Bagall Páls Jónssonar biskups. Smellið til að sjá stærri mynd. Hér á landi hafa hins vegar fundist mjög gamlir baglar, eða réttara sagt, húnar af böglum. Í steinkistu Páls Jónssonar, Skálholtsbiskups 1195-1211, fannst húnn af bagli þegar kistan var opnuð með viðhöfn þann 30. ágúst 1954. Steinkistan kom upp við gröft í kirkjugarði Skálholtskirkju. Bein biskupsins þóttu furðuheilleg og lá húnninn við viðbein hans. Páll er einna frægastur í kirkjusögunni fyrir að hafa leitt í lög helgi þeirra Jóns Ögmundssonar og Þorláks Þórhallssonar. Bagalhúnn Páls biskups er úr rostungsbeini og krókslaga eins og enn tíðkast meðal biskupa ólíkra kirkjudeilda, til dæmis rómversk-katólsku kirkjunnar, rétttrúnaðarkirkjunnar og ensku biskupakirkjunnar.
Enn eldri bagalshúnn fannst á Þingvöllum árið 1957 þegar grafið var þar fyrir jarðstreng. Hann er af annarri gerð en bagall Páls og kallast tá-bagall vegna lags síns sem minnir á bókstafinn T en í grísku kallast hann tá. Tá-bagallinn er úr bronsi, skreyttur í víkingatímastíl og Kristján Eldjárn, fornleifafræðingur og forseti, taldi hann vera frá síðari hluta 11. aldar. Nú er í framkvæmd áætlun um mikla fornleifarannsókn á Þingvöllum sem hófst 2002 og lýkur árið 2006. Lesa má um hana á vefsetri Þingvallaþjóðgarðsins en eins og þar kemur fram, hefur lítið af munum fundist frá þjóðveldistímanum.

Tá-bagallinn frá Þingvöllum. Smellið til að sjá stærri mynd.
Lögsögumenn gegndu hlutverki nokkurs konar forseta Alþingis á árunum 930-1271, það er frá stofnun þess þar til Gamli sáttmáli (1262) komst í framkvæmd með lögbókinni Járnsíðu. Fram að ritun Hafliðaskrár, árin 1117-8, þurftu lögsögumenn að varðveita lögin í minni og mæla þau af munni fram, þriðjung á hverju þingi en þingsköp árlega. Gátu þeir kallað aðra lögfróða menn sér til fulltingis. Eftir að lög voru rituð héldu lögsögumenn áfram að vera ábyrgir fyrir því að rétt væri farið með lögin og stuðst við réttar lagaskrár. Með tilkomu Járnsíðu færðist vald lögsögumanna í hendur lögmanna eins og lesa má um í svari Ármanns Jakobssonar við spurningunni Hver var æviferill Sturlu Þórðarsonar sagnameistara? Því má segja að lögsögumenn hafi verið einu veraldlegu embættismennirnir á Íslandi á þjóðveldisöld. Heimildir og myndir:
- Íslenska alfræðiorðabókin, Örn og Örlygur, Reykjavík 1990
- Kristján Eldjárn, „Tá-bagall frá Þingvöllum“, Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1970, Reykjavík 1971
- Vefur Alþingis: Kynning og saga. Sótt 18.11.2003.
- Vefur Skálholts: Minjar. Sótt 18.11.2003.
- Þjóðgarðurinn á Þingvöllum. Sótt 18.11.2003.