Sólin Sólin Rís 03:57 • sest 23:09 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:34 • Síðdegis: 17:59 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:41 • Síðdegis: 24:19 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:57 • sest 23:09 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:34 • Síðdegis: 17:59 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:41 • Síðdegis: 24:19 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Eru þekkt dæmi um að álfar eða huldufólk hafi stoppað vegagerð?

Viktor Arnar Ingólfsson

Á undanförnum áratugum hafa komið upp einstaka tilvik þar sem trú á álfabyggðir og álagabletti hefur tengst vegaframkvæmdum. Um þetta er fjallað almennt í svari sama höfundar við spurningunni Er vegum oft breytt vegna „álfasteina“ eða er það bara eitthvað sem útlendingum er sagt? en hér lýst fjórum atburðum sem gerst hafa undanfarna áratugi og verið hafa í sviðsljósinu. Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að hér er spurningunni um hvort starfsmenn Vegagerðarinnar trúi eða trúi ekki á álfa og huldufólk ekki svarað því það er sjálfsagt breytilegt og einkamál hvers og eins. Það skal þó tekið fram að sá sem þessar línur skrifar efast mjög um tilvist slíkra fyrirbæra.

Hegranes

Í lok sjöunda áratugarins var farið að undirbúa nýja vegagerð yfir Hegranes í Skagafirði. Það er vegur nr. 75, Sauðárkróksbraut. Ákveðið var að láta veginn liggja um svokallað Tröllaskarð og að klettar í skarðinu yrðu sprengdir niður til að bæta hæðarleguna. Tæknifræðingur hjá Vegagerðinni hannaði veginn en vinnuflokkur heimamanna undir stjórn rekstrarstjóra Vegagerðarinnar á Sauðárkróki skyldi vinna verkið.

Þá bar svo við að Hafsteinn Björnsson miðill hélt miðilsfund á Sauðárkróki og komu fram skilaboð á fundinum um að ekki mætti sprengja klettana í Tröllaskarði því á þeim hvíldu álög. Þetta kom á óvart því áætlanir um þessa vegagerð voru á fárra vitorði og þóttu ekki frásagnarverðar. Þess ber að geta að Hafsteinn var þá þjóðfrægur miðill og trúðu margir á hæfileika hans. Því má ætla að viðvörun frá honum hafi vegið þyngra en ella. Síðar kom viðvörun frá öðrum sjáanda til rekstrarstjórans og þótti honum þá sem lausn málsins væri orðin sér ofviða. Leitaði hann til yfirboðara sinna í Reykjavík í vandræðum sínum. Verkfræðingarnir í Reykjavík gripu þá til þess ráðs að fá fund með Hafsteini til að athuga hvað væri eiginlega um að vera.

Við lagningu vegar yfir Hegranes komu fram svo eindregnar ábendingar um andstöðu úr öðrum heimum að leitað var til miðils um sættir.

}

Algengt er að miðlar, eða þeir sem tala í gegnum miðlana, komi skilaboðum til gesta á miðilsfundum og þykja miðlarnir því betri sem skilaboðin eru skýrari. Er líklegt að Hafsteini hafi tekist að sannfæra fundarmenn um hæfileika sína því á fundinum voru verkfræðingarnir frekar á því að reyna að semja við þessa vætti í gegnum Hafstein en sniðganga viðvaranir hans. En álagavaldurinn var í öðrum heimi en þeim sem Hafsteinn var í sambandi við svo að ekki náðust samningar í það skiptið. Og áður en árið var liðið og án þess að niðurstaða fengist dó Hafsteinn Björnsson.

Þar með vandaðist málið því þótt reynt hefði verið að fara leynt með fundina í Reykjavík voru sögur um álögin farnar að berast út meðal vegagerðarmanna í Skagafirði og margir orðnir kvíðnir. Meðal þeirra var verkstjórinn á staðnum sem þótti berdreyminn. Í tvígang dreymdi hann að komið væri til sín og hann varaður við því að raska nokkru í skarðinu. Í framhaldi af þessu fór jarðýta, sem átti að takast á við klappir neðar í brekkunni, að láta illa. Fyrst bilaði eitthvað í mótornum á óskiljanlegan hátt og í annað skipti heyrðust mjög einkennileg hljóð frá henni án þess að nokkuð reyndist vera að. Fór svo að ýta þessi kom ekki frekar nálægt verkinu en síðar var það unnið með öðru tæki og gekk þá allt að óskum. Var mál manna að þá hefði huldufólkið haft tækifæri til að flytja sig af staðnum.

Það er skemmst frá að segja að málinu lauk með því að vegurinn var lagður yfir skarðið án þess að nokkuð væri sprengt. Er greinilegt, þegar ekið er þarna um, að lega vegarins er óeðlileg og er vegurinn því minnismerki um það tilvik þegar starfsmenn Vegagerðarinnar hafa gengið lengst fram í að koma á móts við óskir sjáenda. Engin slys hafa orðið á veginum frá því að hann var lagður og trúa sumir því að huldufólkið verndi vegfarendur og launi þannig tillitsemina.

Grásteinn í Grafarholti

Árið 1971 var verið að leggja nýjan veg norður frá Reykjavík. Vegurinn er hluti af Hringveginum, þjóðvegi nr. 1. Áður hafði verið þarna malarvegur, sem fylgdi landslaginu að mestu, en nú var vegurinn lagður á nútímamáta og steyptur. Því fór meira fyrir honum á þessum stað en áður.

Flutningur á Grásteini.

Í vegstæðinu var stór og áberandi klettur, nefndur Grásteinn í örnefnaskrá. Klettinn varð að flytja úr vegstæðinu og í tengslum við þá framkvæmd fóru af stað sögusagnir á vinnustaðnum um að álfar byggju í steininum og að það mundi valda óhöppum ef hann væri hreyfður. Reynt var að grafast fyrir um uppruna þessara sagna en gamalt fólk, sem hafði alist upp í nágrenni steinsins, kannaðist ekki við neinar slíkar frásagnir. Því má fullyrða að álfasagan hafi orðið til á framkvæmdatímanum, hugsanlega hugarsmíð einhvers sem var á móti þessari vegagerð eða sagt í einhverri kerskni. Steinninn var færður og var skilið við hann þar sem hann stendur nú, í tveimur hlutum, sennilega á hvolfi miðað við upphaflega stöðu. Í blaðagrein frá þessum tíma kemur fram að slys hafi orðið sem einhverjir starfsmanna vildu kenna steininum um. Ekki kemur fram hvers konar slys þetta voru og aðrar heimildir fullyrða að að minnsta kosti sum óhöppin hafi orðið áður en steinninn var færður.

Einn atburður frá þessum tíma er þó vel þekktur úr heimildum. Vélamaður, sem tók þátt í að færa steininn, varð fyrir því óhappi að rjúfa vatnsleiðslu að fiskeldisstöð. Af þessu varð mikið fjárhagstjón þegar 90 þúsund laxaseiði drápust úr súrefnisskorti. Þetta hefur að sjálfsögðu verið áfall fyrir manninn og ekki óeðlilegt að hann reyndi síðar að finna ástæðu fyrir þessu óláni sínu. Það mundum við flest hafa gert.

Árið 1999 var verið að leggja tvær nýjar akreinar á þessum vegi og enn var steinninn fyrir við vegargerðina. Álfasagan er að verða 30 ára gömul og orðin nokkuð föst í sessi. Fjölmiðlar rifja hana upp annað slagið og leiðsögumenn benda ferðafólki á steininn þegar ekið er út úr borginni. Steinninn hafði með réttu eða röngu verið skilgreindur sem fornleif og merktur sem slíkur. Leyfi fékkst þó til að færa hann um set og í október haustið 1999 var honum komið fyrir á góðum stað skammt frá fyrra stæði.

Klofasteinar við Ljárskóga

Sumarið 1995 var verið að leggja nýjan kafla á þjóðvegi nr. 60, Vestfjarðavegi, um landareign Ljárskóga sem er skammt norðan við Búðardal. Þar háttaði svo til að stór steinn skagaði út í nýja vegstæði og var óhjákvæmilegt að flytja steininn til hliðar. Þetta var þriðjungur svokallaðra Klofasteina en sagan segir að steinarnir hafi í árdaga verið óskipt steinhella.

Klofasteinar við Vestfjarðaveg, skammt norðan við Búðardal. Þegar þessi vegur var byggður fór af stað saga um álfabyggð í steinunum. Þeir voru færðir úr vegstæðinu í sæmilegri sátt.

Vinna við vegagerðina á þessum stað gekk mjög illa, bilanir í tækjum voru tíðar og óhöpp áttu sér stað. Kunnugt heimafólk þekkti til sagna um að álfar byggju í steinunum og þótti líklegt að þeir væru valdir að þessum ósköpum. Fór svo að verktakinn baðst undan því að hreyfa við steininum. Í framhaldi af umfjöllun fjölmiðla um málið hafði kona samband við tæknimenn Vegagerðarinnar á Vesturlandi. Hún var fædd og uppalin þarna á staðnum, sagðist hafa miðilshæfileika og vera tilbúin til að aðstoða við lausn málsins. Konan fór á staðinn og kannaði steininn með því að leggja höndina á hann. Síðan lýsti hún því yfir að ekki væru álfar í steininum sem átti að flytja en hins vegar væru álfar í hinum Klofasteinunum og þá þekkti hún frá því hún var ung. Fékk hún samþykki álfanna fyrir því að flytja mætti steininn nær hinum steinunum ef varlega væri farið. Það voru starfsmenn Vegagerðarinnar sem færðu steininn og fylgdist konan vel með. Að hennar sögn var hún ekki ein um það því álfarnir voru við hlið hennar heldur áhyggjufullir. Tókst flutningurinn vel og ekki hafa komið upp fleiri vandamál á þessum stað.

Álftanesvegur

Við lagningu nýs Álftanesvegar árið 2015 var 90 tonna steinn í veglínunni, klofinn í tvennt. Sumir töldu að hér væri álfakirkja eða álfakapella. Áhöld voru einnig um hvort hér væri um að ræða Ófeigskirkju en það er mjög óljóst, talið er hugsanlegt að sú álfakirkja hafi verið annars staðar og sé horfin. Vegagerðin ásamt verktaka ákváðu að flytja steininn út fyrir veglínuna og á nokkuð opið svæði, bæði vegna þess að steinninn var áberandi í hrauninu og vel færi um hann innan um aðrar hraunmyndanir á nýjum staða. Auk þess vildi Vegagerðin virða hugmyndir þeirra sem telja að álfar hafi haft búsetu í steininum, þetta er hluti af menningarlegri sögu landsins sem ber að virða eins og svo margt við vegalagningar, svo sem fornminjar.

Unnið að flutning steins við gerð Álftanesvegar.

Myndir:


Ritstjórn Vísindavefsins þakkar G. Pétri Matthíassyni, forstöðumanni samskiptadeildar Vegagerðarinnar fyrir veitta aðstoð við þetta svar.

Höfundur

Viktor Arnar Ingólfsson

deildarstjóri útgáfueiningar Vegagerðarinnar

Útgáfudagur

14.11.2016

Síðast uppfært

7.7.2022

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Viktor Arnar Ingólfsson. „Eru þekkt dæmi um að álfar eða huldufólk hafi stoppað vegagerð?“ Vísindavefurinn, 14. nóvember 2016, sótt 20. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=72612.

Viktor Arnar Ingólfsson. (2016, 14. nóvember). Eru þekkt dæmi um að álfar eða huldufólk hafi stoppað vegagerð? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=72612

Viktor Arnar Ingólfsson. „Eru þekkt dæmi um að álfar eða huldufólk hafi stoppað vegagerð?“ Vísindavefurinn. 14. nóv. 2016. Vefsíða. 20. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=72612>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Eru þekkt dæmi um að álfar eða huldufólk hafi stoppað vegagerð?
Á undanförnum áratugum hafa komið upp einstaka tilvik þar sem trú á álfabyggðir og álagabletti hefur tengst vegaframkvæmdum. Um þetta er fjallað almennt í svari sama höfundar við spurningunni Er vegum oft breytt vegna „álfasteina“ eða er það bara eitthvað sem útlendingum er sagt? en hér lýst fjórum atburðum sem gerst hafa undanfarna áratugi og verið hafa í sviðsljósinu. Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að hér er spurningunni um hvort starfsmenn Vegagerðarinnar trúi eða trúi ekki á álfa og huldufólk ekki svarað því það er sjálfsagt breytilegt og einkamál hvers og eins. Það skal þó tekið fram að sá sem þessar línur skrifar efast mjög um tilvist slíkra fyrirbæra.

Hegranes

Í lok sjöunda áratugarins var farið að undirbúa nýja vegagerð yfir Hegranes í Skagafirði. Það er vegur nr. 75, Sauðárkróksbraut. Ákveðið var að láta veginn liggja um svokallað Tröllaskarð og að klettar í skarðinu yrðu sprengdir niður til að bæta hæðarleguna. Tæknifræðingur hjá Vegagerðinni hannaði veginn en vinnuflokkur heimamanna undir stjórn rekstrarstjóra Vegagerðarinnar á Sauðárkróki skyldi vinna verkið.

Þá bar svo við að Hafsteinn Björnsson miðill hélt miðilsfund á Sauðárkróki og komu fram skilaboð á fundinum um að ekki mætti sprengja klettana í Tröllaskarði því á þeim hvíldu álög. Þetta kom á óvart því áætlanir um þessa vegagerð voru á fárra vitorði og þóttu ekki frásagnarverðar. Þess ber að geta að Hafsteinn var þá þjóðfrægur miðill og trúðu margir á hæfileika hans. Því má ætla að viðvörun frá honum hafi vegið þyngra en ella. Síðar kom viðvörun frá öðrum sjáanda til rekstrarstjórans og þótti honum þá sem lausn málsins væri orðin sér ofviða. Leitaði hann til yfirboðara sinna í Reykjavík í vandræðum sínum. Verkfræðingarnir í Reykjavík gripu þá til þess ráðs að fá fund með Hafsteini til að athuga hvað væri eiginlega um að vera.

Við lagningu vegar yfir Hegranes komu fram svo eindregnar ábendingar um andstöðu úr öðrum heimum að leitað var til miðils um sættir.

}

Algengt er að miðlar, eða þeir sem tala í gegnum miðlana, komi skilaboðum til gesta á miðilsfundum og þykja miðlarnir því betri sem skilaboðin eru skýrari. Er líklegt að Hafsteini hafi tekist að sannfæra fundarmenn um hæfileika sína því á fundinum voru verkfræðingarnir frekar á því að reyna að semja við þessa vætti í gegnum Hafstein en sniðganga viðvaranir hans. En álagavaldurinn var í öðrum heimi en þeim sem Hafsteinn var í sambandi við svo að ekki náðust samningar í það skiptið. Og áður en árið var liðið og án þess að niðurstaða fengist dó Hafsteinn Björnsson.

Þar með vandaðist málið því þótt reynt hefði verið að fara leynt með fundina í Reykjavík voru sögur um álögin farnar að berast út meðal vegagerðarmanna í Skagafirði og margir orðnir kvíðnir. Meðal þeirra var verkstjórinn á staðnum sem þótti berdreyminn. Í tvígang dreymdi hann að komið væri til sín og hann varaður við því að raska nokkru í skarðinu. Í framhaldi af þessu fór jarðýta, sem átti að takast á við klappir neðar í brekkunni, að láta illa. Fyrst bilaði eitthvað í mótornum á óskiljanlegan hátt og í annað skipti heyrðust mjög einkennileg hljóð frá henni án þess að nokkuð reyndist vera að. Fór svo að ýta þessi kom ekki frekar nálægt verkinu en síðar var það unnið með öðru tæki og gekk þá allt að óskum. Var mál manna að þá hefði huldufólkið haft tækifæri til að flytja sig af staðnum.

Það er skemmst frá að segja að málinu lauk með því að vegurinn var lagður yfir skarðið án þess að nokkuð væri sprengt. Er greinilegt, þegar ekið er þarna um, að lega vegarins er óeðlileg og er vegurinn því minnismerki um það tilvik þegar starfsmenn Vegagerðarinnar hafa gengið lengst fram í að koma á móts við óskir sjáenda. Engin slys hafa orðið á veginum frá því að hann var lagður og trúa sumir því að huldufólkið verndi vegfarendur og launi þannig tillitsemina.

Grásteinn í Grafarholti

Árið 1971 var verið að leggja nýjan veg norður frá Reykjavík. Vegurinn er hluti af Hringveginum, þjóðvegi nr. 1. Áður hafði verið þarna malarvegur, sem fylgdi landslaginu að mestu, en nú var vegurinn lagður á nútímamáta og steyptur. Því fór meira fyrir honum á þessum stað en áður.

Flutningur á Grásteini.

Í vegstæðinu var stór og áberandi klettur, nefndur Grásteinn í örnefnaskrá. Klettinn varð að flytja úr vegstæðinu og í tengslum við þá framkvæmd fóru af stað sögusagnir á vinnustaðnum um að álfar byggju í steininum og að það mundi valda óhöppum ef hann væri hreyfður. Reynt var að grafast fyrir um uppruna þessara sagna en gamalt fólk, sem hafði alist upp í nágrenni steinsins, kannaðist ekki við neinar slíkar frásagnir. Því má fullyrða að álfasagan hafi orðið til á framkvæmdatímanum, hugsanlega hugarsmíð einhvers sem var á móti þessari vegagerð eða sagt í einhverri kerskni. Steinninn var færður og var skilið við hann þar sem hann stendur nú, í tveimur hlutum, sennilega á hvolfi miðað við upphaflega stöðu. Í blaðagrein frá þessum tíma kemur fram að slys hafi orðið sem einhverjir starfsmanna vildu kenna steininum um. Ekki kemur fram hvers konar slys þetta voru og aðrar heimildir fullyrða að að minnsta kosti sum óhöppin hafi orðið áður en steinninn var færður.

Einn atburður frá þessum tíma er þó vel þekktur úr heimildum. Vélamaður, sem tók þátt í að færa steininn, varð fyrir því óhappi að rjúfa vatnsleiðslu að fiskeldisstöð. Af þessu varð mikið fjárhagstjón þegar 90 þúsund laxaseiði drápust úr súrefnisskorti. Þetta hefur að sjálfsögðu verið áfall fyrir manninn og ekki óeðlilegt að hann reyndi síðar að finna ástæðu fyrir þessu óláni sínu. Það mundum við flest hafa gert.

Árið 1999 var verið að leggja tvær nýjar akreinar á þessum vegi og enn var steinninn fyrir við vegargerðina. Álfasagan er að verða 30 ára gömul og orðin nokkuð föst í sessi. Fjölmiðlar rifja hana upp annað slagið og leiðsögumenn benda ferðafólki á steininn þegar ekið er út úr borginni. Steinninn hafði með réttu eða röngu verið skilgreindur sem fornleif og merktur sem slíkur. Leyfi fékkst þó til að færa hann um set og í október haustið 1999 var honum komið fyrir á góðum stað skammt frá fyrra stæði.

Klofasteinar við Ljárskóga

Sumarið 1995 var verið að leggja nýjan kafla á þjóðvegi nr. 60, Vestfjarðavegi, um landareign Ljárskóga sem er skammt norðan við Búðardal. Þar háttaði svo til að stór steinn skagaði út í nýja vegstæði og var óhjákvæmilegt að flytja steininn til hliðar. Þetta var þriðjungur svokallaðra Klofasteina en sagan segir að steinarnir hafi í árdaga verið óskipt steinhella.

Klofasteinar við Vestfjarðaveg, skammt norðan við Búðardal. Þegar þessi vegur var byggður fór af stað saga um álfabyggð í steinunum. Þeir voru færðir úr vegstæðinu í sæmilegri sátt.

Vinna við vegagerðina á þessum stað gekk mjög illa, bilanir í tækjum voru tíðar og óhöpp áttu sér stað. Kunnugt heimafólk þekkti til sagna um að álfar byggju í steinunum og þótti líklegt að þeir væru valdir að þessum ósköpum. Fór svo að verktakinn baðst undan því að hreyfa við steininum. Í framhaldi af umfjöllun fjölmiðla um málið hafði kona samband við tæknimenn Vegagerðarinnar á Vesturlandi. Hún var fædd og uppalin þarna á staðnum, sagðist hafa miðilshæfileika og vera tilbúin til að aðstoða við lausn málsins. Konan fór á staðinn og kannaði steininn með því að leggja höndina á hann. Síðan lýsti hún því yfir að ekki væru álfar í steininum sem átti að flytja en hins vegar væru álfar í hinum Klofasteinunum og þá þekkti hún frá því hún var ung. Fékk hún samþykki álfanna fyrir því að flytja mætti steininn nær hinum steinunum ef varlega væri farið. Það voru starfsmenn Vegagerðarinnar sem færðu steininn og fylgdist konan vel með. Að hennar sögn var hún ekki ein um það því álfarnir voru við hlið hennar heldur áhyggjufullir. Tókst flutningurinn vel og ekki hafa komið upp fleiri vandamál á þessum stað.

Álftanesvegur

Við lagningu nýs Álftanesvegar árið 2015 var 90 tonna steinn í veglínunni, klofinn í tvennt. Sumir töldu að hér væri álfakirkja eða álfakapella. Áhöld voru einnig um hvort hér væri um að ræða Ófeigskirkju en það er mjög óljóst, talið er hugsanlegt að sú álfakirkja hafi verið annars staðar og sé horfin. Vegagerðin ásamt verktaka ákváðu að flytja steininn út fyrir veglínuna og á nokkuð opið svæði, bæði vegna þess að steinninn var áberandi í hrauninu og vel færi um hann innan um aðrar hraunmyndanir á nýjum staða. Auk þess vildi Vegagerðin virða hugmyndir þeirra sem telja að álfar hafi haft búsetu í steininum, þetta er hluti af menningarlegri sögu landsins sem ber að virða eins og svo margt við vegalagningar, svo sem fornminjar.

Unnið að flutning steins við gerð Álftanesvegar.

Myndir:


Ritstjórn Vísindavefsins þakkar G. Pétri Matthíassyni, forstöðumanni samskiptadeildar Vegagerðarinnar fyrir veitta aðstoð við þetta svar.

...