Sólin Sólin Rís 07:12 • sest 19:26 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:03 • Síðdegis: 24:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:21 • Síðdegis: 18:40 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt mér um Spánverjavígin árið 1615?

Már Jónsson

Fiskveiðar hófust við Nýfundnaland í byrjun 16. aldar, fáum árum eftir að Evrópumenn uppgötuðu heimsálfuna Ameríku. Frakkar veiddu þorsk í stórum stíl, en sjómenn frá Baskahéruðum Spánar og Frakklands eltust við norðhval, sem einnig kallast grænlandssléttbakur og grænlandshvalur. Baskar við Biskajaflóa byggðu traust skip sem hentuðu til úthafssiglinga, með tugi manna í áhöfn. Afli var góður um margra áratuga skeið og náðu veiðarnar hámarki árin 1560–1580. Undir aldamótin 1600 var lítið eftir af hval við Nýfundnaland og fyrstu ár 17. aldar fóru fá skip frá héruðum Baska þangað til veiða. Þegar enskir sæfarar svo sigldu að Svalbarða árin 1607 og 1610 sáu þeir mikinn fjölda hvala, álitlega til veiða. Englendingar sendu tvö hvalveiðiskip þangað vorið 1611 og voru sex þrautreyndir Baskar frá Frakklandi um borð en enskir sjómenn áttu að læra af þeim verklag við veiðar og vinnslu. Engir hvalir veiddust og skipin strönduðu bæði, en skipverjar björguðust.

Vorið eftir voru tvö skip send og einnig komu á vettvang hollenskt skip og annað frá San Sebastián í Baskahéruðum Spánar. Vorið 1613 bannaði Bretakonungur öðrum en Englendingum að veiða hval við Svalbarða og í krafti þess voru hvalveiðiskip frá Hollandi og Baskahéruðum Frakklands og Spánar hrakin þaðan og aflinn gerður upptækur. Á heimleiðinni sigldu sum spænsku skipanna að Íslandi og var það upphafið að hvalveiðum Baska þar. Árið eftir sneru þau aftur til veiða og fengu til þess leyfi hjá Ara Magnússyni í Ögri sem þá var sýslumaður bæði í Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu.

Hollenskir hvalveiðimenn á Svalbarða. Málverkið er frá 1690 og er eftir Abraham Storck.

Ljóst er af íslenskum og spænskum heimildum að samskipti hvalveiðimanna og heimamanna voru ekki að öllu leyti friðsamleg, með hnupli og glettingum á báða bóga. Hagur af kaupskap var hins vegar gagnkvæmur, því sjómenn þurftu vatn og vistir og rekavið, en áttu ýmsan varning sem Íslendingar girntust. Svo fór að haustið 1614 kvörtuðu íslenskir ráðamenn, óvíst hverjir en hugsanlega Ari í Ögri, undan framferði Baska við Kristján fjórða Danakonung. Hann brást hart við með bréfi 30. apríl 1615, þar sem segir: „vér höfum fengið vitneskju um að seinasta sumar hafi Baskar og aðrar þjóðir fengist við hvalveiðar í hafi voru og krúnunnar við Ísland, að þeir hafi rænt þegna vora þar í landinu, rekið þá frá heimilum sínum og unnið þeim mikið mein og tjón.“

Bréfið var lesið á alþingi á Þingvöllum um sumarið og samþykktu menn „að þeir Spönsku eður þeir sem ræna á Íslandi skulu réttilega teknir og skaddir með tilstyrk sýslumanna, svo mikið sem Íslenskir kunna að gjöra þeim.“ Ekkert var þó að gert og áreiðanlegt að hvalveiðimenn sem þá voru við landið hefðu komist óáreittir heim til sín, hefðu ekki þrjú skip þeirra brotnað í óveðri við Reykjarfjörð og Reykjanes í Strandasýslu aðfaranótt fimmtudags 21. september. Eitt skipið var þeirra stærst og tvö minni. Um þá atburði er ritsmíð Jóns Guðmundssonar lærða meginheimild, sem kom á strandstað og fékk að heyra um framhaldið hjá mönnum sem voru viðstaddir.

Jón lagði það til, að eigin sögn, að skipbrotsmenn, um 80 talsins, yrðu um kyrrt í sýslunni og bauð yfirmönnum húsaskjól. Þeir afréðu að sigla á smábátum sínum fyrir Hornstrandir eftir skipi sem þeir höfðu heyrt að myndi duga til að komast utan. Þeir héldu af stað 23. september og voru á Dynjanda við Jökulfjörð 26.–28. september, en ekki reyndist skipið sem þeir tóku þar vera haffært og hefur í mesta lagi verið teinæringur eða tólfæringur, ætlaður til flutninga og veiða nærri landi. Skipverjar af minni skipunum, líklega 48 talsins, sigldu fyrst í Önundarfjörð og Súgandafjörð en voru í Dýrafirði 5. október. Þeir voru síðan nokkra daga í Arnarfirði og fóru þaðan í Patreksfjörð, brutu upp dönsku verslunarhúsin á Vatneyri og voru þar um veturinn. Skipverjar af stóra skipinu skiptu liði og fóru 18 þeirra í Æðey á Ísafjarðardjúpi en 14 í Dýrafjörð. Sá hópur tók sér næturstað í verstöðinni á Fjallaskaga og fóru Dýrfirðingar að þeim um nóttina. Voru allir drepnir nema einn sem komst undan til landa sinna af minni skipunum.

Þann 8. október komu Ari Magnússon í Ögri og betri bændur við sunnanvert Ísafjarðardjúp saman í Súðavík og bendir ekkert til þess að þeir hafi þá heyrt um atburðina í Dýrafirði. Þeir vissu hins vegar að 18 skipbrotsmenn hefðu komið sér fyrir í Æðey til vetrardvalar „með byssum, verjum og vopnum.“ Heyrst hafði, segja þeir í dómi, að Baskar hefðu í Strandasýslu síðustu þrjú árin rænt og stolið „viðum manna, nautum, sauðum og mörgum hlutum öðrum ætum og óætum“, með ýmsu fleiru. Óhjákvæmilegt var að ráðist yrði á þessa menn og þeir drepnir. Ákvæði Jónsbókar frá 1281 voru höfð til rökstuðnings, þar sem ránsmenn og aðrir óbótamenn töldust réttdræpir. Einnig var vísað til konungsbréfsins frá 30. apríl. Aðalatriðið var samt að skipbrotsmenn höfðu ekki leitað ölmusu í guðs nafni, því þá hefðu þeir fengið hjálp, heldur farið um með yfirgangi.

Í Æðey höfðu 18 skipbrotsmenn komið sér fyrir. Þar voru fimm þeirra drepnir 14. október 1615.

Margt er á huldu um rás atburða næstu daga, en öruggt að farið var að Böskum í Æðey 14. október og fimm menn drepnir. Þaðan héldu hermenn Ara að Sandeyri og þar hinir drepnir, sumir með hrottafengnum hætti, svo sem skipstjórinn Martin de Villafranca, sem var 27 ára gamall og lagði á sund, þótt vart hafi hann ímyndað sér að hann kæmist undan:

Þeir eltu hann með miklu kappi á skipinu, en hann var sem selur eða silungur. Þó hrósaði því einn þeirra á skipinu að hann hefði komið á hann einu spjótslagi í kafinu, er hann rann undir skipið. En það sanna allir að Björn Sveinsson, smásveinn bóndans, hafi hann með steini hæft um síðir í ennið, og þá fyrst hafði hann linast til afls og burða, en fyrri ekki. En hvert hann hafi í skipið þrifið og á höndina höggvinn verið, verða þeir tvísaga til. En eftir það steinshögg hafi hans mesti frækleikur farinn verið. Honum var síðan til lands fleytt og að öllu afklæddur.

Sennilegasta skýringu á þessum ódæðisverkum íslenskra búandkarla, sem ekki voru vanir bardögum eða mannvígum, hefur Helgi Þorláksson lagt fram. Hann vísar einkum til ills árferðis sem varð til þess að „menn vestra hefur í örvæntingu hryllt við þeirri hugsun að rúmlega 80 röskir karlar gengju um örbjarga sveitir rænandi og ruplandi heilan vetur.“

Stærsti hluti skipbrotsmanna var hins vegar á Vatneyri við Patreksfjörð um veturinn. Þeir sýndu heimamönnum kurteisi í fyrstu, en þegar vistir þraut fóru þeir á bæi í næsta nágrenni og kröfðust matvæla, vopnaðir spjótum og sverðum. Ari Magnússon ákvað eftir jólin að gera atlögu að þessum mönnum og lét ganga dóm á Mýrum í Dýrafirði 26. janúar 1616, sem tók mið af því að þeir yrðu drepnir, eins og hinir. Hann hélt með um 90 menn suður í Tálknafjörð hitti þar hóp skipbrotsmanna, sem lögðu á flótta. Þó varð einn þeirra drepinn og annar særður. Ari og menn hans héldu þá til Patreksfjarðar. Norðanbylur skall á með hörkufrosti og þeir ákváðu að snúa aftur. Ekki var aftur reynt að stugga við Böskunum og um vorið náðu þeir ensku fiskiskipi á sitt vald og rændu annað, en héldu síðan til hafs, svo sem segir í Sjávarborgarannál: „Hinir, sem eftir urðu, ræntu um vorið í aprili enskri duggu með fólki og öllu saman og þar til góssinu af annarri, drápu þar af einn mann og sigldu með það burt.“

Eftirmál urðu engin. Eigi síðar en þá um sumarið hafa Kristján fjórði og ráðamenn hans frétt af atburðum haustsins, en svo bregður við að í dönskum heimildum er víganna hvergi getið. Spænskar heimildir þegja líka þunnu hljóði, nema hvað prestsþjónustubækur í tveimur smábæjum nefna andlát nokkurra manna á Fríslandi og við strendur Noregs. Ekki er útilokað að þeir hafi verið drepnir á Íslandi en eftir stendur að útskýra hvernig fregnirnar bárust og hvers vegna dauðdagi þeirra er færður til bóka sem slys. Eigendur skipanna þriggja sem fórust í Reykjarfirði gerðu heldur aldrei vart við sig, hvorki í Danmörku né á Spáni, svo vitað sé. Árið 1618 var deilt um arfinn eftir Martein af Villafranca fyrir rétti og ekki sagt orð um það hvernig hann lést. Þetta er ráðgáta sem verður ekki leyst.

Heimildir:
  • Helgi Þorláksson, Saga Íslands VI (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag og Sögufélag 2003).
  • Jón Guðmundsson, Spánverjavígin 1615. Euskal baleazaleen hilketa. La matanza de los vascos. The slaying of the Basques. Inngangur Már Jónsson. Þýðing Hólmfríður Matthíasdóttir, Viola Miglio og Ane Undurraga (Reykjavík: Mál og menning, Baskavinafélag Íslands 2015).
  • Spánverjavígin 1615. Sönn frásaga eftir Jón Guðmundsson lærða og Víkinga rímur. Útgefandi Jónas Kristjánsson (Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag 1950).

Mynd:

Andrea spurði sérstaklega um tengsl Spánverjavíganna við upphaf einokunarverslunar Dana. Svar við þeirri spurningu birtist fljótlega.

Höfundur

Már Jónsson

prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

1.11.2016

Spyrjandi

Andrea Dögg Gylfadóttir, ritstjórn

Tilvísun

Már Jónsson. „Hvað getið þið sagt mér um Spánverjavígin árið 1615?“ Vísindavefurinn, 1. nóvember 2016. Sótt 23. september 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=72851.

Már Jónsson. (2016, 1. nóvember). Hvað getið þið sagt mér um Spánverjavígin árið 1615? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=72851

Már Jónsson. „Hvað getið þið sagt mér um Spánverjavígin árið 1615?“ Vísindavefurinn. 1. nóv. 2016. Vefsíða. 23. sep. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=72851>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um Spánverjavígin árið 1615?
Fiskveiðar hófust við Nýfundnaland í byrjun 16. aldar, fáum árum eftir að Evrópumenn uppgötuðu heimsálfuna Ameríku. Frakkar veiddu þorsk í stórum stíl, en sjómenn frá Baskahéruðum Spánar og Frakklands eltust við norðhval, sem einnig kallast grænlandssléttbakur og grænlandshvalur. Baskar við Biskajaflóa byggðu traust skip sem hentuðu til úthafssiglinga, með tugi manna í áhöfn. Afli var góður um margra áratuga skeið og náðu veiðarnar hámarki árin 1560–1580. Undir aldamótin 1600 var lítið eftir af hval við Nýfundnaland og fyrstu ár 17. aldar fóru fá skip frá héruðum Baska þangað til veiða. Þegar enskir sæfarar svo sigldu að Svalbarða árin 1607 og 1610 sáu þeir mikinn fjölda hvala, álitlega til veiða. Englendingar sendu tvö hvalveiðiskip þangað vorið 1611 og voru sex þrautreyndir Baskar frá Frakklandi um borð en enskir sjómenn áttu að læra af þeim verklag við veiðar og vinnslu. Engir hvalir veiddust og skipin strönduðu bæði, en skipverjar björguðust.

Vorið eftir voru tvö skip send og einnig komu á vettvang hollenskt skip og annað frá San Sebastián í Baskahéruðum Spánar. Vorið 1613 bannaði Bretakonungur öðrum en Englendingum að veiða hval við Svalbarða og í krafti þess voru hvalveiðiskip frá Hollandi og Baskahéruðum Frakklands og Spánar hrakin þaðan og aflinn gerður upptækur. Á heimleiðinni sigldu sum spænsku skipanna að Íslandi og var það upphafið að hvalveiðum Baska þar. Árið eftir sneru þau aftur til veiða og fengu til þess leyfi hjá Ara Magnússyni í Ögri sem þá var sýslumaður bæði í Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu.

Hollenskir hvalveiðimenn á Svalbarða. Málverkið er frá 1690 og er eftir Abraham Storck.

Ljóst er af íslenskum og spænskum heimildum að samskipti hvalveiðimanna og heimamanna voru ekki að öllu leyti friðsamleg, með hnupli og glettingum á báða bóga. Hagur af kaupskap var hins vegar gagnkvæmur, því sjómenn þurftu vatn og vistir og rekavið, en áttu ýmsan varning sem Íslendingar girntust. Svo fór að haustið 1614 kvörtuðu íslenskir ráðamenn, óvíst hverjir en hugsanlega Ari í Ögri, undan framferði Baska við Kristján fjórða Danakonung. Hann brást hart við með bréfi 30. apríl 1615, þar sem segir: „vér höfum fengið vitneskju um að seinasta sumar hafi Baskar og aðrar þjóðir fengist við hvalveiðar í hafi voru og krúnunnar við Ísland, að þeir hafi rænt þegna vora þar í landinu, rekið þá frá heimilum sínum og unnið þeim mikið mein og tjón.“

Bréfið var lesið á alþingi á Þingvöllum um sumarið og samþykktu menn „að þeir Spönsku eður þeir sem ræna á Íslandi skulu réttilega teknir og skaddir með tilstyrk sýslumanna, svo mikið sem Íslenskir kunna að gjöra þeim.“ Ekkert var þó að gert og áreiðanlegt að hvalveiðimenn sem þá voru við landið hefðu komist óáreittir heim til sín, hefðu ekki þrjú skip þeirra brotnað í óveðri við Reykjarfjörð og Reykjanes í Strandasýslu aðfaranótt fimmtudags 21. september. Eitt skipið var þeirra stærst og tvö minni. Um þá atburði er ritsmíð Jóns Guðmundssonar lærða meginheimild, sem kom á strandstað og fékk að heyra um framhaldið hjá mönnum sem voru viðstaddir.

Jón lagði það til, að eigin sögn, að skipbrotsmenn, um 80 talsins, yrðu um kyrrt í sýslunni og bauð yfirmönnum húsaskjól. Þeir afréðu að sigla á smábátum sínum fyrir Hornstrandir eftir skipi sem þeir höfðu heyrt að myndi duga til að komast utan. Þeir héldu af stað 23. september og voru á Dynjanda við Jökulfjörð 26.–28. september, en ekki reyndist skipið sem þeir tóku þar vera haffært og hefur í mesta lagi verið teinæringur eða tólfæringur, ætlaður til flutninga og veiða nærri landi. Skipverjar af minni skipunum, líklega 48 talsins, sigldu fyrst í Önundarfjörð og Súgandafjörð en voru í Dýrafirði 5. október. Þeir voru síðan nokkra daga í Arnarfirði og fóru þaðan í Patreksfjörð, brutu upp dönsku verslunarhúsin á Vatneyri og voru þar um veturinn. Skipverjar af stóra skipinu skiptu liði og fóru 18 þeirra í Æðey á Ísafjarðardjúpi en 14 í Dýrafjörð. Sá hópur tók sér næturstað í verstöðinni á Fjallaskaga og fóru Dýrfirðingar að þeim um nóttina. Voru allir drepnir nema einn sem komst undan til landa sinna af minni skipunum.

Þann 8. október komu Ari Magnússon í Ögri og betri bændur við sunnanvert Ísafjarðardjúp saman í Súðavík og bendir ekkert til þess að þeir hafi þá heyrt um atburðina í Dýrafirði. Þeir vissu hins vegar að 18 skipbrotsmenn hefðu komið sér fyrir í Æðey til vetrardvalar „með byssum, verjum og vopnum.“ Heyrst hafði, segja þeir í dómi, að Baskar hefðu í Strandasýslu síðustu þrjú árin rænt og stolið „viðum manna, nautum, sauðum og mörgum hlutum öðrum ætum og óætum“, með ýmsu fleiru. Óhjákvæmilegt var að ráðist yrði á þessa menn og þeir drepnir. Ákvæði Jónsbókar frá 1281 voru höfð til rökstuðnings, þar sem ránsmenn og aðrir óbótamenn töldust réttdræpir. Einnig var vísað til konungsbréfsins frá 30. apríl. Aðalatriðið var samt að skipbrotsmenn höfðu ekki leitað ölmusu í guðs nafni, því þá hefðu þeir fengið hjálp, heldur farið um með yfirgangi.

Í Æðey höfðu 18 skipbrotsmenn komið sér fyrir. Þar voru fimm þeirra drepnir 14. október 1615.

Margt er á huldu um rás atburða næstu daga, en öruggt að farið var að Böskum í Æðey 14. október og fimm menn drepnir. Þaðan héldu hermenn Ara að Sandeyri og þar hinir drepnir, sumir með hrottafengnum hætti, svo sem skipstjórinn Martin de Villafranca, sem var 27 ára gamall og lagði á sund, þótt vart hafi hann ímyndað sér að hann kæmist undan:

Þeir eltu hann með miklu kappi á skipinu, en hann var sem selur eða silungur. Þó hrósaði því einn þeirra á skipinu að hann hefði komið á hann einu spjótslagi í kafinu, er hann rann undir skipið. En það sanna allir að Björn Sveinsson, smásveinn bóndans, hafi hann með steini hæft um síðir í ennið, og þá fyrst hafði hann linast til afls og burða, en fyrri ekki. En hvert hann hafi í skipið þrifið og á höndina höggvinn verið, verða þeir tvísaga til. En eftir það steinshögg hafi hans mesti frækleikur farinn verið. Honum var síðan til lands fleytt og að öllu afklæddur.

Sennilegasta skýringu á þessum ódæðisverkum íslenskra búandkarla, sem ekki voru vanir bardögum eða mannvígum, hefur Helgi Þorláksson lagt fram. Hann vísar einkum til ills árferðis sem varð til þess að „menn vestra hefur í örvæntingu hryllt við þeirri hugsun að rúmlega 80 röskir karlar gengju um örbjarga sveitir rænandi og ruplandi heilan vetur.“

Stærsti hluti skipbrotsmanna var hins vegar á Vatneyri við Patreksfjörð um veturinn. Þeir sýndu heimamönnum kurteisi í fyrstu, en þegar vistir þraut fóru þeir á bæi í næsta nágrenni og kröfðust matvæla, vopnaðir spjótum og sverðum. Ari Magnússon ákvað eftir jólin að gera atlögu að þessum mönnum og lét ganga dóm á Mýrum í Dýrafirði 26. janúar 1616, sem tók mið af því að þeir yrðu drepnir, eins og hinir. Hann hélt með um 90 menn suður í Tálknafjörð hitti þar hóp skipbrotsmanna, sem lögðu á flótta. Þó varð einn þeirra drepinn og annar særður. Ari og menn hans héldu þá til Patreksfjarðar. Norðanbylur skall á með hörkufrosti og þeir ákváðu að snúa aftur. Ekki var aftur reynt að stugga við Böskunum og um vorið náðu þeir ensku fiskiskipi á sitt vald og rændu annað, en héldu síðan til hafs, svo sem segir í Sjávarborgarannál: „Hinir, sem eftir urðu, ræntu um vorið í aprili enskri duggu með fólki og öllu saman og þar til góssinu af annarri, drápu þar af einn mann og sigldu með það burt.“

Eftirmál urðu engin. Eigi síðar en þá um sumarið hafa Kristján fjórði og ráðamenn hans frétt af atburðum haustsins, en svo bregður við að í dönskum heimildum er víganna hvergi getið. Spænskar heimildir þegja líka þunnu hljóði, nema hvað prestsþjónustubækur í tveimur smábæjum nefna andlát nokkurra manna á Fríslandi og við strendur Noregs. Ekki er útilokað að þeir hafi verið drepnir á Íslandi en eftir stendur að útskýra hvernig fregnirnar bárust og hvers vegna dauðdagi þeirra er færður til bóka sem slys. Eigendur skipanna þriggja sem fórust í Reykjarfirði gerðu heldur aldrei vart við sig, hvorki í Danmörku né á Spáni, svo vitað sé. Árið 1618 var deilt um arfinn eftir Martein af Villafranca fyrir rétti og ekki sagt orð um það hvernig hann lést. Þetta er ráðgáta sem verður ekki leyst.

Heimildir:
  • Helgi Þorláksson, Saga Íslands VI (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag og Sögufélag 2003).
  • Jón Guðmundsson, Spánverjavígin 1615. Euskal baleazaleen hilketa. La matanza de los vascos. The slaying of the Basques. Inngangur Már Jónsson. Þýðing Hólmfríður Matthíasdóttir, Viola Miglio og Ane Undurraga (Reykjavík: Mál og menning, Baskavinafélag Íslands 2015).
  • Spánverjavígin 1615. Sönn frásaga eftir Jón Guðmundsson lærða og Víkinga rímur. Útgefandi Jónas Kristjánsson (Kaupmannahöfn: Hið íslenzka fræðafélag 1950).

Mynd:

Andrea spurði sérstaklega um tengsl Spánverjavíganna við upphaf einokunarverslunar Dana. Svar við þeirri spurningu birtist fljótlega.

...