Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Gyllinæð (e. hemorrhoids) er þrútin bláæð (æðahnútur) í endaþarmi eða endaþarmsopi og finnst sem þykkildi. Bæði er til innri og ytri gyllinæð. Innri gyllinæð er inni í endaþarminum undir þekju endaþarmsopsins. Ef hún rifnar blæðir úr endaþarmsopinu en slíkt gerist iðulega við hægðir. Ytri gyllinæð er í húðinni nálægt endaþarmsopinu og blæðir úr henni ef æðin rofnar.
Gyllinæð (e. hemorrhoids) er þrútin bláæð (æðahnútur) í endaþarmi eða endaþarmsopi og finnst sem þykkildi. Bæði er til innri og ytri gyllinæð.
Blæðing er algengasti fylgikvilli gyllinæðar en önnur einkenni geta verið kláði og sársauki í endaþarmi, fyrirferð eða hnútur í eða við endaþarm, tilfinning um að endaþarmur sé fullur og þörf á losun og í einstaka tilfellum getur myndast blóðtappi úr æðahnútnum.
Gyllinæð er mjög algengur sjúkdómur og er talið að allt að annar hver maður finni fyrir þessum kvilla einhvern tímann á ævinni. Gyllinæð stafar í flestum tilfellum af auknum þrýstingi af völdum áreynslu á meðgöngu eða vegna harðlífis. Fyrir utan ófrískar konur eru helstu áhættuhópar þeir sem eru of þungir, þeir sem standa langtímum saman, þeir sem lyfta oft þungum hlutum og þeir sem hafa fjölskyldusögu um gyllinæð.
Meðferð við gyllinæð fer eftir ástandi hennar. Til eru ýmsar gerðir áburða sem notaðir eru og innihalda þeir gjarnan jurtalyf. Áburðurinn eða kremið er borið á gyllinæðina með bómullarpinna eða sprautað í endaþarminn úr túpu með plaststaut. Kremin kæla og sefa með því að draga úr kláða, þau draga úr bólgum og flýta þannig fyrir gróanda auk þess sem þau auka blóðflæði á svæðið og flýta þannig fyrir viðgerð á vefjum. Enn fremur hafa þau smureiginleika sem auðveldar hægðir.
Stundum þarf skurðaðgerð til að losna við gyllinæð. Tvenns konar skurðaðgerðir eru til. Annars vegar er hefðbundin skurðaðgerð með skurðhnífi og hins vegar skurðaðgerð með leysigeisla. Sjúklingi er annaðhvort gefið róandi lyf og stað- eða mænudeyfing eða hann er svæfður, æðahnúturinn er fjarlægður og þrýstigrisja sett á skurðstað til að draga úr blæðingu.
Smærri æðahnúta er hægt að fjarlægja með því að smeygja litlu teygjubandi utan um botn æðahnútsins. Við þetta deyr vefurinn þar sem blóðflæði í hnútinn er stöðvað. Minni æðahnúta er einnig hægt að fjarlægja með því að sprauta í þá hersluefni sem hefur sambærileg áhrif og teygjan.
Aðeins er mælt með skurðaðgerð við gyllinæð þegar önnur meðferð (trefjaríkt fæði, hægðalosandi lyf, hægðamýkjandi efni, stílar og heit böð) hefur verið fullreynd án þess að þrálátur kláði, blettun frá endaþarmi, sársauki, blóðtappar og sýking hafi horfið að fullu. Skurðaðgerð á gyllinæð getur verið varhugaverð því að hún getur leitt til stjórnlausra hægða, valdið taugaskaða og verið mjög sársaukafull.
Heimildir, myndir og frekari fróðleikur:
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað er gyllinæð og hvernig er hægt að losna við hana?“ Vísindavefurinn, 28. október 2004, sótt 15. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=4582.
Þuríður Þorbjarnardóttir. (2004, 28. október). Hvað er gyllinæð og hvernig er hægt að losna við hana? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=4582
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað er gyllinæð og hvernig er hægt að losna við hana?“ Vísindavefurinn. 28. okt. 2004. Vefsíða. 15. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=4582>.