Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvað hét (heitir) langlífasti Íslendingurinn og hversu gömul/gamall varð viðkoman?
Á Íslandi, eins og í langflestum löndum heims, er langlífi meira hjá konum en körlum og endurspeglast það vel í kynjaskiptingu þeirra Íslendinga sem elstir hafa orðið. Í árslok 2016 höfðu alls 36 Íslendingar náð 105 ára aldri, þar af voru aðeins fimm karlar.
Nýfædd íslensk börn geta vænst þess að ná að meðaltali yfir 80 ára aldri.
Eftir því sem næst verður komið er hæsti aldur sem Íslendingur hefur náð 109 ár og 310 dagar. Þessum háa aldri náði kona að nafni Guðrún Björnsdóttir en hún fæddist 20. október 1888 í Vopnafirði og lést 26. ágúst 1998. Reyndar bjó hún nánast alla sína ævi í Kanada þangað sem hún flutti með foreldrum sínum þriggja ára gömul.
Sá Íslendingur búsettur á Íslandi sem náð hefur hæstum aldri er hins vegar Jensína Andrésdóttir sem fæddist þann 10. nóvember 109 og lést 18. apríl 2019 og náði því að varða 109 ára og 159 daga. Þrjár aðrar konur hafa náð 109 ára aldri. Þær eru Sólveig Pálsdóttir sem fæddist þann 20. ágúst 1897 og lést 28. október 2006 (109 ára og 69 daga), Guðfinna Einarsdóttir sem varð 109 ára og 58 daga, fædd 2. febrúar 1897 og dáin 1. apríl 2006 og Guðríður Guðbrandsdóttir sem varð 109 ára og 33 daga, fædd 23. maí 1906, dáin 25. júní 2015.
Aðrir Íslendingar hafa ekki náð 109 ára aldri, tvær konur voru 108 ára þegar þær létust og sex konur og einn karl hafa náð því að verða 107 ára, þar af var ein vestur-íslensk.
Georg Breiðfjörð Ólafsson í Stykkishólmi hefur náð hæstum aldri íslenskra karla en hann lifði í 107 ára og 333 daga (fæddur 26. mars 1909, dáinn 22. febrúar 2017). Næstelstur íslenskra karla hefur orðið Helgi Símonarson bóndi og kennari á Þverá í Svarfaðardal, 105 ára og 345 daga (fæddur 13. september 1895, dáinn 24. ágúst 2001), og í þriðja sæti er Sigurður Þorvaldsson á Sleitustöðum í Skagafirði, 105 ára og 333 daga (fæddur 23. janúar 1884, dáinn 21. desember 1989).
Þess má geta að Íslendingar eru meðal þeirra þjóða þar sem meðalævilengd er hvað mest. Lengi vel voru lífslíkur íslenskra kvenna einna hæstar í heiminum en þær hafa dregist aðeins aftur úr stallsystrum sínum í Evrópu á þessari öld. Ástæðan fyrir því er hraðari aukning ævilengdar í nokkrum Evrópulöndum. Árið 2015 var meðalævilengd íslenskra kvenna 83,6 ár og skipuðu þær sjötta sætið meðal Evrópuþjóða á eftir konum í Frakklandi, Spáni, Sviss, Ítalíu og Liechtenstein.
Lífslíkur íslenskra karla hafa batnað mjög á undanförnum árum. Frá árinu 2000 hafa þeir bætt við sig rúmlega þremur árum í meðalævilengd. Árið 2015 var meðalævilengd íslenskra karla 81 ár og skipuðu þeir annað sætið meðal Evrópuþjóða það ár á eftir Svisslendingum.
Heimildir og mynd:
EDS. „Hver er hæsti aldur sem Íslendingur hefur náð?“ Vísindavefurinn, 27. mars 2012, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=59635.
EDS. (2012, 27. mars). Hver er hæsti aldur sem Íslendingur hefur náð? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=59635
EDS. „Hver er hæsti aldur sem Íslendingur hefur náð?“ Vísindavefurinn. 27. mar. 2012. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=59635>.