Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Af hverju þurfum við á mannréttindalögum að halda? Er ekki nóg að hafa lög í hverju landi?

Árni Helgason

Langflestar þjóðir vilja tryggja þegnum sínum ákveðin grundvallarréttindi og hafa því lögleitt mannréttindaákvæði. Mannréttindi takmarka heimildir ríkisvaldsins til íhlutunar í garð borgaranna og veita þannig öryggi og réttindi í samskiptum við hið opinbera. Þau eru þó engin trygging fyrir því að stjórnvöld taki gerræðislegar ákvarðanir og gangi á réttindi þegna sinna eins og misjafn árangur þjóða heims í mannréttindamálum sýnir.

Hugsunin að baki mannréttindum er sú að allir njóti ákveðinna réttinda sem stjórnvöld og aðrir geti ekki gengið á. Sú hugmynd byggir á kenningum um náttúrurétt, það er að allir menn njóti ákveðinna réttinda sem ekki verða frá þeim tekin. Þessar kenningar voru fyrst settar fram í Grikklandi til forna en það var ekki fyrr en á 18. og 19. öld að vestræn ríki tóku að innleiða mannréttindaákvæði í löggjöf sína í kjölfar þess að einveldi var afnumið og borgaraöflin tryggðu sér aukin völd og áhrif.



Mannréttindi í stjórnarskrám á 18. og 19. öld

Í Bandaríkjunum var sérstök mannréttindaskrá samþykkt sem viðauki við stjórnarskrána árið 1791 og í Frakklandi var samþykkt réttindayfirlýsing árið 1789 í kjölfar stjórnarbyltingarinnar. Á 19. öld settu flestar þjóðir Evrópu sér stjórnarskrár að fyrirmynd þeirrar bandarísku og frönsku. Í þessum stjórnarskrám var lögð mest áhersla á að tryggja réttindi borgaranna gagnvart ríkisvaldinu, til dæmis með því að tryggja tjáningarfrelsi og banna ritskoðun, tryggja réttinn til að halda opna fundi og frelsi til að stofna félög, svo eitthvað sé nefnt. Þessi tegund mannréttinda eru stundum kölluð „neikvæð“ mannréttindi, það er þau banna ríkinu að hlutast til um ákveðin málefni borgaranna. Mannréttindahugtakið hefur hins vegar þróast með tímanum og í dag er ekki óalgengt að sjá í stjórnarskrám ákvæði um rétt til menntunar og félagslegrar þjónustu og jafnvel réttindi sem tengjast umhverfisvernd. Þessi tegund mannréttinda eru stundum kölluð „jákvæð“ mannréttindi, það er þau fela ríkisvaldinu ákveðnar skyldur í þágu borgaranna.

Rétthæð mannréttinda

Flestar þjóðir hafa farið þá leið við lögleiðingu mannréttinda að kveða á um þau í stjórnarskrá. Ástæða þess að mannréttindi eru skráð í stjórnarskrá er sú að þannig eru mannréttindaákvæði gerð rétthærri en til dæmis almenn lög. Þetta er raunin hér á landi, þar sem 7. kafli íslensku stjórnarskrárinnar kveður á um þau mannréttindi sem íslenskir þegnar njóta. Lög frá Alþingi verða að standast ákvæði stjórnarskrárinnar og dómstólar geta dæmt lög ómerk ef þeir telja lögin ekki standast mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Í þessu felst sterk réttarvernd mannréttinda enda er erfiðara um vik að breyta stjórnarskránni heldur en almennum lögum.

Ýmis takmörkun á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar er þó heimil. Það á til dæmis við um 71. gr. um friðhelgi einkalífsins, 72. gr. um eignarrétt, 73. gr. um tjáningarfrelsi, 74. gr. um félaga- og fundafrelsi og 75. gr. um atvinnufrelsi svo eitthvað sé nefnt. Stjórnarskráin áskilur hins vegar að slík takmörkun sé gerð með lögum og dómstólar hafa mótað í dómum ákveðnar viðmiðunarreglur þegar metið er hvort takmörkunin uppfylli skilyrði stjórnarskrárinnar, til dæmis hvort hún byggi á jafnræðissjónarmiðum og hvort gengið sé lengra en þörf sé á.

Alþjóðlegir mannréttindasáttmálar

Ýmsir alþjóðlegir sáttmálar um mannréttindi hafa verið samþykktir. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna var samþykkt mannréttindayfirlýsing árið 1948 og í kjölfarið voru gerðir tveir alþjóðasáttmálar á vegum SÞ, annars vegar um borgaraleg og stjórnmálaleg mannréttindi og hins vegar um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi sem margar þjóðir hafa staðfest. Á vettvangi Evrópuráðsins hafa einnig verið samþykktir mannréttindasáttmálar, til dæmis Mannréttindasáttmáli Evrópu og Félagsmálasáttmáli Evrópu. Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur haft mikil áhrif á mannréttindalöggjöf aðildarríkjanna. Mannréttindadómstóll Evrópu dæmir hvort ríki hafi gerst brotleg við sáttmálann og tekur árlega til meðferðar gríðarlegan fjölda mála. Eftirlitskerfi með mannréttindasáttmálum Sameinuðu þjóðanna er veikara en eftirlitsnefndir eru starfræktar og fylgjast með því hvort aðildarríki uppfylli skyldur sínar.

Þótt fjöldi þjóða um heim allan hafi undirritað og staðfest alþjóðlega mannréttindasáttmála er ekki þar með sagt að gildi þeirra í hverju ríki sé ótvírætt. Þegar alþjóðasáttmáli er staðfestur myndast þjóðréttarleg skuldbinding af hálfu ríkisins að fara eftir ákvæðum sáttmálans en það er engu að síður undir hverri og einni þjóð komið hvort hún veitir ákvæðum sáttmálans lagagildi eða tekur þau upp í stjórnarskrá. Eftirlitskerfi slíkra sáttmála eru veik og það er undir hverri þjóð komið að hve miklu leyti hún vill undirgangast lögsögu alþjóðlegra eftirlitsnefnda og dómstóla. Alþjóðlegar skuldbindingar ríkja í mannréttindamálum skila sér því ekki alltaf í landsrétt heima fyrir.

Þeim sem vilja fylgjast með stöðu mannréttindamála í heiminum er bent á síðurnar Human Rights Watch og Amnesty International.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimild:
  • Stjórnskipunarréttur. Gunnar G. Schram. Háskólaútgáfan. 1997. Reykjavík. Bls. 449-457.

Mynd:

Höfundur

lögfræðingur

Útgáfudagur

3.9.2009

Spyrjandi

Linda Skarphéðinsdóttir

Tilvísun

Árni Helgason. „Af hverju þurfum við á mannréttindalögum að halda? Er ekki nóg að hafa lög í hverju landi? “ Vísindavefurinn, 3. september 2009. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=47902.

Árni Helgason. (2009, 3. september). Af hverju þurfum við á mannréttindalögum að halda? Er ekki nóg að hafa lög í hverju landi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=47902

Árni Helgason. „Af hverju þurfum við á mannréttindalögum að halda? Er ekki nóg að hafa lög í hverju landi? “ Vísindavefurinn. 3. sep. 2009. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=47902>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju þurfum við á mannréttindalögum að halda? Er ekki nóg að hafa lög í hverju landi?
Langflestar þjóðir vilja tryggja þegnum sínum ákveðin grundvallarréttindi og hafa því lögleitt mannréttindaákvæði. Mannréttindi takmarka heimildir ríkisvaldsins til íhlutunar í garð borgaranna og veita þannig öryggi og réttindi í samskiptum við hið opinbera. Þau eru þó engin trygging fyrir því að stjórnvöld taki gerræðislegar ákvarðanir og gangi á réttindi þegna sinna eins og misjafn árangur þjóða heims í mannréttindamálum sýnir.

Hugsunin að baki mannréttindum er sú að allir njóti ákveðinna réttinda sem stjórnvöld og aðrir geti ekki gengið á. Sú hugmynd byggir á kenningum um náttúrurétt, það er að allir menn njóti ákveðinna réttinda sem ekki verða frá þeim tekin. Þessar kenningar voru fyrst settar fram í Grikklandi til forna en það var ekki fyrr en á 18. og 19. öld að vestræn ríki tóku að innleiða mannréttindaákvæði í löggjöf sína í kjölfar þess að einveldi var afnumið og borgaraöflin tryggðu sér aukin völd og áhrif.



Mannréttindi í stjórnarskrám á 18. og 19. öld

Í Bandaríkjunum var sérstök mannréttindaskrá samþykkt sem viðauki við stjórnarskrána árið 1791 og í Frakklandi var samþykkt réttindayfirlýsing árið 1789 í kjölfar stjórnarbyltingarinnar. Á 19. öld settu flestar þjóðir Evrópu sér stjórnarskrár að fyrirmynd þeirrar bandarísku og frönsku. Í þessum stjórnarskrám var lögð mest áhersla á að tryggja réttindi borgaranna gagnvart ríkisvaldinu, til dæmis með því að tryggja tjáningarfrelsi og banna ritskoðun, tryggja réttinn til að halda opna fundi og frelsi til að stofna félög, svo eitthvað sé nefnt. Þessi tegund mannréttinda eru stundum kölluð „neikvæð“ mannréttindi, það er þau banna ríkinu að hlutast til um ákveðin málefni borgaranna. Mannréttindahugtakið hefur hins vegar þróast með tímanum og í dag er ekki óalgengt að sjá í stjórnarskrám ákvæði um rétt til menntunar og félagslegrar þjónustu og jafnvel réttindi sem tengjast umhverfisvernd. Þessi tegund mannréttinda eru stundum kölluð „jákvæð“ mannréttindi, það er þau fela ríkisvaldinu ákveðnar skyldur í þágu borgaranna.

Rétthæð mannréttinda

Flestar þjóðir hafa farið þá leið við lögleiðingu mannréttinda að kveða á um þau í stjórnarskrá. Ástæða þess að mannréttindi eru skráð í stjórnarskrá er sú að þannig eru mannréttindaákvæði gerð rétthærri en til dæmis almenn lög. Þetta er raunin hér á landi, þar sem 7. kafli íslensku stjórnarskrárinnar kveður á um þau mannréttindi sem íslenskir þegnar njóta. Lög frá Alþingi verða að standast ákvæði stjórnarskrárinnar og dómstólar geta dæmt lög ómerk ef þeir telja lögin ekki standast mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Í þessu felst sterk réttarvernd mannréttinda enda er erfiðara um vik að breyta stjórnarskránni heldur en almennum lögum.

Ýmis takmörkun á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar er þó heimil. Það á til dæmis við um 71. gr. um friðhelgi einkalífsins, 72. gr. um eignarrétt, 73. gr. um tjáningarfrelsi, 74. gr. um félaga- og fundafrelsi og 75. gr. um atvinnufrelsi svo eitthvað sé nefnt. Stjórnarskráin áskilur hins vegar að slík takmörkun sé gerð með lögum og dómstólar hafa mótað í dómum ákveðnar viðmiðunarreglur þegar metið er hvort takmörkunin uppfylli skilyrði stjórnarskrárinnar, til dæmis hvort hún byggi á jafnræðissjónarmiðum og hvort gengið sé lengra en þörf sé á.

Alþjóðlegir mannréttindasáttmálar

Ýmsir alþjóðlegir sáttmálar um mannréttindi hafa verið samþykktir. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna var samþykkt mannréttindayfirlýsing árið 1948 og í kjölfarið voru gerðir tveir alþjóðasáttmálar á vegum SÞ, annars vegar um borgaraleg og stjórnmálaleg mannréttindi og hins vegar um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi sem margar þjóðir hafa staðfest. Á vettvangi Evrópuráðsins hafa einnig verið samþykktir mannréttindasáttmálar, til dæmis Mannréttindasáttmáli Evrópu og Félagsmálasáttmáli Evrópu. Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur haft mikil áhrif á mannréttindalöggjöf aðildarríkjanna. Mannréttindadómstóll Evrópu dæmir hvort ríki hafi gerst brotleg við sáttmálann og tekur árlega til meðferðar gríðarlegan fjölda mála. Eftirlitskerfi með mannréttindasáttmálum Sameinuðu þjóðanna er veikara en eftirlitsnefndir eru starfræktar og fylgjast með því hvort aðildarríki uppfylli skyldur sínar.

Þótt fjöldi þjóða um heim allan hafi undirritað og staðfest alþjóðlega mannréttindasáttmála er ekki þar með sagt að gildi þeirra í hverju ríki sé ótvírætt. Þegar alþjóðasáttmáli er staðfestur myndast þjóðréttarleg skuldbinding af hálfu ríkisins að fara eftir ákvæðum sáttmálans en það er engu að síður undir hverri og einni þjóð komið hvort hún veitir ákvæðum sáttmálans lagagildi eða tekur þau upp í stjórnarskrá. Eftirlitskerfi slíkra sáttmála eru veik og það er undir hverri þjóð komið að hve miklu leyti hún vill undirgangast lögsögu alþjóðlegra eftirlitsnefnda og dómstóla. Alþjóðlegar skuldbindingar ríkja í mannréttindamálum skila sér því ekki alltaf í landsrétt heima fyrir.

Þeim sem vilja fylgjast með stöðu mannréttindamála í heiminum er bent á síðurnar Human Rights Watch og Amnesty International.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimild:
  • Stjórnskipunarréttur. Gunnar G. Schram. Háskólaútgáfan. 1997. Reykjavík. Bls. 449-457.

Mynd:...