Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík
Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Hvernig byrja ævintýri?

Rósa Þorsteinsdóttir

Upprunalegar spurningar hljóðuðu svona:

Af hverju byrja ógeðslega margar sögur á Einu sinni var eða Einu sinni kom eða Einu sinni fór? (Elín Heiður) og Eru til einhver ævintýri sem byrja á y eða ý? (Christina Bengtsson).

Ævintýri eru oft skilgreind með því að bera þau saman við aðrar þjóðsögur, svo sem sagnir, og þá er alltaf bent á mismunandi tengsl þessara tveggja sagnagreina við raunveruleikann. Þessi greining hófst strax hjá Grimms-bræðrum sem sögðu að ævintýrin væru skáldskapur en sagnirnar meiri sagnfræði (Deutsche Sagen (1976): 7). Sagnirnar eru nefnilega sagðar eins og sannleikur. Þær eiga að greina frá raunverulegum atburðum sem gerðust á ákveðnum tíma og til sögunnar eru nefndir ákveðnir staðir, fólk er nafngreint og aðrar sannanir dregnar fram.

Ævintýrin eru aftur á móti full af allskonar „furðum og undrum, yfirnáttúrlegum verum, álögum og kynjagripum“ (Einar Ól. Sveinsson: Um íslenzkar þjóðsögur (1940): 15). Enginn veit hvar þau gerast og þó að sumar persónur séu nafngreindar vita allir að þær hafa ekki verið til í raun og veru. Ævintýrin eru þannig óháð tíma og rúmi og segja af kóngsbörnum og karlsdætrum og –sonum á óræðum stað sem „einu sinni var“.

Sagan um Öskubusku er ævintýri sem gerist á óræðum tíma og stað.

Ekki er þó algilt að ævintýri byrji á „Einu sinni var ...“ eða „Það var einu sinni ...“ og í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar er að finna tugi ævintýra sem byrja öðruvísi. Ævintýrin sem þar er að finna voru skrifuð upp á seinni hluta 19. aldar en áður en það var gert höfðu þau lifað um langan aldur í munnlegri geymd. Þau voru til vegna þess að þau höfðu verið sögð aftur og aftur við ýmsar aðstæður af mismunandi sagnafólki.

Fræðimenn sem rannsaka efni sem lifir í munnlegri geymd hafa getað sannreynt það að sögur breytast í hvert sinn sem þær eru sagðar og ýmsar ástæður geta verið fyrir því. Niðurstöður sem byggjast á rannsóknum á sagnamönnum og endurteknum hjóðritunum á ævintýrum þeirra sýna að það sem sagt er og hvernig það er sagt í hvert sinn byggist oft á áheyrendunum og aðstæðum. Sagnamenn velja aðrar sögur eða breyta sögum eftir því hvort þeir segja konum eða körlum, börnum eða fullorðnum. Líklegt er að sagnamennirnir muni textana aldrei orðrétta, heldur aðeins efni sagnanna. Af þessu sést að ævintýri sem lifir í munnlegri hefð getur í raun byrjað hvernig sem er, líka á y eða ý. Alveg eins og ævintýri getur byrjað á „Svo er sagt að ...“, eins og dæmi eru um í þjóðsögum Jóns Árnasonar, gæti það byrjað á „Ýmsir segja að ...“ og Öskubuskusaga gæti auðveldlega byrjað á „Yngsta systirin í kotinu var alltaf höfð útundan ...“

Dæmi um upphöf ævintýra í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar:

  • Það er upphaf þessarar sögu að ...
  • Svo byrjar sögu þessa ...
  • Það var eitt sinn / einu sinni ...
  • Konungur og drottning réðu fyrir ríki ...
  • Svo er sagt að ...
  • Í fyrri dögum ...
  • Ungur kóngur nokkur ...
  • Kóngur er nefndur ...
  • Fyrir ríki því er í Braut nefndist ...
  • Lúðvík/Hringur hefur konungur heitið ...
  • Einhverju sinni ...
  • Á Þýskalandi bjó kall ...
  • Rúðólfur er konungur nefndur ...
  • Forðum daga ...
  • Kóngur hét ...
  • Kall og kelling bjuggu ...
  • Fátæk hjón bjuggu ...
  • Í koti einu voru karlsdætur þrjár ...
  • Kóngur/konungur bjó í ríki sínu ...
  • Hér byrjar saga ...
  • Þjóðkonungur einn ríkur ...
  • Konungur einn var á fyrri tíð ...
  • Artus hefur konungur heitið ...
  • Einn tíma ...
  • Fursti einn ákaflega ríkur ...
  • Bóndi einn ...
  • Á fyrri tímum ...
  • Kaupmaður einn ...
  • Í fyrndinni ...
  • Eins og tíðum gjörist...
  • Frá því er sagt ...
  • Maður er nefndur / hét ...
  • Á bæ einum bjuggu ...
  • Ekki alllangt frá konungsborg ...
  • Einn hertugi var sá ...
  • Í koti nokkru ...
  • Konungur nokkur og drottning ...

Mynd:

Höfundur

Rósa Þorsteinsdóttir

rannsóknarlektor á þjóðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

14.3.2014

Spyrjandi

Christina Bengtsson, Elín Heiður

Tilvísun

Rósa Þorsteinsdóttir. „Hvernig byrja ævintýri?“ Vísindavefurinn, 14. mars 2014. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=10418.

Rósa Þorsteinsdóttir. (2014, 14. mars). Hvernig byrja ævintýri? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=10418

Rósa Þorsteinsdóttir. „Hvernig byrja ævintýri?“ Vísindavefurinn. 14. mar. 2014. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=10418>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig byrja ævintýri?
Upprunalegar spurningar hljóðuðu svona:

Af hverju byrja ógeðslega margar sögur á Einu sinni var eða Einu sinni kom eða Einu sinni fór? (Elín Heiður) og Eru til einhver ævintýri sem byrja á y eða ý? (Christina Bengtsson).

Ævintýri eru oft skilgreind með því að bera þau saman við aðrar þjóðsögur, svo sem sagnir, og þá er alltaf bent á mismunandi tengsl þessara tveggja sagnagreina við raunveruleikann. Þessi greining hófst strax hjá Grimms-bræðrum sem sögðu að ævintýrin væru skáldskapur en sagnirnar meiri sagnfræði (Deutsche Sagen (1976): 7). Sagnirnar eru nefnilega sagðar eins og sannleikur. Þær eiga að greina frá raunverulegum atburðum sem gerðust á ákveðnum tíma og til sögunnar eru nefndir ákveðnir staðir, fólk er nafngreint og aðrar sannanir dregnar fram.

Ævintýrin eru aftur á móti full af allskonar „furðum og undrum, yfirnáttúrlegum verum, álögum og kynjagripum“ (Einar Ól. Sveinsson: Um íslenzkar þjóðsögur (1940): 15). Enginn veit hvar þau gerast og þó að sumar persónur séu nafngreindar vita allir að þær hafa ekki verið til í raun og veru. Ævintýrin eru þannig óháð tíma og rúmi og segja af kóngsbörnum og karlsdætrum og –sonum á óræðum stað sem „einu sinni var“.

Sagan um Öskubusku er ævintýri sem gerist á óræðum tíma og stað.

Ekki er þó algilt að ævintýri byrji á „Einu sinni var ...“ eða „Það var einu sinni ...“ og í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar er að finna tugi ævintýra sem byrja öðruvísi. Ævintýrin sem þar er að finna voru skrifuð upp á seinni hluta 19. aldar en áður en það var gert höfðu þau lifað um langan aldur í munnlegri geymd. Þau voru til vegna þess að þau höfðu verið sögð aftur og aftur við ýmsar aðstæður af mismunandi sagnafólki.

Fræðimenn sem rannsaka efni sem lifir í munnlegri geymd hafa getað sannreynt það að sögur breytast í hvert sinn sem þær eru sagðar og ýmsar ástæður geta verið fyrir því. Niðurstöður sem byggjast á rannsóknum á sagnamönnum og endurteknum hjóðritunum á ævintýrum þeirra sýna að það sem sagt er og hvernig það er sagt í hvert sinn byggist oft á áheyrendunum og aðstæðum. Sagnamenn velja aðrar sögur eða breyta sögum eftir því hvort þeir segja konum eða körlum, börnum eða fullorðnum. Líklegt er að sagnamennirnir muni textana aldrei orðrétta, heldur aðeins efni sagnanna. Af þessu sést að ævintýri sem lifir í munnlegri hefð getur í raun byrjað hvernig sem er, líka á y eða ý. Alveg eins og ævintýri getur byrjað á „Svo er sagt að ...“, eins og dæmi eru um í þjóðsögum Jóns Árnasonar, gæti það byrjað á „Ýmsir segja að ...“ og Öskubuskusaga gæti auðveldlega byrjað á „Yngsta systirin í kotinu var alltaf höfð útundan ...“

Dæmi um upphöf ævintýra í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar:

  • Það er upphaf þessarar sögu að ...
  • Svo byrjar sögu þessa ...
  • Það var eitt sinn / einu sinni ...
  • Konungur og drottning réðu fyrir ríki ...
  • Svo er sagt að ...
  • Í fyrri dögum ...
  • Ungur kóngur nokkur ...
  • Kóngur er nefndur ...
  • Fyrir ríki því er í Braut nefndist ...
  • Lúðvík/Hringur hefur konungur heitið ...
  • Einhverju sinni ...
  • Á Þýskalandi bjó kall ...
  • Rúðólfur er konungur nefndur ...
  • Forðum daga ...
  • Kóngur hét ...
  • Kall og kelling bjuggu ...
  • Fátæk hjón bjuggu ...
  • Í koti einu voru karlsdætur þrjár ...
  • Kóngur/konungur bjó í ríki sínu ...
  • Hér byrjar saga ...
  • Þjóðkonungur einn ríkur ...
  • Konungur einn var á fyrri tíð ...
  • Artus hefur konungur heitið ...
  • Einn tíma ...
  • Fursti einn ákaflega ríkur ...
  • Bóndi einn ...
  • Á fyrri tímum ...
  • Kaupmaður einn ...
  • Í fyrndinni ...
  • Eins og tíðum gjörist...
  • Frá því er sagt ...
  • Maður er nefndur / hét ...
  • Á bæ einum bjuggu ...
  • Ekki alllangt frá konungsborg ...
  • Einn hertugi var sá ...
  • Í koti nokkru ...
  • Konungur nokkur og drottning ...

Mynd:

...