Sólin Sólin Rís 08:10 • sest 18:17 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:36 • Sest 24:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:11 • Síðdegis: 14:02 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:23 • Síðdegis: 20:39 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:10 • sest 18:17 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:36 • Sest 24:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:11 • Síðdegis: 14:02 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:23 • Síðdegis: 20:39 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Getið þið sagt mér allt um aðlögun og vistfræðilega stöðu áttfætlna hér á landi?

Gróa Valgerður Ingimundardóttir

Áttfætlur hér á landi (Arachnida) tilheyra fjórum ættbálkum: Ættbálki köngulóa (Araneae), langfætlna (Opiliones), áttfætlumaura (Acari) og dreka (Pseudoscorpiones). Vistfræðilegur sess þeirra er mjög mismunandi milli hópa og tegunda en þær hafa lagað sig að margvíslegum búsvæðum.

Köngulær (Araneae)

Köngulær eru rándýr sem í flestum tilvikum spinna veiðarfæri sín úr silki en einhverjar tegundir beita þó þeirri aðferð að grípa bráðina. Allar köngulær, hvort sem þær spinna vef eða ekki, drepa hins vegar bráðina með eitri.


Tegenaria saeva er stærsta könguló á Íslandi

Hér á landi hafa fundist í kringum 100 tegundir köngulóa. Að minnsta kosti sjö þeirra eru háðar manninum þar sem þær búa ýmist í eða við íbúðar-, úti- eða gróðurhús. Aðrar virðast kjósa hlýrri sveitir landsins fremur en kaldari á meðan enn aðrar virðast þola óblítt veðurfar betur og finnast því helst á hálendinu eða hátt til fjalla. Jafnframt eru til nokkrar tegundir sem kjósa fjörur til búsetu og þurfa því að loka sig í holu í hvert sinn sem flæðir að. Hérlendis er ein tegund, laugaköngulóin (Pirata piraticus), sem lifir við laugar og hleypur meðal annars á yfirborði vatnsins og stingur sér jafnvel á kaf.

Langfætlur (Opiliones)

Langfætlur eru í raun alætur þó ránlífi sé þeirra helsta leið. Veiðiaðferðir þeirra eru ef til vill ekki eins háþróaðar og hjá köngulóm, en þær fanga bráðina með ógnarlöngum löppum sínum og glefsa svo í hana þar til hún drepst.

Almennt sækja langfætlur í raka og skugga, en þær eru viðkvæmar fyrir þurrki og þurfa að drekka drjúgt þar sem þurrt er. Langfætlur þurfa að þola talsvert afrán og hafa meðal annars aðlagast því með því að gefa frá sér illa lyktandi vökva er þær verða fyrir áreiti. Flestar geta þær einnig fellt útlimi ef því er að skipta. Ólíkt öðrum áttfætlum geta þær þó ekki endurmyndað glataða útlimi við hamskipti. Langfætlur verpa að hausti í svörð eða undir steina í röku umhverfi og eggin liggja í dvala yfir vetrarmánuðina.

Hér á landi finnast fjórar tegundir langfætlna en aðeins ein þeirra, langleggur (Mitopus morio), er algeng um land allt og virðist lítt vandlát á búsvæði. Hinar tegundirnar þrjár virðast bundnar við syðri hluta landsins og er talið líklegt að þær séu tiltölulega nýlega komnar til landsins. Langleggurinn er hins vegar talinn hafa verið hér síðan fyrir landnám.


Langleggur Mitopus morio

Áttfætlumaurar (Acari)

Áttfætlumaurar hafa mjög fjölbreytilega lífshætti. Meðal þeirra má finna bæði rándýr og sníkjudýr, en þetta er hópur sem leggur sér flest til munns til dæmis húðflögur, sveppi, gróðurleifar, blóð, önnur smádýr, þörunga og plöntusafa svo fátt eitt sé nefnt. Útlit þeirra er töluvert breytilegt eftir lífsháttum, til að mynda eru margir ekki ósvipaðir langfætlum í sköpulagi, það er að segja með kúlulaga búk og langa ganglimi. Aðrir eru hins vegar mjóir og með mjög stutta fætur. Áttfætlumaurar hafa aðlagast lífi í söltu sem ósöltu vatni auk þess að búa á margvíslegum þurrlendisbúsvæðum, en þeir finnast bæði í jarðvegi og rúmum manna og allsstaðar þar á milli.

Hér á landi má finna fjölda tegunda áttfætlumaura. Sumar tegundir lifa í fjörum, aðrar lifa á sveppum í þurrheyi eða nærast með því að sjúga safa úr grasi. Spunamaurinn leggst á ýmsar plöntutegundir, lundalúsin sýgur blóð, kláðamaurinn grefur göng í húð manna, rykmaurar éta húðflögur og sveppi í híbýlum okkar og fjöldi tegunda ýmist stundar ránlífi eða étur gróður eða gróðurleifar, í jarðvegi eða neðan vatnsyfirborðs.

Í jarðvegi eru hinir svokölluðu brynjumaurar (Oribatei) einna algengastir, en hér á landi eru þekktar um 90 tegundir. Þeir eru oftast dökkir með þykka skel og eru allir jurta- eða grotætur. Brynjumaurar eru viðkvæmir fyrir öllum hita- og rakastigsbreytingum, en hafa þó kost á því að færa sig til í jarðveginum til að verjast þeim.


Brynjumaur (Oribatei)

Drekar (Pseudoscorpiones)

Drekar eru rándýr og ýmist elta uppi eða sitja fyrir bráð sinni og lama hana yfirleitt með eitri. Hér á landi hafa aðeins fundist tvær tegundir dreka, húsadreki (Chelifer cancroides) og mosadreki (Neobisium carcinoides).


Húsadreki (Chelifer cancroides)

Líklegt er talið að mosadrekinn verpi eggjum að hausti og að lirfur hans liggi í dvala á einhverju stigi yfir veturinn. Líklega kemur hann aðeins upp einni kynslóð á ári þó þær geti verið fleiri við hlýrri skilyrði en eru til staðar hér á landi. Húsadrekinn er ekki eins viðkvæmur fyrir árstíðum þar sem hann er nánast eingöngu að finna í mannabústöðum. Mosadreki kýs hins vegar graslendi syðst á landinu, í Mýrdalnum, undir Eyjafjöllum og í Vestmannaeyjum.

Nánari upplýsingar má finna í svörum Vísindavefsins við spurningunum:

Heimildir:

  • Árni Einarsson. 1989. Áttfætlur. Pöddur. Skordýr og áttfætlur, bls. 81-100. Ritstj. Hrefna Sigurjónsdóttir og Árni Einarsson. Rit Landverndar 9. Landvernd, Reykjavík.
  • Högni Böðvarsson. 1989. Jarðvegsdýr. Pöddur. Skordýr og áttfætlur, bls. 101-111. Ritstj. Hrefna Sigurjónsdóttir og Árni Einarsson. Rit Landverndar 9. Landvernd, Reykjavík.
  • Ingi Agnarsson. 1996. Íslenskar Köngulær. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar: 31. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík.
  • Ingi Agnarsson. 1998. Íslenskar langfætlur og drekar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar: 35. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík.
  • Sigurður H. Richter. 1989. Meindýr í heimahúsum. Pöddur. Skordýr og áttfætlur, bls. 139-170. Ritstj. Hrefna Sigurjónsdóttir og Árni Einarsson. Rit Landverndar 9. Landvernd, Reykjavík.

Myndir:

Höfundur

Útgáfudagur

26.10.2005

Spyrjandi

Þóra Helgadóttir
Aðalheiður Rögnvaldsdóttir

Tilvísun

Gróa Valgerður Ingimundardóttir. „Getið þið sagt mér allt um aðlögun og vistfræðilega stöðu áttfætlna hér á landi?“ Vísindavefurinn, 26. október 2005, sótt 12. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5355.

Gróa Valgerður Ingimundardóttir. (2005, 26. október). Getið þið sagt mér allt um aðlögun og vistfræðilega stöðu áttfætlna hér á landi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5355

Gróa Valgerður Ingimundardóttir. „Getið þið sagt mér allt um aðlögun og vistfræðilega stöðu áttfætlna hér á landi?“ Vísindavefurinn. 26. okt. 2005. Vefsíða. 12. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5355>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Getið þið sagt mér allt um aðlögun og vistfræðilega stöðu áttfætlna hér á landi?
Áttfætlur hér á landi (Arachnida) tilheyra fjórum ættbálkum: Ættbálki köngulóa (Araneae), langfætlna (Opiliones), áttfætlumaura (Acari) og dreka (Pseudoscorpiones). Vistfræðilegur sess þeirra er mjög mismunandi milli hópa og tegunda en þær hafa lagað sig að margvíslegum búsvæðum.

Köngulær (Araneae)

Köngulær eru rándýr sem í flestum tilvikum spinna veiðarfæri sín úr silki en einhverjar tegundir beita þó þeirri aðferð að grípa bráðina. Allar köngulær, hvort sem þær spinna vef eða ekki, drepa hins vegar bráðina með eitri.


Tegenaria saeva er stærsta könguló á Íslandi

Hér á landi hafa fundist í kringum 100 tegundir köngulóa. Að minnsta kosti sjö þeirra eru háðar manninum þar sem þær búa ýmist í eða við íbúðar-, úti- eða gróðurhús. Aðrar virðast kjósa hlýrri sveitir landsins fremur en kaldari á meðan enn aðrar virðast þola óblítt veðurfar betur og finnast því helst á hálendinu eða hátt til fjalla. Jafnframt eru til nokkrar tegundir sem kjósa fjörur til búsetu og þurfa því að loka sig í holu í hvert sinn sem flæðir að. Hérlendis er ein tegund, laugaköngulóin (Pirata piraticus), sem lifir við laugar og hleypur meðal annars á yfirborði vatnsins og stingur sér jafnvel á kaf.

Langfætlur (Opiliones)

Langfætlur eru í raun alætur þó ránlífi sé þeirra helsta leið. Veiðiaðferðir þeirra eru ef til vill ekki eins háþróaðar og hjá köngulóm, en þær fanga bráðina með ógnarlöngum löppum sínum og glefsa svo í hana þar til hún drepst.

Almennt sækja langfætlur í raka og skugga, en þær eru viðkvæmar fyrir þurrki og þurfa að drekka drjúgt þar sem þurrt er. Langfætlur þurfa að þola talsvert afrán og hafa meðal annars aðlagast því með því að gefa frá sér illa lyktandi vökva er þær verða fyrir áreiti. Flestar geta þær einnig fellt útlimi ef því er að skipta. Ólíkt öðrum áttfætlum geta þær þó ekki endurmyndað glataða útlimi við hamskipti. Langfætlur verpa að hausti í svörð eða undir steina í röku umhverfi og eggin liggja í dvala yfir vetrarmánuðina.

Hér á landi finnast fjórar tegundir langfætlna en aðeins ein þeirra, langleggur (Mitopus morio), er algeng um land allt og virðist lítt vandlát á búsvæði. Hinar tegundirnar þrjár virðast bundnar við syðri hluta landsins og er talið líklegt að þær séu tiltölulega nýlega komnar til landsins. Langleggurinn er hins vegar talinn hafa verið hér síðan fyrir landnám.


Langleggur Mitopus morio

Áttfætlumaurar (Acari)

Áttfætlumaurar hafa mjög fjölbreytilega lífshætti. Meðal þeirra má finna bæði rándýr og sníkjudýr, en þetta er hópur sem leggur sér flest til munns til dæmis húðflögur, sveppi, gróðurleifar, blóð, önnur smádýr, þörunga og plöntusafa svo fátt eitt sé nefnt. Útlit þeirra er töluvert breytilegt eftir lífsháttum, til að mynda eru margir ekki ósvipaðir langfætlum í sköpulagi, það er að segja með kúlulaga búk og langa ganglimi. Aðrir eru hins vegar mjóir og með mjög stutta fætur. Áttfætlumaurar hafa aðlagast lífi í söltu sem ósöltu vatni auk þess að búa á margvíslegum þurrlendisbúsvæðum, en þeir finnast bæði í jarðvegi og rúmum manna og allsstaðar þar á milli.

Hér á landi má finna fjölda tegunda áttfætlumaura. Sumar tegundir lifa í fjörum, aðrar lifa á sveppum í þurrheyi eða nærast með því að sjúga safa úr grasi. Spunamaurinn leggst á ýmsar plöntutegundir, lundalúsin sýgur blóð, kláðamaurinn grefur göng í húð manna, rykmaurar éta húðflögur og sveppi í híbýlum okkar og fjöldi tegunda ýmist stundar ránlífi eða étur gróður eða gróðurleifar, í jarðvegi eða neðan vatnsyfirborðs.

Í jarðvegi eru hinir svokölluðu brynjumaurar (Oribatei) einna algengastir, en hér á landi eru þekktar um 90 tegundir. Þeir eru oftast dökkir með þykka skel og eru allir jurta- eða grotætur. Brynjumaurar eru viðkvæmir fyrir öllum hita- og rakastigsbreytingum, en hafa þó kost á því að færa sig til í jarðveginum til að verjast þeim.


Brynjumaur (Oribatei)

Drekar (Pseudoscorpiones)

Drekar eru rándýr og ýmist elta uppi eða sitja fyrir bráð sinni og lama hana yfirleitt með eitri. Hér á landi hafa aðeins fundist tvær tegundir dreka, húsadreki (Chelifer cancroides) og mosadreki (Neobisium carcinoides).


Húsadreki (Chelifer cancroides)

Líklegt er talið að mosadrekinn verpi eggjum að hausti og að lirfur hans liggi í dvala á einhverju stigi yfir veturinn. Líklega kemur hann aðeins upp einni kynslóð á ári þó þær geti verið fleiri við hlýrri skilyrði en eru til staðar hér á landi. Húsadrekinn er ekki eins viðkvæmur fyrir árstíðum þar sem hann er nánast eingöngu að finna í mannabústöðum. Mosadreki kýs hins vegar graslendi syðst á landinu, í Mýrdalnum, undir Eyjafjöllum og í Vestmannaeyjum.

Nánari upplýsingar má finna í svörum Vísindavefsins við spurningunum:

Heimildir:

  • Árni Einarsson. 1989. Áttfætlur. Pöddur. Skordýr og áttfætlur, bls. 81-100. Ritstj. Hrefna Sigurjónsdóttir og Árni Einarsson. Rit Landverndar 9. Landvernd, Reykjavík.
  • Högni Böðvarsson. 1989. Jarðvegsdýr. Pöddur. Skordýr og áttfætlur, bls. 101-111. Ritstj. Hrefna Sigurjónsdóttir og Árni Einarsson. Rit Landverndar 9. Landvernd, Reykjavík.
  • Ingi Agnarsson. 1996. Íslenskar Köngulær. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar: 31. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík.
  • Ingi Agnarsson. 1998. Íslenskar langfætlur og drekar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar: 35. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík.
  • Sigurður H. Richter. 1989. Meindýr í heimahúsum. Pöddur. Skordýr og áttfætlur, bls. 139-170. Ritstj. Hrefna Sigurjónsdóttir og Árni Einarsson. Rit Landverndar 9. Landvernd, Reykjavík.

Myndir:

...