Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju eru til mýflugur og hvaða gagn gera þær?

Stutta svarið er að mýflugur eru mikilvæg fæðutegund fyrir aðrar tegundir dýra. Ef mýflugur á Íslandi hyrfu mundi líka hverfa allur fiskur úr ám og vötnum.

Þótt ótrúlegt megi virðast gegna allar lífverur einhverju hlutverki hér á jörðinni. Þetta hlutverk er oft ekki augljóst fyrir okkur mennina, en í lífríkinu er hver lífvera háð annarri og lífsferlar fléttast saman í flókin vistkerfi. Sumar lífverur eru þó mikilvægari ákveðnum vistkerfum en aðrar og myndi útrýming slíkra tegunda valda hruni í vistkerfinu. Þessar lífverur eru oft nefndar "key-stone species" eða lykil-tegundir.

Allar núlifandi lífverur eru komnar út af einstaklingum sem tókst að koma erfðaeiginleikum sínum áfram til næstu kynslóðar. Tegundir hafa svo þróast í gegnum náttúruval og aðlögun. Mýflugur eru komnar til líkt og maðurinn í gegnum þróun í milljónir ára.

Til eru tvær tegundir mýflugna á Íslandi; rykmý og bitmý. Rykmý finnst bæði í stöðuvötnum og straumvötnum en bitmý er aðeins að finna við straumvötn. Í svari Gísla Más Gíslasonar við spurningunni Hvaða gagn gera mýflugur? segir:
Mýflugur eyða mestum hluta lífsferils síns sem lirfur á botni vatna og eru einkennandi fyrir botndýralíf í stöðuvötnum og ám í öllum heimshlutum. Mýið er mikilvæg fæða fyrir önnur skordýr, fiska og fugla. Til dæmis er mý um 70% af fæðu urriða í Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu.

Rykmý er einnig mikilvæg fæða fyrir silung og endur í öllum vötnum á Íslandi og víðar. Í Mývatni getur rykmý verið allt að 90% af fæðu bleikju, en hlutfallið sveiflast eftir því hvernig öðrum botn- og svifdýrum vegnar (það er krabbadýrum).
Það er því ljóst að mýflugur gegna mjög mikilvægu hlutverki í vistkerfum vatna. Ef mýflugna nyti ekki við er því sennilegt að hér væri ekki lífvænlegt fyrir fjölda tegunda bæði fiska og fugla. Þær hafa þannig einnig áhrif á okkur mennina með því að vera uppistaðan í fæðu tegunda sem eru okkur mikilvægar.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Nánari upplýsingar má finna með því að nota leitarvél Vísindavefsins eða með því að smella á efnisorðin hér fyrir neðan.

Útgáfudagur

19.5.2006

Spyrjandi

Þórunn Anna Orradóttir, f. 1993

Höfundur

Margrét Björk Sigurðardóttir

líffræðingur

Tilvísun

MBS. „Af hverju eru til mýflugur og hvaða gagn gera þær?“ Vísindavefurinn, 19. maí 2006. Sótt 7. desember 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=5944.

MBS. (2006, 19. maí). Af hverju eru til mýflugur og hvaða gagn gera þær? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5944

MBS. „Af hverju eru til mýflugur og hvaða gagn gera þær?“ Vísindavefurinn. 19. maí. 2006. Vefsíða. 7. des. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5944>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Oddur Ingólfsson

1964

Oddur Ingólfsson er prófessor í eðlisefnafræði við Raunvísindadeild HÍ. Meginrannsóknasvið Odds lýtur að víxlverkun lágorkurafeinda við sameindir og sameindaþyrpingar.