Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Rúmlega helmingur allra eldgosa á Íslandi á sögumlegum tíma hefur orðið í jöklum, í Kötlu og einkum í Grímsvötnum.1 Flest unnu þau sig upp í gegnum ísinn svo úr urðu sprengigos, oftast surtseysk tætigos. Á jökulskeiðum hafa svo til öll eldgos á Íslandi orðið í jöklum.2 Móbergsfjöllin hafa myndast í slíkum gosum. Á það meðal annars við um svo til öll fjöll á Reykjanesskaga og flest á hálendinu. Alla jafna eru móbergsfjöll basísk og skiptast í megindráttum í tvo flokka, móbergshryggi og stapa. Einnig eru súr móbergsfjöll og má skipta þeim í hryggi og stapa á sama hátt.
Eldgos undir jökli og í vatni eru í meginatriðum svipuð. Samspil vatns og kviku stjórnar gosháttum og ræður uppbyggingu eldfjallanna. Þar sem vatnsþrýstingur er hár, annaðhvort á sjávarbotni eða undir þykkum jökli, tvístrast kvikan yfirleitt ekki, heldur myndar bólstraberg. Sökkull margra móbergsfjalla er þannig gerður. Vatnsþrýstingur í gígnum fer lækkandi eftir því sem gosefnin hlaðast upp, jafnframt því sem sigdæld myndast í jökulinn yfir eldfjallinu vegna bráðnunar íssins. Bræðsluvatnið virðist í allflestum tilfellum renna burt eftir botni jökulsins.
Gjálpargosið 1996. Langsnið frá norðri til suðurs sýna þróun gossins með tíma, myndun sigdælda, uppbyggingu fjalls undir jöklinum og vatnssöfnun í Grímsvötnum, út frá bráðnum ís í gosstöðinni. Mikill þrýstingur dælir vatninu yfir hæðir í jökulbotninum.
Þegar þrýstingur lækkar, fer kvikan að sundrast, annars vegar á fremur rólegan hátt án mikilla sprenginga, hins vegar þannig að vatn hrærist inn í hana, og yfirhitun vatnsins og hvellsuða veldur tætingu og mjög öflugum sprengingum. Við þær aðstæður hefur gosið yfirleitt brætt sig gegnum jökulinn, og surtseyskt gos hefst með tilheyrandi myndun gosmakkar og gjóskufalli. Kötlu- og Grímsvatnagos, sem og gosið í Gjálp, hafa fylgt þessu mynstri, þótt líklegast sé að lítið bólstraberg hafi myndast í þessum gosum – tæting virðist hafa verið ráðandi.3
Einkennandi fyrir gos í jöklum er mjög hröð kæling kvikunnar og snögg ísbráðnun. Bráðnunin veldur jökulhlaupum og sýna Kötluhlaupin að þessi ísbráðnun getur verið firnahörð og öflug. Munur á lögun og gerð fjalla sem myndast hafa í sjó eða í jökli er ekki mikill, þótt líklegt sé að fjöll sem orðið hafa til í jöklum, séu stundum brattari en hin vegna aðhalds íssins.
Mesti munurinn kemur ef til vill fram eftir gos, því að sjávarrof getur verið ákaflega hraðvirkt að brjóta niður eldfjallaeyjar, eins og þróun Surtseyjar sýnir, en hún hafði misst helming af flatarmálinu sínu 2002, 35 árum eftir að gosinu lauk 1967.4 Til samanburðar má nefna að árið 2006, tíu árum eftir Gjálpargosið, hafði ísskrið aðeins orðið inn að fjallinu undir jöklinum. Enginn ís hafði skriðið yfir það. Sigdældin hafði grynnkað töluvert, en tindurinn undir jöklinum var lítt eða ekki breyttur frá því skömmu eftir goslok.5 Tilvísanir: 1 Guðrún Larsen, 2002. A brief overview of eruptions from ice-covered and ice-capped volcanic systems in Iceland during the past 11 centuries: frequency, periodicity and implications. Volcano-Ice Interactions on Earth and Mars. Geological Society, London, Special Publications, 202, 81-90. 2 Sveinn P. Jakobsson og Magnús T. Guðmundsson, 2008. Subglacial and intraglacial volcanic formations in Iceland. Jökull, 58, 179-197. 3 Magnús Tumi Guðmundsson og fleiri, 2004. The 1996 eruption at Gjálp, Vatnajökull ice cap, Iceland: Course of events, efficiency of heat transfer, ice deformation and subglacial water pressure. Bulletin of Volcanology, 66, 46-65.
Magnús Tumi Guðmdunsson, 2005a. Subglacial volcanic activity in Iceland. Iceland: Modern processes, Past Environments. Elsevier, Amsterdam, 127-151. 4 Sveinn P. Jakobsson og Guðmundur Guðmundsson, 2003. Rof Surtseyjar. Mælingar 1967-2002 og framtíðarspá. Náttúrufræðingurinn, 71(3-4), 138-144. 5 Jarosch og fleiri, 2008. The progressive cooling of the hyaloclastite ridge at Gjálp, Iceland, 1996-2005. Journal of Volcanology and Geothermal Research, 170, 218-229.
Upprunalega spurningin frá Hafrúnu Helgu var:
Hvaða tegundir eru til af eldgosum?
Þeirri spurningu er svarað hér að hluta og einnig í öðrum tengdum svörum.
Þetta svar er hluti af lengri umfjöllun um flokkun eldgosa í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi. Mynd er fengin úr sama riti, bls. 96.
Ármann Höskuldsson, Magnús Tumi Guðmundsson, Guðrún Larsen og Þorvaldur Þórðarson. „Hvað getið þið sagt mér um eldgos undir jökli?“ Vísindavefurinn, 22. október 2013, sótt 5. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=65431.
Ármann Höskuldsson, Magnús Tumi Guðmundsson, Guðrún Larsen og Þorvaldur Þórðarson. (2013, 22. október). Hvað getið þið sagt mér um eldgos undir jökli? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=65431
Ármann Höskuldsson, Magnús Tumi Guðmundsson, Guðrún Larsen og Þorvaldur Þórðarson. „Hvað getið þið sagt mér um eldgos undir jökli?“ Vísindavefurinn. 22. okt. 2013. Vefsíða. 5. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=65431>.