Sólin Sólin Rís 05:29 • sest 21:25 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:47 • Sest 05:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:41 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:54 • Síðdegis: 24:11 í Reykjavík

Hvernig var lífið í gamla daga?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Upprunalega spurningin hljóðaði svo:
Hvernig var lífið hjá sveitafólki og þrælum á Íslandi í gamla daga?

Einfalda svarið er auðvitað: ömurlegt. Í húsum var í besta lagi hálfdimmt – ekkert rafmagn – og oft kalt – engin hitaveita. Hvorki voru vatnssalerni né böð í húsum fólks og koppar undir rúmum svo að stundum hefur verið vond lykt. Ekki var tækni til að frysta mat og jafnvel lítið um salt svo að matarbirgðir þurfti að vindþurrka, reykja eða súrsa til að þær skemmdust ekki. Vatnsheld föt voru tæpast nokkur, til dæmis voru skór búnir til úr skinni sem hélt ekki vatni til lengdar, og ekki varð komist hjá því að fara um gangandi, eða á hestbaki, því nauðsynlegt var að smala búfé og afla heyja handa því. Þegar rigndi voru því allir votir í fætur sem unnu utanhúss.

Engar vélar voru til að létta fólki vinnu eða auðvelda ferðalög, engir bílar, engar flugvélar. Og ekki var hægt að spara sér ferðir með því að hringja því að sími var ekki til. Vinnutími var oft langur því nota varð hvert tækifæri til að afla nauðsynja, sem nægði ekki alltaf því margir voru svangir, og mannskæðar hungursneyðir gengu þegar verst var. Fátt var um ráð til að lækna sjúkdóma; fólk vissi ekki einu sinni að sýklar væru til. Mörg börn dóu strax á fyrsta ári, frá þriðjungi og niður í eitt barn af hverjum átta á 19. öld. Tækifæri til skemmtunir voru fábreytt og ekki einu sinni til útvarp, hvað þá sjónvarp eða bíó. Frelsi margra var takmarkað, og ekki eingöngu þræla og ambátta, sem bjuggu þó við minnst frelsi. Til dæmis vantaði oft mikið á að konur veldu sér eiginmenn sjálfar.

Flestum þættu húsakynni fyrri alda ekki boðleg í dag. Bærinn Sænautasel á Jökuldalsheiði var upphaflega byggður 1843 og endurbyggður árið 1992.

Hvaða tíma er ég að tala um? Hvenær voru gömlu dagarnir? Þrælahald er hér í sérflokki því að það mun hafa lagst af á Íslandi á 12. öld, fyrir næstum 900 árum. Að öðru leyti á lýsing mín hér á undan að flestu leyti við tímann fram á fyrstu áratugi 20. aldar. Ef við gerum ráð fyrir að landið hafi byggst fólki í kringum aldamótin 900 má segja, ónákvæmt, að þjóðin hafi lifað í þúsund ár á gömlum dögum en hundrað ár á nýjum dögum.

Ef við stækkum myndina og látum hana ná yfir allan heiminn þá komumst við að þeirri niðurstöðu að mannkynið hafi lifað í milljónir ára á gömlum dögum. Sums staðar byrjuðu nýjungarnar fyrr en hjá okkur Íslendingum, til dæmis eru 200–300 ár síðan forystuþjóðir Evrópu byrjuðu að létta sér lífið með verksmiðjum og járnbrautum. Breytinguna úr gömlum dögum í nýja köllum við gjarnan iðnbyltingu, og hún er sögð hafa byrjað á Englandi á 18. öld, fyrir um tveimur og hálfri öld. Aftur á móti lifir enn meirihluti fólks í heiminum á dögum sem okkur mundu finnast gamlir ef við þyrftum að lifa þá. Við, tæknivæddir íbúar Evrópu, Norður-Ameríku og nokkurra fleiri landa, erum enn undantekning í sögu mannkynsins. Ætli það sé ekki um það bil fimmti hluti mannkynsins sem lifir lífi sem við mundum sætta okkur við umsvifalaust. En þar að auki lifa margir á einhvers konar millistigum gamalla og nýrra tíma.

Enn lifir meirihluti fólks í heiminum á dögum sem okkur mundu finnast gamlir ef við þyrftum að lifa þá.

Er sennilegt að dýrategundin maður hafi alltaf lifað ömurlegu lífi, og geri það jafnvel enn, nema einmitt við sem lifum hér og nú? Mér finnst það ólíklegt. Getur verið að það stafi af þröngsýni okkar að halda að allt líf sé ömurlegt nema það sem við lifum? Verður fólk ekki ljósnæmara ef það elst upp í hálfrökkri og kuldaþolnara ef það elst upp í svölu lofti? Flestri lykt venjumst við á nokkrum klukkutímum og verðum það sem er kallað samdauna. Hvernig ætli fólki sem var uppi fyrir 200 árum þætti lyktin af vélaútblæstri sem er allt í kringum okkur? Ég veit að margir lesendur þessa svars munu hrylla sig við hugsuninni um að borða súrmat, en ég (76 ára gamall) ólst upp við hann frá bernsku og finnst hann allra mata bestur. Fólk saknar ekki tækni sem það getur ekki látið sér detta í hug.

Ég er ekki að halda því fram að lífið hafi verið sársaukalaust í gamla daga, að fólk hafi þolað kulda eða hungur þjáningalaust eða að það hafi ekki fundið til þegar það missti börn sín. Ekki aldeilis. En ég held því fram að þetta sé málefni sem við eigum ekki að tileinka okkur einfalda skoðun á. Þetta er efni til að velta fyrir sér, hugsa um, kannski komast að niðurstöðu, kannski ekki.

Myndir:

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

9.5.2016

Spyrjandi

Stelpur í 5. bekk í Giljaskóla

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvernig var lífið í gamla daga?“ Vísindavefurinn, 9. maí 2016. Sótt 22. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=72121.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2016, 9. maí). Hvernig var lífið í gamla daga? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=72121

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvernig var lífið í gamla daga?“ Vísindavefurinn. 9. maí. 2016. Vefsíða. 22. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=72121>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig var lífið í gamla daga?
Upprunalega spurningin hljóðaði svo:

Hvernig var lífið hjá sveitafólki og þrælum á Íslandi í gamla daga?

Einfalda svarið er auðvitað: ömurlegt. Í húsum var í besta lagi hálfdimmt – ekkert rafmagn – og oft kalt – engin hitaveita. Hvorki voru vatnssalerni né böð í húsum fólks og koppar undir rúmum svo að stundum hefur verið vond lykt. Ekki var tækni til að frysta mat og jafnvel lítið um salt svo að matarbirgðir þurfti að vindþurrka, reykja eða súrsa til að þær skemmdust ekki. Vatnsheld föt voru tæpast nokkur, til dæmis voru skór búnir til úr skinni sem hélt ekki vatni til lengdar, og ekki varð komist hjá því að fara um gangandi, eða á hestbaki, því nauðsynlegt var að smala búfé og afla heyja handa því. Þegar rigndi voru því allir votir í fætur sem unnu utanhúss.

Engar vélar voru til að létta fólki vinnu eða auðvelda ferðalög, engir bílar, engar flugvélar. Og ekki var hægt að spara sér ferðir með því að hringja því að sími var ekki til. Vinnutími var oft langur því nota varð hvert tækifæri til að afla nauðsynja, sem nægði ekki alltaf því margir voru svangir, og mannskæðar hungursneyðir gengu þegar verst var. Fátt var um ráð til að lækna sjúkdóma; fólk vissi ekki einu sinni að sýklar væru til. Mörg börn dóu strax á fyrsta ári, frá þriðjungi og niður í eitt barn af hverjum átta á 19. öld. Tækifæri til skemmtunir voru fábreytt og ekki einu sinni til útvarp, hvað þá sjónvarp eða bíó. Frelsi margra var takmarkað, og ekki eingöngu þræla og ambátta, sem bjuggu þó við minnst frelsi. Til dæmis vantaði oft mikið á að konur veldu sér eiginmenn sjálfar.

Flestum þættu húsakynni fyrri alda ekki boðleg í dag. Bærinn Sænautasel á Jökuldalsheiði var upphaflega byggður 1843 og endurbyggður árið 1992.

Hvaða tíma er ég að tala um? Hvenær voru gömlu dagarnir? Þrælahald er hér í sérflokki því að það mun hafa lagst af á Íslandi á 12. öld, fyrir næstum 900 árum. Að öðru leyti á lýsing mín hér á undan að flestu leyti við tímann fram á fyrstu áratugi 20. aldar. Ef við gerum ráð fyrir að landið hafi byggst fólki í kringum aldamótin 900 má segja, ónákvæmt, að þjóðin hafi lifað í þúsund ár á gömlum dögum en hundrað ár á nýjum dögum.

Ef við stækkum myndina og látum hana ná yfir allan heiminn þá komumst við að þeirri niðurstöðu að mannkynið hafi lifað í milljónir ára á gömlum dögum. Sums staðar byrjuðu nýjungarnar fyrr en hjá okkur Íslendingum, til dæmis eru 200–300 ár síðan forystuþjóðir Evrópu byrjuðu að létta sér lífið með verksmiðjum og járnbrautum. Breytinguna úr gömlum dögum í nýja köllum við gjarnan iðnbyltingu, og hún er sögð hafa byrjað á Englandi á 18. öld, fyrir um tveimur og hálfri öld. Aftur á móti lifir enn meirihluti fólks í heiminum á dögum sem okkur mundu finnast gamlir ef við þyrftum að lifa þá. Við, tæknivæddir íbúar Evrópu, Norður-Ameríku og nokkurra fleiri landa, erum enn undantekning í sögu mannkynsins. Ætli það sé ekki um það bil fimmti hluti mannkynsins sem lifir lífi sem við mundum sætta okkur við umsvifalaust. En þar að auki lifa margir á einhvers konar millistigum gamalla og nýrra tíma.

Enn lifir meirihluti fólks í heiminum á dögum sem okkur mundu finnast gamlir ef við þyrftum að lifa þá.

Er sennilegt að dýrategundin maður hafi alltaf lifað ömurlegu lífi, og geri það jafnvel enn, nema einmitt við sem lifum hér og nú? Mér finnst það ólíklegt. Getur verið að það stafi af þröngsýni okkar að halda að allt líf sé ömurlegt nema það sem við lifum? Verður fólk ekki ljósnæmara ef það elst upp í hálfrökkri og kuldaþolnara ef það elst upp í svölu lofti? Flestri lykt venjumst við á nokkrum klukkutímum og verðum það sem er kallað samdauna. Hvernig ætli fólki sem var uppi fyrir 200 árum þætti lyktin af vélaútblæstri sem er allt í kringum okkur? Ég veit að margir lesendur þessa svars munu hrylla sig við hugsuninni um að borða súrmat, en ég (76 ára gamall) ólst upp við hann frá bernsku og finnst hann allra mata bestur. Fólk saknar ekki tækni sem það getur ekki látið sér detta í hug.

Ég er ekki að halda því fram að lífið hafi verið sársaukalaust í gamla daga, að fólk hafi þolað kulda eða hungur þjáningalaust eða að það hafi ekki fundið til þegar það missti börn sín. Ekki aldeilis. En ég held því fram að þetta sé málefni sem við eigum ekki að tileinka okkur einfalda skoðun á. Þetta er efni til að velta fyrir sér, hugsa um, kannski komast að niðurstöðu, kannski ekki.

Myndir:

...