Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hver er fræðilega skilgreiningin á „að geta lesið sér til gagns“?
Að lesa sér til gagns merkir, eins og orðasambandið vísar til, að geta lesið þannig að það sé gagnlegt. Það getur verið lestur sem við fáumst við í daglegu lífi, til dæmis að lesa bæklinga, fréttamiðla, upplýsingar á vefsíðum, og ekki síst að lesa bókmenntir af ýmsu tagi sér til ánægju. Að geta lesið sér til gagns felur líka í sér getu til að bæta við sig þekkingu í gegnum lestur, lesa sér til þekkingarauka. Á það reynir verulega í námi, á öllum sviðum grunn-, framhalds- og háskóla.
Til að geta lesið sér til gagns þurfa nemendur að búa yfir tvenns konar færni, það er tvenns konar hæfileikum. Í fyrsta lagi þurfa nemendur að geta lesið úr bókstöfum: að lesa hljóð bókstafa og kalla þannig fram orð og setningar. Í öðru lagi þurfa nemendur líka að skilja lesinn texta: Það þarf góðan skilning á tungumálinu. Um fyrra atriðið er fjallað í svari sama höfundar við spurningunni Hver er fræðilega skilgreiningin á að geta lesið sér til gagns? en hér er fjallað nánar um mikilvægi þess að hafa góðan málskilning.
Grunnur að góðum málskilningi er lagður strax á ungum aldri, því ríkulegra tungumál sem börn fá þeim mun betri verður málþroski þeirra, þau skilja meira og geta betur notað tungumálið í samskiptum.
Þá hafa fjölmargar rannsóknir sýnt sterk tengsl á milli málþroska leikskólabarna og hvernig þeim gengur í námi í grunnskóla. Því meiri sem málþroski barna er þeim mun betur skilja þau námsefnið og eiga auðveldara með að ræða og skrifa um það sem þau læra, þau efla reglulega lesskilning sinn og ritunarfærni.
Læsi er hugtak sem nær yfir bæði lesskilning og ritunarfærni. Gagnreyndar læsiseflandi kennsluaðferðir fela einmitt í sér að unnið er með alla þætti tungumálsins fyrir skilning og tjáningu; hlustun, tal, lestur og ritun.
Í töluðu og rituðu máli er hugsun og þekkingu miðlað með orðum. Í daglegu tali eru aðallega notuð einföld og algeng orð (til dæmis fara, ekki, stelpa, góður), en í námi bætast við fleiri, sjaldgæfari og flóknari orð (til dæmis farsæll, drengur, einnig, tengjast). Við þurfum flókin orð fyrir flókna hugsun.
Því meiri sem orðaforði barna er í grunnskólanum þeim mun betri verður lesskilningur þeirra.
Orðaforða þróa börn strax frá fyrsta ári ævinnar, því ríkulegra tungumál sem börn fá þeim mun fleiri orð þekkja þau, því stærri verður orðaforði þeirra. Því meiri sem orðaforðinn er í grunnskólanum þeim mun betri verður lesskilningur þeirra og því hraðari verða framfarirnar, en það veldur vaxandi mun á milli nemenda, því börn með slakan orðaforða dragast aftur úr.
Því er gagnlegt að líta til fjölmargra rannsókna sem hafa leitt í ljós hversu árangursríkt það er að vinna markvisst með orðaforða í leikskóla og síðan öll grunnskólaárin, þannig að öll börn auki stöðugt orðaforða sinn, sem þau skilja og nota sjálf. Með því móti er hægt að gefa öllum börnum tækifæri til að ná góðum árangri í námi.
Í grunnskólastarfi þurfa nemendur að fást við lestur sem er einkennandi í samtímanum, lestur á ýmsum vefsíðum, en á þann hátt eflist djúpur lesskilningur þeirra. Verkefni PISA krefjast einmitt þess konar lesturs, því þau reyna með stigvaxandi hætti á færni nemenda í að lesa texta af ýmsum vefsíðum, af ólíkum uppruna og eftir ýmsa höfunda, greina upplýsingar, meta gæði texta og trúverðugleika, takast á við ólík sjónarmið og draga ályktanir.
Árið 2022 náðu 40% nemenda í íslenskum skólum ekki lágmarksviðmiðum í lesskilningshluta PISA, 47% drengja og 32% stúlkna. Nemendur með svo slakan lesskilning eiga erfitt með að nýta sér lestur í daglegu lífi og sér til þekkingarauka. Þau eiga erfitt með að lesa sér til gagns.
Hluta af ástæðunni er að finna í þeim niðurstöðum lesfimiprófa Menntamálastofnunar að fjórðungur 10. bekkinga hefur verið á rauðu síðustu ár, þau eiga enn í erfiðleikum með að lesa úr bókstöfum.
Slakur orðaforði er önnur ástæða þess að nemendur hafa svo slakan lesskilning.
Tækifærin liggja í gagnreyndum kennsluaðferðum, í lestrarkennslu og læsiseflandi leik- og grunnskólastarfi, með markvissri vinnu með orðaforða til skilnings og tjáningar.
Heimildir:
Amelia Jara Larimer, Kristján Ketill Stefánsson, Anna-Lind Pétursdóttir, Kristen McMaster og Auður Soffíu Björgvinsdóttir. (2025). Correction to: Reading growth across 1st grade: is there a Matthew effect in Icelandic schools? European Journal of Psychology of Education, 40(2), Article 61. https://doi.org/10.1007/s10212-025-00962-6
Auður Björgvinsdóttir, Anna-Lind Pétursdóttir, Kirsten McMaster og Sigurgrímur Skúlason. (2023, 17. mars). Markviss hljóðaaðferð og PALS-félagakennsla: Áhrif á lestrarnám nemenda með áhættu [fyrirlestur]. Ráðstefna til heiðurs Steinunni Torfadóttur, Læsi og lestrarkennsla: Leiðir til árangurs. Rannsóknastofa um þroska, læsi og líðan, Háskóli Íslands. https://livestream.com/hi/laesioglestrarkennsla
Jóhanna T. Einarsdóttir, Amalía Björnsdóttir og Ingibjörg Símonardóttir. (2016). The predictive value of preschool language assessments on academic achievement: A 10-year longitudinal study of Icelandic children. American Journal of Speech-Language Pathology, 25(1), 67–79. https://doi.org/10.1044/2015_AJSLP-14-0184
Moats, L. C. (2020). Teaching reading is rocket science: What expert teachers of reading should know and be able to do. American Educator, 44(2), 4–9. https://files.eric.ed.gov/fulltext/EJ1260264.pdf
Seymour, P. (2005). Early reading development in European orthographies. í M. J. Snowling og C. Humle (ritstjórar), The science of reading: A handbook (bls. 96-315). Blackwell Publishing.
Sigríður Ólafsdóttir. (2025). Slakur lesskilningur heftir skilning á samfélagslegri umræðu: Mat á núverandi stöðu og leiðir til úrbóta. Tímarit um uppeldi og menntun: Sérrit um PISA. https://ejournals.is/index.php/tuuom/article/view/4194/2804
Sigríður Ólafsdóttir, Freyja Birgisdóttir, Hrafnhildur Ragnarsdóttir og Sigurgrímur Skúlason. (2016). Íslenskur orðaforði og lesskilningur hjá börnum með íslensku sem annað mál: Áhrif aldurs við komuna til Íslands. Sérrit Netlu 2016 – Um læsi. http://netla.hi.is/serrit/2016/um_laesi/03_16_laesi.pdf
Sigríður Ólafsdóttir. „Hvaða færni þarf til að skilja lesinn texta?“ Vísindavefurinn, 19. janúar 2026, sótt 19. janúar 2026, https://visindavefur.is/svar.php?id=88413.
Sigríður Ólafsdóttir. (2026, 19. janúar). Hvaða færni þarf til að skilja lesinn texta? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=88413
Sigríður Ólafsdóttir. „Hvaða færni þarf til að skilja lesinn texta?“ Vísindavefurinn. 19. jan. 2026. Vefsíða. 19. jan. 2026. <https://visindavefur.is/svar.php?id=88413>.