Sólin Sólin Rís 09:45 • sest 16:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:12 • Sest 01:51 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:07 • Síðdegis: 14:34 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:20 • Síðdegis: 21:01 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:45 • sest 16:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:12 • Sest 01:51 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:07 • Síðdegis: 14:34 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:20 • Síðdegis: 21:01 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers vegna voru konur 20% fleiri en karlar í manntalinu 1703?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Þegar fyrst var tekið manntal á Íslandi, árið 1703, töldust karlar vera 22.867 en konur 27.491. Yfirfjöldi kvenna var þannig 4.624 eða rúmlega 20% af fjölda karla. Það merkti til dæmis að hefðu allir Íslendingar verið paraðir saman, karlar og konur, svo lengi sem karlarnir hrukku til, hefðu 4.624 konur orðið afgangs eða um 200 konur á móti hverju þúsundi sem paraðist. Þetta dæmdi margar konur til ævilangrar þjónustu í stöðu vinnukonu því að fæstar áttu kost á að komast í húsmóðurstöðu án þess að eiga eiginmann. Þess gátu þær líklega helst vænst ef þær áttu ekki bróður og erfðu jörð og bú.

Þessi fjöldamunur er ekkert sérkenni þessa einstaka árs eða tímabilsins í kringum það. Sjálfsagt hefur yfirfjöldi kvenna orðið til löngu áður, þótt ekki séu til heimildir um hann, og hann hélst fram til miðrar 20. aldar. Á fyrri hluta 19. aldar féll hann raunar niður í kringum 10% og hélst þannig fram yfir 1940. Við manntal 1950 töldust karlar í fyrsta sinn fleiri en konur svo að nam 525 manns og 0,7% af fjölda karla. Síðan hafa karlar verið heldur fleiri en konur á landinu og munurinn aukist hægt. Nú mun yfirfjöldi karla vera um 1%.

Hjá mannkyninu fæðast fleiri drengir en stúlkur, hins vegar er dánartíðni karla víðast hærri í öllum aldurshópum.

Ástæða þess að konur voru svo miklu fleiri en karlar í gamla samfélaginu var einkum mikill barnadauði. Það virðist liggja í eðli tegundarinnar að fæða fleiri sveinbörn en meybörn. Hins vegar er dánartíðni karla víðast hærri í öllum aldurshópum svo að fjöldi kvenna heldur nokkurn veginn í við þá. En í samfélögum þar sem dánartíðni er há, einkum í yngstu aldursflokkum, þannig að kyn þeirra sem eru á lífi hverju sinni ræðst hlutfallslega mikið af því hverjir lifa af og hverjir deyja, þá verða konur fleiri.

Mikill barnadauði Íslendinga á fyrri öldum er einkum rakinn til þess að það var sérstaklega algengt á Íslandi að konur ælu börn sín ekki á brjóstamjólk heldur kúamjólk og síðar föstu fæði, sem var hvort tveggja miklu óhollara og hættulegra börnum en móðurmjólkin. Þessi siður var til víðar í Evrópu, en varla nokkurs staðar var hann algengur í eins stóru samfélagi og hinu íslenska. Engin einhlít skýring er á því hvers vegna Íslendingar nýttu brjóstamjólk kvenna svona illa. Stundum virðist koma fram sá misskilningur að hún væri óhollari börnum en kúamjólk. Líka hefur verið giskað á að annríki kvenna við útiverk, einkum þegar karlar voru til sjós við fiskveiðar, hafi komið í veg fyrir að þær mjólkuðu börnum sínum.

En á 19. öld fjölgaði læknum og ljósmæðrum á Íslandi, og þetta fólk hóf baráttu fyrir því að mæður ælu börn sín á brjósti. Af því leiddi að barnadauðinn minnkaði smám saman og mun nú varla nokkurs staðar minni. Kynjahlutfall íbúanna fór að ráðast mest af því hvers kyns börn fæddust, og þá fjölgaði piltunum hlutfallslega.

Heimildir:

  • Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland. Ritstjórar Guðmundur Jónsson, Magnús S. Magnússon. Reykjavík, Hagstofa Íslands, 1997.
  • Ólöf Garðarsdóttir: Saving the Child. Regional, cultural and social aspects of the infant martality decline in Iceland, 1770–1920. Umeå, Umeå University, 2002.
  • Vefur Hagstofu Íslands.
  • Mynd: bb.is. Sótt 17.2.2012.

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

17.2.2012

Spyrjandi

Kristín Sigurrós Einarsdóttir

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvers vegna voru konur 20% fleiri en karlar í manntalinu 1703?“ Vísindavefurinn, 17. febrúar 2012, sótt 11. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=59640.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2012, 17. febrúar). Hvers vegna voru konur 20% fleiri en karlar í manntalinu 1703? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=59640

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvers vegna voru konur 20% fleiri en karlar í manntalinu 1703?“ Vísindavefurinn. 17. feb. 2012. Vefsíða. 11. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=59640>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna voru konur 20% fleiri en karlar í manntalinu 1703?
Þegar fyrst var tekið manntal á Íslandi, árið 1703, töldust karlar vera 22.867 en konur 27.491. Yfirfjöldi kvenna var þannig 4.624 eða rúmlega 20% af fjölda karla. Það merkti til dæmis að hefðu allir Íslendingar verið paraðir saman, karlar og konur, svo lengi sem karlarnir hrukku til, hefðu 4.624 konur orðið afgangs eða um 200 konur á móti hverju þúsundi sem paraðist. Þetta dæmdi margar konur til ævilangrar þjónustu í stöðu vinnukonu því að fæstar áttu kost á að komast í húsmóðurstöðu án þess að eiga eiginmann. Þess gátu þær líklega helst vænst ef þær áttu ekki bróður og erfðu jörð og bú.

Þessi fjöldamunur er ekkert sérkenni þessa einstaka árs eða tímabilsins í kringum það. Sjálfsagt hefur yfirfjöldi kvenna orðið til löngu áður, þótt ekki séu til heimildir um hann, og hann hélst fram til miðrar 20. aldar. Á fyrri hluta 19. aldar féll hann raunar niður í kringum 10% og hélst þannig fram yfir 1940. Við manntal 1950 töldust karlar í fyrsta sinn fleiri en konur svo að nam 525 manns og 0,7% af fjölda karla. Síðan hafa karlar verið heldur fleiri en konur á landinu og munurinn aukist hægt. Nú mun yfirfjöldi karla vera um 1%.

Hjá mannkyninu fæðast fleiri drengir en stúlkur, hins vegar er dánartíðni karla víðast hærri í öllum aldurshópum.

Ástæða þess að konur voru svo miklu fleiri en karlar í gamla samfélaginu var einkum mikill barnadauði. Það virðist liggja í eðli tegundarinnar að fæða fleiri sveinbörn en meybörn. Hins vegar er dánartíðni karla víðast hærri í öllum aldurshópum svo að fjöldi kvenna heldur nokkurn veginn í við þá. En í samfélögum þar sem dánartíðni er há, einkum í yngstu aldursflokkum, þannig að kyn þeirra sem eru á lífi hverju sinni ræðst hlutfallslega mikið af því hverjir lifa af og hverjir deyja, þá verða konur fleiri.

Mikill barnadauði Íslendinga á fyrri öldum er einkum rakinn til þess að það var sérstaklega algengt á Íslandi að konur ælu börn sín ekki á brjóstamjólk heldur kúamjólk og síðar föstu fæði, sem var hvort tveggja miklu óhollara og hættulegra börnum en móðurmjólkin. Þessi siður var til víðar í Evrópu, en varla nokkurs staðar var hann algengur í eins stóru samfélagi og hinu íslenska. Engin einhlít skýring er á því hvers vegna Íslendingar nýttu brjóstamjólk kvenna svona illa. Stundum virðist koma fram sá misskilningur að hún væri óhollari börnum en kúamjólk. Líka hefur verið giskað á að annríki kvenna við útiverk, einkum þegar karlar voru til sjós við fiskveiðar, hafi komið í veg fyrir að þær mjólkuðu börnum sínum.

En á 19. öld fjölgaði læknum og ljósmæðrum á Íslandi, og þetta fólk hóf baráttu fyrir því að mæður ælu börn sín á brjósti. Af því leiddi að barnadauðinn minnkaði smám saman og mun nú varla nokkurs staðar minni. Kynjahlutfall íbúanna fór að ráðast mest af því hvers kyns börn fæddust, og þá fjölgaði piltunum hlutfallslega.

Heimildir:

  • Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland. Ritstjórar Guðmundur Jónsson, Magnús S. Magnússon. Reykjavík, Hagstofa Íslands, 1997.
  • Ólöf Garðarsdóttir: Saving the Child. Regional, cultural and social aspects of the infant martality decline in Iceland, 1770–1920. Umeå, Umeå University, 2002.
  • Vefur Hagstofu Íslands.
  • Mynd: bb.is. Sótt 17.2.2012.

...