Sólin Sólin Rís 06:57 • sest 19:46 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:25 • Sest 00:04 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:38 • Síðdegis: 16:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:52 • Síðdegis: 22:37 í Reykjavík

Hver var Ruth Benedict og hvert var hennar framlag til mannfræðinnar?

Helga Björnsdóttir

Þegar mannfræðingurinn Ruth Benedict var að hefja starfsferil sinn sótti hún um rannsóknarstyrk til The National Research Council sem hafnaði umsókninni með þeim orðum að “a person who has not already become established in University work [by age thirty-five] is not very promising material for development.” En þó ferill Benedict sem fræðikonu hafi verið styttri en margra annarra, sökum þess hversu seint hún hóf doktorsnám, telst hún hiklaust vera einn af brautryðjendum mannfræðinnar í Bandaríkjunum og áhrifavaldur á mörgum sviðum. Hún var í hópi þeirra mannfræðinga sem fyrstir skoðuðu svokölluð ‘þróuð’ samfélög Vesturlanda út frá mannfræðilegu sjónarhorni og allar vettvangsrannsóknir hennar voru gerðar innan Bandaríkjanna.

Ruth Fulton Benedict fæddist í New York-fylki í Bandaríkjunum 5. júní 1887 og útskrifaðist frá Vassar Collage árið 1909 með gráðu í enskum bókmenntum. Að námi loknu vann hún um skeið við kennslu og skriftir en á námsárunum hafði hún unnið til verðlauna fyrir ritgerðarskrif sín og sum ljóða hennar höfðu birst á prenti. Skrif hennar snerust einkum um sterkar og áhrifamiklar konur á borð Mary Wollstonecraft, Olive Schreiner og Margaret Fuller og þeim mun meira sem hún sökkti sér ofan í sögu þeirra þeim mun meiri femínisti varð hún að eigin sögn. Benedict orti einnig ljóð sem síðar komu út á bók undir dulnefninu Anne Singleton.

Árið 1919 má segja að hafi orðið ákveðin kaflaskil í lífi Benedict er hún innritaðist í The New School for Social Research sem þá var nýstofnaður. Þar stundaði hún nám í tvö ár – sat meðal annars námskeið hjá einum af frumkvöðlum femínismans í Bandaríkjunum, Elsie Clews Parsons og hjá mannfræðingnum Alexander Goldenweisser. Clews og Goldenweisser komu því til leiðar að Benedict hóf doktorsnám í mannfræði árið 1921 við Columbia-háskólann undir handleiðslu mannfræðingsins Franz Boas sem mat þennan nemanda sinn mikils. Þannig var Benedict strax á námsárunum falið að kenna námskeið í mannfræði, stundum fyrir Boas en einnig sín eigin. Oftast kenndi hún um aðferðir, sifjar og þjóðsagnir og munnmæli, jafnframt því sem hún leiðbeindi nemendum.

Samstarf Benedicts og Boasar stóð allt þar til hann lést árið 1942 og hann hafði alla tíð mikil áhrif á verkefnaval og nálgun hennar á viðfangsefnum sínum. Doktorsritgerð hennar, The Concept of the Guardian Spirit in North America (1923), fjallar einkum um áhrif menningar á trúarlega upplifun einstaklinga og um dreifingu menningarlegra þátta sem Boas hafði mikinn áhuga á. Í greininni The Vision in Plains Culture (1922) eru áhrif Boasar einnig sýnileg en þar er kastljósinu beint að menningu frumbyggja Ameríku og þá einkum því hlutverki sem sýnir (e. vision) gegna hjá hinum ýmsu hópum.

Rannsóknarvinna á vettvangi sem fól í sér samtöl við fólk reyndist Benedict oft erfið þar sem hún var mjög heyrnarskert eftir að hafa fengið mislinga í æsku og þurfti því að nota túlk í rannsóknum sínum. Hún lét það þó ekki aftra sér og 1924 til 1925 safnaði hún miklum gögnum um sögur og mýtur hjá Zuni- og Cochiti-indíánum í Norður Ameríku. Sú rannsókn stóð yfir í um 11 ár og niðurstöðurnar birtist í bókunum Tales of the Cochiti Indians (1931) og Zuni Mythology (1935). Ein frægasta bók Benedicts, Patterns of Culture, kom út 1934, en þar er borin saman menning þriggja samfélaga, það er Zuni-fólksins í suðvestur Bandaríkjunum, Kwakiutl-fólksins í vestur Kanada og Dobuans í Melanesíu.

Benedict aðhylltist menningarlegt afstæði - það er að engin ein menning sé öðrum æðri, og hún hélt því fram að það sem í raun og veru sameini fólk sé menning þess – hugmyndir og viðhorf sem það deilir. Hún taldi að líkt og einstaklingarnir sjálfir samanstæði menning af samkvæmum hugmyndum og aðgerðum. Patterns of Culture varð metsölubók, þýdd á fjölda tungumála og er eitthvert áhrifamesta mannfræðirit tuttugustu aldar. Ljóðrænn stíll bókarinnar og heimspekilegt kenningaviðhorf átti þó ekki upp á pallborðið hjá mörgum mannfræðingum sem töldu slíkt vera óheppilegt og gerði bókina ekki nógu ‘vísindalega’. Benedict hafnaði slíkri gagnrýni sem hún sagði aðeins styrkja hugmyndir um aðskilnað vísinda og lista. Árið 1940 kom út bókin Race: Science and Politics þar sem Benedict tekst á við hugmyndir um kynþætti og ójöfnuð. Boðskapurinn var hápólitískur og hafði það markmið að opna augu fólks fyrir ríkjandi kynþáttafordómum innan Bandaríkjanna.

Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar starfaði Benedict ásamt fleiri mannfræðingum fyrir utanríkisþjónustu Bandaríkjanna sem sérstakur ráðgjafi; nokkuð sem hún síðar var gagnrýnd fyrir. Verkefni hennar fólst í því að setja fram mannfræðilega greiningu á samfélögum, vinveittum og óvinveittum Bandaríkjum, í því skyni að öðlast skilning á þeim. Eitt þessara samfélaga var Japan og af augljósum ástæðum fór Benedict ekki á vettvang heldur byggði hún greiningu sína á gögnum sem hún safnaði í Bandaríkjunum; meðal annars með viðtölum við Japani sem bjuggu þar, á japönskum kvikmyndum og textum um Japan og japanska menningu. Gögn þessarar rannsóknar liggja til grundvallar bókinni Chrysanthemum and the Sword (1946) en markmið Benedict með bókinni var að reyna að hafa áhrif á ríkjandi hugmyndir landa sinna um Japan. Í bókinni ber hún meðal annars saman bandaríska menningu og japanska sem og menningu Kyrrahafseyja og japanska menningu. Bókin átti mikinn þátt í að móta hugmyndir Bandaríkjamanna um Japan og japanska menningu og gerir að mörgu leyti enn þrátt fyrir að hafa síðar verið harðlega gagnrýnd.

Benedict var alla tíð mikill femínisti og er henni hlotnaðist sá heiður árið 1933 að vera getið sem fræðimanns í Biographical Directory of American Men of Science er sagt að hún hafi orðið glöð en jafnframt gröm yfir því hversu fáum fræðikonum hafði hlotnast þessi sami heiður. Hún var ötull og vel liðinn kennari af nemendum sínum og hvatti þá og studdi, stundum jafnvel fjárhagslega. Þann tíma sem hún kenndi við mannfræðideild Columbia-háskólans útskrifuðust nítján konur og tuttugu karlar þaðan með doktorspróf í mannfræði. Hún var ritstjóri tímaritsins The Journal of American Folklore frá 1925 til 1940. Árið 1948 var Benedict skipuð prófessor við stjórnmálafræðideild skólans, fyrst kvenna. Hún lést aðeins tveimur mánuðum síðar þann 17. september 1948.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

  • Babcock, Barbara A. (1995). “Not in the absolute singular”: Rereading Ruth Benedict. Í Ruth Behar og Deborah A. Gordon (ritstjórar), Women writing culture, bls. 104 – 131. Berkeley: University of California Press.
  • Ruth Benedict á NNDB.

Bækur um Ruth Benedict:

  • Caffrey, Margaret M. (1989). Ruth Benedict: Stranger in this land. Austin: University of Texas Press.
  • Mead, Margaret. (1973). An anthropologist at work: Writings of Ruth Benedict. New York: Avon Books.

Lesefni um Ruth Benedict á vefnum má meðal annars finna á:

Mynd:

Höfundur

doktorsnemi í mannfræði

Útgáfudagur

10.5.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Helga Björnsdóttir. „Hver var Ruth Benedict og hvert var hennar framlag til mannfræðinnar?“ Vísindavefurinn, 10. maí 2011. Sótt 17. september 2021. http://visindavefur.is/svar.php?id=59675.

Helga Björnsdóttir. (2011, 10. maí). Hver var Ruth Benedict og hvert var hennar framlag til mannfræðinnar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=59675

Helga Björnsdóttir. „Hver var Ruth Benedict og hvert var hennar framlag til mannfræðinnar?“ Vísindavefurinn. 10. maí. 2011. Vefsíða. 17. sep. 2021. <http://visindavefur.is/svar.php?id=59675>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Ruth Benedict og hvert var hennar framlag til mannfræðinnar?
Þegar mannfræðingurinn Ruth Benedict var að hefja starfsferil sinn sótti hún um rannsóknarstyrk til The National Research Council sem hafnaði umsókninni með þeim orðum að “a person who has not already become established in University work [by age thirty-five] is not very promising material for development.” En þó ferill Benedict sem fræðikonu hafi verið styttri en margra annarra, sökum þess hversu seint hún hóf doktorsnám, telst hún hiklaust vera einn af brautryðjendum mannfræðinnar í Bandaríkjunum og áhrifavaldur á mörgum sviðum. Hún var í hópi þeirra mannfræðinga sem fyrstir skoðuðu svokölluð ‘þróuð’ samfélög Vesturlanda út frá mannfræðilegu sjónarhorni og allar vettvangsrannsóknir hennar voru gerðar innan Bandaríkjanna.

Ruth Fulton Benedict fæddist í New York-fylki í Bandaríkjunum 5. júní 1887 og útskrifaðist frá Vassar Collage árið 1909 með gráðu í enskum bókmenntum. Að námi loknu vann hún um skeið við kennslu og skriftir en á námsárunum hafði hún unnið til verðlauna fyrir ritgerðarskrif sín og sum ljóða hennar höfðu birst á prenti. Skrif hennar snerust einkum um sterkar og áhrifamiklar konur á borð Mary Wollstonecraft, Olive Schreiner og Margaret Fuller og þeim mun meira sem hún sökkti sér ofan í sögu þeirra þeim mun meiri femínisti varð hún að eigin sögn. Benedict orti einnig ljóð sem síðar komu út á bók undir dulnefninu Anne Singleton.

Árið 1919 má segja að hafi orðið ákveðin kaflaskil í lífi Benedict er hún innritaðist í The New School for Social Research sem þá var nýstofnaður. Þar stundaði hún nám í tvö ár – sat meðal annars námskeið hjá einum af frumkvöðlum femínismans í Bandaríkjunum, Elsie Clews Parsons og hjá mannfræðingnum Alexander Goldenweisser. Clews og Goldenweisser komu því til leiðar að Benedict hóf doktorsnám í mannfræði árið 1921 við Columbia-háskólann undir handleiðslu mannfræðingsins Franz Boas sem mat þennan nemanda sinn mikils. Þannig var Benedict strax á námsárunum falið að kenna námskeið í mannfræði, stundum fyrir Boas en einnig sín eigin. Oftast kenndi hún um aðferðir, sifjar og þjóðsagnir og munnmæli, jafnframt því sem hún leiðbeindi nemendum.

Samstarf Benedicts og Boasar stóð allt þar til hann lést árið 1942 og hann hafði alla tíð mikil áhrif á verkefnaval og nálgun hennar á viðfangsefnum sínum. Doktorsritgerð hennar, The Concept of the Guardian Spirit in North America (1923), fjallar einkum um áhrif menningar á trúarlega upplifun einstaklinga og um dreifingu menningarlegra þátta sem Boas hafði mikinn áhuga á. Í greininni The Vision in Plains Culture (1922) eru áhrif Boasar einnig sýnileg en þar er kastljósinu beint að menningu frumbyggja Ameríku og þá einkum því hlutverki sem sýnir (e. vision) gegna hjá hinum ýmsu hópum.

Rannsóknarvinna á vettvangi sem fól í sér samtöl við fólk reyndist Benedict oft erfið þar sem hún var mjög heyrnarskert eftir að hafa fengið mislinga í æsku og þurfti því að nota túlk í rannsóknum sínum. Hún lét það þó ekki aftra sér og 1924 til 1925 safnaði hún miklum gögnum um sögur og mýtur hjá Zuni- og Cochiti-indíánum í Norður Ameríku. Sú rannsókn stóð yfir í um 11 ár og niðurstöðurnar birtist í bókunum Tales of the Cochiti Indians (1931) og Zuni Mythology (1935). Ein frægasta bók Benedicts, Patterns of Culture, kom út 1934, en þar er borin saman menning þriggja samfélaga, það er Zuni-fólksins í suðvestur Bandaríkjunum, Kwakiutl-fólksins í vestur Kanada og Dobuans í Melanesíu.

Benedict aðhylltist menningarlegt afstæði - það er að engin ein menning sé öðrum æðri, og hún hélt því fram að það sem í raun og veru sameini fólk sé menning þess – hugmyndir og viðhorf sem það deilir. Hún taldi að líkt og einstaklingarnir sjálfir samanstæði menning af samkvæmum hugmyndum og aðgerðum. Patterns of Culture varð metsölubók, þýdd á fjölda tungumála og er eitthvert áhrifamesta mannfræðirit tuttugustu aldar. Ljóðrænn stíll bókarinnar og heimspekilegt kenningaviðhorf átti þó ekki upp á pallborðið hjá mörgum mannfræðingum sem töldu slíkt vera óheppilegt og gerði bókina ekki nógu ‘vísindalega’. Benedict hafnaði slíkri gagnrýni sem hún sagði aðeins styrkja hugmyndir um aðskilnað vísinda og lista. Árið 1940 kom út bókin Race: Science and Politics þar sem Benedict tekst á við hugmyndir um kynþætti og ójöfnuð. Boðskapurinn var hápólitískur og hafði það markmið að opna augu fólks fyrir ríkjandi kynþáttafordómum innan Bandaríkjanna.

Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar starfaði Benedict ásamt fleiri mannfræðingum fyrir utanríkisþjónustu Bandaríkjanna sem sérstakur ráðgjafi; nokkuð sem hún síðar var gagnrýnd fyrir. Verkefni hennar fólst í því að setja fram mannfræðilega greiningu á samfélögum, vinveittum og óvinveittum Bandaríkjum, í því skyni að öðlast skilning á þeim. Eitt þessara samfélaga var Japan og af augljósum ástæðum fór Benedict ekki á vettvang heldur byggði hún greiningu sína á gögnum sem hún safnaði í Bandaríkjunum; meðal annars með viðtölum við Japani sem bjuggu þar, á japönskum kvikmyndum og textum um Japan og japanska menningu. Gögn þessarar rannsóknar liggja til grundvallar bókinni Chrysanthemum and the Sword (1946) en markmið Benedict með bókinni var að reyna að hafa áhrif á ríkjandi hugmyndir landa sinna um Japan. Í bókinni ber hún meðal annars saman bandaríska menningu og japanska sem og menningu Kyrrahafseyja og japanska menningu. Bókin átti mikinn þátt í að móta hugmyndir Bandaríkjamanna um Japan og japanska menningu og gerir að mörgu leyti enn þrátt fyrir að hafa síðar verið harðlega gagnrýnd.

Benedict var alla tíð mikill femínisti og er henni hlotnaðist sá heiður árið 1933 að vera getið sem fræðimanns í Biographical Directory of American Men of Science er sagt að hún hafi orðið glöð en jafnframt gröm yfir því hversu fáum fræðikonum hafði hlotnast þessi sami heiður. Hún var ötull og vel liðinn kennari af nemendum sínum og hvatti þá og studdi, stundum jafnvel fjárhagslega. Þann tíma sem hún kenndi við mannfræðideild Columbia-háskólans útskrifuðust nítján konur og tuttugu karlar þaðan með doktorspróf í mannfræði. Hún var ritstjóri tímaritsins The Journal of American Folklore frá 1925 til 1940. Árið 1948 var Benedict skipuð prófessor við stjórnmálafræðideild skólans, fyrst kvenna. Hún lést aðeins tveimur mánuðum síðar þann 17. september 1948.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

  • Babcock, Barbara A. (1995). “Not in the absolute singular”: Rereading Ruth Benedict. Í Ruth Behar og Deborah A. Gordon (ritstjórar), Women writing culture, bls. 104 – 131. Berkeley: University of California Press.
  • Ruth Benedict á NNDB.

Bækur um Ruth Benedict:

  • Caffrey, Margaret M. (1989). Ruth Benedict: Stranger in this land. Austin: University of Texas Press.
  • Mead, Margaret. (1973). An anthropologist at work: Writings of Ruth Benedict. New York: Avon Books.

Lesefni um Ruth Benedict á vefnum má meðal annars finna á:

Mynd:...