Góðir A-vítamíngjafar í fæðu eru lýsi og lifur, sérstaklega fisklifur en einnig lamba- og svínalifur. Þá er töluvert A-vítamín í mjólk, smjöri, osti, eggjum og smjörlíki en í því síðasttalda er vítamíninu bætt í við vinnslu. Í þessum vörum er A-vítamínið á formi retínóls. Í litsterku grænmeti og ávöxtum, t.d. gulrótum, papriku, apríkósum, grænkáli og spergilkáli, er mikið af beta-karótíni sem umbreytist í A-vítamín í líkamanum.A-vítamín gegnir mörgum hlutverkum. Það hefur áhrif á fósturþroska og vöxt, stjórnar gerð og sérhæfingu fruma í húð og slímhúð, tekur þátt í stjórnun einstakra erfðavísa, er nauðsynlegt fyrir sjónina og fyrir starfsemi ónæmiskerfisins. Skortur á A-vítamíni getur lýst sér sem þurrkur í slímhúð, augnþurrkur, náttblinda og hornhimna augans verður hörð en það getur leitt til blindu.

Við fáum A-vítamín beint úr lifur, lýsi og öðrum dýraafurðum, en karótín, sem líkaminn umbreytir í A-vítamín, úr skærlitum jurtaafurðum, til dæmis gulrótum.
Mynd:
- Fresh orange carrots.jpg. (2017, 9. júní). Wikimedia Commons. https://commons.wikimedia.org/wiki/File:Fresh_orange_carrots.jpg
Þetta svar er að mestu unnið upp úr umfjöllun um A-vítamín í Fræðslubanka um vítamín og steinefni sem Lýðheilsustöð og Matvælastofnun standa að og birt með góðfúslegu leyfi.