Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Getur geislun frá þráðlausu Interneti á heimilum verið hættuleg heilsu fólks?

Emil Harðarson

Geislun frá þráðlausu Interneti (e. WiFi) er á formi útvarpsbylgna, rétt eins og sjónvarps- og útvarpsútsendingar og bylgjur farsíma. Útvarpsbylgjur eru ein tegund rafsegulbylgna. Með því að senda gögn þráðlaust á milli tölva losna menn við umstang sem fylgir snúrum og köplum. Þráðlausar gagnasendingar á milli tölva fara fram á þennan hátt:
  • Önnur tölvan sendir stafrænar upplýsingarnar á formi rafpúlsa (Af hverju byggjast tölvur upp á 1 og 0?) í beini (e. router), sem þýðir merkið yfir í útvarpsbylgjur og notar loftnet til þess að senda þær í hina tölvuna.
  • Hin tölvan notar eigið loftnet til að nema útvarpsbylgjurnar og þýðir þær síðan aftur á stafrænt form sem hún getur unnið með.

Á þessari tækni byggja nánast öll þráðlaus samskipti, meðal annars í farsímum og talstöðvum. Það sem greinir þráðlaust Internet frá öðrum þráðlausum gagnasendingum, að farsímum, Bluetooth og sjónvarpsútsendingum undanskildum, er að útvarpsbylgjurnar eru af hærri tíðni (2,4 GHz eða 5 GHz). Þannig er hægt að flytja meira magn upplýsinga.


Þráðlaust Internet er á flestum heimilum landsins.

Rafsegulgeislun er allt í kring um okkur og reyndar inni í okkur líka. Stærsti hluti hennar kemur frá sólinni. Rafsegulgeislun getur haft ýmis áhrif á mannslíkamann ef við erum næm fyrir tíðninni og geislarnir eru nógu orkumiklir. Mannsaugað er til að mynda mjög næmt fyrir rafsegulgeislun af tíðninni 400 – 790 THz (sem við köllum sýnilegt ljós), en finnur hvorki fyrir rafsegulgeislun sem hefur lengri né styttri öldulengd. Það getur verið óhollt að beina sýnilegu ljósi, eins og til dæmis. orkumiklum leysigeisla, í augu fólks, þótt sami geisli ylli engum skaða ef honum væri beint á önnur líffæri.

En hvaða áhrif gætu útvarpsbylgjur frá sendi þráðlauss Internets haft á mannslíkamann? Til að byrja með er vert að taka fram að þessi tegund rafsegulgeislunar hefur alls ekki sömu áhrif og svokölluð jónandi geislun sem er geislun frá geislavirkum efnum. Það útilokar þó ekki að hún geti haft annars konar áhrif.

Hæsta tíðni rafsegulbylgna sem notuð er í þráðlausu Interneti (5 GHz) er á mörkum útvarps- og örbylgna, þannig að vel má gera sér í hugarlund að áhrif þeirra á líkamann væri svipuð og áhrif örbylgna í örbylgjuofnum. Það er vel þekkt að þegar rafsegulbylgjur hitta á eigintíðni efniseinda geta þær valdið því að eindirnar titra til og frá, og efnið hitnar. Svipuð hegðun er meðal annars nýtt í örbylgjuofnum. Það má því hugsa sér að þráðlaust Internet geti látið efni í líkamanum titra og hitað þannig hluta líkamans, á sama hátt og matarafgangar eru hitaðir upp í örbylgjuofni. Það er meira að segja almennt viðurkennt að geislun frá farsímum getur hitað höfuð þeirra sem í þá tala um brot af gráðu en það er um það bil einni stærðargráðu lægra en höfuðið hitnar þegar við erum í sterku sólskini án höfuðfata. Vísindamönnum ber að langmestu leyti saman um að þessi áhrif valda ekki líffræðilegum skaða.

Þetta á hins vegar ekki beint við um geislun frá þráðlausu Interneti. Í fyrsta lagi eru bylgjurnar sem sendar þráðlauss Internets gefa frá sér töluvert orkuminni en þær sem farsímar nota. Í öðru lagi er farsímum haldið þétt við höfuðið þegar þeir eru notaðir, en sendar þráðlauss Internets eru yfirleitt í nokkurra metra fjarlægð frá þeim sem notar hann.

Orka rafsegulgeislunar fellur með tvíveldi fjarlægðar. Í tíu metra fjarlægð frá uppsprettunni má þess vegna aðeins greina um 1% orku hennar. Breska stofnunin Health Protection Agency fullyrðir að sitji maður í námunda við sendi þráðlauss Internets í eitt ár fái maður sama skammt af útvarpsbylgjum og af einu tuttugu mínútna símtali í farsíma.

Upp hafa komið margar tilgátur um hin ýmsu áhrif sem útvarpsgeislun frá þráðlausu Interneti kynni að hafa á heilsu manna, allt frá höfuðverkjum til hvítblæðis. Það er þó skemmst frá því að segja að þrátt fyrir margar vandaðar rannsóknir hefur aldrei verið sýnt fram á sannfærandi hátt að þráðlaust Internet skaði heilsu manna á neinn hátt. Það er því miður ómögulegt að sanna það með vísindalegri aðferð að fyrirbæri eins og þráðlaust Internet hafi engin áhrif á heilsu fólks, en með hverri rannsókn sem gerð er og skilar engri afgerandi niðurstöðu verður ólíklegra og ólíklegra að um nokkur áhrif sé að ræða. Þetta er meðal annars sú niðurstaða sem Alþjóða heilbrigðismálastofnunin kemst að. Þó er rétt að sýna varfærni, eins og með allt annað sem er nýtt af nálinni, því að langtíma áhrifin á heilsu fólks eru enn óþekkt.

Heimildir og myndir:

Höfundur

nemi í eðlisfræði við HÍ

Útgáfudagur

27.5.2010

Spyrjandi

Bjarni Benediktsson, Freysteinn Halldórsson, Ævar Þór Benediktsson, Hrafn Hrólfsson, Guðmundur Hrafnsson, Haraldur Helgi Hólmfríðarson

Tilvísun

Emil Harðarson. „Getur geislun frá þráðlausu Interneti á heimilum verið hættuleg heilsu fólks?“ Vísindavefurinn, 27. maí 2010. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=55590.

Emil Harðarson. (2010, 27. maí). Getur geislun frá þráðlausu Interneti á heimilum verið hættuleg heilsu fólks? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=55590

Emil Harðarson. „Getur geislun frá þráðlausu Interneti á heimilum verið hættuleg heilsu fólks?“ Vísindavefurinn. 27. maí. 2010. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=55590>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Getur geislun frá þráðlausu Interneti á heimilum verið hættuleg heilsu fólks?
Geislun frá þráðlausu Interneti (e. WiFi) er á formi útvarpsbylgna, rétt eins og sjónvarps- og útvarpsútsendingar og bylgjur farsíma. Útvarpsbylgjur eru ein tegund rafsegulbylgna. Með því að senda gögn þráðlaust á milli tölva losna menn við umstang sem fylgir snúrum og köplum. Þráðlausar gagnasendingar á milli tölva fara fram á þennan hátt:

  • Önnur tölvan sendir stafrænar upplýsingarnar á formi rafpúlsa (Af hverju byggjast tölvur upp á 1 og 0?) í beini (e. router), sem þýðir merkið yfir í útvarpsbylgjur og notar loftnet til þess að senda þær í hina tölvuna.
  • Hin tölvan notar eigið loftnet til að nema útvarpsbylgjurnar og þýðir þær síðan aftur á stafrænt form sem hún getur unnið með.

Á þessari tækni byggja nánast öll þráðlaus samskipti, meðal annars í farsímum og talstöðvum. Það sem greinir þráðlaust Internet frá öðrum þráðlausum gagnasendingum, að farsímum, Bluetooth og sjónvarpsútsendingum undanskildum, er að útvarpsbylgjurnar eru af hærri tíðni (2,4 GHz eða 5 GHz). Þannig er hægt að flytja meira magn upplýsinga.


Þráðlaust Internet er á flestum heimilum landsins.

Rafsegulgeislun er allt í kring um okkur og reyndar inni í okkur líka. Stærsti hluti hennar kemur frá sólinni. Rafsegulgeislun getur haft ýmis áhrif á mannslíkamann ef við erum næm fyrir tíðninni og geislarnir eru nógu orkumiklir. Mannsaugað er til að mynda mjög næmt fyrir rafsegulgeislun af tíðninni 400 – 790 THz (sem við köllum sýnilegt ljós), en finnur hvorki fyrir rafsegulgeislun sem hefur lengri né styttri öldulengd. Það getur verið óhollt að beina sýnilegu ljósi, eins og til dæmis. orkumiklum leysigeisla, í augu fólks, þótt sami geisli ylli engum skaða ef honum væri beint á önnur líffæri.

En hvaða áhrif gætu útvarpsbylgjur frá sendi þráðlauss Internets haft á mannslíkamann? Til að byrja með er vert að taka fram að þessi tegund rafsegulgeislunar hefur alls ekki sömu áhrif og svokölluð jónandi geislun sem er geislun frá geislavirkum efnum. Það útilokar þó ekki að hún geti haft annars konar áhrif.

Hæsta tíðni rafsegulbylgna sem notuð er í þráðlausu Interneti (5 GHz) er á mörkum útvarps- og örbylgna, þannig að vel má gera sér í hugarlund að áhrif þeirra á líkamann væri svipuð og áhrif örbylgna í örbylgjuofnum. Það er vel þekkt að þegar rafsegulbylgjur hitta á eigintíðni efniseinda geta þær valdið því að eindirnar titra til og frá, og efnið hitnar. Svipuð hegðun er meðal annars nýtt í örbylgjuofnum. Það má því hugsa sér að þráðlaust Internet geti látið efni í líkamanum titra og hitað þannig hluta líkamans, á sama hátt og matarafgangar eru hitaðir upp í örbylgjuofni. Það er meira að segja almennt viðurkennt að geislun frá farsímum getur hitað höfuð þeirra sem í þá tala um brot af gráðu en það er um það bil einni stærðargráðu lægra en höfuðið hitnar þegar við erum í sterku sólskini án höfuðfata. Vísindamönnum ber að langmestu leyti saman um að þessi áhrif valda ekki líffræðilegum skaða.

Þetta á hins vegar ekki beint við um geislun frá þráðlausu Interneti. Í fyrsta lagi eru bylgjurnar sem sendar þráðlauss Internets gefa frá sér töluvert orkuminni en þær sem farsímar nota. Í öðru lagi er farsímum haldið þétt við höfuðið þegar þeir eru notaðir, en sendar þráðlauss Internets eru yfirleitt í nokkurra metra fjarlægð frá þeim sem notar hann.

Orka rafsegulgeislunar fellur með tvíveldi fjarlægðar. Í tíu metra fjarlægð frá uppsprettunni má þess vegna aðeins greina um 1% orku hennar. Breska stofnunin Health Protection Agency fullyrðir að sitji maður í námunda við sendi þráðlauss Internets í eitt ár fái maður sama skammt af útvarpsbylgjum og af einu tuttugu mínútna símtali í farsíma.

Upp hafa komið margar tilgátur um hin ýmsu áhrif sem útvarpsgeislun frá þráðlausu Interneti kynni að hafa á heilsu manna, allt frá höfuðverkjum til hvítblæðis. Það er þó skemmst frá því að segja að þrátt fyrir margar vandaðar rannsóknir hefur aldrei verið sýnt fram á sannfærandi hátt að þráðlaust Internet skaði heilsu manna á neinn hátt. Það er því miður ómögulegt að sanna það með vísindalegri aðferð að fyrirbæri eins og þráðlaust Internet hafi engin áhrif á heilsu fólks, en með hverri rannsókn sem gerð er og skilar engri afgerandi niðurstöðu verður ólíklegra og ólíklegra að um nokkur áhrif sé að ræða. Þetta er meðal annars sú niðurstaða sem Alþjóða heilbrigðismálastofnunin kemst að. Þó er rétt að sýna varfærni, eins og með allt annað sem er nýtt af nálinni, því að langtíma áhrifin á heilsu fólks eru enn óþekkt.

Heimildir og myndir: