Sólin Sólin Rís 08:13 • sest 18:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:20 • Sest 00:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:43 • Síðdegis: 15:15 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:57 • Síðdegis: 21:43 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:13 • sest 18:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:20 • Sest 00:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:43 • Síðdegis: 15:15 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:57 • Síðdegis: 21:43 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað einkenndi kirkjuna og kristni á Íslandi á miðöldum?

Hjalti Hugason

Miðaldakristnin hér á landi var kaþólsk kristni á borð við þá sem var að finna um gjörvalla Evrópu. Kaþólska kirkjan er þó ekki eins um allan heim nú á dögum og var það enn síður á þessum fornu tímum þegar erfitt var að koma á miðstýringu og stöðlun.

Við kristnitöku hér var tekið við hinni almennu, kaþólsku miðaldakristni sem þá var enn óklofin í austur- og vestur-kristni eða kaþólska og orþódoxa. Klofningurinn varð ekki formlegur fyrr en um miðja 11. öld. Löngu fyrr hafði þó tekið að draga í sundur með austrænni kristni sem hafði grísku að alþjóðlegu kirkjumáli og vestrænni kristni sem var latnesk. Ýmis annar menningar- og hugarfarslegur munur var einnig á þessum tveimur greinum kristninnar löngu fyrir kirkjuklofninginn.

Í norðanverðri Evrópu gætti og nokkurs blæbrigðamunar á kristninni. Á meginlandinu var hin vestræna, latneska, kaþólska kristni drottnandi. Á Bretlandseyjum var aftur á móti engilsaxnesk kristni ríkjandi og fram undir 1000-1100 eimdi þar eftir af sérstakri keltneskri kristni á Írlandi og afskekktum stöðum í Skotlandi. Keltneska kristni hafði orðið til fyrir langvarandi einangrun kristninnar á þessum slóðum einkum á 6. og 7. öld en hafði síðan að mestu runnið saman við engilsaxnesku kristnina sem greindi sig einkum frá meginlandskristninni vegna staðhátta. Þéttbýlismyndun var mun skemur á veg komin á Bretlandseyjum en á meginlandinu. Því sátu biskupar til sveita þar í landi en frá fornu fari voru biskupssetur í borgum á meginlandinu.

Niðarósdómkirkja var byggð á árunum 1150-1300 en hefur margoft skemmst í eldi. Íslenska kirkjan var hluti af þeirri norsku fram að siðbreytingu.

England gegndi lykilhlutverki í kristnun Íslands líkt og annarra Norðurlanda og er það skiljanlegt vegna hinna miklu norrænu byggða sem þar var að finna. Ýmsir trúboðsbiskupar sem störfuðu tímabundið á Íslandi komu þaðan. Sumir þeirra voru engilsaxneskir aðrir þýskir (saxlenskir) en höfðu dvalið á Englandi og farið í trúboðsferðir til Noregs og jafnvel Svíþjóðar líka. Náin tengsl voru því á öllu hinu engilsaxneska-norræna menningarsvæði sem teygði sig hingað út. Íslenska kirkjan var því í fjölþættum tengslum við umheiminn sem tók þó í stöðugt vaxandi mæli að liggja um Niðarós eftir að erkistóll var stofnaður þar 1152/3. Eftir það má segja að íslenska kirkjan hafi verið hluti af þeirri norsku fram að siðbreytingu er hún varð hluti af dönsku kirkjunni. Þar með er ef til vill komið að því sem kalla má einkenni íslensku kirkjunnar á miðöldum.

Þrátt fyrir það að íslenska kirkjan væri kirkjuréttarlega séð hluti af stærri heild — á miðöldum hluti af norska erkibiskupsdæminu í Niðarósi og eftir siðaskipti kirkju danska ríkisins — bjó hún ætíð við umtalsvert sjálfstæði sem að hluta til fólst í því hve afskekkt landið var. Kemur þetta best í ljós á einveldistímanum þegar kirkjan hélt íslensku sem opinberu máli sínu en tók ekki upp dönsku. Var þetta hluti af þeim sérréttindum sem giltu á Íslandi. Ef til vill má segja að þegar á miðöldum hafi kirkjan á Íslandi myndað nánari menningarlega heild með veraldlega samfélaginu en tíðkaðist víðast annars staðar. Ef þetta er rétt stafar það af fámenni hér, einfaldri samfélagsgerð og fæð félagslegra stofnana sem og sameiginlegum hagsmunum kirkjunnar og veraldlegra höfðingja og stórjarðeigenda. Þessi menningarlega samstaða kemur þá fram í óvenjuöflugum bókmenntum á móðurmáli sem hér urðu til og sem kirkjumenn áttu stóran þátt í að skapa.

Þrátt fyrir það sem hér hefur verið sagt ber að undirstrika að kirkjusöguleg þróun hér á landi var í öllum meginatriðum hin sama og gerðist annars staðar í Evrópu. Aðstæður í íslenska samfélaginu settu þó ætíð sitt sérstæða mark á þá þróun en hér var ætíð fámennt, dreifbýlt bændasamfélag sem um margt laut eigin lögmálum.

Um miðaldakristnina má annars lesa í:
  • Hjalti Hugason 2000. Frumkristni og upphaf kirkju. (Kristni á Íslandi. 1. b.) Reykjavík.
  • Gunnar F. Guðmundsson, 2000. Íslenskt samfélag og Rómakirkja. (Kristni á Íslandi. 2. b.) Reykjavík.

Mynd:

Höfundur

Hjalti Hugason

prófessor emeritus í guðfræði við HÍ

Útgáfudagur

17.2.2010

Síðast uppfært

31.3.2023

Spyrjandi

Valdís Björk Geirsdóttir, f. 1991

Tilvísun

Hjalti Hugason. „Hvað einkenndi kirkjuna og kristni á Íslandi á miðöldum?“ Vísindavefurinn, 17. febrúar 2010, sótt 13. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=30652.

Hjalti Hugason. (2010, 17. febrúar). Hvað einkenndi kirkjuna og kristni á Íslandi á miðöldum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=30652

Hjalti Hugason. „Hvað einkenndi kirkjuna og kristni á Íslandi á miðöldum?“ Vísindavefurinn. 17. feb. 2010. Vefsíða. 13. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=30652>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað einkenndi kirkjuna og kristni á Íslandi á miðöldum?
Miðaldakristnin hér á landi var kaþólsk kristni á borð við þá sem var að finna um gjörvalla Evrópu. Kaþólska kirkjan er þó ekki eins um allan heim nú á dögum og var það enn síður á þessum fornu tímum þegar erfitt var að koma á miðstýringu og stöðlun.

Við kristnitöku hér var tekið við hinni almennu, kaþólsku miðaldakristni sem þá var enn óklofin í austur- og vestur-kristni eða kaþólska og orþódoxa. Klofningurinn varð ekki formlegur fyrr en um miðja 11. öld. Löngu fyrr hafði þó tekið að draga í sundur með austrænni kristni sem hafði grísku að alþjóðlegu kirkjumáli og vestrænni kristni sem var latnesk. Ýmis annar menningar- og hugarfarslegur munur var einnig á þessum tveimur greinum kristninnar löngu fyrir kirkjuklofninginn.

Í norðanverðri Evrópu gætti og nokkurs blæbrigðamunar á kristninni. Á meginlandinu var hin vestræna, latneska, kaþólska kristni drottnandi. Á Bretlandseyjum var aftur á móti engilsaxnesk kristni ríkjandi og fram undir 1000-1100 eimdi þar eftir af sérstakri keltneskri kristni á Írlandi og afskekktum stöðum í Skotlandi. Keltneska kristni hafði orðið til fyrir langvarandi einangrun kristninnar á þessum slóðum einkum á 6. og 7. öld en hafði síðan að mestu runnið saman við engilsaxnesku kristnina sem greindi sig einkum frá meginlandskristninni vegna staðhátta. Þéttbýlismyndun var mun skemur á veg komin á Bretlandseyjum en á meginlandinu. Því sátu biskupar til sveita þar í landi en frá fornu fari voru biskupssetur í borgum á meginlandinu.

Niðarósdómkirkja var byggð á árunum 1150-1300 en hefur margoft skemmst í eldi. Íslenska kirkjan var hluti af þeirri norsku fram að siðbreytingu.

England gegndi lykilhlutverki í kristnun Íslands líkt og annarra Norðurlanda og er það skiljanlegt vegna hinna miklu norrænu byggða sem þar var að finna. Ýmsir trúboðsbiskupar sem störfuðu tímabundið á Íslandi komu þaðan. Sumir þeirra voru engilsaxneskir aðrir þýskir (saxlenskir) en höfðu dvalið á Englandi og farið í trúboðsferðir til Noregs og jafnvel Svíþjóðar líka. Náin tengsl voru því á öllu hinu engilsaxneska-norræna menningarsvæði sem teygði sig hingað út. Íslenska kirkjan var því í fjölþættum tengslum við umheiminn sem tók þó í stöðugt vaxandi mæli að liggja um Niðarós eftir að erkistóll var stofnaður þar 1152/3. Eftir það má segja að íslenska kirkjan hafi verið hluti af þeirri norsku fram að siðbreytingu er hún varð hluti af dönsku kirkjunni. Þar með er ef til vill komið að því sem kalla má einkenni íslensku kirkjunnar á miðöldum.

Þrátt fyrir það að íslenska kirkjan væri kirkjuréttarlega séð hluti af stærri heild — á miðöldum hluti af norska erkibiskupsdæminu í Niðarósi og eftir siðaskipti kirkju danska ríkisins — bjó hún ætíð við umtalsvert sjálfstæði sem að hluta til fólst í því hve afskekkt landið var. Kemur þetta best í ljós á einveldistímanum þegar kirkjan hélt íslensku sem opinberu máli sínu en tók ekki upp dönsku. Var þetta hluti af þeim sérréttindum sem giltu á Íslandi. Ef til vill má segja að þegar á miðöldum hafi kirkjan á Íslandi myndað nánari menningarlega heild með veraldlega samfélaginu en tíðkaðist víðast annars staðar. Ef þetta er rétt stafar það af fámenni hér, einfaldri samfélagsgerð og fæð félagslegra stofnana sem og sameiginlegum hagsmunum kirkjunnar og veraldlegra höfðingja og stórjarðeigenda. Þessi menningarlega samstaða kemur þá fram í óvenjuöflugum bókmenntum á móðurmáli sem hér urðu til og sem kirkjumenn áttu stóran þátt í að skapa.

Þrátt fyrir það sem hér hefur verið sagt ber að undirstrika að kirkjusöguleg þróun hér á landi var í öllum meginatriðum hin sama og gerðist annars staðar í Evrópu. Aðstæður í íslenska samfélaginu settu þó ætíð sitt sérstæða mark á þá þróun en hér var ætíð fámennt, dreifbýlt bændasamfélag sem um margt laut eigin lögmálum.

Um miðaldakristnina má annars lesa í:
  • Hjalti Hugason 2000. Frumkristni og upphaf kirkju. (Kristni á Íslandi. 1. b.) Reykjavík.
  • Gunnar F. Guðmundsson, 2000. Íslenskt samfélag og Rómakirkja. (Kristni á Íslandi. 2. b.) Reykjavík.

Mynd:...