Skjaldkirtillinn er staðsettur framan á hálsinum og skiptist í tvo hluta sitt hvorum megin við barkann. Hann gefur frá sér hormónið þýroxín sem stjórnar meðal annars efnaskiptum líkamans en losun þýroxíns er aftur stjórnað af hormóni sem kemur frá heiladingli. Skjaldkirtillinn getur tekið upp á því að framleiða og losa út í blóðið of mikið eða of lítið af þýroxíni og er þá talað um ofstarfsemi eða vanstarfsemi kirtilsins. Truflanir á starfsemi skjaldkirtils er tiltölulega auðvelt að greina með vissu með hormónamælingum í blóði. Langalgengasta tegund af ofstarfsemi skjaldkirtils er vegna ættgengrar stækkunar á kirtlinum sem er mun algengari hjá konum en körlum. Þessi sjúkdómur byrjar oftast á aldrinum milli 20 og 40 ára og stundum fylgir honum að augun verða útstæð. Fyrstu einkenni eru oft taugaspenna, óróleiki, hitaóþol, mikill sviti, þreyta, máttleysi, tíðar hægðir og ýmiss konar óþægindi frá hjarta. Húðin er oft rök og heit, hárið verður fíngert og neglur þunnar. Síðar geta komið fram alvarlegar hjartsláttartruflanir, hjartabilun, fíngerður handskjálfti, beinþynning og 5-10% fá útstæð augu.

Skjaldkirtillinn er staðsettur framan á hálsinum og skiptist í tvo hluta sitt hvorum megin við barkann.
- MedicineNet.com. Sótt 24.11.2010.