Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 07:51 • Sest 14:06 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:34 • Síðdegis: 16:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:47 • Síðdegis: 22:54 í Reykjavík

Hverjar eru helstu aðferðir við flokkun bergs og hvernig fara þær fram?

Sigurður Steinþórsson

Almennt er berg af þrennu tagi, storkuberg, setberg og myndbreytt berg. Yfirborð Íslands er að langmestu leyti úr storkubergi og því lítum við svo á að spurningin vísi til flokkunar þess.

Storkuberg myndast við kólnun úr glóandi bergbráð og flokkun bergsins byggist annars vegar á efnasamsetningu bráðarinnar og hins vegar á hraða storknunar. Þægileg efnafræðileg breyta er styrkur (hlutfall) kísils, SiO2, í berginu, sem í algengu bergi getur verið allt frá 45 til 75% af þunga (45 þungaprósent kísils merkir að í 100 g af bergi eru 45 g kísill). Eftir kólnunarhraða fer það hins vegar hversu stórir kristallar myndast: stórir kristallar vaxa við mjög hæga kristöllun djúpt í jörðu en bráð sem snarkólnar í vatni nær ekki að mynda kristalla og „frýs“ sem gler. Einföld flokkun er sýnd í 1. töflu þar sem vaxandi hlutfall kísils er á lárétta ásnum og stækkandi kristallar (hægari kólnun) niður lóðrétta ásinn:

1. tafla. Flokkun storkubergs eftir hlutfalli kísils og stærð kristalla.

SiO2 < 52%
Basískt berg
SiO2 52-66%
Ísúrt berg
SiO2 > 66%
Súrt berg
Gosgler Basaltgler Hrafntinna
Gosberg Basalt / blágrýti Andesít / íslandít Ríólít / ljósgrýti
Gangberg Dólerít / grágrýti Míkródíorít Granófýr
Djúpberg Gabbró Díorít Granít

2. tafla. Helstu frumsteindir sem myndast við kristöllun basískrar, ísúrrar og súrrar bráðar.

Ljósar steindir Ca-Na feldspat
(plagíóklas)
Na-Ca feldspat
(plagíóklas)
Alkalí-feldspat
Kvars
Dökkar steindir Pýroxen
Magnetít
Ólivín
Pýroxen
Magnetít
Pýroxen

Orðin basískur, ísúr og súr vísa til hlutfalls kísils í bráðinni. Þau eiga sér sögulega skýringu en fyrrum var ranglega litið svo á að bergbráð væri lausn af kísilsýru (H4SiO4) og steindirnar sölt af henni, til dæmis að ólivín væri magnesín-salt af kísilsýru:
2MgO + H4SiO4 = Mg2SiO4 + 2H2O

Núorðið er stundum talað um kísilríkt og kísilsnautt berg í staðinn fyrir súrt og basískt, en lýsingarorðið „ísúr“ er nýyrði Guðmundar Kjartanssonar jarðfræðings, dregið af orðinu „ísaltur“ sem notað er á Suðurlandi yfir hálfsölt lón við ströndina. Orðin blágrýti, grágrýti og ljósgrýt eru íslenskun hinna alþjóðlegu nafna, íslandít er járnríkt afbrigði af andesíti sem er einkennandi fyrir úthafssvæði eins og Ísland, en ríólít kallast nú það sem áður var nefnt líparít.

Samkvæmt þessu er flokkun bergs í aðalatriðum efnafræðileg, enda hafa á síðustu 50 árum komið fram æ fljótvirkari og nákvæmari sjálfvirkar vélar til að greina berg. Flest hinna algengu nafna eru þó miklu eldri en efnagreiningar, mörg tengd námagreftri eða byggingarlist. Þess vegna byggðist greining þeirra lengst af á eiginleikum sem meta má með berum augum og án flókinna tækja – lit, grófleika kristalla, hörku, kleyfni — og með dálítilli æfingu má ná færni í að flokka flestar algengar bergtegundir með stækkunargler eitt að vopni auk þess sem vasahnífur getur verið gagnlegur til að meta hörku steinda.

Aðferðir við að greina berg eru eftirfarandi, með vísan til taflna 1 og 2:

1. Greining í handsýni (1. mynd).

Bretinn George Walker, sem vann merkilegt jarðfræðistarf á Austurlandi á 6. og 7. áratug 20. aldar, greindi flest berg í handsýni, jafnvel mismunandi basalt. Því skipti hann í þrennt, ólivín-basalt, þóleiít og dílabasalt.

1. mynd. Pikrít í handsýni. Pikrít er kísilsnautt basalt og einkennist af ólivín-dílum í fínkorna grunnmassa. Lóðrétta hliðin á sýninu er 4 cm, sú lárétta 3,6 cm.

Ólivín-basalt þekkist á flöskugrænum kristöllum (dílum) ólivíns í annars fín- eða dulkornóttum grunnmassa; þóleiít einkennist af skorti slíkra díla og af skörpum brúnum á veðrunarflötum, ólíkt ávölum brúnum í ólivín-basalti. Dílabasalt einkennist svo af hvítum plagíóklas-dílum. Íslandít þekkist helst í handsýni af svörtum lit, það er fínkornótt og veðrast í flögur. Og ríólít einkennist yfirleitt af ljósum lit, grágrýti og gabbró, annars vegar, og granófýr og granít hins vegar af lit, kornastærð og steindasamsetningu (2. tafla).

2. Greining með smásjá (2. mynd).

Bergfræðismásjár eru flókin og dýr áhöld, og undirbúningur sýna fyrir smásjárskoðun sömuleiðis ekki á allra færi. Sá undirbúningur er í því fólginn að berg er límt á gler og slípað niður í þynnu af ákveðinni þykkt, 30 míkrómetra (0,03 mm). Þá eru flestir kristallar gagnsæir og unnt að greina þá, jafnt steintegund, stærð kristalla og innri gerð bergsins.

2. mynd. Pikrít í þunnsneið. Myndin er tekin gegnum smásjá með skautuðu ljósi sem veldur tvíbrotslitum (e. interference colours). Ólivín-dílar (bleikir, bláir, grænir, gráir) með ummyndun á brúnum . Fínkorna grunnmassi er feldspat (hvítt), pýroxen, ólivín og magnetít (svart). Breidd myndar 3 mm.

3. Efnagreining (3. tafla).

Fyrstu haldbæru bergefnagreiningar voru gerðar fyrir miðja 19. öld, en fram undir 1960 voru slíkar greiningar talsvert vandasamar og mjög tímafrekar. Með nútímatækni (flóknum og dýrum rafeindatækjum) er efnagreining þægilegasta og öruggasta greiningaraðferðin, og fljótlegust fyrir utan greiningu í handsýni.

3. tafla. Pikrít-basalt — efnagreining. Í einföldum bergefnagreiningum eru þessi 12 efni greind og oftast gefin í þungaprósentum.

SiO2 46,4 FeO 9,8 Na2O 1,6
TiO2
2,0 MnO 0,2 K2O 0,3
Al2O3 8,5 MgO 20,8 P2O5 0,2
Fe2O3 2,5 CaO 7,4 H2O 0,3

3. mynd. Einfalt flokkunarkerfi byggt á styrk kísils (SiO2) og summu alkalimálma (Na2O+K2O). Efnagreiningin í 3. töflu fellur í reitinn „pikrít-basalt“. Feitdregni ferillinn skilur að alkalískar og lág-alkalískar og bergtegundir. Smellið á myndina til að sjá hana stærri.

Myndir:
  • Smásjársýni: yamaguchi-u.ac.jp. Sótt 16. 2. 2011.
  • Handsýni: Sigurður Steinþórsson.

Höfundur

Sigurður Steinþórsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

24.2.2012

Spyrjandi

Helga Steingrímsdóttir, f. 1994

Tilvísun

Sigurður Steinþórsson. „Hverjar eru helstu aðferðir við flokkun bergs og hvernig fara þær fram?“ Vísindavefurinn, 24. febrúar 2012. Sótt 10. desember 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=61334.

Sigurður Steinþórsson. (2012, 24. febrúar). Hverjar eru helstu aðferðir við flokkun bergs og hvernig fara þær fram? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=61334

Sigurður Steinþórsson. „Hverjar eru helstu aðferðir við flokkun bergs og hvernig fara þær fram?“ Vísindavefurinn. 24. feb. 2012. Vefsíða. 10. des. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=61334>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hverjar eru helstu aðferðir við flokkun bergs og hvernig fara þær fram?
Almennt er berg af þrennu tagi, storkuberg, setberg og myndbreytt berg. Yfirborð Íslands er að langmestu leyti úr storkubergi og því lítum við svo á að spurningin vísi til flokkunar þess.

Storkuberg myndast við kólnun úr glóandi bergbráð og flokkun bergsins byggist annars vegar á efnasamsetningu bráðarinnar og hins vegar á hraða storknunar. Þægileg efnafræðileg breyta er styrkur (hlutfall) kísils, SiO2, í berginu, sem í algengu bergi getur verið allt frá 45 til 75% af þunga (45 þungaprósent kísils merkir að í 100 g af bergi eru 45 g kísill). Eftir kólnunarhraða fer það hins vegar hversu stórir kristallar myndast: stórir kristallar vaxa við mjög hæga kristöllun djúpt í jörðu en bráð sem snarkólnar í vatni nær ekki að mynda kristalla og „frýs“ sem gler. Einföld flokkun er sýnd í 1. töflu þar sem vaxandi hlutfall kísils er á lárétta ásnum og stækkandi kristallar (hægari kólnun) niður lóðrétta ásinn:

1. tafla. Flokkun storkubergs eftir hlutfalli kísils og stærð kristalla.

SiO2 < 52%
Basískt berg
SiO2 52-66%
Ísúrt berg
SiO2 > 66%
Súrt berg
Gosgler Basaltgler Hrafntinna
Gosberg Basalt / blágrýti Andesít / íslandít Ríólít / ljósgrýti
Gangberg Dólerít / grágrýti Míkródíorít Granófýr
Djúpberg Gabbró Díorít Granít

2. tafla. Helstu frumsteindir sem myndast við kristöllun basískrar, ísúrrar og súrrar bráðar.

Ljósar steindir Ca-Na feldspat
(plagíóklas)
Na-Ca feldspat
(plagíóklas)
Alkalí-feldspat
Kvars
Dökkar steindir Pýroxen
Magnetít
Ólivín
Pýroxen
Magnetít
Pýroxen

Orðin basískur, ísúr og súr vísa til hlutfalls kísils í bráðinni. Þau eiga sér sögulega skýringu en fyrrum var ranglega litið svo á að bergbráð væri lausn af kísilsýru (H4SiO4) og steindirnar sölt af henni, til dæmis að ólivín væri magnesín-salt af kísilsýru:
2MgO + H4SiO4 = Mg2SiO4 + 2H2O

Núorðið er stundum talað um kísilríkt og kísilsnautt berg í staðinn fyrir súrt og basískt, en lýsingarorðið „ísúr“ er nýyrði Guðmundar Kjartanssonar jarðfræðings, dregið af orðinu „ísaltur“ sem notað er á Suðurlandi yfir hálfsölt lón við ströndina. Orðin blágrýti, grágrýti og ljósgrýt eru íslenskun hinna alþjóðlegu nafna, íslandít er járnríkt afbrigði af andesíti sem er einkennandi fyrir úthafssvæði eins og Ísland, en ríólít kallast nú það sem áður var nefnt líparít.

Samkvæmt þessu er flokkun bergs í aðalatriðum efnafræðileg, enda hafa á síðustu 50 árum komið fram æ fljótvirkari og nákvæmari sjálfvirkar vélar til að greina berg. Flest hinna algengu nafna eru þó miklu eldri en efnagreiningar, mörg tengd námagreftri eða byggingarlist. Þess vegna byggðist greining þeirra lengst af á eiginleikum sem meta má með berum augum og án flókinna tækja – lit, grófleika kristalla, hörku, kleyfni — og með dálítilli æfingu má ná færni í að flokka flestar algengar bergtegundir með stækkunargler eitt að vopni auk þess sem vasahnífur getur verið gagnlegur til að meta hörku steinda.

Aðferðir við að greina berg eru eftirfarandi, með vísan til taflna 1 og 2:

1. Greining í handsýni (1. mynd).

Bretinn George Walker, sem vann merkilegt jarðfræðistarf á Austurlandi á 6. og 7. áratug 20. aldar, greindi flest berg í handsýni, jafnvel mismunandi basalt. Því skipti hann í þrennt, ólivín-basalt, þóleiít og dílabasalt.

1. mynd. Pikrít í handsýni. Pikrít er kísilsnautt basalt og einkennist af ólivín-dílum í fínkorna grunnmassa. Lóðrétta hliðin á sýninu er 4 cm, sú lárétta 3,6 cm.

Ólivín-basalt þekkist á flöskugrænum kristöllum (dílum) ólivíns í annars fín- eða dulkornóttum grunnmassa; þóleiít einkennist af skorti slíkra díla og af skörpum brúnum á veðrunarflötum, ólíkt ávölum brúnum í ólivín-basalti. Dílabasalt einkennist svo af hvítum plagíóklas-dílum. Íslandít þekkist helst í handsýni af svörtum lit, það er fínkornótt og veðrast í flögur. Og ríólít einkennist yfirleitt af ljósum lit, grágrýti og gabbró, annars vegar, og granófýr og granít hins vegar af lit, kornastærð og steindasamsetningu (2. tafla).

2. Greining með smásjá (2. mynd).

Bergfræðismásjár eru flókin og dýr áhöld, og undirbúningur sýna fyrir smásjárskoðun sömuleiðis ekki á allra færi. Sá undirbúningur er í því fólginn að berg er límt á gler og slípað niður í þynnu af ákveðinni þykkt, 30 míkrómetra (0,03 mm). Þá eru flestir kristallar gagnsæir og unnt að greina þá, jafnt steintegund, stærð kristalla og innri gerð bergsins.

2. mynd. Pikrít í þunnsneið. Myndin er tekin gegnum smásjá með skautuðu ljósi sem veldur tvíbrotslitum (e. interference colours). Ólivín-dílar (bleikir, bláir, grænir, gráir) með ummyndun á brúnum . Fínkorna grunnmassi er feldspat (hvítt), pýroxen, ólivín og magnetít (svart). Breidd myndar 3 mm.

3. Efnagreining (3. tafla).

Fyrstu haldbæru bergefnagreiningar voru gerðar fyrir miðja 19. öld, en fram undir 1960 voru slíkar greiningar talsvert vandasamar og mjög tímafrekar. Með nútímatækni (flóknum og dýrum rafeindatækjum) er efnagreining þægilegasta og öruggasta greiningaraðferðin, og fljótlegust fyrir utan greiningu í handsýni.

3. tafla. Pikrít-basalt — efnagreining. Í einföldum bergefnagreiningum eru þessi 12 efni greind og oftast gefin í þungaprósentum.

SiO2 46,4 FeO 9,8 Na2O 1,6
TiO2
2,0 MnO 0,2 K2O 0,3
Al2O3 8,5 MgO 20,8 P2O5 0,2
Fe2O3 2,5 CaO 7,4 H2O 0,3

3. mynd. Einfalt flokkunarkerfi byggt á styrk kísils (SiO2) og summu alkalimálma (Na2O+K2O). Efnagreiningin í 3. töflu fellur í reitinn „pikrít-basalt“. Feitdregni ferillinn skilur að alkalískar og lág-alkalískar og bergtegundir. Smellið á myndina til að sjá hana stærri.

Myndir:
  • Smásjársýni: yamaguchi-u.ac.jp. Sótt 16. 2. 2011.
  • Handsýni: Sigurður Steinþórsson.

...