Hvað er natúralismi?
Émile Zola var líklega fyrstur til að nota orðið natúralisti um rithöfunda og hann var helsti forvígismaður stefnu í bókmenntum sem kallast natúralismi. Stefnan sótti margt til nýrra kenninga í náttúru- og læknavísindum, til að mynda til þróunarkenningar Charles Darwins (1809–1882). Þeir sem aðhylltust natúralisma í bókmenntum lögðu til að rithöfundar tækju upp aðferðir vísindanna. Orðið natúralismi á sér nokkra sögu. Það hafði meðal annars verið notað til að tákna efnishyggju, heimspeki Epikúrosar eða hvers kyns efahyggju í trúmálum. Á ensku málsvæði kom hugtakið fram snemma á 17. öld. Þar var það notað sem skammaryrði yfir villutrúarmenn sem vildu útskýra atburði út frá náttúrlegum orsökum. Andstæða hugtaksins var supernaturalism, það er segja sú hugmynd að guðlegur kraftur stýri veröldinni. Löng hefð var fyrir því að nota hugtakið yfir málara sem reyndu að líkja eftir náttúrunni í stað þess að mála söguleg eða goðsöguleg fyrirbæri og atburði. Í þessari merkingu hafði orðið verið notað allt frá 17. öld og það kom oft fyrir í listgagnrýni á 19. öld, sér í lagi í Frakklandi. Á sjöunda áratug 19. aldar skrifaði Émile Zola nokkra dóma um listsýningar frönsku impressjónistanna. Þar notaði hann jöfnum höndum orðin impressjónisti, raunsæisti, aktúalisti og natúralisti yfir þá. Í formála að annarri útgáfu af bók Zola Thérèse Raquin er orðið líklega í fyrsta sinn haft um rithöfunda. Önnur útgáfa bókarinnar kom út árið 1868 og í sögunni er fjallað um framhjáhald, glæp og morð. Formálinn var skrifaður sem svar við þeirri gagnrýni að bókin væri lítt annað en ruddafengið klám. Í formálanum segist Zola tilheyra hópi natúralískra höfunda og hann líkir sér við málara, vísindamann og skurðlækni. Hlutverk hans sem rithöfundur er hið sama og skurðlækna sem kryfja lík, munurinn er aðeins sá að hann kryfur lifandi persónur. Zola segir að hægt sé að útskýra athafnir aðalpersóna bókarinnar fullkomlega með hjálp nútímalíffærafræði og eðlisfræði. Það er fyrst og fremst blóð, taugastarfsemi og ósveigjanleg lögmál sem ráða gjörðum þeirra. Skáldsaga eftir Zola frá árinu 1890 er frekari vitnisburður um þennan skilning á manninum. Hún ber heitið La Bête humaine sem merkir bókstaflega ,hið mennska dýr`.„Le Roman expérimental“
Í ritgerð sem birtist á prenti í Frakklandi árið 1880 útfærði Zola hugmyndir sínar um natúralismann frekar. Ritgerðin nefndist „Le Roman expérimental“ og hafði reyndar birst í tvennu lagi fimm árum áður, í tímariti sem gefið var út í Sankti Pétursborg og kallaðist Vestnik Evropy. Zola skrifaði um nokkurt skeið greinar í tímaritið sem kölluðust bréf frá París. Ritgerðin hefur lengi verið til vandræða í höfundarverki Zola, ásamt ýmsum öðrum greinum um listir og menningarmál eftir Zola. Hún hefur þótt einfeldningsleg, barnaleg og af sumum beinlínis heimskuleg. Ritgerðin er margt í senn. Hún er meðal annars eins konar stefnuyfirlýsing natúralismans, útskýring á því hvað rithöfundar geta lært af nútímavísindum og greining á hugtakinu tilraunaskáldsaga. En fyrst og fremst er hún útlegging Zola á riti franska vísindamannsins Claude Bernards (1813–1878) frá árinu 1965 um aðferðafræði tilraunavísinda í læknisfræði (Introduction à l'étude de la médicine expérimentale). Rit Bernards lagði grunn að læknisfræði sem vísindagrein og ætlunarverk Zola var að gera það sama fyrir bókmenntir. Zola taldi að aðferð Bernards félli í raun svo vel að bókmenntum að hana væri hægt að taka upp nær óbreytta fyrir rithöfunda.Samantekt
Natúralisminn varð ekki langlíf stefna. Hann leið að ýmsu leyti undir lok við andlát Zola og í byrjun 20. aldar tóku framúrstefnuhreyfingar módernismans við, svo sem fútúrismi, expressjónismi, dadaismi og súrrealismi. Í þeim urðu svonefndar stefnuyfirlýsingar eða manifestó leiðarstef. Hægt er að líta á ritgerð Zola um natúralismann og tilraunaskáldsöguna sem fyrirrennara þess háttar tilrauna. Zola tamdi sér öguð vinnubrögð sem höfðu áhrif á marga rithöfunda. Vinnubrögðin voru markviss, skipulögð og að einhverju leyti grundvölluð á hugmyndum hans um vísindalega aðferðafræði. Fyrir ritun hverrar skáldsögu lagðist Zola í rannsóknir og safnaði efni í miklar skjalamöppur sem nú eru geymdar í Franska þjóðarbókasafninu. Í skjalamöppunum var til að mynda sett fram bráðabirgðaplan til útskýringar á efni hverrar sögu í heild sinni, síðar fylgdi yfirleitt skrá yfir atburði hvers kafla fyrir sig og einnig stutt æviágrip lykilpersóna í sögunum.
Zola tamdi sér öguð vinnubrögð sem voru að einhverju leyti grundvölluð á hugmyndum hans um vísindalega aðferðafræði. Myndin er úr skjalamöppum Émile Zola og sýnir æviágrip nokkura persóna í sagnaleiknum Les Rougon-Macquart.
- Brown, Frederick: Zola: A Life, London: Papermac, 1997.
- Furst, Lilian R. og Peter N. Skrine: Naturalism (The Critical Idiom), London: Methuen, 1971.
- Hemmings, F. W. J.: Emile Zola, 2. útg., Oxford: Clarendon Press, 1966.
- Wilson, Angus: Émile Zola: An Introductory Study of his Novels, New York: Morrow, 1952.
- Zola, Émile: The Experimental Novel by Émile Zola 1893, vefútgáfa af enskri þýðingu frá 1964, The Experimental Novel by Émile Zola 1893. (Sótt 15.5.2018).
- Therese Raquin : a realistic novel : Zola, Emile, 1840-1902 : Free Download, Borrow, and Streaming : Internet Archive. (Sótt 15.5.2018)..
- Les Rougon-Macquart - Wikipedia. (Sótt 15.5.2018).
- Émile Zola - Wikipedia. (Sótt 15.5.2018).
- File:ZOLA Caricature Gill 1876.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 15.5.2018).
- Émile Zola. Œuvres. Manuscrits et dossiers préparatoires. Les Rougon-Macquart. Germinal. Dossier préparatoire. Second volume. | Gallica. (Sótt 15.5.2018).