Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þvagfærasýkingar eru sýkingar í þvagrás, þvagblöðru, þvagpípum eða nýrum en þessi líffæri kallast einu nafni þvagfæri. Flestar þvagfærasýkingar (um 80%) eru af völdum bakteríunnarE. coli sem er þarmabaktería, en aðrar bakteríur, sveppir og sníkjudýr geta einnig verið orsök þvagfærasýkinga.
Konur fá frekar þvagfærasýkingu en flestir karlar, líklega vegna líffærabyggingar þeirra en þvagrásarop kvenna er styttra og miklu nær endaþarmsopinu en hjá körlum. Bilið milli endaþarmsops og þvagrásarops er enn minna í litlum börnum og auðvelt fyrir bakteríur úr hægðum að berast upp í þvagrás, einkum hjá bleyjubörnum. Hætta á þvagfærasýkingu hjá konum er meiri eftir því sem þær eru virkari kynferðislega. Konur sem eru komnar yfir tíðahvörf eru í meiri hættu vegna estrógenskorts sem leiðir til þess að bakteríugróður í leggöngum er ekki eins verndandi og áður.
Aðrir áhættuþættir en kyn og aldur eru til dæmis þættir sem hindra rennsli þvags, eins og stækkaður blöðruhálskirtill, meðfæddir gallar í þvagfærum og bólgur. Fólk með þvaglegg eða fólk sem hefur verið í skurðaðgerð á þvagfærum er í meiri hættu á að fá þvagfærasýkingu. Tilhneiging til að fá þvagfærasýkingu getur legið í ættum. Enn aðrir áhættuþættir eru sykursýki, bakflæði í þvagpípum og harðlífi.
Konur fá frekar þvagfærasýkingu en flestir karlar, líklega vegna líffærabyggingar þeirra en þvagrásarop kvenna er styttra og miklu nær endaþarmsopinu en hjá körlum.
Einkenni og merki um þvagfærasýkingu fara eftir því hvaða þvagfæri er sýkt, kyni og aldri sjúklings og sýklinum sem í hlut á. Flestar þvagfærasýkingar verða í þvagblöðrunni. Helstu einkenni þvagrásar- og blöðrubólgu eru sársauki eða sviði við þvaglát, tíð þörf fyrir að pissa og erfiðleikar við að halda í sér, verkir neðarlega í kviðarholinu, gruggugt, blóðlitað eða illa lyktandi þvag; enn fremur finnst mörgum þeir ekki ná að tæma blöðruna almennilega. Almenn einkenni eru þreyta og slappleiki. Sumir eru alveg eða að mestu einkennalausir og ná sér eftir tvo til fimm daga.
Karlar geta fundið fyrir sársauka eða þrýsting í endaþarmi eða kviðarholi, eymslum í eistum eða lim og jafnvel graftarleka úr honum, en konur geta fundið fyrir eymslum á svæðinu við lífbeinið og verið með útferð úr leggöngum. Þessi síðasttöldu einkenni hjá körlum og konum koma einkum fram ef þvagfærasýkingin er af völdum sýkla sem berast á milli við samfarir, til dæmis lekanda- og klamydíusýkla.
Einkenni þvagfærasýkinga í börnum eru blóð í þvagi, kviðverkir, hiti, uppköst, niðurgangur og sársauki við bráð þvaglát. Ef sýkingin verður í þvagpípum eða nýrum kemur oft fram verkur í síðum og hiti. Nýrnabólga kemur oftast í kjölfar blöðrubólgu en getur líka stafað af sýkingu í blóðinu.
Þegar þvagfærasýking er greind er tekið þvagsýni, helst miðbunuþvag, og sýklar í því ræktaðir og greindir. Þetta er gert til að geta valið viðeigandi sýklalyf gegn þeim, en margir sýklar eru þolnir gagnvart tilteknum lyfjum. Oftast dugar sýklalyfjakúr í nokkra daga til að lækna þvagfærasýkingu.
Mynd:
Rational Preparedness. Íslenskur texti settur inn af ritstjórn Vísindavefsins. Sótt 6. 6. 2012.
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvers vegna fær maður þvagfærasýkingu?“ Vísindavefurinn, 11. júní 2012, sótt 8. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=20829.
Þuríður Þorbjarnardóttir. (2012, 11. júní). Hvers vegna fær maður þvagfærasýkingu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=20829
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvers vegna fær maður þvagfærasýkingu?“ Vísindavefurinn. 11. jún. 2012. Vefsíða. 8. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=20829>.