Sólin Sólin Rís 06:01 • sest 20:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:34 • Síðdegis: 21:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:23 • Síðdegis: 15:33 í Reykjavík

Hvað er nýplatonismi Plótinosar?

Eyjólfur Kjalar Emilsson

Áður hefur verið fjallað sérstaklega um Plótinos í svari við spurningunni Hver var Plótinos og hvert var framlag hans til heimspekinnar? Við bendum lesendum á að kynna sér það svar einnig.

Útlínurnar í heimspekikerfi Plótinosar

Orðið „nýplatonismi“ er uppfinning fræðimanna á 18. öld. Plótinos og sporgöngumenn hans í síðfornöld litu ekki á sig sem „ný“ eitthvað heldur einfaldlega sem fylgjendur og túlkendur Platons. En þegar við skyggnumst í rit Plótinosar, Níundirnar, blasa við okkur hugmyndir um grundvallaratriði sem flestir Platons-rýnendur nú á dögum teldu óplatonskar eða að minnsta kosti án haldreipis hjá þeim Platoni sem við þekkjum. Þrjár hugmyndir af þessu tagi eru sérstaklega athyglisverðar bæði vegna þess hversu mjög þær virðast víkja frá platonskum bókstaf og svo líka þess að þær eru sögulega afdrifaríkar.

Fyrst má nefna að frummyndirnar eru ekki hinsta orsök alls heldur önnur uppspretta, hið Eina eða hið Góða, sem er handan frummyndanna og allrar skiljanlegrar veru. Hið Eina verður hvorki hugsað né þekkt, né hugsar það sjálft eða þekkir nokkurn hlut, ekki einu sinni sjálft sig. Á bernskuskeiði nútímarannsókna á verkum Plótinosar á fyrri hluta síðustu aldar var algengt að skýra það sem virtist vera frávik frá Platoni sem austræn áhrif; Plótinos ólst upp í Egyptalandi, hlaut menntun sína þar, og heimild er fyrir því að hann hafi haft hug á að fara til Persíu og Indlands til að kynna sér betur speki þarlendra (Porfyríos, Ævi Plotínosar 3.13–18). Á þetta ekki síst við hugmynd hans um hið óþekkjanlega Eina, sem er handan allrar veru og þó orsök alls sem er. Þessum austurlensku áhrifum er þó almennt hafnað af síðari tíma fræðimönnum, sem skýra hugmynd Plótinosar um hið Eina sem túlkun hans á platonskum hugmyndum, sem einkum er að finna í samræðunni Parmendídes.

Ítalski endurreisnarmálarinn Rafael (1483-1520) málaði frægt verk af fornum spekingum, Skólann í Aþenu; það er varðveitt í Vatíkaninu. Á myndinni sést hluti af málverkinu. Afar sennilegt er að maðurinn í rauðu skikkjunni eigi að vera Plótinos.

Í annan stað má nefna að frummyndirnar hjá Plótinosi eru hugsanir háleits alltumfaðmandi, ópersónulegs Hugar (nous) og eiga sér enga tilvist utan hugsunar hans. Plótinos kann að hafa eitthvað fyrir sér í að hugmyndin sé ekki andstæð Platoni: segir ekki Platon í Fædoni 78b–80c að sálin sé sömu ættar og frummyndirnar? Gæti það ekki merkt að frummyndirnar sjálfar séu gæddar einhvers konar hugsun? Auk þess má túlka Sófistann 248e–249a svo að frummyndirnar hafi hugsun, líf og sál. Sú túlkun er ekki alls fjarri lagi og mætti jafnvel færa nokkuð góð heimspekileg rök fyrir því að það væri skynsamlegt að telja frummyndirnar hugsanir. Á okkar dögum líta flestir svo að frummyndirnar séu sjálfstæður veruleiki, hvorki huglægur né efnislegur. Ljóst er að Plótinos leitar mjög fanga hjá Aristótelesi í hugarkenningu sinni. Segja má að hinn alltumfaðmandi Hugur sé guð Aristótelesar í tólftu bók Frumspekinnar að því viðbættu að það sem þessi guð hugsar um séu platonskar frummyndir og að hann sé ekki hin fyrsta orsök alls sem er heldur sé annað, hið Eina, sem stendur honum framar.

Þriðja atriðið sem kann að virðast ólíkt er að hin „lóðrétta“ sköpun veruleikans frá hinu Eina – fyrst Hugar, þá Sálar og loks hins skynjanlega heims – á sér stað með útstreymi: frá sérhverri þessara uppsprettna „streymir“ eitthvað út sem verður undirstaða næsta þreps fyrir neðan, uns að lokum verður ekki lengra komist. Þar er hið eiginleikalausa efni sem megnar ekkert frekar, allur máttur þorrinn. Um þennan þátt kenningar Plótinosar hefur fræðimenn greint á. Fram á síðustu ár hafa margir talið að aðrir en Platon séu áhrifavaldar. Hugmyndin um útstreymi er hjá Plótinosi samtvinnuð kenningu um tvöfalda virkni (energeia). Henni má lýsa sem svo að eitthvert þrep veruleikans starfi með sjálfhverfri virkni, það er virkni þess beinist ekki að neinu öðru en því sjálfu, en hafi jafnframt hliðarverkun eða aukaverkun utan sjálfs sín.

Svo dæmi sé tekið er Hugurinn sjálfhverf innri virkni; þessi innri virkni hefur eins konar aukagetu eða aukaverkan utan sjálfs síns, ófullkomna eftirmynd sína, líkt og hiti sem stafar af eldi. Þetta útstreymi er hin ytri virkni. Hún finnur til ófullnægju í fjarveru upphafs síns og leitast við að hverfa aftur til þess (epistrofē); afturhvarfið er þó aldrei algert, en það leiðir til þess að hið nýja stig eftir Huginn, sem er Sál, dregur dám af upphafi sínu, Huganum, og verður sjálfu sér nógt á sinn hátt; Sálin hefur svo aftur sína eigin ytri virkni, sem er skynheimurinn. Sams konar samband er á milli hins Eina og Hugarins. Þessari hugmynd um útstreymi og innri og ytri virkni fylgir að það sem stendur ofar í stigveldi veruleikans skeytir ekki um það sem neðan þess kemur: hvert stig beinist upp á við og inn á við, ekki niður á við. Allt sem er þarfnast hins Góða (Eina), en hið Góða þarfnast einskis.

Hugmyndin um útstreymi og tvöfalda virkni kann að virðast nýmæli í ljósi samræðna Platons. Eigi að síður má leiða rök að því að Plótinos sé hér að reyna að skýra hvernig platonskar orsakir virki, atriði sem Platon sjálfur er fremur fámáll um. Plótinos kann að hafa meira fyrir sér um platonskan uppruna hugmyndarinnar en virst gæti í fljótu bragði. Alltént eru vel þekktar platonskar hugmyndir fléttaðar inn í þessa útstreymiskenningu: hin ytri virkni, útstreymið, er til dæmis ófullkomin eftirmynd (mimēma, eikōn) uppruna síns.

Ættum við að gera okkur sýnilega mynd af allri veröldinni eins og Plótinos gerði sér hana í hugarlund, myndum við sjá fyrir okkur eins konar píramída eða jafnvel heldur kransaköku – því þarna eru ákveðin þrep: efst trónir hið Eina, þá Hugurinn, svo Alheimssálin, sem inniheldur náttúrulögmálin að baki hinni skynjanlegu veröld. Hið Eina er einfaldasti hlutur í heimi. Það er svo eitt eða einfalt að það rúmar alls engan greinarmun. Þessu fylgir að hið Eina er varla réttnefnt hlutur eins og ég gerði rétt áðan: það er handan verunnar (samanber Platon, Ríkið VII, 509b) í þeim skilningi að það er ekkert sem segja má að það sé. Í þessu sambandi merkir vera eitthvert snið sem afmarkar veruna sem um er að ræða; og afmörkun þýðir að þar sé greinarmunur.

Sýnileg mynd af allri veröldinni eins og Plótinos gerði sér hana í hugarlund gæti litið út eins og kransakaka.

Í þessu síðastnefnda atriði fylgir Plótinos Platoni, einkum í Sófistanum, þar sem vera er að vísu ákveðið snið eða form en er þó alltaf í samruna við önnur snið og fyrir sitt leyti ólíkt þeim: að vera er alltaf að vera eitthvað sérstakt. Ekkert af þessu á við hið Eina, sem er handan allra verufræðilegra landamæra. Svo að ef við þrátt fyrir þetta höldum því til streitu að hið Eina sé eitthvað, einhver hlutur, verðum við að gera okkur grein fyrir að það er enginn venjulegur hlutur meðal annarra hluta og að á margan hátt brýtur það gegn öllum venjulegum lögmálum um hluti. Þessu fylgir að hið Eina verður hvorki hugsað né hugsar það sjálft.

Annað þrepið eftir hið Eina er hinn alltumfaðmandi Hugur – þar sem „alltumfaðmandi“ merkir allt sem hugsast getur, það er að segja hinar platonsku frummyndir, fyrirmyndir alls annars sem er, þar með talinn hinn ófullkomni heimur þess sem við skynjum með skilningarvitunum. Þar sem fylgismenn Platons halda því fram að frummyndirnar séu hinn sanni raunveruleiki, verður svið Hugarins svið þess sem að sönnu er. Þriðja þrepið, Sálin, er sá huglægi veruleiki sem er beinn orsakavaldur hins skynjanlega sviðs, bæði tilurðar þess og viðhalds. Þessi þrjú svið, hið Eina, Hugurinn og Sálin, mynda saman hinn huglæga heim, kosmos noêtos. Hinn skynjanlegi, efnislegi heimur er líka lagskiptur: innan hans gerir Plótinos greinarmun á lifandi líkömum, líkamsbundnum sniðum á borð við liti og lögun, og efnið sjálft, sem er formlaus og óræður viðtakandi skynjanlegra sniða.

Það er engin tilviljun að hið Eina er svo nefnt. Toppur „kransakökunnar“ er fullkomin eining; hún verður æ margbreytilegri sem neðar dregur. Ákveðin stig einingar og margbreytileika skilgreina þannig þrepin í stigveldinu: hið Eina er fullkomin eining, hugurinn næstfullkomnasta, og svo framvegis. Efnið er svo margt og laust við einingu að lengra verður ekki komist. Plótinos taldi greinilega að eining og mergð komi í ákveðnum þrepum eða skömmtum. Hann notast stundum við fastar formúlur sem eiga rætur að rekja til Parmenídesar Platons til að lýsa þessu: Hið Eina er aðeins „eitt“, Hugurinn „eitt margt“, Sálin „eitt og margt“. Öll hugsanleg stig einingar líta dagsins ljós.

Fyrr er getið að Plótinos nefnir hið Eina líka hið Góða, og má raunar vart á milli sjá hvort nafnið hann notar oftar. Hví skyldi hann hafa þessi tvö nöfn? Líklegast af því að fyrir honum eru eining og góðleiki á endanum eitt og hið sama. Í þessu sambandi merkir góðleiki nánast fullkomnun, það að vera einskis vant. Hann leit bersýnilega svo á að einungis alger eining sé fullkomin, og að allur margbreytileiki sé til marks um ófullkomnun.

Margbreytileiki er af ýmsum toga. Það er athyglisvert að þegar á stigi Hugarins birtist tvenns konar margbreytileiki. Hugurinn er margur vegna þess að þar er munur á geranda og viðfangi, því sem hugsar og því sem hugsað er, þótt þetta tvennt sé jafnframt eining og annað geti ekki án hins verið. En hann er líka margur vegna þess að það sem hugsað er hlýtur að vera margt: alger eining þar sem engan greinarmun er að finna verður ekki hugsuð eða skilin. Rúm og tími eru afbrigði margbreytileika sem einkennir skynheiminn: hið huglæga svið er tímalaust og laust við tvístrun rúmsins. Mergð á hinu huglæga sviði er fólgin í fjölda ólíkra hluta, frummynda, sem þó mynda eina tímalausa og rúmtakslausa lífræna heild. Tími og rúm eru hættir tvístrunar neðan til í stigveldinu. Þau aðskilja hluti sem á hinu huglæga sviði eru eitt.

Plótinos taldi sig hafa heimildir fyrir heimssýn sinni í ritum Platons. Eins og áður er getið sækir hann hugmynd sína um hið Eina í Parmenídes Platons, en fleiri staðir eiga líka hlut að máli, einkum mál Platons um frummynd hins góða í lok sjöttu bókar Ríkisins. Platon segir á 509 C um frummynd hins góða að hún sé „handan verunnar“. Þessa lýsingu viðhefur Plótinos oft um hið Góða. En þótt frummynd hins góða hjá Platoni tróni efst og hafi algera sérstöðu meðal frummyndanna, er hún eigi að síður frummynd og þekkjanleg sem slík. Hér breytir Plótinos út af eða túlkar ólíkt nútímamönnum: hið Góða hjá honum er ekki frummynd og er handan þekkingar jafnt sem veru. Tímæos Platons er einnig lykilsamræða hjá Plótinosi. Þaðan hefur hann hugmyndir sínar um alheimssálina, efnið og almennt hinn skynjanlega heim, allt að vísu túlkað að hans hætti.

Opna úr handriti latneskrar þýðingar á samræðunni Tímæosi eftir Platon. Tímæos var lykilsamræða hjá Plótinosi.

Sálin og efnisheimurinn

Þess var áður getið að stigið sem tekur við af Huganum sé Sál. Þetta þarfnast frekari skýringar. Í grískri heimspeki gegna sálir mikilvægu og margvíslegu hlutverki. Hjá Aristótelesi er sál til dæmis lífsafl, það sem skilur á milli lifandi og dauðrar náttúru. Sama skilning má finna hjá Platoni og flestum öðrum fornum hugsuðum. En sál er líka stundum skilin sem skynsemi mannsins, til dæmis í Fædoni Platons. Við þetta bætist að Platon í Tímæosi og fleiri verkum sem og Stóumenn gera ráð fyrir alheimssál. Þessi alheimssál er það afl sem stýrir reglubundnum og markvísum ferlum á himni og jörð.

Bæði Platon og Stóumenn töldu að alheimurinn sé eins konar lífvera. Plótinos fær því afskaplega flókið sálarhugtak í arfleið frá hefðinni sem mótaði hugsun hans. Hann reynir að bræða saman heillega mynd úr henni. Fyrst er sál almennt og yfirleitt, sjálft sálarstig stigveldisins sem allar sálir eiga hlutdeild í. Þá er alheimssálin, sem stýrir gangi himintungla og gróðri og vexti hér á jörð. Sá sálarkraftur sem stýrir lífrænum ferlum í dýrum og mönnum er hluti af eða afsprengi Alheimssálarinnar. Hún hefur líka getið af sér efnið, sem er hinsta stig veruleikans, fullkomin andstæða hins Eina. Svo eru það einstaklingssálir manna, sem nánar skal vikið að.

Mannskepnan hjá Plótinosi

Maðurinn er gæddur ódauðlegri, ólíkamlegri sál sem er eitt og hið sama og skynsemi mannsins. Þessi sál tekur sér bólstað í efnislegum líkama samkvæmt ákveðnu kerfi sem ræðst af heimssálinni. Þegar þetta gerist tengist mannssálin annarri sál sem er afsprengi heimssálarinnar eins og áður segir. Þessi síðarnefndi sálarkraftur viðheldur og stýrir lífi líkamans og lætur einatt til sín taka gagnvart skynseminni. Eins og hjá Platoni hefur mannskepnan því tvenns konar líf: eitt sem tilheyrir „ævi vorri á jörðu hér“, annað í Hugarheimi, en þangað á skynsemi okkar rætur að rekja. Þótt Plótinos haldi því fram að hamingja (gr. eudaimonia) mannanna felist í að sameinast þessum huglæga uppruna sínum og lifa í andanum, er afstaða hans til þessa heims tvíbent.

Sálin er hér af góðum og gildum ástæðum og hefur verk að vinna í þessum heimi. Þetta verk innir hún þá aðeins vel af hendi að hún lifi í andanum og sé upplýst af hinum altæka hug. Afstaða Plótinosar er þar með tvíbent, ekki ólíkt hugsuð og hjá kristnum kennimönnum löngum: þessi veröld hér er afsprengi æðri afla; þar sem hún er afsprengi þeirra, er hún nokkurs virði; en það væru grundvallarmistök að halda að fegurð og önnur verðmæti þessa heims séu hin fullkomnu sönnu verðmæti. Í öllum þessum atriðum endurspeglar Plótinos meistara sinn Platon, þótt hann rökstyðji mál sitt með öðrum hætti.

Aðgengilegasta útgáfa og þýðing á Plótinosi yfir á ensku er þýðing Arthurs Hilary Armstrongs í Loeb Classical Library:
  • Armstrong, A. H. 1966-1982. Plotinus: Enneads, 7 volumes. Greek text with English translation and introductions (Loeb Classical Library. Cambridge, MA: Harvard University Press).

Textinn í þessari útgáfu tekur jafnvel fram texta vísindalegrar kennivaldsútgáfu Henrys og Schwyzers:
  • Henry, P. and H.-R. Schwyzer 1964-1982. Plotini Opera I-III (edition minor, with revised text). Oxford: Clarendon Press.

Armstrong naut þess að geta tekið tillit til athugasemda fræðimanna við einstaka leshætti þar.

Myndir:

Höfundur

Eyjólfur Kjalar Emilsson

prófessor í heimspeki við Oslóarháskóla

Útgáfudagur

23.2.2017

Spyrjandi

Sigurður Helgi Árnason

Tilvísun

Eyjólfur Kjalar Emilsson. „Hvað er nýplatonismi Plótinosar?“ Vísindavefurinn, 23. febrúar 2017. Sótt 13. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=70194.

Eyjólfur Kjalar Emilsson. (2017, 23. febrúar). Hvað er nýplatonismi Plótinosar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=70194

Eyjólfur Kjalar Emilsson. „Hvað er nýplatonismi Plótinosar?“ Vísindavefurinn. 23. feb. 2017. Vefsíða. 13. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=70194>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er nýplatonismi Plótinosar?
Áður hefur verið fjallað sérstaklega um Plótinos í svari við spurningunni Hver var Plótinos og hvert var framlag hans til heimspekinnar? Við bendum lesendum á að kynna sér það svar einnig.

Útlínurnar í heimspekikerfi Plótinosar

Orðið „nýplatonismi“ er uppfinning fræðimanna á 18. öld. Plótinos og sporgöngumenn hans í síðfornöld litu ekki á sig sem „ný“ eitthvað heldur einfaldlega sem fylgjendur og túlkendur Platons. En þegar við skyggnumst í rit Plótinosar, Níundirnar, blasa við okkur hugmyndir um grundvallaratriði sem flestir Platons-rýnendur nú á dögum teldu óplatonskar eða að minnsta kosti án haldreipis hjá þeim Platoni sem við þekkjum. Þrjár hugmyndir af þessu tagi eru sérstaklega athyglisverðar bæði vegna þess hversu mjög þær virðast víkja frá platonskum bókstaf og svo líka þess að þær eru sögulega afdrifaríkar.

Fyrst má nefna að frummyndirnar eru ekki hinsta orsök alls heldur önnur uppspretta, hið Eina eða hið Góða, sem er handan frummyndanna og allrar skiljanlegrar veru. Hið Eina verður hvorki hugsað né þekkt, né hugsar það sjálft eða þekkir nokkurn hlut, ekki einu sinni sjálft sig. Á bernskuskeiði nútímarannsókna á verkum Plótinosar á fyrri hluta síðustu aldar var algengt að skýra það sem virtist vera frávik frá Platoni sem austræn áhrif; Plótinos ólst upp í Egyptalandi, hlaut menntun sína þar, og heimild er fyrir því að hann hafi haft hug á að fara til Persíu og Indlands til að kynna sér betur speki þarlendra (Porfyríos, Ævi Plotínosar 3.13–18). Á þetta ekki síst við hugmynd hans um hið óþekkjanlega Eina, sem er handan allrar veru og þó orsök alls sem er. Þessum austurlensku áhrifum er þó almennt hafnað af síðari tíma fræðimönnum, sem skýra hugmynd Plótinosar um hið Eina sem túlkun hans á platonskum hugmyndum, sem einkum er að finna í samræðunni Parmendídes.

Ítalski endurreisnarmálarinn Rafael (1483-1520) málaði frægt verk af fornum spekingum, Skólann í Aþenu; það er varðveitt í Vatíkaninu. Á myndinni sést hluti af málverkinu. Afar sennilegt er að maðurinn í rauðu skikkjunni eigi að vera Plótinos.

Í annan stað má nefna að frummyndirnar hjá Plótinosi eru hugsanir háleits alltumfaðmandi, ópersónulegs Hugar (nous) og eiga sér enga tilvist utan hugsunar hans. Plótinos kann að hafa eitthvað fyrir sér í að hugmyndin sé ekki andstæð Platoni: segir ekki Platon í Fædoni 78b–80c að sálin sé sömu ættar og frummyndirnar? Gæti það ekki merkt að frummyndirnar sjálfar séu gæddar einhvers konar hugsun? Auk þess má túlka Sófistann 248e–249a svo að frummyndirnar hafi hugsun, líf og sál. Sú túlkun er ekki alls fjarri lagi og mætti jafnvel færa nokkuð góð heimspekileg rök fyrir því að það væri skynsamlegt að telja frummyndirnar hugsanir. Á okkar dögum líta flestir svo að frummyndirnar séu sjálfstæður veruleiki, hvorki huglægur né efnislegur. Ljóst er að Plótinos leitar mjög fanga hjá Aristótelesi í hugarkenningu sinni. Segja má að hinn alltumfaðmandi Hugur sé guð Aristótelesar í tólftu bók Frumspekinnar að því viðbættu að það sem þessi guð hugsar um séu platonskar frummyndir og að hann sé ekki hin fyrsta orsök alls sem er heldur sé annað, hið Eina, sem stendur honum framar.

Þriðja atriðið sem kann að virðast ólíkt er að hin „lóðrétta“ sköpun veruleikans frá hinu Eina – fyrst Hugar, þá Sálar og loks hins skynjanlega heims – á sér stað með útstreymi: frá sérhverri þessara uppsprettna „streymir“ eitthvað út sem verður undirstaða næsta þreps fyrir neðan, uns að lokum verður ekki lengra komist. Þar er hið eiginleikalausa efni sem megnar ekkert frekar, allur máttur þorrinn. Um þennan þátt kenningar Plótinosar hefur fræðimenn greint á. Fram á síðustu ár hafa margir talið að aðrir en Platon séu áhrifavaldar. Hugmyndin um útstreymi er hjá Plótinosi samtvinnuð kenningu um tvöfalda virkni (energeia). Henni má lýsa sem svo að eitthvert þrep veruleikans starfi með sjálfhverfri virkni, það er virkni þess beinist ekki að neinu öðru en því sjálfu, en hafi jafnframt hliðarverkun eða aukaverkun utan sjálfs sín.

Svo dæmi sé tekið er Hugurinn sjálfhverf innri virkni; þessi innri virkni hefur eins konar aukagetu eða aukaverkan utan sjálfs síns, ófullkomna eftirmynd sína, líkt og hiti sem stafar af eldi. Þetta útstreymi er hin ytri virkni. Hún finnur til ófullnægju í fjarveru upphafs síns og leitast við að hverfa aftur til þess (epistrofē); afturhvarfið er þó aldrei algert, en það leiðir til þess að hið nýja stig eftir Huginn, sem er Sál, dregur dám af upphafi sínu, Huganum, og verður sjálfu sér nógt á sinn hátt; Sálin hefur svo aftur sína eigin ytri virkni, sem er skynheimurinn. Sams konar samband er á milli hins Eina og Hugarins. Þessari hugmynd um útstreymi og innri og ytri virkni fylgir að það sem stendur ofar í stigveldi veruleikans skeytir ekki um það sem neðan þess kemur: hvert stig beinist upp á við og inn á við, ekki niður á við. Allt sem er þarfnast hins Góða (Eina), en hið Góða þarfnast einskis.

Hugmyndin um útstreymi og tvöfalda virkni kann að virðast nýmæli í ljósi samræðna Platons. Eigi að síður má leiða rök að því að Plótinos sé hér að reyna að skýra hvernig platonskar orsakir virki, atriði sem Platon sjálfur er fremur fámáll um. Plótinos kann að hafa meira fyrir sér um platonskan uppruna hugmyndarinnar en virst gæti í fljótu bragði. Alltént eru vel þekktar platonskar hugmyndir fléttaðar inn í þessa útstreymiskenningu: hin ytri virkni, útstreymið, er til dæmis ófullkomin eftirmynd (mimēma, eikōn) uppruna síns.

Ættum við að gera okkur sýnilega mynd af allri veröldinni eins og Plótinos gerði sér hana í hugarlund, myndum við sjá fyrir okkur eins konar píramída eða jafnvel heldur kransaköku – því þarna eru ákveðin þrep: efst trónir hið Eina, þá Hugurinn, svo Alheimssálin, sem inniheldur náttúrulögmálin að baki hinni skynjanlegu veröld. Hið Eina er einfaldasti hlutur í heimi. Það er svo eitt eða einfalt að það rúmar alls engan greinarmun. Þessu fylgir að hið Eina er varla réttnefnt hlutur eins og ég gerði rétt áðan: það er handan verunnar (samanber Platon, Ríkið VII, 509b) í þeim skilningi að það er ekkert sem segja má að það sé. Í þessu sambandi merkir vera eitthvert snið sem afmarkar veruna sem um er að ræða; og afmörkun þýðir að þar sé greinarmunur.

Sýnileg mynd af allri veröldinni eins og Plótinos gerði sér hana í hugarlund gæti litið út eins og kransakaka.

Í þessu síðastnefnda atriði fylgir Plótinos Platoni, einkum í Sófistanum, þar sem vera er að vísu ákveðið snið eða form en er þó alltaf í samruna við önnur snið og fyrir sitt leyti ólíkt þeim: að vera er alltaf að vera eitthvað sérstakt. Ekkert af þessu á við hið Eina, sem er handan allra verufræðilegra landamæra. Svo að ef við þrátt fyrir þetta höldum því til streitu að hið Eina sé eitthvað, einhver hlutur, verðum við að gera okkur grein fyrir að það er enginn venjulegur hlutur meðal annarra hluta og að á margan hátt brýtur það gegn öllum venjulegum lögmálum um hluti. Þessu fylgir að hið Eina verður hvorki hugsað né hugsar það sjálft.

Annað þrepið eftir hið Eina er hinn alltumfaðmandi Hugur – þar sem „alltumfaðmandi“ merkir allt sem hugsast getur, það er að segja hinar platonsku frummyndir, fyrirmyndir alls annars sem er, þar með talinn hinn ófullkomni heimur þess sem við skynjum með skilningarvitunum. Þar sem fylgismenn Platons halda því fram að frummyndirnar séu hinn sanni raunveruleiki, verður svið Hugarins svið þess sem að sönnu er. Þriðja þrepið, Sálin, er sá huglægi veruleiki sem er beinn orsakavaldur hins skynjanlega sviðs, bæði tilurðar þess og viðhalds. Þessi þrjú svið, hið Eina, Hugurinn og Sálin, mynda saman hinn huglæga heim, kosmos noêtos. Hinn skynjanlegi, efnislegi heimur er líka lagskiptur: innan hans gerir Plótinos greinarmun á lifandi líkömum, líkamsbundnum sniðum á borð við liti og lögun, og efnið sjálft, sem er formlaus og óræður viðtakandi skynjanlegra sniða.

Það er engin tilviljun að hið Eina er svo nefnt. Toppur „kransakökunnar“ er fullkomin eining; hún verður æ margbreytilegri sem neðar dregur. Ákveðin stig einingar og margbreytileika skilgreina þannig þrepin í stigveldinu: hið Eina er fullkomin eining, hugurinn næstfullkomnasta, og svo framvegis. Efnið er svo margt og laust við einingu að lengra verður ekki komist. Plótinos taldi greinilega að eining og mergð komi í ákveðnum þrepum eða skömmtum. Hann notast stundum við fastar formúlur sem eiga rætur að rekja til Parmenídesar Platons til að lýsa þessu: Hið Eina er aðeins „eitt“, Hugurinn „eitt margt“, Sálin „eitt og margt“. Öll hugsanleg stig einingar líta dagsins ljós.

Fyrr er getið að Plótinos nefnir hið Eina líka hið Góða, og má raunar vart á milli sjá hvort nafnið hann notar oftar. Hví skyldi hann hafa þessi tvö nöfn? Líklegast af því að fyrir honum eru eining og góðleiki á endanum eitt og hið sama. Í þessu sambandi merkir góðleiki nánast fullkomnun, það að vera einskis vant. Hann leit bersýnilega svo á að einungis alger eining sé fullkomin, og að allur margbreytileiki sé til marks um ófullkomnun.

Margbreytileiki er af ýmsum toga. Það er athyglisvert að þegar á stigi Hugarins birtist tvenns konar margbreytileiki. Hugurinn er margur vegna þess að þar er munur á geranda og viðfangi, því sem hugsar og því sem hugsað er, þótt þetta tvennt sé jafnframt eining og annað geti ekki án hins verið. En hann er líka margur vegna þess að það sem hugsað er hlýtur að vera margt: alger eining þar sem engan greinarmun er að finna verður ekki hugsuð eða skilin. Rúm og tími eru afbrigði margbreytileika sem einkennir skynheiminn: hið huglæga svið er tímalaust og laust við tvístrun rúmsins. Mergð á hinu huglæga sviði er fólgin í fjölda ólíkra hluta, frummynda, sem þó mynda eina tímalausa og rúmtakslausa lífræna heild. Tími og rúm eru hættir tvístrunar neðan til í stigveldinu. Þau aðskilja hluti sem á hinu huglæga sviði eru eitt.

Plótinos taldi sig hafa heimildir fyrir heimssýn sinni í ritum Platons. Eins og áður er getið sækir hann hugmynd sína um hið Eina í Parmenídes Platons, en fleiri staðir eiga líka hlut að máli, einkum mál Platons um frummynd hins góða í lok sjöttu bókar Ríkisins. Platon segir á 509 C um frummynd hins góða að hún sé „handan verunnar“. Þessa lýsingu viðhefur Plótinos oft um hið Góða. En þótt frummynd hins góða hjá Platoni tróni efst og hafi algera sérstöðu meðal frummyndanna, er hún eigi að síður frummynd og þekkjanleg sem slík. Hér breytir Plótinos út af eða túlkar ólíkt nútímamönnum: hið Góða hjá honum er ekki frummynd og er handan þekkingar jafnt sem veru. Tímæos Platons er einnig lykilsamræða hjá Plótinosi. Þaðan hefur hann hugmyndir sínar um alheimssálina, efnið og almennt hinn skynjanlega heim, allt að vísu túlkað að hans hætti.

Opna úr handriti latneskrar þýðingar á samræðunni Tímæosi eftir Platon. Tímæos var lykilsamræða hjá Plótinosi.

Sálin og efnisheimurinn

Þess var áður getið að stigið sem tekur við af Huganum sé Sál. Þetta þarfnast frekari skýringar. Í grískri heimspeki gegna sálir mikilvægu og margvíslegu hlutverki. Hjá Aristótelesi er sál til dæmis lífsafl, það sem skilur á milli lifandi og dauðrar náttúru. Sama skilning má finna hjá Platoni og flestum öðrum fornum hugsuðum. En sál er líka stundum skilin sem skynsemi mannsins, til dæmis í Fædoni Platons. Við þetta bætist að Platon í Tímæosi og fleiri verkum sem og Stóumenn gera ráð fyrir alheimssál. Þessi alheimssál er það afl sem stýrir reglubundnum og markvísum ferlum á himni og jörð.

Bæði Platon og Stóumenn töldu að alheimurinn sé eins konar lífvera. Plótinos fær því afskaplega flókið sálarhugtak í arfleið frá hefðinni sem mótaði hugsun hans. Hann reynir að bræða saman heillega mynd úr henni. Fyrst er sál almennt og yfirleitt, sjálft sálarstig stigveldisins sem allar sálir eiga hlutdeild í. Þá er alheimssálin, sem stýrir gangi himintungla og gróðri og vexti hér á jörð. Sá sálarkraftur sem stýrir lífrænum ferlum í dýrum og mönnum er hluti af eða afsprengi Alheimssálarinnar. Hún hefur líka getið af sér efnið, sem er hinsta stig veruleikans, fullkomin andstæða hins Eina. Svo eru það einstaklingssálir manna, sem nánar skal vikið að.

Mannskepnan hjá Plótinosi

Maðurinn er gæddur ódauðlegri, ólíkamlegri sál sem er eitt og hið sama og skynsemi mannsins. Þessi sál tekur sér bólstað í efnislegum líkama samkvæmt ákveðnu kerfi sem ræðst af heimssálinni. Þegar þetta gerist tengist mannssálin annarri sál sem er afsprengi heimssálarinnar eins og áður segir. Þessi síðarnefndi sálarkraftur viðheldur og stýrir lífi líkamans og lætur einatt til sín taka gagnvart skynseminni. Eins og hjá Platoni hefur mannskepnan því tvenns konar líf: eitt sem tilheyrir „ævi vorri á jörðu hér“, annað í Hugarheimi, en þangað á skynsemi okkar rætur að rekja. Þótt Plótinos haldi því fram að hamingja (gr. eudaimonia) mannanna felist í að sameinast þessum huglæga uppruna sínum og lifa í andanum, er afstaða hans til þessa heims tvíbent.

Sálin er hér af góðum og gildum ástæðum og hefur verk að vinna í þessum heimi. Þetta verk innir hún þá aðeins vel af hendi að hún lifi í andanum og sé upplýst af hinum altæka hug. Afstaða Plótinosar er þar með tvíbent, ekki ólíkt hugsuð og hjá kristnum kennimönnum löngum: þessi veröld hér er afsprengi æðri afla; þar sem hún er afsprengi þeirra, er hún nokkurs virði; en það væru grundvallarmistök að halda að fegurð og önnur verðmæti þessa heims séu hin fullkomnu sönnu verðmæti. Í öllum þessum atriðum endurspeglar Plótinos meistara sinn Platon, þótt hann rökstyðji mál sitt með öðrum hætti.

Aðgengilegasta útgáfa og þýðing á Plótinosi yfir á ensku er þýðing Arthurs Hilary Armstrongs í Loeb Classical Library:
  • Armstrong, A. H. 1966-1982. Plotinus: Enneads, 7 volumes. Greek text with English translation and introductions (Loeb Classical Library. Cambridge, MA: Harvard University Press).

Textinn í þessari útgáfu tekur jafnvel fram texta vísindalegrar kennivaldsútgáfu Henrys og Schwyzers:
  • Henry, P. and H.-R. Schwyzer 1964-1982. Plotini Opera I-III (edition minor, with revised text). Oxford: Clarendon Press.

Armstrong naut þess að geta tekið tillit til athugasemda fræðimanna við einstaka leshætti þar.

Myndir:

...