Sólin Sólin Rís 03:49 • sest 23:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 22:41 • Sest 03:14 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:38 • Síðdegis: 18:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:46 • Síðdegis: 24:13 í Reykjavík

Hvenær byrjaði sú hefð á Íslandi að baka smákökur fyrir jólin?

Árni Björnsson

Því er líkast sem íslenskar húsmæður hafi fengið langþráða útrás fyrir innibyrgða sköpunargáfu sína í kökubakstri fyrir jólin á fyrri hluta 20. aldar. Bar þar margt til.

Í fyrsta lagi höfðu ýmis ný efni til kökugerðar tekið að berast í verslanir á seinustu áratugum 19. aldar, hveiti og annað mjölkyns, dropar og krydd. Sem kunnugt er getur það tekið heila kynslóð að tileinka sér nýjungar í matargerð sem öðru. Því er ekki nema eðlilegt að konur sem voru ungar um aldamótin yrðu brautryðjendur á þessu sviði og legðu metnað sinn í að baka sem flestar sortir.

Vanilluhringirnir komnir úr ofninum.

Í öðru lagi höfðu flest heimili eignast eldavél með bakarofni á fyrstu áratugum aldarinnar. Áður hafði þurft að baka allt í hlóðum. Til þess var deigið eða kökurnar látnar í sérstakan bökunarpott, pönnu eða dunk sem sett voru í hlóðirnar og þakin með glóð. Mikla aðgæslu þurfti til að halda jöfnum hita. Bakarofninn var því eins og tæknibylting og nú var hægt að gera ýmsar tilraunir.

Í þriðja lagi komu nokkrar matreiðslubækur með uppskriftum að kökum og tertum út á seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu. Útbreiddust þeirra var Kvennafræðarinn eftir Elínu Briem sem kom út fjórum sinnum á árunum 1888 til 1911, aukin og endurbætt í hvert skipti.

Kökur þær og tertur sem oftast sjást nefndar eru gyðingakökur, piparkökur, hálfmánar, vanilluhringir, kanelhringir, umslög (málshættir), jólakaka, sódakaka, sandkaka, marmarakaka, vínarterta, sírópsterta og brúnterta fyrir utan kleinur og pönnukökur. Rjómatertur sáust lítið í sveitum fyrr en um 1930.

Orðið jólakaka gæti af málfræðilegum rökum verið ævagamalt og jafnvel úr heiðnum sið því í finnsku og eistnesku er til orðið joulu-kaku og joulu-kak. Báðir hlutar þess eru tökuorð úr norrænu áður en kristni barst til Norðurlanda. Hinsvegar eru ekki til bókfest dæmi um orðin samsett fyrr en löngu seinna svo ekki er öruggt að hún hafi verið til fyrir kristni þessara þjóða. Hafi jólakökur verið til í heiðni voru þær ugglaust mjög frábrugðnar þeim sem nú bera það heiti. Sennilega hafa þær blátt áfram átt við þann brauðmat sem bakaður var til jóla á þeirri tíð.

Mynd:


Þetta svar er fengið úr bókinni Sögu jólanna og birt með góðfúslegu leyfi höfundar.

Höfundur

Árni Björnsson

dr. phil. í menningarsögu

Útgáfudagur

18.12.2014

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Árni Björnsson. „Hvenær byrjaði sú hefð á Íslandi að baka smákökur fyrir jólin?“ Vísindavefurinn, 18. desember 2014. Sótt 22. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=68791.

Árni Björnsson. (2014, 18. desember). Hvenær byrjaði sú hefð á Íslandi að baka smákökur fyrir jólin? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=68791

Árni Björnsson. „Hvenær byrjaði sú hefð á Íslandi að baka smákökur fyrir jólin?“ Vísindavefurinn. 18. des. 2014. Vefsíða. 22. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=68791>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvenær byrjaði sú hefð á Íslandi að baka smákökur fyrir jólin?
Því er líkast sem íslenskar húsmæður hafi fengið langþráða útrás fyrir innibyrgða sköpunargáfu sína í kökubakstri fyrir jólin á fyrri hluta 20. aldar. Bar þar margt til.

Í fyrsta lagi höfðu ýmis ný efni til kökugerðar tekið að berast í verslanir á seinustu áratugum 19. aldar, hveiti og annað mjölkyns, dropar og krydd. Sem kunnugt er getur það tekið heila kynslóð að tileinka sér nýjungar í matargerð sem öðru. Því er ekki nema eðlilegt að konur sem voru ungar um aldamótin yrðu brautryðjendur á þessu sviði og legðu metnað sinn í að baka sem flestar sortir.

Vanilluhringirnir komnir úr ofninum.

Í öðru lagi höfðu flest heimili eignast eldavél með bakarofni á fyrstu áratugum aldarinnar. Áður hafði þurft að baka allt í hlóðum. Til þess var deigið eða kökurnar látnar í sérstakan bökunarpott, pönnu eða dunk sem sett voru í hlóðirnar og þakin með glóð. Mikla aðgæslu þurfti til að halda jöfnum hita. Bakarofninn var því eins og tæknibylting og nú var hægt að gera ýmsar tilraunir.

Í þriðja lagi komu nokkrar matreiðslubækur með uppskriftum að kökum og tertum út á seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu. Útbreiddust þeirra var Kvennafræðarinn eftir Elínu Briem sem kom út fjórum sinnum á árunum 1888 til 1911, aukin og endurbætt í hvert skipti.

Kökur þær og tertur sem oftast sjást nefndar eru gyðingakökur, piparkökur, hálfmánar, vanilluhringir, kanelhringir, umslög (málshættir), jólakaka, sódakaka, sandkaka, marmarakaka, vínarterta, sírópsterta og brúnterta fyrir utan kleinur og pönnukökur. Rjómatertur sáust lítið í sveitum fyrr en um 1930.

Orðið jólakaka gæti af málfræðilegum rökum verið ævagamalt og jafnvel úr heiðnum sið því í finnsku og eistnesku er til orðið joulu-kaku og joulu-kak. Báðir hlutar þess eru tökuorð úr norrænu áður en kristni barst til Norðurlanda. Hinsvegar eru ekki til bókfest dæmi um orðin samsett fyrr en löngu seinna svo ekki er öruggt að hún hafi verið til fyrir kristni þessara þjóða. Hafi jólakökur verið til í heiðni voru þær ugglaust mjög frábrugðnar þeim sem nú bera það heiti. Sennilega hafa þær blátt áfram átt við þann brauðmat sem bakaður var til jóla á þeirri tíð.

Mynd:


Þetta svar er fengið úr bókinni Sögu jólanna og birt með góðfúslegu leyfi höfundar....