Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Meira en 300 ár liðu frá því að Ingólfur Arnarsonsteig hér á land árið 874 og þar til fyrsta nunnuklaustrið var stofnað á Íslandi. Samt sem áður greina ýmsar heimildir frá þessu tímabili frá konum, oft ekkjum, sem kusu að helga sig kristinni trú og bænahaldi, stundum eftir stormasama ævi. Þannig segir Laxdæla að Guðrún Ósvífursdóttir á Helgafelli hafi á efri árum orðið fyrsta nunna og einsetukona á Íslandi. Guðríður Þorbjarnardóttir á líka samkvæmt Grænlendinga sögu að hafa ferðast bæði til Nýfundnalands og Rómar, meðan einkasonurinn Snorri byggði henni kirkju í Glaumbæ í Skagafirði þar sem hún varð síðan „nunna og einsetukona“ eins og Guðríður.
Hólakirkja. Myndin er birt með góðfúslegu leyfi Jóhanns Ísberg.
Sagt er að í biskupstíð Jóns helga (1106-1121) hafi karlar og konur flykkst að Hólum til að hlusta á kenningar hans og tíðagerð, og sumir byggðu sér lítil hús kringum kirkjugarðinn. Hildur hét ung kona þar á staðnum og bað hún Jón biskup að vígja sig til nunnu og byggja sér kofa áfastan dómkirkjunni þar sem hún gæti fylgst með guðsþjónustum. Fyrirmyndin kom frá Bretlandseyjum. Þegar hann færðist undan hljóp hún í nálægan eyðidal þar sem hún lifði á berjum og lindarvatni þangað til hún fékk óskir sínar uppfylltar. Lifði hún í kofa sínum til hárrar elli og þjónaði guði nótt og dag með föstum, vökum og bænahaldi. Lýsing hennar er „heildstæðasta helgisagan um íslenska konu“ (Ásdís Egilsdóttir, 1996).
Árið 1145 þegar eftirmaður Jóns, Ketill Þorsteinsson, féll frá gerðist ekkja hans, Gróa Gissurardóttir, einsetukona í Skálholti, enda biskupsdóttir þaðan. Undir 1200 fékk svo einsetukonan Úlfrún við Þingeyraklaustur skilaboð frá Maríu mey um að Guðmundur, nefndur hinn góði, skyldi verða næsti biskup á Hólum og gekk það eftir.
Eftir að kvennaklaustrin tóku til starfa varð nunnutitillinn bundinn við konur sem þar höfðu menntast og unnið sín heit.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Grunnheimild um íslensku nunnuklaustrin er rit Önnu Sigurðardóttur: Allt hafði annan róm áður í páfadóm. Kvennasögusafn Íslands, 1988.
Íslenskt samfélag og Rómarkirkja. Kristni á Íslandi, II. Aðalhöf. Gunnar F. Guðmundsson, myndritstj. Guðbjörg Kristjánsd., meðhöf. Ásdís Egilsdóttir og Inga Huld Hákonardóttir. Ritstj. Hjalti Hugason. Alþingi, 2000, sjá bls. 212-245 og víðar.
Ásdís Egilsdóttir: „Kvendýrlingar og kvenímynd trúarlegra bókmennta á Íslandi“ í greinasafninu Konur og kristsmenn: Þættir úr kristnisögu Íslands. Ritstj. Inga Huld Hákonardóttir. Háskólaútgáfan, 1996, sjá bls. 91-116.
Elsa E. Guðjónsson: „Með silfurbjarta nál. Um kirkjuleg útsaumsverk íslenskra kvenna í kaþólskum og lútherskum sið“ í greinasafninu Konur og kristsmenn: Þættir úr kristnisögu Íslands. Ritstj. Inga Huld Hákonardóttir. Háskólaútgáfan, 1996, sjá bls.119-162.
Svanhildur Óskarsdóttir: „Universal history in fourteenth-century of Iceland: Studies in AM 764 4to.“ University of London, 2000. [Óbirt doktorsritgerð]. Sjá kynningu á niðurstöðum hennar í Mediaeval Scandiavia 14 (2004), 185-194.
Síðast en ekki síst er Hið íslenska fornritafélag að gefa út biskupasögur miðalda í nýju og glæsilegu formi, undir stjórn færustu fræðimanna og ekki síður kvenna. Dreifingu annast Hið íslenska bókmenntafélag.
Inga Huld Hákonardóttir. „Hvað getið þið sagt mér um fyrstu nunnurnar á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 25. apríl 2006, sótt 11. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5838.
Inga Huld Hákonardóttir. (2006, 25. apríl). Hvað getið þið sagt mér um fyrstu nunnurnar á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5838
Inga Huld Hákonardóttir. „Hvað getið þið sagt mér um fyrstu nunnurnar á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 25. apr. 2006. Vefsíða. 11. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5838>.