Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt mér um Grímsvatnagosið árið 2011?

Magnús Tumi Guðmundsson

Öflugt gos hófst í Grímsvötnum þann 21. maí 2011 klukkan sjö um kvöld. Vísindamenn höfðu búist við gosi í nokkurn tíma, því að mælingar á landrisi í Eystri-Svíahnúk sýndu að kvikuhólfið undir vötnunum var komið í svipaða stöðu og fyrir eldsumbrotin í nóvember 2004. Þá hafði jarðskjálftavirkni heldur aukist misserin á undan. Gosmökkur náði fljótlega yfir 15 km hæð, og gjóskuskýið teygði sig tugi kílómetra í allar áttir. Gjóskufalls tók að gæta suðaustan Vatnajökuls um nóttina, og næstu tvo daga lagði mikinn mökk yfir Fljótshverfi og Síðu, svo að oft var svartamyrkur þótt miður dagur væri.

Efsta hluta gosmakkarins lagði hins vegar til norðurs, en gjóskufall úr honum var mun minna. Lágt gjóskuský barst til suðvesturs, lagðist yfir Suðurlandsundirlendi og náði til Reykjavíkur. Á öðrum degi fór að draga úr gosinu. Frá og með þriðja degi var það orðið tiltölulega lítið, og gjóska barst ekki í teljandi magni út fyrir Vatnajökul eftir það. Gosinu lauk að morgni 28. maí og stóð það því í tæpa sjö daga.

Gosmökkurinn séður úr NASA-gervitunglinu MODIS kl. 05:00 að íslenskum tíma, 22. maí 2011. Mökkurinn hylur Vatnajökul og af skugganum sem hann varpar, má ráða að hann hafi verið 16 km hár (yfir sjávarmáli). Gjóskuský berst með vindi til suðurs og síðan austurs og norður með austurströndinni.

Gosstöðvarnar voru á sama stað og 2004, í suðvesturhorni Grímsvatna. Þar myndaðist um 1,5 kílómetra langur og allt að 150 metra djúpur sigketill. Vatnsborð Grímsvatna var mjög lágt og það breyttist ekki að ráði í gosinu. Ísbráðnun varð einnig tiltölulega lítil, því að jökullinn hafði ekki enn náð að skríða niður ketilinn frá 2004. Af þessum sökum varð ekki hlaup samhliða gosinu. Gosefni eru basísk og efnasamsetningin dæmigerð fyrir Grímsvötn.

Gosið í maí 2011 var mun stærra en önnur nýleg gos í Grímsvötnum, en það kann að vera að álíka magn hafi komið upp 1873. Gjóska barst víðar en heimildir eru um fyrir Grímsvatnagos á seinni öldum. Öskufall varð mjög víða hér á landi. Utanlands er staðfest að aska féll á Jan Mayen, Bretlandseyjum og í Noregi. Þó voru vindar fremur hagstæðir framan af, því að fyrstu tvo daga, meðan mesta sprengigosið stóð yfir, barst askan lítið burtu frá landinu, þrátt fyrir að megingjóskugeirinn hafi legið til suðurs um Fljótshverfi.

Gígsvæðið í suðvesturhorni Grímsvatna þann 30. maí 2011, tveimur dögum eftir að gosinu lauk. Litli gígurinn sem rýkur úr í miðjum katlinum, myndaðist síðustu dagana, þegar gosið var orðið máttlítið. Nær er stærri gígur sem var virkur lengst af, en tók þó líklega ekki á sig form fyrr en heldur dró úr afli gossins á öðrum degi þess.

Á norðurbrún Grímsfjalls, sunnan gígsins, náði gjóskuþykktin tugum metra og í Háubungu í sjö kílómetra fjarlægð var lagið um 1,5 metrar á þykkt. Þetta þykka gjóskulag einangraði hjarnið frá sólargeislunum og hægði verulega á bráðnun jökulsins. Í byggð var þykktin mest um eða yfir fimm sentimetrar í Fljótshverfinu, í 60 kílómetra fjarlægð frá Grímsvötnum. Tún voru þar sumstaðar undir mikilli ösku og óljóst með heyskap. Lambfé í Vestur-Skaftafellssýslu var víða í haga þegar öskufallið lagðist yfir, og óttuðust menn um tíma að mikið af skepnum hefði drepist. Það fór þó betur en á horfðist, þótt eitthvert fjártjón hafi orðið.

Magn nýfallinnar gjósku var 0,6-0,8 rúmkílómetrar, sem samsvarar yfir 0,2 rúmkílómetrum af þéttu bergi. Þetta Grímsvatnagos er því tífalt stærra en gosið 2004 og nokkru meira að magni til en gosið í Eyjafjallajökli 2010. Truflanir urðu á flugi á Íslandi, Bretlandseyjum og í Noregi. Þær voru þó litlar í samanburði við gosið í Eyjafjallajökli árið áður, enda stóð megingosið nú aðeins í um hálfan annan sólarhring.


Þetta svar er fengið úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi. Textinn er hluti af lengri umfjöllun um Grímsvötn. Myndir eru fengnar úr sama riti, bls. 244.

Höfundur

Magnús Tumi Guðmundsson

prófessor í jarðeðlisfræði við HÍ

Útgáfudagur

26.9.2013

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Magnús Tumi Guðmundsson. „Hvað getið þið sagt mér um Grímsvatnagosið árið 2011?“ Vísindavefurinn, 26. september 2013. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=65363.

Magnús Tumi Guðmundsson. (2013, 26. september). Hvað getið þið sagt mér um Grímsvatnagosið árið 2011? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=65363

Magnús Tumi Guðmundsson. „Hvað getið þið sagt mér um Grímsvatnagosið árið 2011?“ Vísindavefurinn. 26. sep. 2013. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=65363>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um Grímsvatnagosið árið 2011?
Öflugt gos hófst í Grímsvötnum þann 21. maí 2011 klukkan sjö um kvöld. Vísindamenn höfðu búist við gosi í nokkurn tíma, því að mælingar á landrisi í Eystri-Svíahnúk sýndu að kvikuhólfið undir vötnunum var komið í svipaða stöðu og fyrir eldsumbrotin í nóvember 2004. Þá hafði jarðskjálftavirkni heldur aukist misserin á undan. Gosmökkur náði fljótlega yfir 15 km hæð, og gjóskuskýið teygði sig tugi kílómetra í allar áttir. Gjóskufalls tók að gæta suðaustan Vatnajökuls um nóttina, og næstu tvo daga lagði mikinn mökk yfir Fljótshverfi og Síðu, svo að oft var svartamyrkur þótt miður dagur væri.

Efsta hluta gosmakkarins lagði hins vegar til norðurs, en gjóskufall úr honum var mun minna. Lágt gjóskuský barst til suðvesturs, lagðist yfir Suðurlandsundirlendi og náði til Reykjavíkur. Á öðrum degi fór að draga úr gosinu. Frá og með þriðja degi var það orðið tiltölulega lítið, og gjóska barst ekki í teljandi magni út fyrir Vatnajökul eftir það. Gosinu lauk að morgni 28. maí og stóð það því í tæpa sjö daga.

Gosmökkurinn séður úr NASA-gervitunglinu MODIS kl. 05:00 að íslenskum tíma, 22. maí 2011. Mökkurinn hylur Vatnajökul og af skugganum sem hann varpar, má ráða að hann hafi verið 16 km hár (yfir sjávarmáli). Gjóskuský berst með vindi til suðurs og síðan austurs og norður með austurströndinni.

Gosstöðvarnar voru á sama stað og 2004, í suðvesturhorni Grímsvatna. Þar myndaðist um 1,5 kílómetra langur og allt að 150 metra djúpur sigketill. Vatnsborð Grímsvatna var mjög lágt og það breyttist ekki að ráði í gosinu. Ísbráðnun varð einnig tiltölulega lítil, því að jökullinn hafði ekki enn náð að skríða niður ketilinn frá 2004. Af þessum sökum varð ekki hlaup samhliða gosinu. Gosefni eru basísk og efnasamsetningin dæmigerð fyrir Grímsvötn.

Gosið í maí 2011 var mun stærra en önnur nýleg gos í Grímsvötnum, en það kann að vera að álíka magn hafi komið upp 1873. Gjóska barst víðar en heimildir eru um fyrir Grímsvatnagos á seinni öldum. Öskufall varð mjög víða hér á landi. Utanlands er staðfest að aska féll á Jan Mayen, Bretlandseyjum og í Noregi. Þó voru vindar fremur hagstæðir framan af, því að fyrstu tvo daga, meðan mesta sprengigosið stóð yfir, barst askan lítið burtu frá landinu, þrátt fyrir að megingjóskugeirinn hafi legið til suðurs um Fljótshverfi.

Gígsvæðið í suðvesturhorni Grímsvatna þann 30. maí 2011, tveimur dögum eftir að gosinu lauk. Litli gígurinn sem rýkur úr í miðjum katlinum, myndaðist síðustu dagana, þegar gosið var orðið máttlítið. Nær er stærri gígur sem var virkur lengst af, en tók þó líklega ekki á sig form fyrr en heldur dró úr afli gossins á öðrum degi þess.

Á norðurbrún Grímsfjalls, sunnan gígsins, náði gjóskuþykktin tugum metra og í Háubungu í sjö kílómetra fjarlægð var lagið um 1,5 metrar á þykkt. Þetta þykka gjóskulag einangraði hjarnið frá sólargeislunum og hægði verulega á bráðnun jökulsins. Í byggð var þykktin mest um eða yfir fimm sentimetrar í Fljótshverfinu, í 60 kílómetra fjarlægð frá Grímsvötnum. Tún voru þar sumstaðar undir mikilli ösku og óljóst með heyskap. Lambfé í Vestur-Skaftafellssýslu var víða í haga þegar öskufallið lagðist yfir, og óttuðust menn um tíma að mikið af skepnum hefði drepist. Það fór þó betur en á horfðist, þótt eitthvert fjártjón hafi orðið.

Magn nýfallinnar gjósku var 0,6-0,8 rúmkílómetrar, sem samsvarar yfir 0,2 rúmkílómetrum af þéttu bergi. Þetta Grímsvatnagos er því tífalt stærra en gosið 2004 og nokkru meira að magni til en gosið í Eyjafjallajökli 2010. Truflanir urðu á flugi á Íslandi, Bretlandseyjum og í Noregi. Þær voru þó litlar í samanburði við gosið í Eyjafjallajökli árið áður, enda stóð megingosið nú aðeins í um hálfan annan sólarhring.


Þetta svar er fengið úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi. Textinn er hluti af lengri umfjöllun um Grímsvötn. Myndir eru fengnar úr sama riti, bls. 244.

...