Sólin Sólin Rís 07:55 • sest 18:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:27 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:18 • Síðdegis: 14:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:55 • sest 18:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:27 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:18 • Síðdegis: 14:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig hugsaði Aristóteles?

Geir Þ. Þórarinsson

Áður en lengra er haldið er ekki úr vegi að huga að því hvaða forsendur við höfum til að svara spurningunni. Í fyrsta lagi höfum við ekki beinan aðgang að hugsunum annarra, ekki einu sinni samtímamanna okkar, heldur er hann háður túlkun á orðum þeirra og hegðun. Það er alls ekki víst að ritverk fólks ein og sér gefi rétta eða góða mynd af því hvernig það hugsar. Í öðru lagi var Aristóteles uppi fyrir tæpum 2400 árum. Áætlað er að einungis um fjórðungur ritverka hans sé varðveittur og stundum hefur geymdin leikið textann grátt. Það sem við getum sagt um hugsun Aristótelesar byggir því fyrst og fremst á túlkun okkar á varðveittum ritverkum hans – svo langt sem það nær – en sennilega eru flest varðveitt rit hans aukinheldur fyrirlestrar sem hann flutti en ekki útgefin rit ætluð öðrum til lestrar. Enn fremur fjalla rit Aristótelesar meira og minna öll um heimspeki og heimspekileg vísindi. Við eigum ekki persónulegar dagbækur eftir hann eða sendibréf sem hafa að geyma hugleiðingar hans um alls konar hversdagsleg mál.

Að þessu sögðu má byrja á að gefa sér að Aristóteles hafi hugsað í grundvallaratriðum eins og við hin, enda ekkert sem bendir til annars. Hugsun okkar er nátengd tungumálinu sem við tölum og verulega mótuð af því. Móðurmál Aristótelesar var forngríska, svo segja má að hann hafi hugsað á forngrísku.

Aristóteles var uppi fyrir tæpum 2400 árum en áætlað er að aðeins um fjórðungur ritverka hans sé varðveittur.

Af lestri rita hans má svo greina nokkra þætti í heimspekilegum og vísindalegum þankagangi Aristótelesar. Hann virðist í fyrsta lagi hafa verið afar fróðleiksgjarn og forvitinn um hvaðeina, enda taldi hann að þekkingarþrá væri mönnum beinlínis meðfædd og færði rök fyrir þeirri skoðun í fyrsta kafla fyrstu bókar Frumspekinnar.[1] Hann fékkst líka sjálfur við býsna fjölbreyttar rannsóknir, allt frá rökfræði, mælskulist og bókmenntarannsóknum, til frumspeki, eðlisfræði og spurninga um veðurfræði og frá rannsóknum á dýrum, líkamshlutum þeirra, göngulagi og getnaði til heimspekilegrar sálarfræði og vangavelta um minni, svefn og drauma, auk siðfræði og stjórnspeki.

Aristóteles virðist hafa verið afar skipulagður hugsuður. Stundum hefur hann umfjöllun sína á því að leita skilgreininga. Til að mynda er upphaf ritgerðarinnar Um túlkun svona: „Fyrst verður að ákvarða hvað nafn og sögn eru, síðan hvað er neitandi staðhæfing og játandi staðhæfing, og hvað er staðhæfing og setning.“ [2] Svo er fyrri hluta verksins varið í að leita skilgreininga en síðari hluta verksins er varið í að greina andstæðar og gagnstæðar staðhæfingar og í þeirri greiningu verður til fyrsta háttarökfræðin (það er rökfræði sem fæst við staðhæfingar um nauðsyn og möguleika) en segja má að hann hafi fundið upp rökfræði sem fræðigrein. Sjálfur kallaði hann hana analytika, greiningarfræði eða rökgreiningar.

Hjá Aristótelesi gætir einmitt ríkrar tilhneigingar til greinandi hugsunar. Merki þessa má sjá mun víðar en í rökfræðiritunum. Í lok fyrsta kafla fyrstu bókar Stjórnspekinnar segir hann beinlínis: „Það sem sagt hefur verið verður ljóst þeim sem skoða málið samkvæmt aðferðinni sem hefur leiðbeint okkur. Því eins og í hinum tilfellunum verður að greina sundur það sem er samþætt þar til komið er að því sem er ósamþætt (því það eru smæstu hlutar heildarinnar)“.[3] Og snemma í Siðfræði Níkomakkosar segir hann: „Nú verður að byrja á því sem er þekkjanlegt. Eitthvað getur verið þekkjanlegt í tvennum skilningi: okkur þekkjanlegt eða þekkjanlegt á einhlítan hátt. Vísast eigum við að byrja á því sem er okkur þekkjanlegt.“[4] Hinn agaði greinandi gerir hér mikilvægan greinarmun um leið og hinn skipulagði hugsuður leitar að réttum stað til að hefja rannsókn sína. Í stað þess að leita eins og Platon að því sem er þekkjanlegt á einhlítan hátt vill Aristóteles byrja á því sem er okkur mönnunum þekkjanlegt og stunda þannig heimspekina á okkar forsendum.[5]

Þegar kemur að því að lýsa því heimspekilega vandamáli sem fjalla skal um er það ítarlega útlistað áður en lengra er haldið.[6] Umfjöllunin í kjölfarið er alltaf yfirveguð og markviss og yfirleitt skýr. Í 9. kafla Um túlkun útskýrir Aristóteles til að mynda rækilega hvað leiðir af þeirri skoðun að sérhver staðhæfing sé annaðhvort sönn eða ósönn. Vandinn sem af því leiðir er sá að þá væru einnig staðhæfingar um framtíðina annaðhvort sannar eða ósannar og af því leiðir að allt gerist af nauðsyn: það sem gerðist í gær gat aldrei orðið öðruvísi en það varð og það er fyrirfram ákveðið hvað gerist á morgun.

Því ekkert stendur í vegi fyrir því að einhver hefði sagt fyrir tíuþúsund árum síðan að þetta myndi verða, en annar hefði neitað því, þannig að hvað svo sem var satt að segja þá verður af nauðsyn. En auðvitað breytir það engu hvort einhverjir sögðu þessar gagnstæðu staðhæfingar eða ekki. Það liggur í augum uppi að svona eru hlutirnir, jafnvel þótt annar hefði ekki fullyrt og hinn neitað. Því ekki verður það eða verður ekki vegna þess að það var fullyrt eða því neitað að það myndi verða, og ekki frekar vegna tíuþúsund ára en hvaða tíma annars sem vera skal. Af því leiðir að ef þetta var svona á öllum tímum, þannig að annar sagði satt, þá var nauðsynlegt að þetta myndi gerast, og að allt sem gerist er ávallt þannig að það gerist af nauðsyn; því það sem einhver sagði sannlega að yrði, getur ómögulega ekki orðið, og ætíð var satt, að segja um það sem gerist, að það myndi gerast.[7]

Ef allar staðhæfingar eru annaðhvort sannar eða ósannar, líka staðhæfingar um framtíðina, þá er staðhæfingin „Það verður sjóorrusta á morgun“ líka annaðhvort sönn eða ósönn. Ef hún er sönn, þá er óhugsandi að það verði ekki sjóorrusta á morgun en ef hún er ósönn þá er óhugsandi að það verði sjóorrusta á morgun. Það sama gildir þótt staðhæfingin hefði verið sögð fyrir tíuþúsund árum og líka þótt hún hafi aldrei verið sögð; eftir sem áður gildir að ef það var eða hefði verið, einhvern tímann í fortíðinni, satt að segja að á þessum tiltekna degi yrði sjóorrusta, þá er óhugsandi annað en að það yrði sjóorrusta á þessum degi. Þetta er vandamál sem þarf að leysa því augljóslega er framtíðin ekki fyrirfram ráðin. Aristóteles segir í framhaldinu:

En hvað ef þessar afleiðingar eru ómögulegar? – Því við sjáum að uppspretta þess sem mun verða er bæði í ráðagerð og athöfnum [...] þessir hlutir geta bæði verið og ekki verið, og því geta þeir einnig orðið og ekki orðið.[8]

Hér sést líka að Aristóteles tekur óhikað með í reikninginn staðreyndir málsins sem blasa við. Auk þess var hann viljugur að grennslast fyrir um staðreyndirnar með athugunum. Þess vegna lét hann meðal annars gera samantekt á stjórnskipan á annað hundrað borgríkja og stundaði sjálfur ýmiss konar náttúrurannsóknir.

Aristóteles var markhyggjumaður[9] og leitaði á nánast öllum sviðum tilgangsskýringa. Hann túlkar líka niðurstöður náttúrurannsókna sinna í ljósi markhyggjunnar en í þróunarkenningu nútímans hefur markhyggjunni verið úthýst. Þar er því nokkur munur á þankagangi hans og okkar. En markhyggja Aristótelesar nær líka langt út fyrir náttúrufræði hans. Hann hélt til að mynda að þróun grískra bókmennta hefði óhjákvæmilega stefnt að fullkomnun harmleiksins eins og lesa má í riti hans Um skáldskaparlistina.[10]

Aristóteles var afar rökvís, yfirleitt athugull á allar hliðar máls og ætíð meðvitaður um hvað bæði forverar hans höfðu sagt og jafnframt hvað almennt og yfirleitt er sagt um efnið. Í Um sálina segir hann til að mynda „Um leið og vér reifum þau vandamál, sem smátt og smátt verður reynt að leysa, er óhjákvæmilegt, þegar sálin er athuguð, að líta á skoðanir þeirra fyrirrennara vorra, sem eitthvað höfðu um hana að segja, til þess að aðhyllast það, sem þeir höfðu réttilega fundið, en forðast það, sem ekki var rétt.“[11] Hann hefur samt ekki áhuga á að reifa allar skoðanir enda segir hann í Siðfræði Níkomakkosar: „Sennilega væri fánýtt að rannsaka allar skoðanir á þessu máli og nægir að rannsaka þær sem ber hæst eða virðast studdar einhverjum rökum.“[12] Þessar skoðanir sem skipta máli eru stundum kallaðar endoxa. Í sjöundu bók Siðfræði Níkomakkosar, þar sem hann fjallar um breyskleika og sjálfsaga, segir hann svo: „Í þessu máli sem öðrum verður að henda reiður á því sem virðist vera raunin. Að lokinni umræðu um vandann verður að sannreyna allar algengar skoðanir um áverkan sálarinnar, en ef ekki allar, þá flestar og sem bestar. Því við höfum sannreynt málið nægilega vel ef við leysum vandann og höldum jafnframt eftir hinum algengu skoðunum.“[13] Markmiðið er sem sagt að leysa gátuna sem var útlistuð í upphafi á sem einfaldastan máta þannig að lausnin verði í eins lítilli mótsögn og vera má við viðteknar skoðanir, sem Aristóteles telur líklegt að séu sannleikanum samkvæmar, þótt auðvitað reynist það ekki alltaf svo.

Málverk af René Descartes frá árinu 1648. Aristóteles hefði væntanlega verið nokkuð hlynntur aðferð René Descartes.

Svo virðist sem Aristóteles hefði verið nokkuð hlynntur aðferð Descartes þótt hann lýsi ekki aðferð sinni jafn skýrt og Descartes gerði,[14] einkum þó skrefum tvö til fjögur en þar segir Descartes að maður skyldi sundurgreina sérhvern vanda í eins marga þætti og unnt er til að ráða betur við hann, hugsa í réttri röð og fikra sig frá hinum einfaldasta þætti vandans til hins flóknasta og fara að lokum rækilega yfir alla þætti til að geta verið viss um að sjást ekki yfir neitt. Við höfum séð að Aristóteles mælir með þeirri aðferð að greina vandann í viðráðanlega þætti og fara vandlega yfir niðurstöðuna að lokum. En fyrsta skref Descartes var að hafa ekkert fyrir satt nema það liggi í augum uppi og fallast ekki á neitt nema það sem stendur manni svo skýrt og greinilega fyrir hugskotssjónum að maður geti ómögulega efast um það. Þótt Descartes segist með þessu vilja forðast hvatvísi gengur hann þó býsna langt þegar hann beitir reglunni og hér hefði Aristóteles líklega staldrað við og talið óþarflega langt gengið til að finna einhver örugg sannindi sem ekki verði dregin í efa. Hann hafði ekki áhuga á að draga í efa eða rannsaka allar skoðanir heldur einungis þær sem virðast studdar einhverjum rökum en taldi auk þess að almennt og yfirleitt gætum við treyst skynfærum okkar til að færa okkur þekkingu á heiminum, enda segir hann í fyrstu bók Frumspekinnar: „ [Sjónina] metum við öðru fremur, svo að segja, hvort sem við hyggjum á athafnir eða ekki. Ástæðan er sú að framar öðrum skilningarvitum gefur sjónin okkur vitneskju og afhjúpar margvíslegan greinarmun. [...] Við höldum ekki að nokkurt skilningarvit sé viska, þó að sannarlega séu skilningarvitin greiðasta leiðin til þekkingar á einstaklingum“.[15] Aftur á móti færa skilningarvitin okkur ekki þekkingu á orsökum. Það þarf meira en skynjun og reynslu til að öðlast skilning og visku.

Aristóteles var sjaldan mjög róttækur og stundum býsna íhaldssamur. Til dæmis virðist ekki hafa hvarflað að honum að hafa aðra skoðun á konum en almennt tíðkaðist meðal Forngrikkja en Grikkland hið forna var harðsvírað karlrembusamfélag. Samt hafði kennari hans, Platon, gefið einhvers konar fordæmi fyrir róttækari hugmyndum um samfélagið og stöðu kvenna.[16] Aristóteles taldi ekki heldur neitt athugavert við þrælahald og beinlínis setur fram kenningu um náttúrulegt þrælahald í Stjórnspekinni til að útskýra og réttlæta það fyrirkomulag. Samt þekkti hann til hugmynda Alkidamasar sem hélt því fram að enginn væri þræll frá náttúrunnar hendi.

Það er því ljóst að af ritum Aristótelesar að dæma var hann rökvís og greinandi hugsuður með vítt áhugasvið sem gekk skipulega til verks, var meðvitaður um skoðanir annarra og yfirleitt aðgætinn á allar hliðar máls en sjaldan mjög róttækur og oft nokkuð íhaldssamur.

Tilvísanir:
  1. ^ Aristóteles, Frumspekin i.1, 980a21 o.áfr. Íslensk þýðing Svavars Hrafns Svavarssonar á Frumspekinni I kom út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi árið 1999.
  2. ^ Aristóteles, Um túlkun 1, 16a1-2, þýð. mín.
  3. ^ Aristóteles, Stjórnspekin i.1, 1252a17-20, þýð. mín.
  4. ^ Aristóteles, Siðfræði Níkomakkosar i.4, 1095b2-4, þýð. Svavar Hrafn Svavarsson (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1995). Aristóteles ítrekar þetta atriði í Eðlisfræðinni i.1, 184a10 o.áfr.
  5. ^ William Jordan, Ancient Concepts of Philosophy (London: Routledge, 1992), 106-7.
  6. ^ W.K.C. Guthrie, A History of Greek Philosophy VI: Aristotle: An Encounter (Cambridge: Cambridge University Press, 1981), 90. Aristóteles orðar það í upphafi þriðju bókar Frumspekinnar: „Þeim sem vilja öðlast skilning er gagnlegt að útlista vel“. Frumsp. iii.1, 995a27-28.
  7. ^ Aristóteles, Um túlkun 9, 18b33-19a6, þýð. mín.
  8. ^ Aristóteles, Um túlkun 9, 19a7-11, þýð. mín.
  9. ^ W.K.C. Guthrie, A History of Greek Philosophy VI: Aristotle: An Encounter (Cambridge: Cambridge University Press, 1981), 97. Um markhyggju Aristótelesar sem slíka, sjá k. VII, bls. 106-29.
  10. ^ Íslensk þýðing Kristjáns Árnasonar á Um skáldskaparlistina kom út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi (2. útg. 1997).
  11. ^ Aristóteles, Um sálina i.2, 403b20-24, þýð. Sigurjón Björnsson (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1985).
  12. ^ Aristóteles, Siðfræði Níkomakkosar i.4, 1095a27-30, þýð. Svavar Hrafn Svavarsson.
  13. ^ Aristóteles, Siðfræði Níkomakkosar vii.1, 1145b2-7, þýð. Svavar Hrafn Svavarsson.
  14. ^ René Descartes, Orðræða um aðferð. Þýð. Magnús G. Jónsson (Reykjavík: hið íslenska bókmenntafélag, 1991, 2. útg. 1998): 78-80.
  15. ^ Aristóteles, Frumspekin i.1, 980a24-27 og 981b10-11, þýð. Svavar Hrafn Svavarsson.
  16. ^ Platon var að vísu ekki femínisti í nútíma skilningi en þó töluvert róttækari en aðrir forngrískir hugsuðir. Um þetta má meðal annars lesa hjá Eiríki Smára Sigurðarsyni í greininni „Dyggðir kvenna?“, hjá Svavari Hrafni Svavarssyni (ritstj.), Hugsað með Platoni (Reykjavík: Heimspekistofnun, Siðfræðistofnun og Háskólaútgáfan, 2014): 151-65.

Myndir:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

7.5.2014

Spyrjandi

Birta Gunnarsdóttir, f. 1998

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvernig hugsaði Aristóteles?“ Vísindavefurinn, 7. maí 2014, sótt 7. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=61525.

Geir Þ. Þórarinsson. (2014, 7. maí). Hvernig hugsaði Aristóteles? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=61525

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvernig hugsaði Aristóteles?“ Vísindavefurinn. 7. maí. 2014. Vefsíða. 7. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=61525>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig hugsaði Aristóteles?
Áður en lengra er haldið er ekki úr vegi að huga að því hvaða forsendur við höfum til að svara spurningunni. Í fyrsta lagi höfum við ekki beinan aðgang að hugsunum annarra, ekki einu sinni samtímamanna okkar, heldur er hann háður túlkun á orðum þeirra og hegðun. Það er alls ekki víst að ritverk fólks ein og sér gefi rétta eða góða mynd af því hvernig það hugsar. Í öðru lagi var Aristóteles uppi fyrir tæpum 2400 árum. Áætlað er að einungis um fjórðungur ritverka hans sé varðveittur og stundum hefur geymdin leikið textann grátt. Það sem við getum sagt um hugsun Aristótelesar byggir því fyrst og fremst á túlkun okkar á varðveittum ritverkum hans – svo langt sem það nær – en sennilega eru flest varðveitt rit hans aukinheldur fyrirlestrar sem hann flutti en ekki útgefin rit ætluð öðrum til lestrar. Enn fremur fjalla rit Aristótelesar meira og minna öll um heimspeki og heimspekileg vísindi. Við eigum ekki persónulegar dagbækur eftir hann eða sendibréf sem hafa að geyma hugleiðingar hans um alls konar hversdagsleg mál.

Að þessu sögðu má byrja á að gefa sér að Aristóteles hafi hugsað í grundvallaratriðum eins og við hin, enda ekkert sem bendir til annars. Hugsun okkar er nátengd tungumálinu sem við tölum og verulega mótuð af því. Móðurmál Aristótelesar var forngríska, svo segja má að hann hafi hugsað á forngrísku.

Aristóteles var uppi fyrir tæpum 2400 árum en áætlað er að aðeins um fjórðungur ritverka hans sé varðveittur.

Af lestri rita hans má svo greina nokkra þætti í heimspekilegum og vísindalegum þankagangi Aristótelesar. Hann virðist í fyrsta lagi hafa verið afar fróðleiksgjarn og forvitinn um hvaðeina, enda taldi hann að þekkingarþrá væri mönnum beinlínis meðfædd og færði rök fyrir þeirri skoðun í fyrsta kafla fyrstu bókar Frumspekinnar.[1] Hann fékkst líka sjálfur við býsna fjölbreyttar rannsóknir, allt frá rökfræði, mælskulist og bókmenntarannsóknum, til frumspeki, eðlisfræði og spurninga um veðurfræði og frá rannsóknum á dýrum, líkamshlutum þeirra, göngulagi og getnaði til heimspekilegrar sálarfræði og vangavelta um minni, svefn og drauma, auk siðfræði og stjórnspeki.

Aristóteles virðist hafa verið afar skipulagður hugsuður. Stundum hefur hann umfjöllun sína á því að leita skilgreininga. Til að mynda er upphaf ritgerðarinnar Um túlkun svona: „Fyrst verður að ákvarða hvað nafn og sögn eru, síðan hvað er neitandi staðhæfing og játandi staðhæfing, og hvað er staðhæfing og setning.“ [2] Svo er fyrri hluta verksins varið í að leita skilgreininga en síðari hluta verksins er varið í að greina andstæðar og gagnstæðar staðhæfingar og í þeirri greiningu verður til fyrsta háttarökfræðin (það er rökfræði sem fæst við staðhæfingar um nauðsyn og möguleika) en segja má að hann hafi fundið upp rökfræði sem fræðigrein. Sjálfur kallaði hann hana analytika, greiningarfræði eða rökgreiningar.

Hjá Aristótelesi gætir einmitt ríkrar tilhneigingar til greinandi hugsunar. Merki þessa má sjá mun víðar en í rökfræðiritunum. Í lok fyrsta kafla fyrstu bókar Stjórnspekinnar segir hann beinlínis: „Það sem sagt hefur verið verður ljóst þeim sem skoða málið samkvæmt aðferðinni sem hefur leiðbeint okkur. Því eins og í hinum tilfellunum verður að greina sundur það sem er samþætt þar til komið er að því sem er ósamþætt (því það eru smæstu hlutar heildarinnar)“.[3] Og snemma í Siðfræði Níkomakkosar segir hann: „Nú verður að byrja á því sem er þekkjanlegt. Eitthvað getur verið þekkjanlegt í tvennum skilningi: okkur þekkjanlegt eða þekkjanlegt á einhlítan hátt. Vísast eigum við að byrja á því sem er okkur þekkjanlegt.“[4] Hinn agaði greinandi gerir hér mikilvægan greinarmun um leið og hinn skipulagði hugsuður leitar að réttum stað til að hefja rannsókn sína. Í stað þess að leita eins og Platon að því sem er þekkjanlegt á einhlítan hátt vill Aristóteles byrja á því sem er okkur mönnunum þekkjanlegt og stunda þannig heimspekina á okkar forsendum.[5]

Þegar kemur að því að lýsa því heimspekilega vandamáli sem fjalla skal um er það ítarlega útlistað áður en lengra er haldið.[6] Umfjöllunin í kjölfarið er alltaf yfirveguð og markviss og yfirleitt skýr. Í 9. kafla Um túlkun útskýrir Aristóteles til að mynda rækilega hvað leiðir af þeirri skoðun að sérhver staðhæfing sé annaðhvort sönn eða ósönn. Vandinn sem af því leiðir er sá að þá væru einnig staðhæfingar um framtíðina annaðhvort sannar eða ósannar og af því leiðir að allt gerist af nauðsyn: það sem gerðist í gær gat aldrei orðið öðruvísi en það varð og það er fyrirfram ákveðið hvað gerist á morgun.

Því ekkert stendur í vegi fyrir því að einhver hefði sagt fyrir tíuþúsund árum síðan að þetta myndi verða, en annar hefði neitað því, þannig að hvað svo sem var satt að segja þá verður af nauðsyn. En auðvitað breytir það engu hvort einhverjir sögðu þessar gagnstæðu staðhæfingar eða ekki. Það liggur í augum uppi að svona eru hlutirnir, jafnvel þótt annar hefði ekki fullyrt og hinn neitað. Því ekki verður það eða verður ekki vegna þess að það var fullyrt eða því neitað að það myndi verða, og ekki frekar vegna tíuþúsund ára en hvaða tíma annars sem vera skal. Af því leiðir að ef þetta var svona á öllum tímum, þannig að annar sagði satt, þá var nauðsynlegt að þetta myndi gerast, og að allt sem gerist er ávallt þannig að það gerist af nauðsyn; því það sem einhver sagði sannlega að yrði, getur ómögulega ekki orðið, og ætíð var satt, að segja um það sem gerist, að það myndi gerast.[7]

Ef allar staðhæfingar eru annaðhvort sannar eða ósannar, líka staðhæfingar um framtíðina, þá er staðhæfingin „Það verður sjóorrusta á morgun“ líka annaðhvort sönn eða ósönn. Ef hún er sönn, þá er óhugsandi að það verði ekki sjóorrusta á morgun en ef hún er ósönn þá er óhugsandi að það verði sjóorrusta á morgun. Það sama gildir þótt staðhæfingin hefði verið sögð fyrir tíuþúsund árum og líka þótt hún hafi aldrei verið sögð; eftir sem áður gildir að ef það var eða hefði verið, einhvern tímann í fortíðinni, satt að segja að á þessum tiltekna degi yrði sjóorrusta, þá er óhugsandi annað en að það yrði sjóorrusta á þessum degi. Þetta er vandamál sem þarf að leysa því augljóslega er framtíðin ekki fyrirfram ráðin. Aristóteles segir í framhaldinu:

En hvað ef þessar afleiðingar eru ómögulegar? – Því við sjáum að uppspretta þess sem mun verða er bæði í ráðagerð og athöfnum [...] þessir hlutir geta bæði verið og ekki verið, og því geta þeir einnig orðið og ekki orðið.[8]

Hér sést líka að Aristóteles tekur óhikað með í reikninginn staðreyndir málsins sem blasa við. Auk þess var hann viljugur að grennslast fyrir um staðreyndirnar með athugunum. Þess vegna lét hann meðal annars gera samantekt á stjórnskipan á annað hundrað borgríkja og stundaði sjálfur ýmiss konar náttúrurannsóknir.

Aristóteles var markhyggjumaður[9] og leitaði á nánast öllum sviðum tilgangsskýringa. Hann túlkar líka niðurstöður náttúrurannsókna sinna í ljósi markhyggjunnar en í þróunarkenningu nútímans hefur markhyggjunni verið úthýst. Þar er því nokkur munur á þankagangi hans og okkar. En markhyggja Aristótelesar nær líka langt út fyrir náttúrufræði hans. Hann hélt til að mynda að þróun grískra bókmennta hefði óhjákvæmilega stefnt að fullkomnun harmleiksins eins og lesa má í riti hans Um skáldskaparlistina.[10]

Aristóteles var afar rökvís, yfirleitt athugull á allar hliðar máls og ætíð meðvitaður um hvað bæði forverar hans höfðu sagt og jafnframt hvað almennt og yfirleitt er sagt um efnið. Í Um sálina segir hann til að mynda „Um leið og vér reifum þau vandamál, sem smátt og smátt verður reynt að leysa, er óhjákvæmilegt, þegar sálin er athuguð, að líta á skoðanir þeirra fyrirrennara vorra, sem eitthvað höfðu um hana að segja, til þess að aðhyllast það, sem þeir höfðu réttilega fundið, en forðast það, sem ekki var rétt.“[11] Hann hefur samt ekki áhuga á að reifa allar skoðanir enda segir hann í Siðfræði Níkomakkosar: „Sennilega væri fánýtt að rannsaka allar skoðanir á þessu máli og nægir að rannsaka þær sem ber hæst eða virðast studdar einhverjum rökum.“[12] Þessar skoðanir sem skipta máli eru stundum kallaðar endoxa. Í sjöundu bók Siðfræði Níkomakkosar, þar sem hann fjallar um breyskleika og sjálfsaga, segir hann svo: „Í þessu máli sem öðrum verður að henda reiður á því sem virðist vera raunin. Að lokinni umræðu um vandann verður að sannreyna allar algengar skoðanir um áverkan sálarinnar, en ef ekki allar, þá flestar og sem bestar. Því við höfum sannreynt málið nægilega vel ef við leysum vandann og höldum jafnframt eftir hinum algengu skoðunum.“[13] Markmiðið er sem sagt að leysa gátuna sem var útlistuð í upphafi á sem einfaldastan máta þannig að lausnin verði í eins lítilli mótsögn og vera má við viðteknar skoðanir, sem Aristóteles telur líklegt að séu sannleikanum samkvæmar, þótt auðvitað reynist það ekki alltaf svo.

Málverk af René Descartes frá árinu 1648. Aristóteles hefði væntanlega verið nokkuð hlynntur aðferð René Descartes.

Svo virðist sem Aristóteles hefði verið nokkuð hlynntur aðferð Descartes þótt hann lýsi ekki aðferð sinni jafn skýrt og Descartes gerði,[14] einkum þó skrefum tvö til fjögur en þar segir Descartes að maður skyldi sundurgreina sérhvern vanda í eins marga þætti og unnt er til að ráða betur við hann, hugsa í réttri röð og fikra sig frá hinum einfaldasta þætti vandans til hins flóknasta og fara að lokum rækilega yfir alla þætti til að geta verið viss um að sjást ekki yfir neitt. Við höfum séð að Aristóteles mælir með þeirri aðferð að greina vandann í viðráðanlega þætti og fara vandlega yfir niðurstöðuna að lokum. En fyrsta skref Descartes var að hafa ekkert fyrir satt nema það liggi í augum uppi og fallast ekki á neitt nema það sem stendur manni svo skýrt og greinilega fyrir hugskotssjónum að maður geti ómögulega efast um það. Þótt Descartes segist með þessu vilja forðast hvatvísi gengur hann þó býsna langt þegar hann beitir reglunni og hér hefði Aristóteles líklega staldrað við og talið óþarflega langt gengið til að finna einhver örugg sannindi sem ekki verði dregin í efa. Hann hafði ekki áhuga á að draga í efa eða rannsaka allar skoðanir heldur einungis þær sem virðast studdar einhverjum rökum en taldi auk þess að almennt og yfirleitt gætum við treyst skynfærum okkar til að færa okkur þekkingu á heiminum, enda segir hann í fyrstu bók Frumspekinnar: „ [Sjónina] metum við öðru fremur, svo að segja, hvort sem við hyggjum á athafnir eða ekki. Ástæðan er sú að framar öðrum skilningarvitum gefur sjónin okkur vitneskju og afhjúpar margvíslegan greinarmun. [...] Við höldum ekki að nokkurt skilningarvit sé viska, þó að sannarlega séu skilningarvitin greiðasta leiðin til þekkingar á einstaklingum“.[15] Aftur á móti færa skilningarvitin okkur ekki þekkingu á orsökum. Það þarf meira en skynjun og reynslu til að öðlast skilning og visku.

Aristóteles var sjaldan mjög róttækur og stundum býsna íhaldssamur. Til dæmis virðist ekki hafa hvarflað að honum að hafa aðra skoðun á konum en almennt tíðkaðist meðal Forngrikkja en Grikkland hið forna var harðsvírað karlrembusamfélag. Samt hafði kennari hans, Platon, gefið einhvers konar fordæmi fyrir róttækari hugmyndum um samfélagið og stöðu kvenna.[16] Aristóteles taldi ekki heldur neitt athugavert við þrælahald og beinlínis setur fram kenningu um náttúrulegt þrælahald í Stjórnspekinni til að útskýra og réttlæta það fyrirkomulag. Samt þekkti hann til hugmynda Alkidamasar sem hélt því fram að enginn væri þræll frá náttúrunnar hendi.

Það er því ljóst að af ritum Aristótelesar að dæma var hann rökvís og greinandi hugsuður með vítt áhugasvið sem gekk skipulega til verks, var meðvitaður um skoðanir annarra og yfirleitt aðgætinn á allar hliðar máls en sjaldan mjög róttækur og oft nokkuð íhaldssamur.

Tilvísanir:
  1. ^ Aristóteles, Frumspekin i.1, 980a21 o.áfr. Íslensk þýðing Svavars Hrafns Svavarssonar á Frumspekinni I kom út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi árið 1999.
  2. ^ Aristóteles, Um túlkun 1, 16a1-2, þýð. mín.
  3. ^ Aristóteles, Stjórnspekin i.1, 1252a17-20, þýð. mín.
  4. ^ Aristóteles, Siðfræði Níkomakkosar i.4, 1095b2-4, þýð. Svavar Hrafn Svavarsson (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1995). Aristóteles ítrekar þetta atriði í Eðlisfræðinni i.1, 184a10 o.áfr.
  5. ^ William Jordan, Ancient Concepts of Philosophy (London: Routledge, 1992), 106-7.
  6. ^ W.K.C. Guthrie, A History of Greek Philosophy VI: Aristotle: An Encounter (Cambridge: Cambridge University Press, 1981), 90. Aristóteles orðar það í upphafi þriðju bókar Frumspekinnar: „Þeim sem vilja öðlast skilning er gagnlegt að útlista vel“. Frumsp. iii.1, 995a27-28.
  7. ^ Aristóteles, Um túlkun 9, 18b33-19a6, þýð. mín.
  8. ^ Aristóteles, Um túlkun 9, 19a7-11, þýð. mín.
  9. ^ W.K.C. Guthrie, A History of Greek Philosophy VI: Aristotle: An Encounter (Cambridge: Cambridge University Press, 1981), 97. Um markhyggju Aristótelesar sem slíka, sjá k. VII, bls. 106-29.
  10. ^ Íslensk þýðing Kristjáns Árnasonar á Um skáldskaparlistina kom út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi (2. útg. 1997).
  11. ^ Aristóteles, Um sálina i.2, 403b20-24, þýð. Sigurjón Björnsson (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1985).
  12. ^ Aristóteles, Siðfræði Níkomakkosar i.4, 1095a27-30, þýð. Svavar Hrafn Svavarsson.
  13. ^ Aristóteles, Siðfræði Níkomakkosar vii.1, 1145b2-7, þýð. Svavar Hrafn Svavarsson.
  14. ^ René Descartes, Orðræða um aðferð. Þýð. Magnús G. Jónsson (Reykjavík: hið íslenska bókmenntafélag, 1991, 2. útg. 1998): 78-80.
  15. ^ Aristóteles, Frumspekin i.1, 980a24-27 og 981b10-11, þýð. Svavar Hrafn Svavarsson.
  16. ^ Platon var að vísu ekki femínisti í nútíma skilningi en þó töluvert róttækari en aðrir forngrískir hugsuðir. Um þetta má meðal annars lesa hjá Eiríki Smára Sigurðarsyni í greininni „Dyggðir kvenna?“, hjá Svavari Hrafni Svavarssyni (ritstj.), Hugsað með Platoni (Reykjavík: Heimspekistofnun, Siðfræðistofnun og Háskólaútgáfan, 2014): 151-65.

Myndir:

...