á veg með að lesa einfalda texta fimlega. Þetta er lykilatriði. Þegar lestrarnámið er að baki, þá hafa börn náð lesfimi, það er fimum áreynslulausum lestri og þá geta þau almennilega hugsað um það sem þau lesa. Fyrir sum börn er lestrarnámið auðvelt, en fyrir stóran hóp barna fer árangurinn eftir því hvernig lestrarkennslu þau fá. Þess vegna er mikilvægt að kennarar á yngsta stigi grunnskólans hafi lært um rannsóknir á ýmsum lestrarkennsluaðferðum, og hvaða aðferðir hafa reynst árangursríkar fyrir meginþorra barna og fyrir börn sem eiga erfitt með lestrarnámið.

Á fyrsta ári grunnskólans þarf að gæta þess að öll börn læri hljóð allra bókstafanna og að börnin séu komin vel á veg með að lesa einfalda texta fimlega.
- Amelia Jara Larimer, Kristján Ketill Stefánsson, Anna-Lind Pétursdóttir, Kristen McMaster og Auður Soffíu Björgvinsdóttir. (2025). Correction to: Reading growth across 1st grade: is there a Matthew effect in Icelandic schools? European Journal of Psychology of Education, 40(2), Article 61. https://doi.org/10.1007/s10212-025-00962-6
- Auður Björgvinsdóttir, Anna-Lind Pétursdóttir, Kirsten McMaster og Sigurgrímur Skúlason. (2023, 17. mars). Markviss hljóðaaðferð og PALS-félagakennsla: Áhrif á lestrarnám nemenda með áhættu [fyrirlestur]. Ráðstefna til heiðurs Steinunni Torfadóttur, Læsi og lestrarkennsla: Leiðir til árangurs. Rannsóknastofa um þroska, læsi og líðan, Háskóli Íslands. https://livestream.com/hi/laesioglestrarkennsla
- Freyja Birgisdóttir. (2016). Orðaforði og lestrarfærni: Tengsl við gengi nemenda á lesskilningshluta PISA. Sérrit Netlu 2016 – Um læsi. https://netla.hi.is/serrit/2016/um_laesi/04_16_laesi.pdf
- Jóhanna T. Einarsdóttir, Amalía Björnsdóttir og Ingibjörg Símonardóttir. (2016). The predictive value of preschool language assessments on academic achievement: A 10-year longitudinal study of Icelandic children. American Journal of Speech-Language Pathology, 25(1), 67–79. https://doi.org/10.1044/2015_AJSLP-14-0184
- Moats, L. C. (2020). Teaching reading is rocket science: What expert teachers of reading should know and be able to do. American Educator, 44(2), 4–9. https://files.eric.ed.gov/fulltext/EJ1260264.pdf
- Seymour, P. (2005). Early reading development in European orthographies. í M. J. Snowling og C. Humle (ritstjórar), The science of reading: A handbook (bls. 96-315). Blackwell Publishing.
- Sigríður Ólafsdóttir. (2025). Slakur lesskilningur heftir skilning á samfélagslegri umræðu: Mat á núverandi stöðu og leiðir til úrbóta. Tímarit um uppeldi og menntun: Sérrit um PISA. https://ejournals.is/index.php/tuuom/article/view/4194/2804
- Sigríður Ólafsdóttir, Freyja Birgisdóttir, Hrafnhildur Ragnarsdóttir og Sigurgrímur Skúlason. (2016). Íslenskur orðaforði og lesskilningur hjá börnum með íslensku sem annað mál: Áhrif aldurs við komuna til Íslands. Sérrit Netlu 2016 – Um læsi. http://netla.hi.is/serrit/2016/um_laesi/03_16_laesi.pdf
- Yfirlitsmynd: Curious young girl learning to read a book - Ivan Radic - Flickr. (Sótt 18.01.2026). Myndin er birt undir CC-leyfi.
- Child And Books Free Stock Photo - Public Domain Pictures. (Sótt 18.01.2026). Myndin er birt undir CC-leyfi.