Sólin Sólin Rís 06:49 • sest 19:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:38 • Sest 24:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:22 • Síðdegis: 22:14 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:49 • sest 19:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:38 • Sest 24:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:22 • Síðdegis: 22:14 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju er munur á seltu Svartahafs og Dauðahafs og hve mikill er hann?

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir og Sigurður Steinþórsson

Ein merkasta uppgötvun í jarðfræði á 18. öld var ef til vill sú að öll ferli í náttúrunni eru í hringrás – og þannig óendanleg í eðli sínu. Vatn gufar upp í hitabeltinu og berst til hærri breiddargráða þar sem það fellur aftur til jarðar sem regn eða snjór. Á landi leysir efnaveðrun salt og önnur efni úr berginu og árnar bera þau til sjávar. Þar bíða efnanna mismunandi örlög eftir aðstæðum, til dæmis að bindast í bergi við efnahvörf eða falla út sem saltmyndanir við uppgufun. Um þetta fjallar Sigurður Steinþórsson í svari við spurningunni Hvers vegna er sjórinn saltur?

Ástæðan fyrir því að það er töluvert mikill seltumunur á milli Svartahafs og Dauðahafs er sú að það er ekki sama jafnvægi á milli innstreymis og „útstreymis” (brottnáms) uppleystra efna í höfunum tveimur.



Eins og sjá má er Svartahafið ekki mjög salt í samanburði við önnur höf. Dauðahafið er svo smátt að það sést ekki á þessu korti en selta þess er langt umfram hæsta gildi á kvarðanum á kortinu.

Til þess að selta sé nokkuð stöðug þarf að vera jafnvægi á milli innstreymis og útstreymis uppleystra efna og á það að sjálfsögðu bæði við um úthöf og innhöf. Selta úthafanna (við yfirborð) er yfirleitt á bilinu 32 - 37‰ (prómill eða þúsundustu partar). Aðstæður í öðrum höfum geta verið nokkuð aðrar með þeim afleiðingum að seltan er ýmist minni eða meiri. Til dæmis nemur innstreymi ferskvatns í Miðjarðarhafið aðeins um þriðjungi þess sem gufar upp út hafinu þannig að sífellt streymir í það sjór frá Atlantshafi um Gíbraltarsund og frá Svartahafi um Dardanellasund. Ferskvatnið í þessum sjó gufar upp en saltið situr eftir og Miðjarðarhaf er því fremur salt.

Sigurður Steinþórsson hefur fjallað um Dauðahafið í svari við spurningunni Af hverju er Dauðahafið svona salt? Þar segir:
Það er innhaf sem áin Jórdan streymir í, en ekkert útstreymi er úr því, enda er það undir sjávarmáli. Uppgufun er í jafnvægi við innstreymið, eða var það áður en nýting árinnar til áveitna og fleira kom til sögunnar, þannig að nú lækkar vatnsborðið stöðugt. Ef uppgufun og innstreymi eru í jafnvægi helst yfirborðið það sama þó ekkert útstreymi sé. Hins vegar gufa uppleystu efnin sem berast með árvatninu ekki upp heldur sitja eftir og þannig eykst seltan með tímanum. Hún er nú 26-35% [260-350‰], um 10 sinnum meiri en selta hafsins, og vatnið við mettun — það er salt fellur út jafnhratt og það bætist við.

Aðstæður í Svartahafinu eru hins vegar allt aðrar þar sem úr því er útstreymi, meiri úrkoma en við Dauðahafið og minni uppgufun og því safnast ekki fyrir sama magn uppleystra efna og í Dauðahafinu.

Svartahaf er innhaf á mörkum Suðaustur-Evrópu og Vestur-Asíu. Það tengist Miðjarðarhafi um Bosporussund, Marmarahaf og Dardenellasund. Í Svartahaf berst bæði ferskt vatn og sjór. Árlega skila vatnsföll um 320 km3 af ferskvatni í hafið og er Dóná stærst þessara fljóta. Sjórinn sem streymir í Svartahaf kemur frá Miðjarðarhafi eftir hafsbotninum í gegnum sundin. Svartahaf “tapar” vatni með uppgufun og rennsli í gegnum Bosporussund.



Aðstæður í Svartahafi eru raunar þannig að mjög lítil lóðrétt blöndun vatns á sér stað þannig að ferska vatnið skilar sér ekki nema rétt í efstu lög og salti sjórinn situr í neðri lögum vegna þess að eðlismassi hans (massi á rúmmálseiningu) er hærri en ferskvatnsins. Af því leiðir að hafið er lagskipt þar sem efsta lagið er töluvert seltuminna en neðri lög. Selta yfirborðssjávarins er nokkuð breytileg eftir svæðum, lægst í norðvesturhlutanum um 13‰ en um 17-18‰ annars staðar. Þegar dýpra er komið er seltan mun meiri eða 20-30‰, sem er samt nokkuð minna en seltumagn úthafanna.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir:

Höfundar

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Sigurður Steinþórsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

28.3.2008

Spyrjandi

Alexander Birgir Jósefsson, f. 1994

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir og Sigurður Steinþórsson. „Af hverju er munur á seltu Svartahafs og Dauðahafs og hve mikill er hann?“ Vísindavefurinn, 28. mars 2008, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=7260.

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir og Sigurður Steinþórsson. (2008, 28. mars). Af hverju er munur á seltu Svartahafs og Dauðahafs og hve mikill er hann? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=7260

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir og Sigurður Steinþórsson. „Af hverju er munur á seltu Svartahafs og Dauðahafs og hve mikill er hann?“ Vísindavefurinn. 28. mar. 2008. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=7260>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju er munur á seltu Svartahafs og Dauðahafs og hve mikill er hann?
Ein merkasta uppgötvun í jarðfræði á 18. öld var ef til vill sú að öll ferli í náttúrunni eru í hringrás – og þannig óendanleg í eðli sínu. Vatn gufar upp í hitabeltinu og berst til hærri breiddargráða þar sem það fellur aftur til jarðar sem regn eða snjór. Á landi leysir efnaveðrun salt og önnur efni úr berginu og árnar bera þau til sjávar. Þar bíða efnanna mismunandi örlög eftir aðstæðum, til dæmis að bindast í bergi við efnahvörf eða falla út sem saltmyndanir við uppgufun. Um þetta fjallar Sigurður Steinþórsson í svari við spurningunni Hvers vegna er sjórinn saltur?

Ástæðan fyrir því að það er töluvert mikill seltumunur á milli Svartahafs og Dauðahafs er sú að það er ekki sama jafnvægi á milli innstreymis og „útstreymis” (brottnáms) uppleystra efna í höfunum tveimur.



Eins og sjá má er Svartahafið ekki mjög salt í samanburði við önnur höf. Dauðahafið er svo smátt að það sést ekki á þessu korti en selta þess er langt umfram hæsta gildi á kvarðanum á kortinu.

Til þess að selta sé nokkuð stöðug þarf að vera jafnvægi á milli innstreymis og útstreymis uppleystra efna og á það að sjálfsögðu bæði við um úthöf og innhöf. Selta úthafanna (við yfirborð) er yfirleitt á bilinu 32 - 37‰ (prómill eða þúsundustu partar). Aðstæður í öðrum höfum geta verið nokkuð aðrar með þeim afleiðingum að seltan er ýmist minni eða meiri. Til dæmis nemur innstreymi ferskvatns í Miðjarðarhafið aðeins um þriðjungi þess sem gufar upp út hafinu þannig að sífellt streymir í það sjór frá Atlantshafi um Gíbraltarsund og frá Svartahafi um Dardanellasund. Ferskvatnið í þessum sjó gufar upp en saltið situr eftir og Miðjarðarhaf er því fremur salt.

Sigurður Steinþórsson hefur fjallað um Dauðahafið í svari við spurningunni Af hverju er Dauðahafið svona salt? Þar segir:
Það er innhaf sem áin Jórdan streymir í, en ekkert útstreymi er úr því, enda er það undir sjávarmáli. Uppgufun er í jafnvægi við innstreymið, eða var það áður en nýting árinnar til áveitna og fleira kom til sögunnar, þannig að nú lækkar vatnsborðið stöðugt. Ef uppgufun og innstreymi eru í jafnvægi helst yfirborðið það sama þó ekkert útstreymi sé. Hins vegar gufa uppleystu efnin sem berast með árvatninu ekki upp heldur sitja eftir og þannig eykst seltan með tímanum. Hún er nú 26-35% [260-350‰], um 10 sinnum meiri en selta hafsins, og vatnið við mettun — það er salt fellur út jafnhratt og það bætist við.

Aðstæður í Svartahafinu eru hins vegar allt aðrar þar sem úr því er útstreymi, meiri úrkoma en við Dauðahafið og minni uppgufun og því safnast ekki fyrir sama magn uppleystra efna og í Dauðahafinu.

Svartahaf er innhaf á mörkum Suðaustur-Evrópu og Vestur-Asíu. Það tengist Miðjarðarhafi um Bosporussund, Marmarahaf og Dardenellasund. Í Svartahaf berst bæði ferskt vatn og sjór. Árlega skila vatnsföll um 320 km3 af ferskvatni í hafið og er Dóná stærst þessara fljóta. Sjórinn sem streymir í Svartahaf kemur frá Miðjarðarhafi eftir hafsbotninum í gegnum sundin. Svartahaf “tapar” vatni með uppgufun og rennsli í gegnum Bosporussund.



Aðstæður í Svartahafi eru raunar þannig að mjög lítil lóðrétt blöndun vatns á sér stað þannig að ferska vatnið skilar sér ekki nema rétt í efstu lög og salti sjórinn situr í neðri lögum vegna þess að eðlismassi hans (massi á rúmmálseiningu) er hærri en ferskvatnsins. Af því leiðir að hafið er lagskipt þar sem efsta lagið er töluvert seltuminna en neðri lög. Selta yfirborðssjávarins er nokkuð breytileg eftir svæðum, lægst í norðvesturhlutanum um 13‰ en um 17-18‰ annars staðar. Þegar dýpra er komið er seltan mun meiri eða 20-30‰, sem er samt nokkuð minna en seltumagn úthafanna.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir:

...