Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað gerðist eftir að risaeðlur dóu út og þangað til maðurinn kom fram?

Jón Már Halldórsson

Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:
Getur einhver útskýrt hvað gerðist frá því að risaeðlurnar dóu út og til ísaldar þegar spendýrin komu fram?

Miklar breytingar urðu á dýralífi jarðar fyrir um 66 milljón árum, á mörkum miðlífsaldar og nýlífsaldar. Þá dóu um 75% allra dýrategunda út, þar með taldar allar risaeðlur (Dinosauria). Fyrstu spendýrin voru komin til sögunar á þessum tíma en þau voru ekki stór og lítt fyrirferðarmikil í fánunni. Með brotthvarfi margra tegunda hófst tímabil spendýra og fugla sem nýttu sér brotthvarf risaeðlanna.

Tímabilið frá 66 til 56 milljón árum síðan er kallað paleósen. Þetta skeið var eins konar umskiptingaskeið frá hinni miklu útrýmingaröldu undir lok miðlífsaldar. Spendýr tóku að koma sér fyrir í nær öllum vistkerfum jarðar en þau voru smávaxin, stærstu dýrin voru vart þyngri en 10 kg. Í hafinu voru hákarlar allsráðandi.

Á eftir paleósen kom eósentími og stóð yfir frá 56 til 34 milljón árum síðan. Snemm-eósen var afar hlýtt skeið í jarðsögunni, hiti hefur sjálfsagt verið um 30 gráður að jafnaði og lítill munur á hita milli miðbaugs og póla, ólíkt því sem er í dag. Í upphafi eósen voru spendýr enn smávaxin og héldu til í þéttum skógum. Þetta voru meðal annars frumprímatar í trjám, smávaxin hófdýr sem leyndust í gróðurþykkni skóganna og í höfunum lifðu frumstæðir hvalir. Á þessu tímabili komu fram risavaxnir ófleygir fuglar sem lifðu í þéttum skógum. Þessir fuglar hafa verið kallaðir ógnarfuglar (Phorusrhacidae). Sem dæmi má nefna ættkvíslina Diatryma en þeir fuglar gátu orðið 2 metrar á hæð og höfðu gríðarstóra hauskúpu.

Veðurfar kólnaði um miðbik eósen vegna breytinga á sjávarstraumum við Suðurskautslandið. Við þessar miklu loftslagsbreytingar drógust frumskógarnir saman og gresjusvæðin stækkuðu. Þetta leiddi til þess að stórvaxnari spendýr gátu haslað sér völl, mörg þeirra miklu stærri en stærstu spendýr nútímans.

Meðal þeirra stórvöxnu spendýra sem komu fram á mið- og seinnihluta eósentímabilsins má nefna ættkvíslina Paraceratherium sem minnti helst á hornlausan nashyrning. Einstaklingar þessarar ættkvíslar gátu orðið allt að 4,8 metrar á herðakamb og voru sennilega um 15 tonn á þyngd. Þessir risar hurfu af sjónarsviðinu fyrir um 23 milljón árum.

Paraceratherium var risastórt dýr sem var uppi fyrir 34–23 milljón árum síðan. Ekki er vitað nákvæmlega hversu stórt það var en talið er að það hafi verið allt að 4,8 metrar á herðakamb, 7,4 metra langt og vegið 15-20 tonn. Hér er stærð þess borin saman við núlifandi tegundir nashyrninga og útdauðu ísaldartegundina Elasmotherium.

Önnur stórvaxin skepna var Entelodont sem mætti kalla heljarsvín. Það var uppi fyrir 37-16 milljón árum síðan. Þetta var klaufdýr og var alæta líkt og núlifandi svín. Stærstu tegundir gátu orðið allt að 2 metrar á herðakamb og vógu sjálfsagt nærri einu tonni.

Eitt af stórvöxnu rándýrunum sem voru uppi fyrir um 40 miljónum árum síðan var andrakárni (Andrewsarchus). Ekki er mikið vitað um þessa skepnu enda er hún aðeins þekkt af einni hauskúpu sem fannst í Kína árið 1923. Þó er talið að þetta rándýr, sem líklega var einnig hrææta, hafi verið um 3,7 metrar á lengd og vegið um 250 kg.

Í höfunum viku hákarlar sem höfðu verið ráðandi fyrir frumhvölum á borð við Basilosaurus.

Ólígósentími tók við að eósen og stóð tímabilið yfir frá 34 til 23 milljón árum síðan. Á ólígósen breiddust gresjurnar enn frekar út sem leiddi til aukinnar tegundamyndunar. Meðal þeirra spendýra sem komu fram á þessu tímabili voru frumfílar, kattardýr, hunddýr og pokadýr en margar náskyldar tegundir þessara spendýra lifa enn í dag.

Tímabilið á eftir ólígósen kallast neógen og er því talið lokið fyrir um 2,6 milljón árum þegar ísöld gekk í garð. Á þessu skeiði fór loftslag kólnandi. Fyrstu jökulbreiðurnar á Suðurskautslandinu voru farnar að breiða úr sér fyrir um 25 milljón árum en þá hlýnaði aftur um hríð. Fyrir um 14 milljón árum hjúpuðu hins vegar varanlegar ísbreiður Suðurskautslandið þar sem suðurskautshringstraumurinn festi sig í sessi og einangraði þetta meginlandi. Tvö tímabil þar sem jöklar stækkuðu mikið stóðu yfir í um 15 þúsund ár, fyrir 5,2 og 4,8 milljón árum, en á milli var tiltölulega hlýtt veðurfar.

Við þessar loftslagsbreytingar þurftu dýr að temja sér nýja hætti til að lifa af. Meðal annars tóku hófdýr upp hjarðhegðun og árstíðabundna flutninga og nagdýr grófu sér holur og lögðust í dvala. Slíkt er algengt meðal fjölda spendýrategunda í dag. Á þessu tímabili komu fram þaraskógar víða á grunnsævinu og ýtti það undir mikla tegundamyndun meðal spendýra, svo sem sæotra.

Einnig varð mikil tegundaútbreiðsla fræplantna á neógentímabilinu, sígrænn gróður og barrtré breiddust út á norðurhveli jarðar en laufskógar sem höfðu verið ríkjandi skógargerð í milljónir ára drógust saman. Fyrir um 10 milljón árum urðu staktrjáasléttur (savanna) ríkjandi í vistkerfi víða í Afríku og Asíu.

Á míósentímabili neógenskeiðsins (fyrir 23-5,3 milljón árum síðan) varð mikil tegundaútgeislun meðal lítilla spendýra, sérstaklega nagdýra. Klaufdýr þróuðust hratt á þessu tímabili og þróuðu með sér mikla hlaupahæfni í kjölfar stækkandi gresja. Á plíósentímabilinu (5,3-2,6 milljón ár síðan) þróuðust grasbítar enn frekar og öflug og hraðskreið rándýr svo sem ljón og blettatígrar í þeirri mynd sem við þekkjum komu fram. Loks má nefna merkilega tegund sem kom fram í Afríku fyrir 4 milljón árum en það er Australopithecus. Þá hefst grein sem leiddi til þróunar nútímamannsins (Homo sapiens) og skeið mannsins hefst í sögu lífs á jörðinni.

Myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

24.7.2017

Spyrjandi

Tómas Sveinbjörnsson

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað gerðist eftir að risaeðlur dóu út og þangað til maðurinn kom fram?“ Vísindavefurinn, 24. júlí 2017, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=73390.

Jón Már Halldórsson. (2017, 24. júlí). Hvað gerðist eftir að risaeðlur dóu út og þangað til maðurinn kom fram? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=73390

Jón Már Halldórsson. „Hvað gerðist eftir að risaeðlur dóu út og þangað til maðurinn kom fram?“ Vísindavefurinn. 24. júl. 2017. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=73390>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað gerðist eftir að risaeðlur dóu út og þangað til maðurinn kom fram?
Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:

Getur einhver útskýrt hvað gerðist frá því að risaeðlurnar dóu út og til ísaldar þegar spendýrin komu fram?

Miklar breytingar urðu á dýralífi jarðar fyrir um 66 milljón árum, á mörkum miðlífsaldar og nýlífsaldar. Þá dóu um 75% allra dýrategunda út, þar með taldar allar risaeðlur (Dinosauria). Fyrstu spendýrin voru komin til sögunar á þessum tíma en þau voru ekki stór og lítt fyrirferðarmikil í fánunni. Með brotthvarfi margra tegunda hófst tímabil spendýra og fugla sem nýttu sér brotthvarf risaeðlanna.

Tímabilið frá 66 til 56 milljón árum síðan er kallað paleósen. Þetta skeið var eins konar umskiptingaskeið frá hinni miklu útrýmingaröldu undir lok miðlífsaldar. Spendýr tóku að koma sér fyrir í nær öllum vistkerfum jarðar en þau voru smávaxin, stærstu dýrin voru vart þyngri en 10 kg. Í hafinu voru hákarlar allsráðandi.

Á eftir paleósen kom eósentími og stóð yfir frá 56 til 34 milljón árum síðan. Snemm-eósen var afar hlýtt skeið í jarðsögunni, hiti hefur sjálfsagt verið um 30 gráður að jafnaði og lítill munur á hita milli miðbaugs og póla, ólíkt því sem er í dag. Í upphafi eósen voru spendýr enn smávaxin og héldu til í þéttum skógum. Þetta voru meðal annars frumprímatar í trjám, smávaxin hófdýr sem leyndust í gróðurþykkni skóganna og í höfunum lifðu frumstæðir hvalir. Á þessu tímabili komu fram risavaxnir ófleygir fuglar sem lifðu í þéttum skógum. Þessir fuglar hafa verið kallaðir ógnarfuglar (Phorusrhacidae). Sem dæmi má nefna ættkvíslina Diatryma en þeir fuglar gátu orðið 2 metrar á hæð og höfðu gríðarstóra hauskúpu.

Veðurfar kólnaði um miðbik eósen vegna breytinga á sjávarstraumum við Suðurskautslandið. Við þessar miklu loftslagsbreytingar drógust frumskógarnir saman og gresjusvæðin stækkuðu. Þetta leiddi til þess að stórvaxnari spendýr gátu haslað sér völl, mörg þeirra miklu stærri en stærstu spendýr nútímans.

Meðal þeirra stórvöxnu spendýra sem komu fram á mið- og seinnihluta eósentímabilsins má nefna ættkvíslina Paraceratherium sem minnti helst á hornlausan nashyrning. Einstaklingar þessarar ættkvíslar gátu orðið allt að 4,8 metrar á herðakamb og voru sennilega um 15 tonn á þyngd. Þessir risar hurfu af sjónarsviðinu fyrir um 23 milljón árum.

Paraceratherium var risastórt dýr sem var uppi fyrir 34–23 milljón árum síðan. Ekki er vitað nákvæmlega hversu stórt það var en talið er að það hafi verið allt að 4,8 metrar á herðakamb, 7,4 metra langt og vegið 15-20 tonn. Hér er stærð þess borin saman við núlifandi tegundir nashyrninga og útdauðu ísaldartegundina Elasmotherium.

Önnur stórvaxin skepna var Entelodont sem mætti kalla heljarsvín. Það var uppi fyrir 37-16 milljón árum síðan. Þetta var klaufdýr og var alæta líkt og núlifandi svín. Stærstu tegundir gátu orðið allt að 2 metrar á herðakamb og vógu sjálfsagt nærri einu tonni.

Eitt af stórvöxnu rándýrunum sem voru uppi fyrir um 40 miljónum árum síðan var andrakárni (Andrewsarchus). Ekki er mikið vitað um þessa skepnu enda er hún aðeins þekkt af einni hauskúpu sem fannst í Kína árið 1923. Þó er talið að þetta rándýr, sem líklega var einnig hrææta, hafi verið um 3,7 metrar á lengd og vegið um 250 kg.

Í höfunum viku hákarlar sem höfðu verið ráðandi fyrir frumhvölum á borð við Basilosaurus.

Ólígósentími tók við að eósen og stóð tímabilið yfir frá 34 til 23 milljón árum síðan. Á ólígósen breiddust gresjurnar enn frekar út sem leiddi til aukinnar tegundamyndunar. Meðal þeirra spendýra sem komu fram á þessu tímabili voru frumfílar, kattardýr, hunddýr og pokadýr en margar náskyldar tegundir þessara spendýra lifa enn í dag.

Tímabilið á eftir ólígósen kallast neógen og er því talið lokið fyrir um 2,6 milljón árum þegar ísöld gekk í garð. Á þessu skeiði fór loftslag kólnandi. Fyrstu jökulbreiðurnar á Suðurskautslandinu voru farnar að breiða úr sér fyrir um 25 milljón árum en þá hlýnaði aftur um hríð. Fyrir um 14 milljón árum hjúpuðu hins vegar varanlegar ísbreiður Suðurskautslandið þar sem suðurskautshringstraumurinn festi sig í sessi og einangraði þetta meginlandi. Tvö tímabil þar sem jöklar stækkuðu mikið stóðu yfir í um 15 þúsund ár, fyrir 5,2 og 4,8 milljón árum, en á milli var tiltölulega hlýtt veðurfar.

Við þessar loftslagsbreytingar þurftu dýr að temja sér nýja hætti til að lifa af. Meðal annars tóku hófdýr upp hjarðhegðun og árstíðabundna flutninga og nagdýr grófu sér holur og lögðust í dvala. Slíkt er algengt meðal fjölda spendýrategunda í dag. Á þessu tímabili komu fram þaraskógar víða á grunnsævinu og ýtti það undir mikla tegundamyndun meðal spendýra, svo sem sæotra.

Einnig varð mikil tegundaútbreiðsla fræplantna á neógentímabilinu, sígrænn gróður og barrtré breiddust út á norðurhveli jarðar en laufskógar sem höfðu verið ríkjandi skógargerð í milljónir ára drógust saman. Fyrir um 10 milljón árum urðu staktrjáasléttur (savanna) ríkjandi í vistkerfi víða í Afríku og Asíu.

Á míósentímabili neógenskeiðsins (fyrir 23-5,3 milljón árum síðan) varð mikil tegundaútgeislun meðal lítilla spendýra, sérstaklega nagdýra. Klaufdýr þróuðust hratt á þessu tímabili og þróuðu með sér mikla hlaupahæfni í kjölfar stækkandi gresja. Á plíósentímabilinu (5,3-2,6 milljón ár síðan) þróuðust grasbítar enn frekar og öflug og hraðskreið rándýr svo sem ljón og blettatígrar í þeirri mynd sem við þekkjum komu fram. Loks má nefna merkilega tegund sem kom fram í Afríku fyrir 4 milljón árum en það er Australopithecus. Þá hefst grein sem leiddi til þróunar nútímamannsins (Homo sapiens) og skeið mannsins hefst í sögu lífs á jörðinni.

Myndir:

...