Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Á að skrifa Jörð eða jörð?

Spurningin í heild sinni hljóðaði svona:

Á að skrifa Jörð eða jörð? Aukaupplýsingar: Hér stendur að Mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi fengið svar frá Íslenskri málnefnd um að rita ætti stóran staf þegar um sérnafnið væri að ræða. Hinsvegar er orðið Jörð með stórum staf hvorki til á Snöru né hjá Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls

Þegar átt er við heiti reikistjörnunnar á að rita Jörð en hins vegar jörð í öðrum merkingum orðsins og í ýmsum orðasamböndum: kaupa sér jörð, snjólaus jörð; af jörðu ertu kominn, allt milli himins og jarðar og svo framvegis.

Íslensk málnefnd fjallaði um ritháttinn í bréfi til mennta- og menningarmálaráðuneytisins 12. maí 2011. Þar er bent á að fjöldi samnafna og sérnafna í íslensku hljómi eins (til dæmis grund og Grund) og það geti gilt um jörð. Samheitið jörð, með litlum staf, sé líklega algengast en það megi hins vegar „telja það sérheiti þegar sérstaklega er rætt um reikistjörnuna Jörð, til að mynda í upptalningu á reikistjörnum: Merkúr, Venus, Jörð, Mars“. Málnefndin mælir með því „að sérnafnstúlkunin sé notuð afar sparlega og einvörðungu þegar sérstaklega er rætt um reikistjörnuna Jörð“.

Nota á stóran staf ef átt er við reikistjörnuna Jörð en lítinn staf í öðrum merkingum.

Einstaklingur hafði skorað á mennta- og menningarmálaráðherra að bæta því ákvæði inn í íslenskar stafsetningarreglur að rita bæri Jörð þegar átt væri við reikistjörnuna. Í framhaldinu óskaði ráðuneytið eftir því við Íslenska málnefnd að fjalla um erindið og gera tillögu um afgreiðslu þess enda er slíkt einmitt í verkahring nefndarinnar; í 6. gr. laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61 frá 2011, segir: „Íslensk málnefnd semur íslenskar ritreglur sem gilda m.a. um stafsetningarkennslu í skólum og ráðherra gefur út.“ Íslensk málnefnd sendi ráðuneytinu álit sitt um ritháttinn Jörð (heiti reikistjörnunnar), dags. 12. maí 2011, eins og rakið hefur verið.

Hér verður því litið svo á að niðurstaða nefndarinnar jafngildi úrskurði í þessum efnum og að í næstu útgáfu Stafsetningarorðabókarinnar og ritreglna málnefndarinnar hljóti að koma skýrt fram að ritað sé Jörð þegar um nafn reikistjörnunnar er að ræða.

Í Lykli að stafsetningu og greinarmerkjum frá árinu 1993, eftir Baldur Sigurðsson og Steingrím Þórðarson, var áréttað að nöfn stjarna og stjörnumerkja væru sérnöfn og bæri að rita með stórum staf (Merkúr, Karlsvagninn og svo framvegis). Höfundarnir fjalla sérstaklega um heiti plánetu okkar og mæla með rithættinum Jörðin í upptalningu á reikistjörnum en jörðin í öðru samhengi.

Úrskurður Íslenskrar málnefndar tiltekur einungis Jörð, án greinis. Heiti plánetunnar er hins vegar oft haft með greini: Jörðin, samanber umfjöllunina í Lykli að stafsetningu og greinarmerkjum. Þetta er ef til vill hliðstætt því að Harpa, tónlistar- og ráðstefnuhúsið í Reykjavík, gengur oft undir nafninu Harpan, með greini; fjölsóttir tónleikar í Hörpunni og svo framvegis. Eðlilegt er að gera ráð fyrir því að úrskurður málnefndarinnar um stóran upphafsstaf í Jörð (það er í heiti plánetunnar) eigi einnig við þegar nafnið er haft með greini, Jörðin.

Mynd:

Útgáfudagur

19.5.2014

Spyrjandi

Birgir Ásgeirsson

Höfundur

Ari Páll Kristinsson

rannsóknarprófessor hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Tilvísun

Ari Páll Kristinsson. „Á að skrifa Jörð eða jörð?“ Vísindavefurinn, 19. maí 2014. Sótt 24. september 2017. http://visindavefur.is/svar.php?id=67184.

Ari Páll Kristinsson. (2014, 19. maí). Á að skrifa Jörð eða jörð? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=67184

Ari Páll Kristinsson. „Á að skrifa Jörð eða jörð?“ Vísindavefurinn. 19. maí. 2014. Vefsíða. 24. sep. 2017. <http://visindavefur.is/svar.php?id=67184>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Röntgengeisli

Röntgengeislar eru rafsegulgeislun með afar lítilli bylgjulengd og hárri tíðni. Þeir draga nafn sitt af þýska eðlisfræðingnum Wilhelm Röntgen (1845–1923) sem uppgötvaði þá fyrstur. Notkun röntgengeisla til sjúkdómsgreiningar og meðferðar í læknisfræði varð fljótt að sérgrein innan læknisfræðinnar. Fyrsta eiginlega röntgenmyndin var tekin 22. desember 1895. Hún er af hendi Önnu Berthu, konu Röntgens.