Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað gerist ef Katla gýs? Getur það valdið skaða á einhvern hátt?

Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson og Olgeir Sigmarsson

Tjón og umhverfisbreytingar af völdum gosa í Kötlukerfinu hafa orðið vegna gjóskufalls, jökulhlaupa, hraunrennslis, eldinga og jarðskjálfta. Hér verður að gera greinarmun á Kötlugosum undir jökli og Eldgjárgosinu sem náði til sprungureinarinnar utan jökuls. Gjóskufall og jökulhlaup eru algengustu skaðvaldarnir en tjón varð mjög mismikið í þeim Kötlugosum sem sögur fara af. Af heimildum má ráða að mesta ógn höfðu menn af jökulhlaupunum1 og kölluðu fyrirbærin Kötluhlaup fremur en Kötlugos. Mesta og varanlegasta tjónið varð líklega af hraunrennsli í Eldgjárgosinu, þegar hraun runnu niður í Álftaver, Meðalland og Landbrot. Auk þess að fara yfir gróið land breyttu þau farvegum vatnsfalla og jökulhlaupa. Sennilega hefur enginn einn atburður valdið meiri umhverfisbreytingum á Íslandi á sögulegum tíma en Eldgjárgosið 934.2

Tjón af völdum gjóskufalls í Kötlugosum hefur svo til eingöngu verið skemmdir á gróðri til lengri eða skemmri tíma. Jarðir hafa farið í eyði tímabundið eða alfarið, tekið hefur fyrir beit og búfénað hefur þurft að flytja af gjóskufallssvæðum eða taka á hús. Dæmi um alvarlega flúoreitrun eru lítil sem engin. Þar ræður mestu að Kötlugosin eru freatómagmatísk, enda loða flúorsambönd ekki við yfirborð Kötlugjósku í sama mæli og Heklugjóskunnar. Á öld fjarskipta, samgangna með bílum og flugvélum og orkuflutninga með loftlínum má gera ráð fyrir tjóni vegna truflana á flutningsleiðum eða skemmda á tækjum, ef gjóskufall er verulegt.

Kötlugosinu 1918 fylgdi mikið gjóskufall.

Skaði af völdum gjóskufalls í Eldgjárgosinu var meiri en í nokkru Kötlugosi, enda magnið tvöfalt til þrefalt meira en í stærstu Kötlugosum. Gjóskan kæfði gróður á stórum svæðum á Álftaversafrétti, Snæbýlisheiði, Ljótarstaðaheiði, Skaftártunguafrétti og Síðuafrétti. Á Álftaversafrétti fyllti gjóskan auk þess lækjarfarvegi og breytti afrennsli. Sums staðar blés land upp (til dæmis Snæbýlisheiði, Moldir) en annars staðar hefur þunnt jarðvegslag myndast ofan á gjóskunni (til dæmis Skaftártunguafréttur). Þetta jarðvegslag rofnar auðveldlega við álag en Eldgjárgjóskan er – eins og Kötlugjóska – fremur laus í sér og auðrofin af vindi og vatni. Gjóskufallið olli án vafa tjóni í byggð í Skaftártungu þar sem óhreyfð gjóska er nú um 40 sentimetra þykk en þess er ekki getið í heimildum – það hafa þótt smámunir miðað við tjón af hraunrennslinu.

Tjón af völdum jökulhlaupa í gosum á Kötlukerfinu á sögulegum tíma hefur aðalleg orðið á tveimur svæðum, Mýrdalssandi og Sólheima- og Skógarsandi. Jökulhlaup í Eldgjárgosinu kunna að hafa valdið meira tjóni en nokkurt Kötluhlaup en heimildir eru fáorðar. Minni um þau hlaup er þó ef til vill varðveitt í viðurnefni Ásláks aurgoða, sonar landnámsmannsins Hrafns hafnarlykils sem bjó í Dynskógum.3 Ummerki um hlaup tengd Eldgjárgosinu sjást á Álftaversafrétti framan við Öldufellsjökul og Sandfellsjökul (utan jökulgarða frá síðustu öld) og í jarðvegi í Atlaey og Rjúpnafelli en þau eru hulin yngra hlaupseti og hrauni annars staðar.

Af heimildum og líkum má ráða að allstór svæði á Mýrdalssandi hafi verið gróin og byggð eftir aldalangt goshlé sem fylgdi Eldgjárgosinu. Eldgjárhraunið hækkaði landið austan til á svæðinu, frá Sandfelli og Atlaey niður að sjó. Þegar Kötluhlaup hófust á ný áttu þau ekki greiða leið til austurs og hljóta að hafa lagst með meiri þunga á svæðið vestan hrauns. Hafi þursabergsflóðið í Krika myndast í Eldgjárgosinu, eins og líkur benda til,4 hefur land einnig hækkað norðan við og jafnvel norðanundir Kötlujökli og beint bræðsluvatni og jökulhlaupum meira til suðurs en áður.

Í jökulhlaupi á 12. öld, Höfðárhlaupi, tók til dæmis af allmarga bæi sem heyrðu undir höfuðbólið Höfðabrekku. Urðu af því deilur vegna afgjalda til kirkna.5 Höfðá hefur vafalítið runnið milli Höfðabrekkna og Hjörleifshöfða en austar en Múlakvísl nú. Höfðabrekku, bæ og kirkju, tók af í Kötluhlaupi 1660. Gríðarlegar jakahrannir skófu burt jarðveg og graslendi í austurhlíðum Höfðabrekkuheiðar í Kötluhlaupinu 1721 og færðu saman í dyngju þar sem nú heitir Höfðabrekkujökull austan við Vík í Mýrdal. Bærinn í Hjörleifshöfða stóð þá vestan undir höfðanum en tók af í hlaupinu. Þegar hann byggðist aftur 30 árum síðar var hann reistur uppi í Höfðanum.6 Jakahrannir voru farartálmar svo vikum og mánuðum skipti eftir stærstu hlaupin 1721 og 1755. Í hlaupinu 1823 breyttust rennslisleiðir jökulvatns á Mýrdalssandi þannig að lítið sem ekkert vatn rann vestan Hafurseyjar í Múlakvísl, heldur fór um Kælira niður í Álftaver í þrjú ár á eftir. Einn bæ tók af. Gróið land fór undir sand og var sjaldan nýtilegt á ný fyrr en með uppgræðslu á síðustu öld.

Vík í Mýrdal, Mýrdalsjökull í baksýn en undir honum hvílir Katla.

Tjón af völdum eldinga í Kötlugosum hefur verið furðu lítið miðað við frásagnir fyrr á öldum. Þegar húsdýr, einkum hestar, fundust dauð í haga var elding oft talin orsökin. Menn hafa sloppið með skrekkinn bæði fyrr og síðar. Sagnir eru af tveimur mönnum sem höfðu nær dauðrotast af reiðarslagi í Kötlugosinu 18237 og elding eða skylt raffyrirbæri kom út svitanum á Sveini Pálssyni lækni í Vík í sama gosi. Gísli Sveinsson sýslumaður í Vík mun hafa bannað notkun síma þegar gjóskufall gekk yfir í Kötlugosinu 1918, eftir að eldingu sló niður í símalínu. Í skýrslu hans kemur fram að erfitt var að nota ljósavél í gjóskufallinu.8 Óvíst er hvert tjón yrði af eldingum nú á tímum. Þar mun miklu ráða hvort hús á svæðinu eru búin eldingarvörum.

Tjón af völdum hraunrennslis verður ekki í venjulegum Kötlugosum. Hraun er þó líklega stærsti einstaki tjónavaldurinn á síðustu ellefu öldum. Eldgjárhraunin runnu að hluta yfir gróið land og breyttu landslagi, vatnafari og nýtingarmöguleikum á stórum landsvæðum. Landnáma getur um eldsuppkomu og jarðeld sem eyðilagði jarðir og olli raski og búferlaflutningum en annað tjón er ekki nefnt.9 Álftavershraunið lokaði leiðum vatns frá Mýrdalsjökli til austurs og beindi jökulhlaupunum til suðurs, þegar gos hófust á ný í Kötlu eftir rúmlega 200 ára hlé. Þar með hófst sú þróun sem leitt hefur til myndunar Mýrdalssands eins og hann er í dag.

Vafalítið hafa einhver af þeim svæðum, þar sem gosefni úr Eldgjárgosi spilltu grónu landi, orðið byggileg á ný meðan goshlé varaði, til dæmis með jöðrum hraunanna líkt og gerðist á Brunasandi eftir Skaftáreldahraun. Sagnir um byggðahverfi á Mýrdalssandi á fyrstu öldum eftir norrænt landnám, hvort heldur er fyrir eða eftir Eldgjárgos, eru ekki í neinni mótsögn við jarðfræðilegar aðstæður. Þótt jökulhlaup hafi verið drýgstu eyðingaröflin á Mýrdalssandi á sögulegum tíma, var hraunrennsli líklega versti skaðvaldurinn.

Tjón af völdum jarðskjálfta á undan Kötlugosum eða samfara þeim hefur verið lítið sem ekkert í gosum sem heimildir eru um. Harðastir virðast þeir hafa verið í Mýrdal. Þar eru þess dæmi að hús hafi gengið til „en þó eigi til meins eður skaða,“ einnig að menn „voguðu ei inni í húsum að vera.“10

Tilvísanir:

1 Sjá t.d. Safn til sögu Íslands IV, 186-204.

2Guðrún Larsen, 2000. Holocene eruptions within the Katla volcanic system, south Iceland: Characteristics and environmental impact. Jökull, 49, 1-28.

Guðrún Larsen, 2010. Katla – Tephrochronology and eruption history. Í: The Mýrdalsjökull ice cap, Iceland: glacial processes, sediments and landforms on an active volcano (A. Schomacker, J. Krüger og K. Kjær ritstjórar). Development in Quaternary Science, 13, 23-49.

3Landnámabók, 1953, bls. 199.

4Guðrún Larsen, 2000. Holocene eruptions within the Katla volcanic system, south Iceland: Characteristics and environmental impact. Jökull, 49, 1-28.

5Biskupa sögur, 11. Bls. 167-168, 2002.
6Markús Loptsson, 1880. Rit um jarðelda á Íslandi. Einar Þórðarson, Reykjavík.

7Safn til sögu Íslands IV, bls. 285.

8Gísli Sveinsson, 1919. Kötlugosið 1918 og afleiðingar þess. Stjórnarráð Íslands, Reykjavík.
9Landnámabók, 1953, bls. 199.
10Safn til sögu Íslands IV, 1907-1915, bls. 209, 235.

Myndir:


Þetta svar er hluti af lengri umfjöllun Kötlu í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi.

Höfundar

Guðrún Larsen

jarðfræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ

Magnús Tumi Guðmundsson

prófessor í jarðeðlisfræði við HÍ

jarðfræðingur á Raunvísindastofnun Háskólans

Útgáfudagur

10.1.2014

Spyrjandi

Ásta Lilja Solveigardóttir, Guðný Frímannsdóttir

Tilvísun

Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson og Olgeir Sigmarsson. „Hvað gerist ef Katla gýs? Getur það valdið skaða á einhvern hátt?“ Vísindavefurinn, 10. janúar 2014. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=56048.

Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson og Olgeir Sigmarsson. (2014, 10. janúar). Hvað gerist ef Katla gýs? Getur það valdið skaða á einhvern hátt? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=56048

Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson og Olgeir Sigmarsson. „Hvað gerist ef Katla gýs? Getur það valdið skaða á einhvern hátt?“ Vísindavefurinn. 10. jan. 2014. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=56048>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað gerist ef Katla gýs? Getur það valdið skaða á einhvern hátt?
Tjón og umhverfisbreytingar af völdum gosa í Kötlukerfinu hafa orðið vegna gjóskufalls, jökulhlaupa, hraunrennslis, eldinga og jarðskjálfta. Hér verður að gera greinarmun á Kötlugosum undir jökli og Eldgjárgosinu sem náði til sprungureinarinnar utan jökuls. Gjóskufall og jökulhlaup eru algengustu skaðvaldarnir en tjón varð mjög mismikið í þeim Kötlugosum sem sögur fara af. Af heimildum má ráða að mesta ógn höfðu menn af jökulhlaupunum1 og kölluðu fyrirbærin Kötluhlaup fremur en Kötlugos. Mesta og varanlegasta tjónið varð líklega af hraunrennsli í Eldgjárgosinu, þegar hraun runnu niður í Álftaver, Meðalland og Landbrot. Auk þess að fara yfir gróið land breyttu þau farvegum vatnsfalla og jökulhlaupa. Sennilega hefur enginn einn atburður valdið meiri umhverfisbreytingum á Íslandi á sögulegum tíma en Eldgjárgosið 934.2

Tjón af völdum gjóskufalls í Kötlugosum hefur svo til eingöngu verið skemmdir á gróðri til lengri eða skemmri tíma. Jarðir hafa farið í eyði tímabundið eða alfarið, tekið hefur fyrir beit og búfénað hefur þurft að flytja af gjóskufallssvæðum eða taka á hús. Dæmi um alvarlega flúoreitrun eru lítil sem engin. Þar ræður mestu að Kötlugosin eru freatómagmatísk, enda loða flúorsambönd ekki við yfirborð Kötlugjósku í sama mæli og Heklugjóskunnar. Á öld fjarskipta, samgangna með bílum og flugvélum og orkuflutninga með loftlínum má gera ráð fyrir tjóni vegna truflana á flutningsleiðum eða skemmda á tækjum, ef gjóskufall er verulegt.

Kötlugosinu 1918 fylgdi mikið gjóskufall.

Skaði af völdum gjóskufalls í Eldgjárgosinu var meiri en í nokkru Kötlugosi, enda magnið tvöfalt til þrefalt meira en í stærstu Kötlugosum. Gjóskan kæfði gróður á stórum svæðum á Álftaversafrétti, Snæbýlisheiði, Ljótarstaðaheiði, Skaftártunguafrétti og Síðuafrétti. Á Álftaversafrétti fyllti gjóskan auk þess lækjarfarvegi og breytti afrennsli. Sums staðar blés land upp (til dæmis Snæbýlisheiði, Moldir) en annars staðar hefur þunnt jarðvegslag myndast ofan á gjóskunni (til dæmis Skaftártunguafréttur). Þetta jarðvegslag rofnar auðveldlega við álag en Eldgjárgjóskan er – eins og Kötlugjóska – fremur laus í sér og auðrofin af vindi og vatni. Gjóskufallið olli án vafa tjóni í byggð í Skaftártungu þar sem óhreyfð gjóska er nú um 40 sentimetra þykk en þess er ekki getið í heimildum – það hafa þótt smámunir miðað við tjón af hraunrennslinu.

Tjón af völdum jökulhlaupa í gosum á Kötlukerfinu á sögulegum tíma hefur aðalleg orðið á tveimur svæðum, Mýrdalssandi og Sólheima- og Skógarsandi. Jökulhlaup í Eldgjárgosinu kunna að hafa valdið meira tjóni en nokkurt Kötluhlaup en heimildir eru fáorðar. Minni um þau hlaup er þó ef til vill varðveitt í viðurnefni Ásláks aurgoða, sonar landnámsmannsins Hrafns hafnarlykils sem bjó í Dynskógum.3 Ummerki um hlaup tengd Eldgjárgosinu sjást á Álftaversafrétti framan við Öldufellsjökul og Sandfellsjökul (utan jökulgarða frá síðustu öld) og í jarðvegi í Atlaey og Rjúpnafelli en þau eru hulin yngra hlaupseti og hrauni annars staðar.

Af heimildum og líkum má ráða að allstór svæði á Mýrdalssandi hafi verið gróin og byggð eftir aldalangt goshlé sem fylgdi Eldgjárgosinu. Eldgjárhraunið hækkaði landið austan til á svæðinu, frá Sandfelli og Atlaey niður að sjó. Þegar Kötluhlaup hófust á ný áttu þau ekki greiða leið til austurs og hljóta að hafa lagst með meiri þunga á svæðið vestan hrauns. Hafi þursabergsflóðið í Krika myndast í Eldgjárgosinu, eins og líkur benda til,4 hefur land einnig hækkað norðan við og jafnvel norðanundir Kötlujökli og beint bræðsluvatni og jökulhlaupum meira til suðurs en áður.

Í jökulhlaupi á 12. öld, Höfðárhlaupi, tók til dæmis af allmarga bæi sem heyrðu undir höfuðbólið Höfðabrekku. Urðu af því deilur vegna afgjalda til kirkna.5 Höfðá hefur vafalítið runnið milli Höfðabrekkna og Hjörleifshöfða en austar en Múlakvísl nú. Höfðabrekku, bæ og kirkju, tók af í Kötluhlaupi 1660. Gríðarlegar jakahrannir skófu burt jarðveg og graslendi í austurhlíðum Höfðabrekkuheiðar í Kötluhlaupinu 1721 og færðu saman í dyngju þar sem nú heitir Höfðabrekkujökull austan við Vík í Mýrdal. Bærinn í Hjörleifshöfða stóð þá vestan undir höfðanum en tók af í hlaupinu. Þegar hann byggðist aftur 30 árum síðar var hann reistur uppi í Höfðanum.6 Jakahrannir voru farartálmar svo vikum og mánuðum skipti eftir stærstu hlaupin 1721 og 1755. Í hlaupinu 1823 breyttust rennslisleiðir jökulvatns á Mýrdalssandi þannig að lítið sem ekkert vatn rann vestan Hafurseyjar í Múlakvísl, heldur fór um Kælira niður í Álftaver í þrjú ár á eftir. Einn bæ tók af. Gróið land fór undir sand og var sjaldan nýtilegt á ný fyrr en með uppgræðslu á síðustu öld.

Vík í Mýrdal, Mýrdalsjökull í baksýn en undir honum hvílir Katla.

Tjón af völdum eldinga í Kötlugosum hefur verið furðu lítið miðað við frásagnir fyrr á öldum. Þegar húsdýr, einkum hestar, fundust dauð í haga var elding oft talin orsökin. Menn hafa sloppið með skrekkinn bæði fyrr og síðar. Sagnir eru af tveimur mönnum sem höfðu nær dauðrotast af reiðarslagi í Kötlugosinu 18237 og elding eða skylt raffyrirbæri kom út svitanum á Sveini Pálssyni lækni í Vík í sama gosi. Gísli Sveinsson sýslumaður í Vík mun hafa bannað notkun síma þegar gjóskufall gekk yfir í Kötlugosinu 1918, eftir að eldingu sló niður í símalínu. Í skýrslu hans kemur fram að erfitt var að nota ljósavél í gjóskufallinu.8 Óvíst er hvert tjón yrði af eldingum nú á tímum. Þar mun miklu ráða hvort hús á svæðinu eru búin eldingarvörum.

Tjón af völdum hraunrennslis verður ekki í venjulegum Kötlugosum. Hraun er þó líklega stærsti einstaki tjónavaldurinn á síðustu ellefu öldum. Eldgjárhraunin runnu að hluta yfir gróið land og breyttu landslagi, vatnafari og nýtingarmöguleikum á stórum landsvæðum. Landnáma getur um eldsuppkomu og jarðeld sem eyðilagði jarðir og olli raski og búferlaflutningum en annað tjón er ekki nefnt.9 Álftavershraunið lokaði leiðum vatns frá Mýrdalsjökli til austurs og beindi jökulhlaupunum til suðurs, þegar gos hófust á ný í Kötlu eftir rúmlega 200 ára hlé. Þar með hófst sú þróun sem leitt hefur til myndunar Mýrdalssands eins og hann er í dag.

Vafalítið hafa einhver af þeim svæðum, þar sem gosefni úr Eldgjárgosi spilltu grónu landi, orðið byggileg á ný meðan goshlé varaði, til dæmis með jöðrum hraunanna líkt og gerðist á Brunasandi eftir Skaftáreldahraun. Sagnir um byggðahverfi á Mýrdalssandi á fyrstu öldum eftir norrænt landnám, hvort heldur er fyrir eða eftir Eldgjárgos, eru ekki í neinni mótsögn við jarðfræðilegar aðstæður. Þótt jökulhlaup hafi verið drýgstu eyðingaröflin á Mýrdalssandi á sögulegum tíma, var hraunrennsli líklega versti skaðvaldurinn.

Tjón af völdum jarðskjálfta á undan Kötlugosum eða samfara þeim hefur verið lítið sem ekkert í gosum sem heimildir eru um. Harðastir virðast þeir hafa verið í Mýrdal. Þar eru þess dæmi að hús hafi gengið til „en þó eigi til meins eður skaða,“ einnig að menn „voguðu ei inni í húsum að vera.“10

Tilvísanir:

1 Sjá t.d. Safn til sögu Íslands IV, 186-204.

2Guðrún Larsen, 2000. Holocene eruptions within the Katla volcanic system, south Iceland: Characteristics and environmental impact. Jökull, 49, 1-28.

Guðrún Larsen, 2010. Katla – Tephrochronology and eruption history. Í: The Mýrdalsjökull ice cap, Iceland: glacial processes, sediments and landforms on an active volcano (A. Schomacker, J. Krüger og K. Kjær ritstjórar). Development in Quaternary Science, 13, 23-49.

3Landnámabók, 1953, bls. 199.

4Guðrún Larsen, 2000. Holocene eruptions within the Katla volcanic system, south Iceland: Characteristics and environmental impact. Jökull, 49, 1-28.

5Biskupa sögur, 11. Bls. 167-168, 2002.
6Markús Loptsson, 1880. Rit um jarðelda á Íslandi. Einar Þórðarson, Reykjavík.

7Safn til sögu Íslands IV, bls. 285.

8Gísli Sveinsson, 1919. Kötlugosið 1918 og afleiðingar þess. Stjórnarráð Íslands, Reykjavík.
9Landnámabók, 1953, bls. 199.
10Safn til sögu Íslands IV, 1907-1915, bls. 209, 235.

Myndir:


Þetta svar er hluti af lengri umfjöllun Kötlu í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi.

...