Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hnetur skiptast almennt í jarðhnetur (e. peanuts, svo sem salthnetur) annars vegar og trjáhnetur hins vegar (svo sem heslihnetur, valhnetur, pekanhnetur, möndlur). Hnetur eru með algengustu ofnæmisvökum í fæðu og er jarðhnetan þeirra þekktust. Yfirleitt beinist ofnæmið að einni tegund af hnetum en þó er til að einstaklingar hafi ofnæmi fyrir fleiri en einni tegund.
Yfirleitt hefur fólk ofnæmi fyrir ákveðinni tegund af hnetum, en ekki fyrir öllum hnetum.
Algengi hnetuofnæmis hefur farið vaxandi á undanförnum áratugum í hinum vestræna heimi. Í nýrri rannsókn á Íslandi þar sem 1.341 barni var fylgt eftir í tvö og hálft ár voru 85 börn með einkenni um fæðuofnæmi og jákvæð ofnæmispróf fyrir einhverri fæðu. Af þeim sannaðist fæðuofnæmi hjá 40 (3%) í tvíblindu þolprófi, þar af voru 6 með jarðhnetuofnæmi (0,5%). Um tveggja ára aldur hafði ofnæmi elst af hjá um 30% en það var einkum fyrir eggjum og mjólk. Jarðhnetuofnæmi er oftar langtímavandamál en getur elst af í 20% tilfella.
Einkenni hnetuofnæmis geta verið allt frá því að vera saklaus kláði í munni til þess að valda ofnæmislosti sem er lífshættulegt ástand. Algengast er að viðkomandi fái húðútbrot. Þau lýsa sér þá annaðhvort sem ofsakláði (þinur, e. urticaria) eða að undirliggjandi exem versnar. Einnig geta komið fram meltingarfæraeinkenni og eru uppköst eða niðurgangur þá algengust. Ofnæmislost (e.anaphylaxis) einkennist af skyndilegum og lífshættulegum einkennum þar sem sjúklingur steypist út í þinum og bjúgur leggst á öndunarfæri og/eða meltingarfæri. Þannig getur bjúgur í koki leitt af sér köfnun og í berkjum til alvarlegra astmaeinkenna. Alvarlegasta form ofnæmislosts hefur einnig áhrif á hjarta- og æðakerfi og getur valdið lífshættulegu blóðþrýstingsfalli.
Húðútbrot eru algengustu einkenni hnetuofnæmis.
Ofnæmisvaldurinn í hnetunum eru prótín sem nú hafa verið einangruð og greind sameindafræðilega. Þau prótín sem valda ofnæmi í jarðhnetum eru kölluð Ara h og eru allt að 8 talsins. Hnetuofnæmi er greint með sögu og staðfest með ofnæmishúðprófum eða ofnæmisblóðprófum. Einstaklingar geta verið með jákvæð ofnæmispróf en þolað samt að borða hnetur. Þannig getur sjúkrasaga og húðpróf verið á skjön og mikilvægt að greina rétt. Erfitt getur reynst fyrir einstakling að greinast með hnetuofnæmi og lifa samkvæmt því, sérstaklega ef raunverulegt ofnæmi er ekki til staðar. Enn mikilvægara er að staðfesta greiningu hjá þeim sem eru með hættulegt hnetuofnæmi þannig að þeir geri viðeigandi ráðstafanir. Ofnæmi getur verið misalvarlegt og ræðst það meðal annars af því gegn hvaða prótíni ofnæmið beinist. Þannig er hægt að greina með nokkru öryggi hvort um er að ræða hættulegt ofnæmi eða ekki og taka afstöðu til þess hvort viðkomandi sjúklingur eigi að fara í þolpróf fyrir hnetum.
Dæmi um slíkt tilfelli væri barn með exem sem greindist með næmi fyrir hnetum með ofnæmisprófum áður en viðkomandi hefur nokkru sinni fengið í sig hnetur. Þá er hjálplegt að sjá hversu mikið er af ofnæmismótefnum í blóðinu. Ef það er mjög hátt má gera ráð fyrir að viðkomandi fái ofnæmiseinkenni við það að neyta fæðunnar en undir ákveðnu magni er gagnlegt að mæla mótefnin gegn fyrrnefndum prótínum til að meta hvort leggja eigi barnið inn á dagdeild og gefa því hnetur í tvíblindu þolprófi.
Ýmislegt þarf að hafa í huga í sambandi við hnetuofnæmi:
Greining. Það skiptir mestu máli varðandi meðferð á hnetuofnæmi að láta greina það rétt.
Fræðsla er afar mikilvæg. Það þarf að kenna sjúklingnum hvað ofnæmið þýðir, kenna honum og aðstandendum að þekkja einkenni og fyrstu viðbrögð.
Lesa innihaldslýsingar. Forðast ber að neyta prótína þeirrar hnetu sem ofnæmið beinist gegn. Hjá ungum börnum er oft nauðsynlegt að forðast allar hnetur þar sem barnið getur ekki alltaf greint á milli þeirra en fullorðnir eiga auðveldara með að forðast þá hnetu eða hnetur sem um er að ræða. Það er rétt að taka fram að kókoshneta er ekkert skyld jarðhnetum eða trjáhnetum en sérstakt ofnæmi fyrir kókoshnetum er til þótt það sé sjaldgæft. Einnig eiga hnetur ekkert skylt við furuhnetur. Nokkur tilfelli eru um furuhnetuofnæmi á Íslandi. Þetta endurspeglar ef til vill hversu nýlega þær komu inn í fæðuna á Íslandi. Einstaklingar sem eru með ofnæmi fyrir jarðhnetum og trjáhnetum eru líklegri til að mynda ofnæmi fyrir öðrum fæðutegundum en þeir sem ekki hafa slíkt ofnæmi. Þó er ekki talin ástæða til að forðast aðra fæðu til að fyrirbyggja ofnæmi.
Hér er varað við að súkkulaðið gæti innihaldið hnetur.
Það er lagaleg skylda matvælaframleiðslufyrirtækja að merkja vörur sem innihalda hnetur. Stundum er súkkulaði og kex merkt með setningunni „may contain nuts“ eða „gæti innihaldið hnetur“. Þá er framleiðsluaðferðum fyrirtækisins þannig háttað að sömu tæki eru notið til að framleiða matvæli með og án hneta og því hugsanlegt að mengun geti átt sér stað á milli framleiðslutegunda til dæmis suðusúkkulaði og hnetusúkkulaði.
Alltaf á verði. Hnetur geta dulist í mörgum matvælum. Til dæmis nota margir austurlenskir veitingastaðir hnetur eða hnetusmjör til að bragðbæta rétti. Satay-sósa er til dæmis gerð úr jarðhnetum. Ísbarir geta verið varasamir þar sem súkkulaðiídýfan er oft notuð til að hylja hnetukurlið eða hneturnar og er þá ídýfan einnig orðin menguð. Súkkulaði og rúsínur sem liggja með hnetum í skál geta vegna krossmengunar verið jafnhættulegar fólki með hnetuofnæmi og hneturnar sjálfar.
Adrenalín. Ef hnetuofnæmið er lífshættulegt þarf viðkomandi einstaklingur eða foreldri að eiga og bera á sér adrenalínpenna (Epipen-jr, Epipen) sem inniheldur einn skammt af adrenalíni. Adrenalín er aðeins hægt að gefa með sprautu sem gefin er í vöðva. Adrenalín vinnur á móti ofnæmiseinkennunum á skömmum tíma en ef viðkomandi hefur neytt mikils af ofnæmisvakanum geta einkennin komið aftur eftir 20 – 30 mínútur. Þess vegna verður einstaklingur að leita til læknis eða á bráðamóttöku strax eftir adrenalín-gjöf.
Ofnæmislyf geta hjálpað en koma ekki í staðinn fyrir adrenalínpennann. Þau eru til í fljótandi formi sem virka fyrr en töflur.
Medic-Alert-merki. Þegar einstaklingur er með lífshættulegt ofnæmi, til dæmis fyrir jarðhnetum, ætti hann að bera á sér Medic-Alert-merki. Beri einstaklingur merkingu um fæðuofnæmi eða ofnæmislost er líklegra að hann fái strax rétta meðferð við sínu ofnæmi.
Það er ekki til lækning við hnetuofnæmi, þó lofa rannsóknir sem beinast að afnæmingu við hnetuofnæmi góðu. Þessar rannsóknir fara fram á sjúkrahúsum og ganga út á að gefa viðkomandi þá fæðu sem hann er með ofnæmi fyrir í smáum og vaxandi skömmtum. Árangur hefur sést af þessum rannsóknum, en enn þá er meðferðin of hættuleg til að hægt sé að setja hana í almenna notkun.
Innihaldslýsingar þurfa að vera réttar og nákvæmar og er mikilvægt að matvælaiðnaðurinn og matvælaframleiðendur séu meðábyrgir í því að gera líf fólks með fæðuofnæmi öruggt.
Myndir:
Sigurveig Þ. Sigurðardóttir. „Hvað er hnetuofnæmi og er til einhver lækning við því?“ Vísindavefurinn, 8. desember 2011, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=61385.
Sigurveig Þ. Sigurðardóttir. (2011, 8. desember). Hvað er hnetuofnæmi og er til einhver lækning við því? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=61385
Sigurveig Þ. Sigurðardóttir. „Hvað er hnetuofnæmi og er til einhver lækning við því?“ Vísindavefurinn. 8. des. 2011. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=61385>.