Sólin Sólin Rís 10:49 • sest 15:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:52 • Síðdegis: 19:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:36 • Síðdegis: 13:09 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:49 • sest 15:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:52 • Síðdegis: 19:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:36 • Síðdegis: 13:09 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvar pissar maður á leiðinni til tunglsins?

Stjörnufræðivefurinn og EDS

Hér er einnig svarað spurningunni:
Er hægt að pissa í geimnum?

Ekki hafa verið farnar mannaðar ferðir til tunglsins síðan snemma á 8. áratug síðustu aldar þannig að enginn hefur þurft að pissa á þeirri leið í langan tíma. Síðast þegar einhver þurfti að pissa á leið til tunglsins var aðstaðan hins vegar mjög bágborin.

Geimförin sem Bandaríkjamenn notuðu til tunglferðanna kölluðust Apollo og í áhöfn þeirra voru þrír geimfarar hverju sinni. Ferðalag til tunglsins var alls ekki ánægjan ein. Það var ekki aðeins erfitt fyrir þrjá menn að dvelja saman í örlitlu rými í tæplega tvær vikur heldur var eitt við lífið í geimnum sem geimfararnir þoldu ekki: Að fara á klósettið. Reyndar eru ýkjur að segja að geimfararnir hafi farið á klósettið, það var nefnilega ekkert klósett í Apollo-geimförunum. En hvernig fóru geimfararnir þá að því að kasta af sér vatni og ganga örna sinna?

Áhöfn Apollo 11 á leið í geimfarið sem bar þá til tunglsins.

Úrgangur var eitt stærsta vandamálið sem leysa þurfti. Þegar Apollo-geimfarið var hannað var ekki til neitt sem heitir geimklósett. Fyrsta geimklósettið fór ekki út í geiminn fyrr en árið 1973 í Skylab-geimstöð Bandaríkjamanna. Auk þess var Apollo-geimfarið of lítið fyrir slíkan búnað. Þess í stað urðu tunglfararnir að sætta sig við að nota slöngur og poka.

Í Apollo-geimfarinu var ekki hægt að fara afsíðis og geimförunum fannst oft erfitt að athafna sig fyrir framan félaga sína. Það versta var þó þyngdarleysið. Í þyngdarleysinu svífur nefnilega allt. Bókstaflega allt.

Til að kasta af sér vatni fékk hver geimfari úthlutað gúmmíi, nokkurs konar smokk með opi í báða enda. Annað opið var fest á typpið en hitt á hólk með loku sem var fastur við poka sem safnaði þvaginu. Safnpokinn gat tekið við um það bil 1,2 lítrum af þvagi en af hreinlætisástæðum fékk hver geimfari sinn eigin þvagpoka.

Þegar geimfarinn hafði lokið sér af var hólknum lokað og gúmmíið tekið af en pokinn síðan tengdur við aðra slöngu sem föst var við loku eða ventil í stjórnklefanum. Með því að ýta á einn takka var þvaginu dælt úr pokanum og út í geiminn. Þegar þvagið kom út í geiminn fraus það og myndaði ískristalla sem glitruðu fallega í sólskininu. Þegar einn geimfari var spurður að því hvað væri það fallegasta sem hann hefði séð í geimnum svaraði hann: „Þvaglosun við sólsetur“.

Enn verra var að kúka en til þess þurfti að nota plastpoka. Geimfari lagði poka einfaldlega upp að rassinum, límdi hann á rasskinnarnar með lími sem var á pokanum og gekk örna sinna. Geimfarinn skeindi sig með klósettpappír, setti svo pappírinn í pokann en áður en hann lokaði pokanum, varð hann að setja sótthreinsiefni ofan í til að draga úr bakteríuvexti og hnoða það við, að sjálfsögðu utan frá. Síðan var saurpokanum lokað, hann settur ofan í annan poka og síðan komið haganlega fyrir í kæligeymslu í geimfarinu.

Saurpoki eins og tunglfararnir þurftu að nota í stað klósetts.

Þegar heim til jarðar var komið grandskoðuðu læknar og næringarfræðingar saurinn. Hvert einasta sýni var vigtað og skrásett og allar lykiltölur má finna á vefsíðu NASA, ef einhver hefur áhuga. Þetta var gert til að kanna hvaða áhrif þyngdarleysið hefði á meltinguna.

Að ganga örna sinna gat tekið upp undir klukkustund, sem var önnur ástæða fyrir því að geimfararnir reyndu að fresta því eins lengi og mögulegt var. Til að draga úr þörfinni á að kúka á meðan tunglferð stóð borðuðu geimfararnir mat sem búinn var til með það fyrir augum að skila eins litlum úrgangi og mögulegt var. Tveimur vikum fyrir geimskot byrjuðu þeir á slíku mataræði.

Á þeim áratugum sem liðnir eru frá því að menn fóru fyrst út í geiminn hafa aðstæður þeirra til að sinna sínum daglegu þörfum breyst mikið. Geimklósett komu til sögunnar árið 1973 og breyttu miklu fyrir geimfara. Í geimklósettum er notuð vifta sem myndar loftstraum sem sogar úrgang frá viðkomandi. Þvagið fer í gegnum hreinsibúnað þannig að hægt sé að endurnýta vatnið en saur pakkast í sérstaka plastpoka sem síðan eru losaðir út úr geimfarinu með öðru geimrusli.

Til frekari fróðleiks er bent á myndskeið frá evrópsku geimferðarstofnuninni þar sem ítalski geimfarinn Samantha Cristoforetti útskýrir ágætlega hvernig geimklósettið í alþjóðlegu geimstöðinni virkar: International Space Station toilet tour.

Myndir:


Sá hluti textann sem segir frá Apollo-geimfarinu er fenginn af Stjörnufræðivefnum og birtur með góðfúslegu leyfi.

Útgáfudagur

22.5.2020

Síðast uppfært

26.3.2021

Spyrjandi

Andrea Sigurðardóttir, Sigrún Hauksdóttir

Tilvísun

Stjörnufræðivefurinn og EDS. „Hvar pissar maður á leiðinni til tunglsins?“ Vísindavefurinn, 22. maí 2020, sótt 2. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=31306.

Stjörnufræðivefurinn og EDS. (2020, 22. maí). Hvar pissar maður á leiðinni til tunglsins? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=31306

Stjörnufræðivefurinn og EDS. „Hvar pissar maður á leiðinni til tunglsins?“ Vísindavefurinn. 22. maí. 2020. Vefsíða. 2. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=31306>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvar pissar maður á leiðinni til tunglsins?
Hér er einnig svarað spurningunni:

Er hægt að pissa í geimnum?

Ekki hafa verið farnar mannaðar ferðir til tunglsins síðan snemma á 8. áratug síðustu aldar þannig að enginn hefur þurft að pissa á þeirri leið í langan tíma. Síðast þegar einhver þurfti að pissa á leið til tunglsins var aðstaðan hins vegar mjög bágborin.

Geimförin sem Bandaríkjamenn notuðu til tunglferðanna kölluðust Apollo og í áhöfn þeirra voru þrír geimfarar hverju sinni. Ferðalag til tunglsins var alls ekki ánægjan ein. Það var ekki aðeins erfitt fyrir þrjá menn að dvelja saman í örlitlu rými í tæplega tvær vikur heldur var eitt við lífið í geimnum sem geimfararnir þoldu ekki: Að fara á klósettið. Reyndar eru ýkjur að segja að geimfararnir hafi farið á klósettið, það var nefnilega ekkert klósett í Apollo-geimförunum. En hvernig fóru geimfararnir þá að því að kasta af sér vatni og ganga örna sinna?

Áhöfn Apollo 11 á leið í geimfarið sem bar þá til tunglsins.

Úrgangur var eitt stærsta vandamálið sem leysa þurfti. Þegar Apollo-geimfarið var hannað var ekki til neitt sem heitir geimklósett. Fyrsta geimklósettið fór ekki út í geiminn fyrr en árið 1973 í Skylab-geimstöð Bandaríkjamanna. Auk þess var Apollo-geimfarið of lítið fyrir slíkan búnað. Þess í stað urðu tunglfararnir að sætta sig við að nota slöngur og poka.

Í Apollo-geimfarinu var ekki hægt að fara afsíðis og geimförunum fannst oft erfitt að athafna sig fyrir framan félaga sína. Það versta var þó þyngdarleysið. Í þyngdarleysinu svífur nefnilega allt. Bókstaflega allt.

Til að kasta af sér vatni fékk hver geimfari úthlutað gúmmíi, nokkurs konar smokk með opi í báða enda. Annað opið var fest á typpið en hitt á hólk með loku sem var fastur við poka sem safnaði þvaginu. Safnpokinn gat tekið við um það bil 1,2 lítrum af þvagi en af hreinlætisástæðum fékk hver geimfari sinn eigin þvagpoka.

Þegar geimfarinn hafði lokið sér af var hólknum lokað og gúmmíið tekið af en pokinn síðan tengdur við aðra slöngu sem föst var við loku eða ventil í stjórnklefanum. Með því að ýta á einn takka var þvaginu dælt úr pokanum og út í geiminn. Þegar þvagið kom út í geiminn fraus það og myndaði ískristalla sem glitruðu fallega í sólskininu. Þegar einn geimfari var spurður að því hvað væri það fallegasta sem hann hefði séð í geimnum svaraði hann: „Þvaglosun við sólsetur“.

Enn verra var að kúka en til þess þurfti að nota plastpoka. Geimfari lagði poka einfaldlega upp að rassinum, límdi hann á rasskinnarnar með lími sem var á pokanum og gekk örna sinna. Geimfarinn skeindi sig með klósettpappír, setti svo pappírinn í pokann en áður en hann lokaði pokanum, varð hann að setja sótthreinsiefni ofan í til að draga úr bakteríuvexti og hnoða það við, að sjálfsögðu utan frá. Síðan var saurpokanum lokað, hann settur ofan í annan poka og síðan komið haganlega fyrir í kæligeymslu í geimfarinu.

Saurpoki eins og tunglfararnir þurftu að nota í stað klósetts.

Þegar heim til jarðar var komið grandskoðuðu læknar og næringarfræðingar saurinn. Hvert einasta sýni var vigtað og skrásett og allar lykiltölur má finna á vefsíðu NASA, ef einhver hefur áhuga. Þetta var gert til að kanna hvaða áhrif þyngdarleysið hefði á meltinguna.

Að ganga örna sinna gat tekið upp undir klukkustund, sem var önnur ástæða fyrir því að geimfararnir reyndu að fresta því eins lengi og mögulegt var. Til að draga úr þörfinni á að kúka á meðan tunglferð stóð borðuðu geimfararnir mat sem búinn var til með það fyrir augum að skila eins litlum úrgangi og mögulegt var. Tveimur vikum fyrir geimskot byrjuðu þeir á slíku mataræði.

Á þeim áratugum sem liðnir eru frá því að menn fóru fyrst út í geiminn hafa aðstæður þeirra til að sinna sínum daglegu þörfum breyst mikið. Geimklósett komu til sögunnar árið 1973 og breyttu miklu fyrir geimfara. Í geimklósettum er notuð vifta sem myndar loftstraum sem sogar úrgang frá viðkomandi. Þvagið fer í gegnum hreinsibúnað þannig að hægt sé að endurnýta vatnið en saur pakkast í sérstaka plastpoka sem síðan eru losaðir út úr geimfarinu með öðru geimrusli.

Til frekari fróðleiks er bent á myndskeið frá evrópsku geimferðarstofnuninni þar sem ítalski geimfarinn Samantha Cristoforetti útskýrir ágætlega hvernig geimklósettið í alþjóðlegu geimstöðinni virkar: International Space Station toilet tour.

Myndir:


Sá hluti textann sem segir frá Apollo-geimfarinu er fenginn af Stjörnufræðivefnum og birtur með góðfúslegu leyfi....