Sólin Sólin Rís 05:55 • sest 21:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:43 • Sest 00:25 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:11 • Síðdegis: 20:26 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:08 • Síðdegis: 14:17 í Reykjavík

Af hverju urðu Nonna- og Mannabækurnar svona vinsælar?

Helga Birgisdóttir

Jón Sveinsson fæddist árið 1857 og ólst upp á Möðruvöllum í Hörgárdal. Hann missti föður sinn vorið 1869 en þá um haustið bauðst drengnum að fara til náms í Frakklandi. Út fór hinn ungi Jón og dvaldi eitt ár í Danmörku, tók kaþólska trú og hélt síðan til Frakklands til náms í jesúítaskóla. Hann gerðist jesúíti og kenndi í 25 ár við jesúítaskóla rétt utan Kaupmannahafnar. Þegar hann hætti að kenna byrjaði hann að skrifa og árið 1913 kom út fyrsta Nonnabókin, Nonni. Hann skrifaði 11 bækur til viðbótar og sú síðasta kom út stuttu eftir að hann lést árið 1944.

Nonnabækurnar fjalla um bernsku Jóns Sveinssonar og ferðalög hans, bæði á æsku- og fullorðinsárum. Jón Sveinsson kom aðeins tvisvar „heim“ eftir að hann yfirgaf Ísland og þá sem gestur og fullorðinn maður. Bækurnar um æsku sína á Íslandi skrifaði Jón Sveinsson sem Íslendingur í útlöndum, heimsborgari og jesúítaprestur. Hann skrifaði bækurnar 40-45 árum eftir að atburðirnir sem hann segir frá áttu sér stað.

Nonnabækurnar eru skrifaðar á þýsku en hafa verið þýddar á um 40 tungumál og selst í sex milljónum eintaka. Þar fyrir utan flutti Jón Sveinsson meira en 4000 fyrirlestra um æskuævintýrin. Það er óhætt að segja að Jón Sveinsson var langþekktasti listamaður Íslendinga erlendis á fyrri hluta tuttugustu aldar.

Eins og Silja Aðalsteinsdóttir bendir á í Íslenskar barnabækur 1870-1979 (1981) eru Nonnabækurnar „vel skrifaðar, fullar af bráðlifandi umhverfis- og mannlýsingum og segja skemmtilega frá æsilegum atburðum“ (111) en það sem skiptir mestu máli er að Jón Sveinsson segir frá þeirri æsku sem allir vildu óska að þeir hefðu átt og barninu sem allir vildu hafa verið. Nonni er heillandi drengur. Hann er kátur, heiðarlegur, trúrækinn og snjall auk þess að vera hugrakkur og ráðagóður. Hann nýtur sjálfstæðis og frelsis, gerir allt hvað hann vill og lendir í hverju ævintýrinu á fætur öðru.

Í Nonnabókunum er Ísland heillandi og hættuleg paradís. Jón Sveinsson leggur áherslu á hina villtu, frjálsu og ægilegu náttúru. Fjöllin eru há og hamrar þverhníptir, fossarnir öskra og hverir gjósa og hvenær sem er getur maður lent í blindbyl og þurft að grafa sig í fönn. Ísland er hættulegt en það þýðir að ævintýrin eru á hverju strái og í Nonnabókunum er Ísland líka land æskunnar, gleðinnar og hamingjunnar. Þar ferðast tápmiklir strákar um á hestum, þvælast upp á fjöll, róa um Eyjafjörðinn og lenda í ævintýrum sem eru bæði skemmtileg og skelfileg. Á Íslandi er líka ávallt hægt að veiða sér til matar, tína ber eða hoppa á bak næsta hesti ef svo ber undir og enginn verður reiður. Þannig er Ísland gnægtaland - þar eru ævintýri, frelsi og matur.Nonnabækurnar hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál og selst í milljónum eintaka.

En það voru ekki bara sögurnar sem heilluðu lesendur, það var líka ímynd Nonna og vitundin um að hinn íslenski Nonni hafði hafist úr fátækt og orðið heimsfrægur höfundur. Hann var holdgervingur „íslenska draumsins“ og í bréfasafni hans eru mörg bréf frá íslenskum höfundum sem báðu hann um að greiða götu sína. Meðal þeirra var Halldór Laxness.

Erlendir lesendur drukku í sig Nonnabækurnar af sömu ástæðum og þeir íslensku. Persóna Nonna og ævintýrin sem hann lendir í heilla en ólíkt íslenskum lesendum sem þekktu Nonna og landið hans vissu evrópsk börn lítið sem ekkert um Ísland. Aðdráttarafl Nonna fólst þess vegna ekki síst í því hversu framandi hann var.

Evrópskir lesendur könnuðust hins vegar við bókmenntaformið sem Jón Sveinsson skrifar sig inn í, ævintýrasöguna, en þessu bókmenntaformi kynntust íslenskir lesendur líklega fyrst með Nonnabókunum. Á seinni hluta nítjándu aldar og á fyrstu áratugum þeirrar tuttugustu voru ævintýrabækur gríðarlega vinsælar í Evrópu. Upphaf þessarar bókmenntahefðar er yfirleitt rakið til Robinson Crusoe (1719) eftir enska rithöfundinn Daniel Defoe (um 1660-1731). Í kjölfarið var farið að gefa út svokallaðar Róbinsonsögur, byggðar á bók Defoe og ekki leið á löngu uns aðalsöguhetjan varð að ungum dreng og sögurnar einkum ætlaðar ungum piltum. Í fyrstu fjölluðu sögurnar um ævintýri skipreika drengja en smátt og smátt urðu þær fjölbreyttari að efni. Jón Sveinsson leitar á náðir þessarar bókmenntahefðar og Nonni litli er prýðis ævintýrabókahetja og óhætt að segja að Nonnabækurnar hafi haft mikil áhrif á íslenskar barnabókmenntir og borið hingað til lands alþjóðlega strauma.

Nonnabækurnar eru meðal fyrstu frumsömdu íslensku barnabókanna og voru öðrum höfundum innblástur. Í kjölfar útgáfu Nonnabókanna á íslensku voru skrifaðar sérstök tegund bernskuminninga, svokallaðar prakkarasögur. Þetta eru sögur um káta og hressa pilta í ævintýraleit og þær voru mjög vinsælar á sjötta áratug tuttugustu aldar. Bernskuminningar hafa haldið vinsældum sínum hér á landi allt til dagsins í dag og má þá meðal annars minnast þríleiks Guðrúnar Helgadóttur (Sitji guðs englar, Saman í hring og Sænginni yfir minni) sem byggist á bernskuminningum höfundar. Prakkararnir hafa líka látið á sér kræla á síðustu árum og ber þar mest á bókum Kristínar Helgu Gunnarsdóttur um hnátuna Fíusól.

Á Vísindavefnum eru fleiri svör um barnabækur, höfunda þeirra og söguhetjur:

Heimildir og myndir:

  • Helga Birgisdóttir. 16. nóvember 2009. „Láttu bækur mínar verða öllum þeim, sem lesa þær, til sannrar, djúprar og hjartanlegrar gleði“. Fyrirlestur á dagskrá íslenskunema í tilefni af degi íslenskrar tungu.
  • Silja Aðalsteinsdóttir. 1981. Íslenskar barnabækur 1870-1970. Mál og menning, Reykjavík.
  • Mynd af Jóni Sveinssyni: Akureyri. Sótt 27. 1. 2011.
  • Mynd af Nonnabókum: Bókaútgáfan Hólar. Sótt 27. 1. 2011.

Höfundur

doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við HÍ

Útgáfudagur

3.2.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Helga Birgisdóttir. „Af hverju urðu Nonna- og Mannabækurnar svona vinsælar?“ Vísindavefurinn, 3. febrúar 2011. Sótt 15. apríl 2021. http://visindavefur.is/svar.php?id=58420.

Helga Birgisdóttir. (2011, 3. febrúar). Af hverju urðu Nonna- og Mannabækurnar svona vinsælar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=58420

Helga Birgisdóttir. „Af hverju urðu Nonna- og Mannabækurnar svona vinsælar?“ Vísindavefurinn. 3. feb. 2011. Vefsíða. 15. apr. 2021. <http://visindavefur.is/svar.php?id=58420>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju urðu Nonna- og Mannabækurnar svona vinsælar?
Jón Sveinsson fæddist árið 1857 og ólst upp á Möðruvöllum í Hörgárdal. Hann missti föður sinn vorið 1869 en þá um haustið bauðst drengnum að fara til náms í Frakklandi. Út fór hinn ungi Jón og dvaldi eitt ár í Danmörku, tók kaþólska trú og hélt síðan til Frakklands til náms í jesúítaskóla. Hann gerðist jesúíti og kenndi í 25 ár við jesúítaskóla rétt utan Kaupmannahafnar. Þegar hann hætti að kenna byrjaði hann að skrifa og árið 1913 kom út fyrsta Nonnabókin, Nonni. Hann skrifaði 11 bækur til viðbótar og sú síðasta kom út stuttu eftir að hann lést árið 1944.

Nonnabækurnar fjalla um bernsku Jóns Sveinssonar og ferðalög hans, bæði á æsku- og fullorðinsárum. Jón Sveinsson kom aðeins tvisvar „heim“ eftir að hann yfirgaf Ísland og þá sem gestur og fullorðinn maður. Bækurnar um æsku sína á Íslandi skrifaði Jón Sveinsson sem Íslendingur í útlöndum, heimsborgari og jesúítaprestur. Hann skrifaði bækurnar 40-45 árum eftir að atburðirnir sem hann segir frá áttu sér stað.

Nonnabækurnar eru skrifaðar á þýsku en hafa verið þýddar á um 40 tungumál og selst í sex milljónum eintaka. Þar fyrir utan flutti Jón Sveinsson meira en 4000 fyrirlestra um æskuævintýrin. Það er óhætt að segja að Jón Sveinsson var langþekktasti listamaður Íslendinga erlendis á fyrri hluta tuttugustu aldar.

Eins og Silja Aðalsteinsdóttir bendir á í Íslenskar barnabækur 1870-1979 (1981) eru Nonnabækurnar „vel skrifaðar, fullar af bráðlifandi umhverfis- og mannlýsingum og segja skemmtilega frá æsilegum atburðum“ (111) en það sem skiptir mestu máli er að Jón Sveinsson segir frá þeirri æsku sem allir vildu óska að þeir hefðu átt og barninu sem allir vildu hafa verið. Nonni er heillandi drengur. Hann er kátur, heiðarlegur, trúrækinn og snjall auk þess að vera hugrakkur og ráðagóður. Hann nýtur sjálfstæðis og frelsis, gerir allt hvað hann vill og lendir í hverju ævintýrinu á fætur öðru.

Í Nonnabókunum er Ísland heillandi og hættuleg paradís. Jón Sveinsson leggur áherslu á hina villtu, frjálsu og ægilegu náttúru. Fjöllin eru há og hamrar þverhníptir, fossarnir öskra og hverir gjósa og hvenær sem er getur maður lent í blindbyl og þurft að grafa sig í fönn. Ísland er hættulegt en það þýðir að ævintýrin eru á hverju strái og í Nonnabókunum er Ísland líka land æskunnar, gleðinnar og hamingjunnar. Þar ferðast tápmiklir strákar um á hestum, þvælast upp á fjöll, róa um Eyjafjörðinn og lenda í ævintýrum sem eru bæði skemmtileg og skelfileg. Á Íslandi er líka ávallt hægt að veiða sér til matar, tína ber eða hoppa á bak næsta hesti ef svo ber undir og enginn verður reiður. Þannig er Ísland gnægtaland - þar eru ævintýri, frelsi og matur.Nonnabækurnar hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál og selst í milljónum eintaka.

En það voru ekki bara sögurnar sem heilluðu lesendur, það var líka ímynd Nonna og vitundin um að hinn íslenski Nonni hafði hafist úr fátækt og orðið heimsfrægur höfundur. Hann var holdgervingur „íslenska draumsins“ og í bréfasafni hans eru mörg bréf frá íslenskum höfundum sem báðu hann um að greiða götu sína. Meðal þeirra var Halldór Laxness.

Erlendir lesendur drukku í sig Nonnabækurnar af sömu ástæðum og þeir íslensku. Persóna Nonna og ævintýrin sem hann lendir í heilla en ólíkt íslenskum lesendum sem þekktu Nonna og landið hans vissu evrópsk börn lítið sem ekkert um Ísland. Aðdráttarafl Nonna fólst þess vegna ekki síst í því hversu framandi hann var.

Evrópskir lesendur könnuðust hins vegar við bókmenntaformið sem Jón Sveinsson skrifar sig inn í, ævintýrasöguna, en þessu bókmenntaformi kynntust íslenskir lesendur líklega fyrst með Nonnabókunum. Á seinni hluta nítjándu aldar og á fyrstu áratugum þeirrar tuttugustu voru ævintýrabækur gríðarlega vinsælar í Evrópu. Upphaf þessarar bókmenntahefðar er yfirleitt rakið til Robinson Crusoe (1719) eftir enska rithöfundinn Daniel Defoe (um 1660-1731). Í kjölfarið var farið að gefa út svokallaðar Róbinsonsögur, byggðar á bók Defoe og ekki leið á löngu uns aðalsöguhetjan varð að ungum dreng og sögurnar einkum ætlaðar ungum piltum. Í fyrstu fjölluðu sögurnar um ævintýri skipreika drengja en smátt og smátt urðu þær fjölbreyttari að efni. Jón Sveinsson leitar á náðir þessarar bókmenntahefðar og Nonni litli er prýðis ævintýrabókahetja og óhætt að segja að Nonnabækurnar hafi haft mikil áhrif á íslenskar barnabókmenntir og borið hingað til lands alþjóðlega strauma.

Nonnabækurnar eru meðal fyrstu frumsömdu íslensku barnabókanna og voru öðrum höfundum innblástur. Í kjölfar útgáfu Nonnabókanna á íslensku voru skrifaðar sérstök tegund bernskuminninga, svokallaðar prakkarasögur. Þetta eru sögur um káta og hressa pilta í ævintýraleit og þær voru mjög vinsælar á sjötta áratug tuttugustu aldar. Bernskuminningar hafa haldið vinsældum sínum hér á landi allt til dagsins í dag og má þá meðal annars minnast þríleiks Guðrúnar Helgadóttur (Sitji guðs englar, Saman í hring og Sænginni yfir minni) sem byggist á bernskuminningum höfundar. Prakkararnir hafa líka látið á sér kræla á síðustu árum og ber þar mest á bókum Kristínar Helgu Gunnarsdóttur um hnátuna Fíusól.

Á Vísindavefnum eru fleiri svör um barnabækur, höfunda þeirra og söguhetjur:

Heimildir og myndir:

  • Helga Birgisdóttir. 16. nóvember 2009. „Láttu bækur mínar verða öllum þeim, sem lesa þær, til sannrar, djúprar og hjartanlegrar gleði“. Fyrirlestur á dagskrá íslenskunema í tilefni af degi íslenskrar tungu.
  • Silja Aðalsteinsdóttir. 1981. Íslenskar barnabækur 1870-1970. Mál og menning, Reykjavík.
  • Mynd af Jóni Sveinssyni: Akureyri. Sótt 27. 1. 2011.
  • Mynd af Nonnabókum: Bókaútgáfan Hólar. Sótt 27. 1. 2011.

...