Sólin Sólin Rís 03:54 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:46 • Síðdegis: 17:17 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:55 • Síðdegis: 23:37 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:54 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:46 • Síðdegis: 17:17 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:55 • Síðdegis: 23:37 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað var Gúlag og hvað fór fram í þessum fangabúðum Stalíns?

Jón Ólafsson

Orðið GULAG (eða GULag) er skammstöfun og stendur fyrir Главное Управление Лагерей (Glavnoe Upravlenie Lagerej) sem þýðir einfaldlega „yfirstjórn búða“. Heitið er tilkomið við endurskipulagningu sovéska fangabúðakerfisins árið 1929 en þá var það fært undir lögsögu Kommissaríats innanríkismála – innanríkisráðuneytisins. Undir það heyrði einnig öryggislögreglan. Bæði öryggislögreglan og innanríkisráðuneytið almennt voru þekkt undir annarri skammstöfun, NKVD – Народный Комиссариат Внутренних Дел (Narodni Kommissariat Vnutrennikh Del).

Gúlagið var sem sagt fangabúðakerfi Sovétríkjanna, rekið sem deild í Innanríkisráðuneytinu. Undir þessu heiti og skipulagi voru fangabúðir starfræktar til ársins 1960. Þá var nafni þess og skipulagi breytt, þótt áfram væri föngum ætlað að afplána dóma sína í fangabúðum þar sem gert var ráð fyrir að þeir störfuðu fullan vinnudag á meðan á refsitíma stóð.

Vegalagning var meðal þess sem fangar í Gúlaginu voru látnir sinna.

Þetta fyrirkomulag refsivistar var til að byrja með kynnt sem mannúðlegt form betrunarvistar þar sem fangar lifðu við frjálslegri aðstæður en venjuleg fangelsi leyfðu, stunduðu heilbrigða vinnu, nytu útiveru, jafnvel íþrótta- og tómstundastarfs og byggju sig undir þátttöku í sósíalísku samfélagi. Strax eftir byltinguna var komið á fót fangabúðum sem í senn voru ætlaðar pólitískum föngum og föngum sem hlytu dóma fyrir venjuleg afbrot. Báðir hópar áttu að fá endurhæfingu sem gerði þeim kleift að samsama sig samfélaginu á nýjan leik.

Framan af hvíldi ekki sérstök leynd yfir fangabúðakerfinu. Blaðamenn og rannsakendur fengu aðgang að búðum og var jafnvel leyft að kynna sér lífið í þeim og eiga samtöl við fanga. Ýmsir urðu til þess að hrósa Sovétstjórninni fyrir framsækna og mannúðlega stefnu í fangelsismálum. Innan lands töldu margir að fangabúðirnar væru ekki afleitur staður – því var jafnvel haldið fram að fangar væru betur haldnir þar en eðlilegt mætti telja um þá sem hlotið hefðu refsidóma.

En pólitískar ofsóknir og vaxandi leyndarhyggja breyttu þessari ímynd og strax á fjórða áratugnum fer að bera á því að sovéskar fangabúðir séu teknar sem dæmi um kúgunareðli sovésks stjórnarfars. Föngum tekur að fjölga mjög í búðum vegna skipulagðra refsiaðgerða yfirvalda gagnvart einstökum hópum í samfélaginu, mest þó á árunum 1937 til 1938 þegar hreinsanirnar miklu stóðu yfir. Árið 1939 voru um 1,7 milljónir manna í fangabúðum Gúlagsins. Tæpur þriðjungur þessara fanga höfðu hlotið dóma fyrir „gagnbyltingarstarfsemi“ – það er pólitíska dóma.

Snemma á fjórða áratugnum mótaðist hlutverk fangabúðanna, þegar stjórnvöld hefja að nýta vinnuafl fanga með markvissum hætti sem hluta af iðnaðar- og framleiðslukerfi landsins. Upp frá því má segja að fangabúðir hafi haft tvenns konar hlutverk: Annars vegar voru þær staður innilokunar og refsingar og skipulagðar í samræmi við þá hættu sem af tilteknum föngum var talin stafa, en þar voru pólitískir fangar jafnan taldir hættulegastir; hins vegar voru þær fyrirtæki sem sinntu tiltekinni starfsemi, svo sem skógarhöggi og timburvinnslu, námagreftri, vega- og járnbrautalagningu, landbúnaðarstörfum og fleiru. Viss togstreita var á köflum á milli þessara tveggja markmiða, þar sem síðara markmiðið gat stangast á við fyrra markmiðið, ekki síst þegar fangabúðastjórar vildu beita umbunum í stað refsinga til að auka vinnuframlag fanga.

Þótt Gúlagið hafi ekki beinlínis haft útrýmingarhlutverk var dvöl í fangabúðum í flestum tilfellum hryllilegri en orð fá lýst. Margra beið ömurlegur dauðdagi af hungri, vosbúð eða sjúkdómum í verstu búðunum. Pólitísku fangarnir voru oftast sérlega illa búnir undir aðstæður vinnuþrælkunarinnar og auðveld fórnarlömb jafnt fangavarða sem glæpagengja en þau höfðu oft tögl og hagldir innan búða. Milljónir fanga lifðu Gúlagið af, bugaðir á sál og líkama.

Í dag er talið að um 25 milljónir fanga hafi farið í gegnum Gúlagið á árunum 1930 til 1956, og að um sjö milljónir þeirra hafi verið pólitískir fangar. Allt að tvær milljónir áttu ekki afturkvæmt úr Gúlaginu. Dánartíðni var mjög mismikil eftir tímabilum, hæst var hún fyrstu árin eftir innrás Þjóðverja í Sovétríkin, eða milli 20 og 25%, lægst í lok þessa tímabils eða innan við hálft prósent árið 1953. Rétt er að hafa í huga að sovétkerfið átti fleiri leiðir til að refsa fólki og setja á það hömlur en fangabúðirnar sjálfar. Milljónir manna fengu útlegðardóma á stalíntímanum og þurftu þá að dvelja fjarri heimahögum um lengri eða skemmri tíma. Sömuleiðis voru milljónir hraktar af heimilum sínum og fólk látið taka sér búsetu á sérstökum svæðum þar sem það bjó undir eftirliti. Loks er rétt að hafa í huga að dauðarefsingum var beitt óspart gegn meintum pólitískum andstæðingum á stalíntímanum. Talið er að á tímabilinu 1921 til 1953 hafi 800 þúsund manns verið dæmd til dauða og tekin af lífi í Sovétríkjunum. Langflestar voru aftökurnar árin 1937 og 1938 eða samtals um 680 þúsund.

Gúlagið dreifðist yfir öll Sovétríkin. Talið er að um 25 milljónir fanga hafi farið í gegnum Gúlagið á árunum 1930 til 1956.

Gúlagið dreifðist yfir öll Sovétríkin. Þannig er alls ekki rétt að tengja það sérstaklega við Síberíu, þótt sumar alræmdustu búðirnar væru þar. Staðsetning búða hafði með þau verkefni að gera sem hverjum búðum voru ætluð. Þannig voru stórar búðir í Mordóvíu, nálægt bænum Temnikov þar sem mikil timburvinnsla fór fram. Sömuleiðis voru fangabúðir í nágrenni borgarinnar Karaganda í Kasakstan þar sem stundaður var búrekstur um leið og unnið var að því að breyta steppu í ræktarland. Í austur-Síberíu voru nokkrar alverstu búðirnar í nágrenni námasvæða, þar á meðal í Kolyma.

Gúlagið er vissulega þekktast vegna hinna pólitísku fanga sem þar voru vistaðir, flestir árum, jafnvel áratugum saman. Alexander Solzhenitsyn gerði fangabúðunum áhrifamikil skil í riti sínu Gúlag eyjaklasinn þar sem hlutverki búðanna í pólitískum ofsóknum stalínismans er vel lýst. Varlaam Shalamov sem sjálfur var fangi í búðum í Kolyma lýsir lífi og andrúmslofti þeirra líka í mögnuðum smásögum sem fengið hafa mikla útbreiðslu.

En fangabúðakerfið var einnig eitt form nauðungarvinnu og eftir lok seinni heimstyrjaldarinnar, þegar refsingum var óspart beitt til að ná félagslegum markmiðum, fjölgaði mjög föngum sem dæmdir voru til margra ára fangavistar vegna minniháttar agabrota eða brota í starfi. Flestir voru fangarnir í Gúlaginu dánarár Stalíns, 1953, eða tvær og hálf milljón. Strax það sumar var stórum hluta þessara fanga sleppt úr haldi, þótt það hafi síst átt við um pólitíska fanga. Eftir að Khrúsjov skýrir frá glæpum Stalíns í leyniræðu sinni, er hins vegar stórum hluta pólitískra fanga einnig sleppt úr haldi. Margir þeirra sem þá höfðu þegar afplánað dóma sína bjuggu við ströng búsetuskilyrði og máttu ekki flytja til Moskvu eða annarra stórborga. Fjölmargir voru á sama tíma einnig leystir undan slíkum kvöðum. Því má segja að ofsóknum stalínismans ljúki 1956. Þótt áfram væri dæmt fyrir pólitískar sakir, var fjöldi pólitískra fanga aldrei í líkingu við það sem verið hafði á stalíntímanum.

Frá safni um Gúlagið í Moskvu.

Þótt Gúlagið væri lagt niður árið 1960 var þessu formi refsivistar ekki breytt í Rússlandi. Eftir sem áður afplána þeir fangar sem hljóta meira en tveggja ára refsidóm í fangabúðum þar sem þeim er einnig gert að stunda vinnu. Sumar þeirra búða sem störfuðu á tímum Gúlagsins eru enn við lýði. Þetta á til dæmis við um fangabúðir í Mordóvíu sem áður gengu undir nafninu Temlag.

Á sjöunda áratugnum, þegar sovésku andófshreyfingunni hafði vaxið ásmegin, fjölgaði pólitískum föngum aftur og voru aðstæður þeirra í raun lítið skárri en verið hafði síðustu ár Gúlagsins. Það var ekki fyrr en 1987 sem þáverandi leiðtogi Sovétríkjanna Mikhaíl Gorbatsjov leysti síðustu pólitísku fangana úr haldi. Á síðustu árum hefur aftur færst í vöxt í Rússlandi að fólk sé sótt til saka vegna pólitískra afskipta sinna og aðgerða. Þeir sem dæmdir eru til refsivistar afplána þá eftir sömu reglu og áður: í fangabúðum þar sem fangar stunda einnig vinnu ef refsitíminn er lengri en tvö ár.

Innanríkisráðuneytið hafði yfirumsjón með fangabúðum til ársins 2004 en þá voru þær færðar undir dómsmálaráðuneytið. Fangelsismálastofnun Rússlands – FSIN – Федеральная Служба Исполнения Наказаний (Federalnaja Sluzhba Ispolnenia Nakazaníj) annast nú yfirumsjón með fangabúðum og öðrum stofnunum þar sem fangar eru vistaðir.

Ritalisti:

 • Anne, Applebaum. Gulag: A History of the Soviet Camps. Penguin Books Limited, 2012.
 • Barenberg, Alan. Gulag Town, Company Town: Forced Labor and Its Legacy in Vorkuta. Yale University Press, 2014.
 • Barnes, Steven A. Death and Redemption: The Gulag and the Shaping of Soviet Society. Princeton University Press, 2011.
 • Bell, Wilson T. “Was the Gulag an Archipelago? De-Convoyed Prisoners and Porous Borders in the Camps of Western Siberia.” The Russian Review, 72(1) 2013, bls. 116–41.
 • Buber-Neumann, Margarete. Konur í einræðisklóm. Ísl. þýð. Stefán Pjetursson, Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, 1954.
 • Figes, Orlando. Just Send Me Word: A True Story of Love and Survival in the Gulag. Penguin, 2013.
 • Hedeler, Wladislaw og Stark, Meinhard. Das Grab in Der Steppe: Leben Im GULAG; Die Geschichte Eines Sowjetischen “Besserungsarbeitslagers” 1930–1959. Ferdinand Schöningh, 2008.
 • Lipper, Elinor og Kuusinen, Aino. Konur í þrælakistum Stalíns. Samantekt Sigrún María Einarsdóttir og Karen Edda Benediktsdóttir. Reykjavík: AB, 2015.
 • Ivanova, Galina. Labor Camp Socialism: The Gulag in the Soviet Totalitarian System. London: Routledge, 2015.
 • Jón Ólafsson. Appelsínur Frá Abkasíu. Vera Hertzsch, Halldór Laxness og hreinsanirnar miklu. JPV útgáfa, 2012.
 • Pohl, Otto J. The Stalinist Penal System: A Statistical History of Soviet Repression and Terror, 1930–1953. McFarland, 1999.
 • Shalamov, Varlaam. Kolyma Tales. London: Penguin, 1994.
 • Solzhenitsyn, Aleksandr I. The Gulag Archipelago. 1918-1956. An Experiment in Literary Investigation. Ensk þýð. Thomas P. Whitney. New York: Harper and Row, 1974.
 • Toker, Leona. Return from the Archipelago. Narratives of Gulag Survivors. Indiana University Press, 2000.
 • Viola, Lynne. Unknown Gulag: The Lost World of Stalin’s Special Settlements. Oxford University Press, 2007.

Sjónvarpsþættir um Gúlagið:

Myndir:


Fjölmargir hafa spurt Vísindavefinn um Gúlagið, fyrir utan Alvin Mána eru það m.a. Þórdís Inga Þórarinsdóttir, Eva Rún Guðmundsdóttir, Alfreð Gissurarson, Hlín Sigurþórsdóttir og Sigfús Sturluson.

Aðrar spurningar um Gúlagið sem hér er að hluta eða öllu leyti svarað:
 • Hvert var hlutverk Gúlagsins í Sovétríkjunum?
 • Hverjir voru sendir í Gúlagið og hvers vegna? Hvað var þar í gangi? Hvenær leið það undir lok?
 • Hvað getið þið sagt mér um Gúlagið i Síberíu?
 • Hvað er Gúlag?
 • Hvað er talið að margir hafi dáið í Gúlag, útrýmingarbúðum Sovétmanna í seinni heimstyrjöldinni?

Höfundur

Jón Ólafsson

prófessor við Hugvísindasvið Háskóla Íslands

Útgáfudagur

10.4.2020

Spyrjandi

Alvin Máni Möller og margir aðrir

Tilvísun

Jón Ólafsson. „Hvað var Gúlag og hvað fór fram í þessum fangabúðum Stalíns?“ Vísindavefurinn, 10. apríl 2020, sótt 19. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=72921.

Jón Ólafsson. (2020, 10. apríl). Hvað var Gúlag og hvað fór fram í þessum fangabúðum Stalíns? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=72921

Jón Ólafsson. „Hvað var Gúlag og hvað fór fram í þessum fangabúðum Stalíns?“ Vísindavefurinn. 10. apr. 2020. Vefsíða. 19. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=72921>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað var Gúlag og hvað fór fram í þessum fangabúðum Stalíns?
Orðið GULAG (eða GULag) er skammstöfun og stendur fyrir Главное Управление Лагерей (Glavnoe Upravlenie Lagerej) sem þýðir einfaldlega „yfirstjórn búða“. Heitið er tilkomið við endurskipulagningu sovéska fangabúðakerfisins árið 1929 en þá var það fært undir lögsögu Kommissaríats innanríkismála – innanríkisráðuneytisins. Undir það heyrði einnig öryggislögreglan. Bæði öryggislögreglan og innanríkisráðuneytið almennt voru þekkt undir annarri skammstöfun, NKVD – Народный Комиссариат Внутренних Дел (Narodni Kommissariat Vnutrennikh Del).

Gúlagið var sem sagt fangabúðakerfi Sovétríkjanna, rekið sem deild í Innanríkisráðuneytinu. Undir þessu heiti og skipulagi voru fangabúðir starfræktar til ársins 1960. Þá var nafni þess og skipulagi breytt, þótt áfram væri föngum ætlað að afplána dóma sína í fangabúðum þar sem gert var ráð fyrir að þeir störfuðu fullan vinnudag á meðan á refsitíma stóð.

Vegalagning var meðal þess sem fangar í Gúlaginu voru látnir sinna.

Þetta fyrirkomulag refsivistar var til að byrja með kynnt sem mannúðlegt form betrunarvistar þar sem fangar lifðu við frjálslegri aðstæður en venjuleg fangelsi leyfðu, stunduðu heilbrigða vinnu, nytu útiveru, jafnvel íþrótta- og tómstundastarfs og byggju sig undir þátttöku í sósíalísku samfélagi. Strax eftir byltinguna var komið á fót fangabúðum sem í senn voru ætlaðar pólitískum föngum og föngum sem hlytu dóma fyrir venjuleg afbrot. Báðir hópar áttu að fá endurhæfingu sem gerði þeim kleift að samsama sig samfélaginu á nýjan leik.

Framan af hvíldi ekki sérstök leynd yfir fangabúðakerfinu. Blaðamenn og rannsakendur fengu aðgang að búðum og var jafnvel leyft að kynna sér lífið í þeim og eiga samtöl við fanga. Ýmsir urðu til þess að hrósa Sovétstjórninni fyrir framsækna og mannúðlega stefnu í fangelsismálum. Innan lands töldu margir að fangabúðirnar væru ekki afleitur staður – því var jafnvel haldið fram að fangar væru betur haldnir þar en eðlilegt mætti telja um þá sem hlotið hefðu refsidóma.

En pólitískar ofsóknir og vaxandi leyndarhyggja breyttu þessari ímynd og strax á fjórða áratugnum fer að bera á því að sovéskar fangabúðir séu teknar sem dæmi um kúgunareðli sovésks stjórnarfars. Föngum tekur að fjölga mjög í búðum vegna skipulagðra refsiaðgerða yfirvalda gagnvart einstökum hópum í samfélaginu, mest þó á árunum 1937 til 1938 þegar hreinsanirnar miklu stóðu yfir. Árið 1939 voru um 1,7 milljónir manna í fangabúðum Gúlagsins. Tæpur þriðjungur þessara fanga höfðu hlotið dóma fyrir „gagnbyltingarstarfsemi“ – það er pólitíska dóma.

Snemma á fjórða áratugnum mótaðist hlutverk fangabúðanna, þegar stjórnvöld hefja að nýta vinnuafl fanga með markvissum hætti sem hluta af iðnaðar- og framleiðslukerfi landsins. Upp frá því má segja að fangabúðir hafi haft tvenns konar hlutverk: Annars vegar voru þær staður innilokunar og refsingar og skipulagðar í samræmi við þá hættu sem af tilteknum föngum var talin stafa, en þar voru pólitískir fangar jafnan taldir hættulegastir; hins vegar voru þær fyrirtæki sem sinntu tiltekinni starfsemi, svo sem skógarhöggi og timburvinnslu, námagreftri, vega- og járnbrautalagningu, landbúnaðarstörfum og fleiru. Viss togstreita var á köflum á milli þessara tveggja markmiða, þar sem síðara markmiðið gat stangast á við fyrra markmiðið, ekki síst þegar fangabúðastjórar vildu beita umbunum í stað refsinga til að auka vinnuframlag fanga.

Þótt Gúlagið hafi ekki beinlínis haft útrýmingarhlutverk var dvöl í fangabúðum í flestum tilfellum hryllilegri en orð fá lýst. Margra beið ömurlegur dauðdagi af hungri, vosbúð eða sjúkdómum í verstu búðunum. Pólitísku fangarnir voru oftast sérlega illa búnir undir aðstæður vinnuþrælkunarinnar og auðveld fórnarlömb jafnt fangavarða sem glæpagengja en þau höfðu oft tögl og hagldir innan búða. Milljónir fanga lifðu Gúlagið af, bugaðir á sál og líkama.

Í dag er talið að um 25 milljónir fanga hafi farið í gegnum Gúlagið á árunum 1930 til 1956, og að um sjö milljónir þeirra hafi verið pólitískir fangar. Allt að tvær milljónir áttu ekki afturkvæmt úr Gúlaginu. Dánartíðni var mjög mismikil eftir tímabilum, hæst var hún fyrstu árin eftir innrás Þjóðverja í Sovétríkin, eða milli 20 og 25%, lægst í lok þessa tímabils eða innan við hálft prósent árið 1953. Rétt er að hafa í huga að sovétkerfið átti fleiri leiðir til að refsa fólki og setja á það hömlur en fangabúðirnar sjálfar. Milljónir manna fengu útlegðardóma á stalíntímanum og þurftu þá að dvelja fjarri heimahögum um lengri eða skemmri tíma. Sömuleiðis voru milljónir hraktar af heimilum sínum og fólk látið taka sér búsetu á sérstökum svæðum þar sem það bjó undir eftirliti. Loks er rétt að hafa í huga að dauðarefsingum var beitt óspart gegn meintum pólitískum andstæðingum á stalíntímanum. Talið er að á tímabilinu 1921 til 1953 hafi 800 þúsund manns verið dæmd til dauða og tekin af lífi í Sovétríkjunum. Langflestar voru aftökurnar árin 1937 og 1938 eða samtals um 680 þúsund.

Gúlagið dreifðist yfir öll Sovétríkin. Talið er að um 25 milljónir fanga hafi farið í gegnum Gúlagið á árunum 1930 til 1956.

Gúlagið dreifðist yfir öll Sovétríkin. Þannig er alls ekki rétt að tengja það sérstaklega við Síberíu, þótt sumar alræmdustu búðirnar væru þar. Staðsetning búða hafði með þau verkefni að gera sem hverjum búðum voru ætluð. Þannig voru stórar búðir í Mordóvíu, nálægt bænum Temnikov þar sem mikil timburvinnsla fór fram. Sömuleiðis voru fangabúðir í nágrenni borgarinnar Karaganda í Kasakstan þar sem stundaður var búrekstur um leið og unnið var að því að breyta steppu í ræktarland. Í austur-Síberíu voru nokkrar alverstu búðirnar í nágrenni námasvæða, þar á meðal í Kolyma.

Gúlagið er vissulega þekktast vegna hinna pólitísku fanga sem þar voru vistaðir, flestir árum, jafnvel áratugum saman. Alexander Solzhenitsyn gerði fangabúðunum áhrifamikil skil í riti sínu Gúlag eyjaklasinn þar sem hlutverki búðanna í pólitískum ofsóknum stalínismans er vel lýst. Varlaam Shalamov sem sjálfur var fangi í búðum í Kolyma lýsir lífi og andrúmslofti þeirra líka í mögnuðum smásögum sem fengið hafa mikla útbreiðslu.

En fangabúðakerfið var einnig eitt form nauðungarvinnu og eftir lok seinni heimstyrjaldarinnar, þegar refsingum var óspart beitt til að ná félagslegum markmiðum, fjölgaði mjög föngum sem dæmdir voru til margra ára fangavistar vegna minniháttar agabrota eða brota í starfi. Flestir voru fangarnir í Gúlaginu dánarár Stalíns, 1953, eða tvær og hálf milljón. Strax það sumar var stórum hluta þessara fanga sleppt úr haldi, þótt það hafi síst átt við um pólitíska fanga. Eftir að Khrúsjov skýrir frá glæpum Stalíns í leyniræðu sinni, er hins vegar stórum hluta pólitískra fanga einnig sleppt úr haldi. Margir þeirra sem þá höfðu þegar afplánað dóma sína bjuggu við ströng búsetuskilyrði og máttu ekki flytja til Moskvu eða annarra stórborga. Fjölmargir voru á sama tíma einnig leystir undan slíkum kvöðum. Því má segja að ofsóknum stalínismans ljúki 1956. Þótt áfram væri dæmt fyrir pólitískar sakir, var fjöldi pólitískra fanga aldrei í líkingu við það sem verið hafði á stalíntímanum.

Frá safni um Gúlagið í Moskvu.

Þótt Gúlagið væri lagt niður árið 1960 var þessu formi refsivistar ekki breytt í Rússlandi. Eftir sem áður afplána þeir fangar sem hljóta meira en tveggja ára refsidóm í fangabúðum þar sem þeim er einnig gert að stunda vinnu. Sumar þeirra búða sem störfuðu á tímum Gúlagsins eru enn við lýði. Þetta á til dæmis við um fangabúðir í Mordóvíu sem áður gengu undir nafninu Temlag.

Á sjöunda áratugnum, þegar sovésku andófshreyfingunni hafði vaxið ásmegin, fjölgaði pólitískum föngum aftur og voru aðstæður þeirra í raun lítið skárri en verið hafði síðustu ár Gúlagsins. Það var ekki fyrr en 1987 sem þáverandi leiðtogi Sovétríkjanna Mikhaíl Gorbatsjov leysti síðustu pólitísku fangana úr haldi. Á síðustu árum hefur aftur færst í vöxt í Rússlandi að fólk sé sótt til saka vegna pólitískra afskipta sinna og aðgerða. Þeir sem dæmdir eru til refsivistar afplána þá eftir sömu reglu og áður: í fangabúðum þar sem fangar stunda einnig vinnu ef refsitíminn er lengri en tvö ár.

Innanríkisráðuneytið hafði yfirumsjón með fangabúðum til ársins 2004 en þá voru þær færðar undir dómsmálaráðuneytið. Fangelsismálastofnun Rússlands – FSIN – Федеральная Служба Исполнения Наказаний (Federalnaja Sluzhba Ispolnenia Nakazaníj) annast nú yfirumsjón með fangabúðum og öðrum stofnunum þar sem fangar eru vistaðir.

Ritalisti:

 • Anne, Applebaum. Gulag: A History of the Soviet Camps. Penguin Books Limited, 2012.
 • Barenberg, Alan. Gulag Town, Company Town: Forced Labor and Its Legacy in Vorkuta. Yale University Press, 2014.
 • Barnes, Steven A. Death and Redemption: The Gulag and the Shaping of Soviet Society. Princeton University Press, 2011.
 • Bell, Wilson T. “Was the Gulag an Archipelago? De-Convoyed Prisoners and Porous Borders in the Camps of Western Siberia.” The Russian Review, 72(1) 2013, bls. 116–41.
 • Buber-Neumann, Margarete. Konur í einræðisklóm. Ísl. þýð. Stefán Pjetursson, Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, 1954.
 • Figes, Orlando. Just Send Me Word: A True Story of Love and Survival in the Gulag. Penguin, 2013.
 • Hedeler, Wladislaw og Stark, Meinhard. Das Grab in Der Steppe: Leben Im GULAG; Die Geschichte Eines Sowjetischen “Besserungsarbeitslagers” 1930–1959. Ferdinand Schöningh, 2008.
 • Lipper, Elinor og Kuusinen, Aino. Konur í þrælakistum Stalíns. Samantekt Sigrún María Einarsdóttir og Karen Edda Benediktsdóttir. Reykjavík: AB, 2015.
 • Ivanova, Galina. Labor Camp Socialism: The Gulag in the Soviet Totalitarian System. London: Routledge, 2015.
 • Jón Ólafsson. Appelsínur Frá Abkasíu. Vera Hertzsch, Halldór Laxness og hreinsanirnar miklu. JPV útgáfa, 2012.
 • Pohl, Otto J. The Stalinist Penal System: A Statistical History of Soviet Repression and Terror, 1930–1953. McFarland, 1999.
 • Shalamov, Varlaam. Kolyma Tales. London: Penguin, 1994.
 • Solzhenitsyn, Aleksandr I. The Gulag Archipelago. 1918-1956. An Experiment in Literary Investigation. Ensk þýð. Thomas P. Whitney. New York: Harper and Row, 1974.
 • Toker, Leona. Return from the Archipelago. Narratives of Gulag Survivors. Indiana University Press, 2000.
 • Viola, Lynne. Unknown Gulag: The Lost World of Stalin’s Special Settlements. Oxford University Press, 2007.

Sjónvarpsþættir um Gúlagið:

Myndir:


Fjölmargir hafa spurt Vísindavefinn um Gúlagið, fyrir utan Alvin Mána eru það m.a. Þórdís Inga Þórarinsdóttir, Eva Rún Guðmundsdóttir, Alfreð Gissurarson, Hlín Sigurþórsdóttir og Sigfús Sturluson.

Aðrar spurningar um Gúlagið sem hér er að hluta eða öllu leyti svarað:
 • Hvert var hlutverk Gúlagsins í Sovétríkjunum?
 • Hverjir voru sendir í Gúlagið og hvers vegna? Hvað var þar í gangi? Hvenær leið það undir lok?
 • Hvað getið þið sagt mér um Gúlagið i Síberíu?
 • Hvað er Gúlag?
 • Hvað er talið að margir hafi dáið í Gúlag, útrýmingarbúðum Sovétmanna í seinni heimstyrjöldinni?
...