Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Hvaða hlutverki gegnir mænan í okkur og hvernig starfar hún?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Mænan er langur, mjór strengur úr taugavef og stoðfrumum sem liggur frá heilanum, nánar tiltekið mænukylfu, niður eftir bakinu að lendaliðum þar sem hún greinist í knippi sem kallast mænutagl. Saman mynda mænan og heilinn miðtaugakerfi líkamans. Mænan liggur í gegnum hrygginn, sem verndar hana fyrir hnjaski. Hún er þó styttri en hryggurinn, nær aðeins að svæðinu milli fyrsta og annars lendaliðs hryggjarins og er að meðaltali um 45 cm löng í körlum en 43 cm í konum. Mænan er álíka gild og litlifingur en hún er breiðari í háls- og lendaliðum en í brjóstliðunum.

Mænan er umlukin glærum heila- og mænuvökva sem virkar sem höggdeyfir og ver hana fyrir hnjaski þegar hún rekst á hryggjarliðina.

Mænan tengir saman miðtaugakerfið og úttaugakerfið (taugarnar). Hún flytur hreyfiboð frá heilanum til tauga sem tengjast vöðvum eða kirtlum og örva starfsemi þeirra eða letur. Mænan tekur einnig við svokölluðum skynboðum frá ýmiss konar nemum um allan líkamann og kemur þeim áfram til heilans sem vinnur úr þeim. Að lokum stýrir mænan einnig svokölluðum mænuviðbrögðum, sem eiga sér stað án þess að heilinn komi þar nokkuð við sögu. Dæmi um mænuviðbragð er hnéviðbragðið, þar sem fótleggurinn fyrir neðan hnéð sparkar upp á við ef slegið er á hnéð rétt undir hnéskelina. Boðflutningur milli mænu og tauga, milli mænu og heila og upp eða niður eftir mænu fer fram með taugaboðum, sem eru vægar rafspennubreytingar í himnu taugunga og efnaboð milli frumna.

Taugar sem liggja til og frá mænu kallast mænutaugar og eru þær alls 31 par.

Taugar sem liggja til og frá mænu kallast mænutaugar. Alls er um að ræða 31 par af mænutaugum. Þær eru allar blandaðar, sem þýðir að hver mænutaug inniheldur bæði hreyfitaugaþræði og skyntaugaþræði. Hreyfitaugaþræðir flytja boð frá miðtaugakerfi til vöðva eða kirtils en skyntaugaþræðir frá skynnemum til miðtaugakerfis. Af mænutaugunum eru átta pör svokallaðar hálstaugar sem hreyfa og flytja skynboð frá handleggjum, hálsi og efri hluta búks ásamt því að stjórna öndun. Tólf pör eru brjósttaugar sem eru staðsettar í efri hluta baksins og ítauga búkinn og kviðinn. Í neðri hluta baksins eru fimm lendataugapör og fimm spjaldhryggstaugapör. Þau ítauga fótleggi, þvagblöðru, ristil og æxlunarfæri. Að síðustu er eitt par af rófutaugum sem flytur skynboð frá húð í neðra baki.

Heimildir og mynd:

Höfundur

Útgáfudagur

12.6.2013

Spyrjandi

María Guðlaug Guðmundsdóttir, Heiða Harðardóttir, Hanna Sesselja Hálfdánardóttir

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvaða hlutverki gegnir mænan í okkur og hvernig starfar hún?“ Vísindavefurinn, 12. júní 2013. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=65447.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2013, 12. júní). Hvaða hlutverki gegnir mænan í okkur og hvernig starfar hún? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=65447

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvaða hlutverki gegnir mænan í okkur og hvernig starfar hún?“ Vísindavefurinn. 12. jún. 2013. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=65447>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða hlutverki gegnir mænan í okkur og hvernig starfar hún?
Mænan er langur, mjór strengur úr taugavef og stoðfrumum sem liggur frá heilanum, nánar tiltekið mænukylfu, niður eftir bakinu að lendaliðum þar sem hún greinist í knippi sem kallast mænutagl. Saman mynda mænan og heilinn miðtaugakerfi líkamans. Mænan liggur í gegnum hrygginn, sem verndar hana fyrir hnjaski. Hún er þó styttri en hryggurinn, nær aðeins að svæðinu milli fyrsta og annars lendaliðs hryggjarins og er að meðaltali um 45 cm löng í körlum en 43 cm í konum. Mænan er álíka gild og litlifingur en hún er breiðari í háls- og lendaliðum en í brjóstliðunum.

Mænan er umlukin glærum heila- og mænuvökva sem virkar sem höggdeyfir og ver hana fyrir hnjaski þegar hún rekst á hryggjarliðina.

Mænan tengir saman miðtaugakerfið og úttaugakerfið (taugarnar). Hún flytur hreyfiboð frá heilanum til tauga sem tengjast vöðvum eða kirtlum og örva starfsemi þeirra eða letur. Mænan tekur einnig við svokölluðum skynboðum frá ýmiss konar nemum um allan líkamann og kemur þeim áfram til heilans sem vinnur úr þeim. Að lokum stýrir mænan einnig svokölluðum mænuviðbrögðum, sem eiga sér stað án þess að heilinn komi þar nokkuð við sögu. Dæmi um mænuviðbragð er hnéviðbragðið, þar sem fótleggurinn fyrir neðan hnéð sparkar upp á við ef slegið er á hnéð rétt undir hnéskelina. Boðflutningur milli mænu og tauga, milli mænu og heila og upp eða niður eftir mænu fer fram með taugaboðum, sem eru vægar rafspennubreytingar í himnu taugunga og efnaboð milli frumna.

Taugar sem liggja til og frá mænu kallast mænutaugar og eru þær alls 31 par.

Taugar sem liggja til og frá mænu kallast mænutaugar. Alls er um að ræða 31 par af mænutaugum. Þær eru allar blandaðar, sem þýðir að hver mænutaug inniheldur bæði hreyfitaugaþræði og skyntaugaþræði. Hreyfitaugaþræðir flytja boð frá miðtaugakerfi til vöðva eða kirtils en skyntaugaþræðir frá skynnemum til miðtaugakerfis. Af mænutaugunum eru átta pör svokallaðar hálstaugar sem hreyfa og flytja skynboð frá handleggjum, hálsi og efri hluta búks ásamt því að stjórna öndun. Tólf pör eru brjósttaugar sem eru staðsettar í efri hluta baksins og ítauga búkinn og kviðinn. Í neðri hluta baksins eru fimm lendataugapör og fimm spjaldhryggstaugapör. Þau ítauga fótleggi, þvagblöðru, ristil og æxlunarfæri. Að síðustu er eitt par af rófutaugum sem flytur skynboð frá húð í neðra baki.

Heimildir og mynd:...