Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Nafn Rogers Bacon (1214–1292) ber oftast á góma í sömu andrá og nöfn heimspekinga og vísindamanna frá Bretlandseyjum sem áttu þátt í að skapa þá vísindalegu aðferðafræði sem við þekkjum í nútímanum. Hann og nafni hans Francis Bacon (1561-1626) eru þá gjarnan nefndir sem nokkurs konar andlegir feður þeirrar þekkingarfræðilegu byltingar sem John Locke (1632-1704) og Isaac Newton (1642-1727) áttu mestan þátt í að hrinda af stað á sautjándu öld. Enn er Roger Bacon lýst í mörgum ritum sem tilraunavísindamanni sem einn barðist gegn hundurvitnum guðfræðinga og frumspekinga á hinum myrku miðöldum. Sú mynd af honum sem dregin var upp á nítjándu öld af höfundum sem vildu gera sem mest úr samfellu í vísindalegri hugsun öðru meginn Ermasunds er þó fremur ónákvæm.
Roger Bacon bæði lærði og kenndi við háskólann í Oxford. Styttu af honum er að finna á náttúrufræðisafni skólans (Oxford University Museum of Natural History).
Í fyrsta lagi eru heimildir um ævi og störf Bacon gloppóttar og ekki að undra að fræðimenn hafi leyft sér að geta í eyðurnar. Jafnvel fæðingar- og dánarár er ekki hafið yfir vafa. Hann var munkur af reglu fransiskana sem lærði í Oxford þar sem hann kenndi um hríð. Bacon kenndi einnig í París og má segja að hann hafi haft töluverð áhrif á skólastarf á báðum stöðum. Þótt ljóst sé að hann hafi átt í útistöðum við reglubræður, og þá sérstaklega yfirmenn fransiskana, er ekki þar með hægt að draga þá ályktun að ágreiningurinn hafi átt sér rætur í ólíkum hugmyndum um eðli, tilurð og takmarkanir vísindalegrar þekkingar. Flestar deilur sem Bacon átti í um ævina virðast hafa snúist um guðfræðilegar vangaveltur og hegðun innan reglu sinnar en heimildum ber saman um að Bacon hafi gert miklar kröfur til sjálfs síns og annarra í siðferðisefnum.
Umfjöllun um framlag Rogers Bacon til vísindanna litast óhjákvæmilega af því hvernig sjónarhorn samtímans byggist ávallt á merkmiðum og aðgreiningu sem fellur illa að rannsóknarefninu. Verk Bacons virka þannig á nútímalesendur sem furðuleg blanda af guðfræði, dulspeki, frumspeki og tilraunavísindum. Ef frá eru skilin afmörkuð rannsóknarefni eins og ljósfræði, þar sem vissulega má líta á hann sem frumkvöðul, má lýsa hugsun hans sem tilraun til að endurvekja og sameina forna þræði þekkingar. Þessa þræði sótti hann til Forngrikkja, Egypta og menntaheims íslams og var tilgáta hans að kristnum hugsuðum myndi fyrir forsjón Guðs öðlast að ljúka því ágæta verki sem svo margir heiðnir hugsuðir höfðu byrjað á.
Roger Bacon, mynd frá 15. öld.
Af framansögðu má sjá að það er erfitt að sjá Bacon fyrir sér þannig að hann hafi sérstaka tengingu við þann hóp sem breytti heimspeki og vísindum á sautjándu öld og á fyrri hluta þeirrar átjándu. Hann var fyrst og fremst miðaldaheimspekingur og þátttakandi í þeim heimspekilegu umbrotum sem áttu sér stað á seinni hluta þrettándu aldar. Í því ljósi er hann ákaflega áhugaverður heimspekingur sem átti sinn þátt í því að skapa þann jarðveg sem endurreisnin sótti efnivið sinn í og óþarft að teygja áhrif hans um of inn í nútímann.
Þrjú atriði tryggja stöðu hans í sögu vestrænnar hugsunar. Í fyrsta lagi sá hann fyrir sér hvernig mætti hagnýta vísindi, meðal annars til að þróa nýstárleg farartæki sem gætu ferðast bæði á jörðu og í lofti og gengju fyrir eigin afli. Í öðru lagi þá á hann mikilsvert framlag til afmarkaðra rannsóknarefna eins og ljósfræði. Þótt hugsun hans hafi verið aristótelísk í grunninn átti hann það til að hamra á mikilvægi stærðfræði á kostnað frumspekilegra hugtaka og eru ljósfræðirannsóknir hans dæmi um hvernig hann færir rannsóknir á ákveðnu viðfangsefni á þær slóðir sem þær eru enn í dag.
Að lokum er vert að nefna hversu laginn Bacon var að sjá hvað gæti heft framrás þekkingarinnar. Dæmi um það er hvernig hann varar við því að treyst sé í blindi á orð fræðimanna sem enn eru starfandi. Sérstaklega taldi hann sig sjá dæmi um orðskrúð og yfirborðslega framsetning sem var lítt til þess fallin að stuðla að réttnefndri þekkingu hjá samtímamönnum sínum. Honum sannarlega leiddist allt nafnatog. Hann varaði einnig við því að viðteknar skoðanir væru teknar sem mælikvarði alls því þær styddu oftar en ekki við fordóma og því voru hefðarrök honum ekki að skapi. Hefði Bacon sjálfur farið eftir ofangreindum leiðbeiningum í einu og öllu hefði hann kannski átt skilið þann stall í hugmyndasögunni sem margir hafa viljað setja hann á. Það er þó engum blöðum að fletta að hann er einn merkasti hugsuður síðmiðalda og á heima í flokki með Tómasi af Aquino (1225-1274) og Vilhjálmi af Ockham (1285-1345) svo einhverjir séu nefndir.
Myndir:
Henry Alexander Henrysson. „Hver var Roger Bacon og hvert var framlag hans til vísindanna?“ Vísindavefurinn, 28. janúar 2016, sótt 6. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=57500.
Henry Alexander Henrysson. (2016, 28. janúar). Hver var Roger Bacon og hvert var framlag hans til vísindanna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=57500
Henry Alexander Henrysson. „Hver var Roger Bacon og hvert var framlag hans til vísindanna?“ Vísindavefurinn. 28. jan. 2016. Vefsíða. 6. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=57500>.