Sólin Sólin Rís 08:01 • sest 18:27 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:43 • Síðdegis: 22:11 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:23 • Síðdegis: 16:13 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:01 • sest 18:27 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:43 • Síðdegis: 22:11 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:23 • Síðdegis: 16:13 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaðan kemur vitneskja okkar um norræna goðafræði?

Ármann Jakobsson

Utan hins norræna málsvæðis eru einungis varðveitt örfá eddukvæða brot um fornar hetjur. Drjúgur hluti hins norræna efnis fjallar hins vegar um forna germanska guði sem skýrar vísbendingar eru um að hafi verið tignaðir víða um Evrópu á heiðnum tíma. Nútímamaðurinn vissi þó fátt um þessi goð ef ekki væri fyrir íslenskar heimildir um þau frá 13. og 14. öld, aðallega eddukvæðin og Eddu Snorra Sturlusonar.

Goðmögnin voru ekki öll karlkyns. Í Brennu-Njáls sögu er lýst bruna í hofi þar sem finna má líkneski af gyðjunum Þorgerði Hörgabrúði og Irpu en fátt eitt er vitað um þær. Í eddukvæðum og Snorra-Eddu koma fyrir Frigg og Freyja en hliðstæð nöfn þeirra gætu bent til sameiginlegs upphafs. Ingunn Ásdísardóttir hefur rannsakað þessar tvær mikilvægu kvenkyns goðverur og niðurstaða hennar er að þær komi hvor úr sinni átt.

Goðin eiga sér fornt upphaf og áhrifa þeirra hefur gætt víða um Evrópu löngu áður en hinar íslensku ritheimildir um þau urðu til á 13. og 14. öld. Þannig sjáum við spor um Óðin, Þór og Frey víða í örnefnum Norður-Evrópu, í fornenskum ættartölum og jafnvel í Langbarðalandi á Ítalíu auk ýmissa margræðra forngripa og mynda. Sjaldnast fylgja þó miklar upplýsingar um goðin, hvað þá heilu sögurnar.

Þekking nútíma manna á norrænni trú grundvallast á Snorra-Eddu. Hlutskipti fræðimanna hefur löngum verið að greina hvað af efni þessa rits kunni að endurspegla raunverulegan heiðinn sið og hvað sé kristin afbökun eða áhrif frá grísk-rómverskri menningu. Myndin er frá 1817 og sýnir dauða Baldurs, eftir danska málarann Christoffer Wilhelm Eckersberg (1783-1853).

Fáir sem fjalla um norræna goðafræði geta því annað en leitað til íslenskra rita þótt þau séu ekki samin af heiðnum mönnum á heiðnum tíma. Þar er fyrst og fremst um að ræða Eddu Snorra Sturlusonar sem sett var saman snemma á 13. öld en hefur varðveist í handritum frá 14. öld og síðar. Þar fyrir utan eru eddukvæðin sem gætu verið samin á 9., 10. og 11. öld og hafa iðulega verið talin verk heiðinna manna en eru varðveitt í handritum frá 13. öld og síðar. Þessi heimildastaða hefur sett svip sinn á rannsóknir á norrænni goðafræði. Almennt eru aðrar heimildir um norræna heiminn fremur fátæklegar og því grundvallast þekking nútíma manna á norrænni trú enn á þessu eina riti, Snorra-Eddu. Hlutskipti fræðimanna hefur löngum ekki síst verið að greina hvað af efni þessa rits kunni að endurspegla raunverulegan heiðinn sið og hvað sé kristin afbökun eða áhrif frá grísk-rómverskri menningu. Þannig hafa fræðimenn verið vantrúaðir á að hin norrænu goð hafi verið í einni fjölskyldu svipað og grísk-rómversku guðirnir og þar hafi verið litið á Óðin sem eins konar fjölskylduföður. Þá hefur Baldur hinn hvíti ás þótt vera undir allnokkrum áhrifum frá Kristi.

Vitaskuld skiptir eldra efni einnig miklu máli og dæmi eru um að það virðist staðfesta upplýsingar Snorra-Eddu og eddukvæðanna. Má þar nefna áhugaverðan samhljóm milli lýsingar 11. aldar sagnaritarans Adams frá Brimum á heiðnum fórnarathöfnum í hofinu í Uppsölum og nokkrum erindum kvæðisins Hávamála þar sem Óðinn segir frá eigin fórnardauða hangandi í tré.

Mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.

Höfundur

Ármann Jakobsson

prófessor við íslensku- og menningardeild HÍ

Útgáfudagur

14.11.2022

Spyrjandi

Hjálmar

Tilvísun

Ármann Jakobsson. „Hvaðan kemur vitneskja okkar um norræna goðafræði?“ Vísindavefurinn, 14. nóvember 2022, sótt 9. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=25680.

Ármann Jakobsson. (2022, 14. nóvember). Hvaðan kemur vitneskja okkar um norræna goðafræði? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=25680

Ármann Jakobsson. „Hvaðan kemur vitneskja okkar um norræna goðafræði?“ Vísindavefurinn. 14. nóv. 2022. Vefsíða. 9. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=25680>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaðan kemur vitneskja okkar um norræna goðafræði?
Utan hins norræna málsvæðis eru einungis varðveitt örfá eddukvæða brot um fornar hetjur. Drjúgur hluti hins norræna efnis fjallar hins vegar um forna germanska guði sem skýrar vísbendingar eru um að hafi verið tignaðir víða um Evrópu á heiðnum tíma. Nútímamaðurinn vissi þó fátt um þessi goð ef ekki væri fyrir íslenskar heimildir um þau frá 13. og 14. öld, aðallega eddukvæðin og Eddu Snorra Sturlusonar.

Goðmögnin voru ekki öll karlkyns. Í Brennu-Njáls sögu er lýst bruna í hofi þar sem finna má líkneski af gyðjunum Þorgerði Hörgabrúði og Irpu en fátt eitt er vitað um þær. Í eddukvæðum og Snorra-Eddu koma fyrir Frigg og Freyja en hliðstæð nöfn þeirra gætu bent til sameiginlegs upphafs. Ingunn Ásdísardóttir hefur rannsakað þessar tvær mikilvægu kvenkyns goðverur og niðurstaða hennar er að þær komi hvor úr sinni átt.

Goðin eiga sér fornt upphaf og áhrifa þeirra hefur gætt víða um Evrópu löngu áður en hinar íslensku ritheimildir um þau urðu til á 13. og 14. öld. Þannig sjáum við spor um Óðin, Þór og Frey víða í örnefnum Norður-Evrópu, í fornenskum ættartölum og jafnvel í Langbarðalandi á Ítalíu auk ýmissa margræðra forngripa og mynda. Sjaldnast fylgja þó miklar upplýsingar um goðin, hvað þá heilu sögurnar.

Þekking nútíma manna á norrænni trú grundvallast á Snorra-Eddu. Hlutskipti fræðimanna hefur löngum verið að greina hvað af efni þessa rits kunni að endurspegla raunverulegan heiðinn sið og hvað sé kristin afbökun eða áhrif frá grísk-rómverskri menningu. Myndin er frá 1817 og sýnir dauða Baldurs, eftir danska málarann Christoffer Wilhelm Eckersberg (1783-1853).

Fáir sem fjalla um norræna goðafræði geta því annað en leitað til íslenskra rita þótt þau séu ekki samin af heiðnum mönnum á heiðnum tíma. Þar er fyrst og fremst um að ræða Eddu Snorra Sturlusonar sem sett var saman snemma á 13. öld en hefur varðveist í handritum frá 14. öld og síðar. Þar fyrir utan eru eddukvæðin sem gætu verið samin á 9., 10. og 11. öld og hafa iðulega verið talin verk heiðinna manna en eru varðveitt í handritum frá 13. öld og síðar. Þessi heimildastaða hefur sett svip sinn á rannsóknir á norrænni goðafræði. Almennt eru aðrar heimildir um norræna heiminn fremur fátæklegar og því grundvallast þekking nútíma manna á norrænni trú enn á þessu eina riti, Snorra-Eddu. Hlutskipti fræðimanna hefur löngum ekki síst verið að greina hvað af efni þessa rits kunni að endurspegla raunverulegan heiðinn sið og hvað sé kristin afbökun eða áhrif frá grísk-rómverskri menningu. Þannig hafa fræðimenn verið vantrúaðir á að hin norrænu goð hafi verið í einni fjölskyldu svipað og grísk-rómversku guðirnir og þar hafi verið litið á Óðin sem eins konar fjölskylduföður. Þá hefur Baldur hinn hvíti ás þótt vera undir allnokkrum áhrifum frá Kristi.

Vitaskuld skiptir eldra efni einnig miklu máli og dæmi eru um að það virðist staðfesta upplýsingar Snorra-Eddu og eddukvæðanna. Má þar nefna áhugaverðan samhljóm milli lýsingar 11. aldar sagnaritarans Adams frá Brimum á heiðnum fórnarathöfnum í hofinu í Uppsölum og nokkrum erindum kvæðisins Hávamála þar sem Óðinn segir frá eigin fórnardauða hangandi í tré.

Mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum....