

Jöklabreytingar á yngra Drýasskeiði Það varð kólnun á Norður Atlantshafssvæðinu fyrir rúmlega 11.000 árum síðan, og jöklar gengu fram á nýjan leik. Þessi kólnun er kölluð yngra Drýasskeið, kennd við holtasóley (Dryas octopetala) sem breiddist mjög út í norðvesturhluta Evrópu. Á Íslandi er vitnisburður um kólnunina til dæmis í frjókornum og öðrum plöntuleifum í stöðuvatnaseti sem vitna um útbreiðslu túndruplantna á Íslandi á þessum tíma. Jöklar náðu víða um land fram til stranda eða gengu í sjó. Jarðlög í Fossvogi bera þess vitni að jökulþekja hafi verið umfangsmikil í nágrenni Reykjavíkur, og að jökull hafi gengið niður Fossvogsdalinn fyrir um 11.000 árum. Búðagarðarnir, sem eru kerfi jökulgarða á Suðurlandi, eru að hluta til myndaðir við þessa framrás jökla enda hefur yngra Drýasskeiðið stundum verið kallað “Búðastig” á Íslandi. Sjávarstaða í lok yngra Drýasskeiðs var há umhverfis allt landið og víða eru fjörumörk í 40-60 m yfir núverandi sjávarstöðu, sem mynduðust fyrir um 10.000 árum.


Jöklabreytingar á nútíma Eftir að jöklar hörfuðu inn til landsins frá yngri Drýas stöðunni, varð afturkippur í veðurfari og jöklar gengu fram á nýjan leik fyrir um 9.800 árum. Þá myndaðist innri hluti Búðaraðarinnar, og meginjökullinn varð næstum því eins umfangsmikill og hann varð á yngra Drýasskeiði. Þannig náðu jöklar til sjávar víða innst í fjörðum á Norður- og Austurlandi, og með Suðurströndinni. Eftir þetta kuldakast hörfuðu jöklar hratt og höfðu náð svipaðri stærð og í dag eða voru orðnir minni en í dag fyrir 6.000-8.000 árum síðan, þegar var sem hlýjast á nútíma. Vitnisburður um þetta er meðal annars setlög í Hvítárvatni og Lagarfljóti, auk þess sem víða hafa fundist birkilurkar í yngri jökulruðningi sem benda til þess að dalirnir sem Skeiðarárjökull og Eyjabakkajökull fylla hafi fyrir nokkur þúsund árum verið íslausir og þar vaxið birkiskógur.

Nýjustu rannsóknir benda til þess að Langjökull hafi ekki verið til í núverandi mynd fyrir 5.000-6.000 árum síðan. Lítið er vitað um stærð Vatnajökuls þegar hlýjast var, en sennilega hefur hann verið mun minni en í dag. Margt bendir til þess að jöklar hafi byrjað að vaxa mót núverandi stærð fyrir 4.000-5.000 árum síðan. Vöxtur jökla var þó ekki jafn og stöðugur, heldur markaðist veðurfarsþróunin af því að til lengri tíma litið var að kólna, en á milli komu löng og stutt tímabil þar sem var hlýtt og jöklar hörfuðu tímabundið. Þannig var til dæmis hlýindaskeið um það leyti sem Ísland var numið, og jöklar sennilega flestir verið á undanhaldi mestan þjóðveldistímann.

Á svokallaðri litlu ísöld, sem var kuldatímabil sem varaði frá 14. öld og fram til loka 19. aldar, gengu flestir jöklar á Íslandi verulega fram. Stórir jökulgarðar við Jökulsárlón framan við Breiðamerkurjökul minna á að fyrir rúmum 100 árum voru jöklar töluvert stærri en í dag. Jöklar á Íslandi hafa undantekningarlaust hörfað síðustu 100 árin, vegna hlýnandi veðurfars, og nú hörfa sumir stórir skriðjöklar um tugi eða hundruð metra á ári. Þannig hafa til dæmis Sólheimajökull og Brúarjökull verið að hörfa meira en 100 metra á ári síðasta áratuginn. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvaða heimildir hafa vísindamenn fyrir því hvenær ísöldin hafi verið? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hversu hratt mun Vatnajökull bráðna á næstu árum? eftir Helga Björnsson
- Hvað er jökulrof? Hvernig verður jökulrof og landmótun jökla á Íslandi? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hver verður líkleg staða jökla hérlendis eftir 50 ár miðað við óbreytta þróun? eftir Helga Björnsson
- Hvað gerist þegar jöklar hopa? eftir Sigurð Steinþórsson
- Stóð sjávarborð við Ísland hærra eða lægra á þjóðveldistímanum en í dag? eftir Ólaf Ingólfsson
- Áslaug Geirsdóttir og Jón Eiríksson 1994: Sedimentary facies and environmental history of the Late-glacial glaciomarine Fossvogur sediments in Reykjavík, Iceland. Boreas 23, 164-176.
- Áslaug Geirsdóttir og Gifford Miller 2004: Hlý og köld tímabil lesin úr setlögum íslenskra stöðuvatna. Raunvísindaþing í Reykjavík, Ágrip Jarðvísindi og Landfræði, bls. 5.
- Hreggviður Norddahl og Halldór G. Pétursson 2005. Relative sea level changes in Iceland. New aspect of the Weichselian deglaciation of Iceland. Í: C. Caseldine, A. Russel, Jórunn Harðardottir og Óskar Knudsen (ritstj.), Iceland - Modern Processes and Past Environments, bls. 25-78. Elsevier, Amsterdam.
- Hreggviður Norðdahl og Þorleifur Einarsson 1988: Hörfun jökla og sjávarstöðubreytingar í ísaldarlok á Austfjörðum. Náttúrufræðingurinn 58, 59-80.
- Ingibjörg Kaldal og Skúli Víkingsson 1991: Early Holocene deglaciation in Central Iceland. Jökull 40, 51-66.
- Ólafur Ingólfsson og Hreggviður Norddahl 2001: High Relative Sea Level during the Bölling Interstadial in Western Iceland: A Reflection of Ice-sheet Collapse and Extremely Rapid Glacial Unloading. Arctic, Antarctic, and Alpine Research 33, 231-243.