
England gegndi lykilhlutverki í kristnun Íslands líkt og annarra Norðurlanda og er það skiljanlegt vegna hinna miklu norrænu byggða sem þar var að finna. Ýmsir trúboðsbiskupar sem störfuðu tímabundið á Íslandi komu þaðan. Sumir þeirra voru engilsaxneskir aðrir þýskir (saxlenskir) en höfðu dvalið á Englandi og farið í trúboðsferðir til Noregs og jafnvel Svíþjóðar líka. Náin tengsl voru því á öllu hinu engilsaxneska-norræna menningarsvæði sem teygði sig hingað út. Íslenska kirkjan var því í fjölþættum tengslum við umheiminn sem tók þó í stöðugt vaxandi mæli að liggja um Niðarós eftir að erkistóll var stofnaður þar 1152/3. Eftir það má segja að íslenska kirkjan hafi verið hluti af þeirri norsku fram að siðbreytingu er hún varð hluti af dönsku kirkjunni. Þar með er ef til vill komið að því sem kalla má einkenni íslensku kirkjunnar á miðöldum. Þrátt fyrir það að íslenska kirkjan væri kirkjuréttarlega séð hluti af stærri heild — á miðöldum hluti af norska erkibiskupsdæminu í Niðarósi og eftir siðaskipti kirkju danska ríkisins — bjó hún ætíð við umtalsvert sjálfstæði sem að hluta til fólst í því hve afskekkt landið var. Kemur þetta best í ljós á einveldistímanum þegar kirkjan hélt íslensku sem opinberu máli sínu en tók ekki upp dönsku. Var þetta hluti af þeim sérréttindum sem giltu á Íslandi. Ef til vill má segja að þegar á miðöldum hafi kirkjan á Íslandi myndað nánari menningarlega heild með veraldlega samfélaginu en tíðkaðist víðast annars staðar. Ef þetta er rétt stafar það af fámenni hér, einfaldri samfélagsgerð og fæð félagslegra stofnana sem og sameiginlegum hagsmunum kirkjunnar og veraldlegra höfðingja og stórjarðeigenda. Þessi menningarlega samstaða kemur þá fram í óvenjuöflugum bókmenntum á móðurmáli sem hér urðu til og sem kirkjumenn áttu stóran þátt í að skapa. Þrátt fyrir það sem hér hefur verið sagt ber að undirstrika að kirkjusöguleg þróun hér á landi var í öllum meginatriðum hin sama og gerðist annars staðar í Evrópu. Aðstæður í íslenska samfélaginu settu þó ætíð sitt sérstæða mark á þá þróun en hér var ætíð fámennt, dreifbýlt bændasamfélag sem um margt laut eigin lögmálum. Um miðaldakristnina má annars lesa í:
- Hjalti Hugason 2000. Frumkristni og upphaf kirkju. (Kristni á Íslandi. 1. b.) Reykjavík.
- Gunnar F. Guðmundsson, 2000. Íslenskt samfélag og Rómakirkja. (Kristni á Íslandi. 2. b.) Reykjavík.
- Hvaða skólar voru starfræktir á Íslandi á miðöldum? eftir Hjalta Hugason
- Hvað vissu Evrópuþjóðir um Ísland á miðöldum? eftir Gunnar Karlsson
- Hversu langt aftur er hægt að rekja sögu kirkjubygginga á Íslandi? eftir Hjalta Hugason
- Hvað lærði fólk árið 1000? Var um einhverja „menntun“ að ræða? eftir Hjalta Hugason
- Catholicbook.com. Sótt 17.2.2010.