Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Flestir hallast nú að því að risaeðlurnar hafi dáið út í hræðilegum náttúruhamförum sem urðu á mörkum krítar- og tertíertímabilanna (K/T-mörkin, fyrir 65 milljón árum), og þurrkuðu raunar út um 70% allra tegunda lífvera sem þá lifðu. Sambærilegt aldauðaskeið, en þó enn þá altækara, varð á mörkum perm og trías fyrir 250 milljón árum þegar um 96% allra tegunda urðu aldauða.
Risaeðlurnar voru skriðdýr, en þau komu fram eftir fyrrnefnt aldauðaskeið fyrir 250 milljón árum, og ríktu alla miðlífsöld, þar til fyrir 65 milljón árum. Á þessum tíma þróuðust þau hratt og lögðu undir sig lög, loft og láð: fiskeðlur syntu í sjónum, flugeðlur sveimuðu um loftið en á landi fylltu eðlur af öllum stærðum og gerðum sérhvern sess í vistkerfinu. Veldi eðlanna lauk allskyndilega - hversu skyndilega er ekki fullvíst enn - en síðan 1980 telja flestir að það hafi orðið í náttúruhamförum. Tvær kenningar hafa einkum verið uppi um orsakir þeirra: annars vegar árekstur loftsteins eða loftsteina við jörðina, hins vegar gríðarleg eldgos, en hvort tveggja á að hafa haft þau áhrif að umlykja jörðina miklu rykskýi sem valdið hafi langvarandi fimbulvetri og annarri óáran sem orðið hafi miklum hluta lífríkisins ofviða.
Fyrrnefnda skýringin er sennilegri af eftirtöldum ástæðum: Árið 1977 kom bandarískur jarðfræðingur, Alfred Fischer að nafni, með þá tilgátu að í jarðlögum megi greina lotubundinn aldauða lífvera, þar sem margar tegundir hverfi af sjónarsviðinu í senn á 26 milljón ára fresti. Kenningin fékk dræmar undirtektir, enda var hvort tveggja, að gögn Fischers voru ekki sérlega viðamikil og að erfitt var að skýra slíka lotubundna hegðun með þekktum jarðneskum ferlum.
Svona ímyndar listamaður sér útdauða risaeðlanna.
Árið 1980 birti svo fyrrum nemandi Fischers við Princeton-háskóla, Walter Alvarez, grein um rannsóknir sínar á kalksteini nálægt borginni Gubbio á Ítalíu þar sem hann hafði fundið þunnt leirlag með óvenjuháum styrk frumefnisins iridín (Ir). Iridín er 10.000 sinnum algengara í loftsteinum en í jarðargrjóti. Við frekari eftirgrennslan fannst svipað leirlag frá sama tíma víðar um heim og af þeim ástæðum settu feðgarnir Luis, nóbelsverðlaunahafi í eðlisfræði, og Walter Alvarez fram þá kenningu að loftsteinn, 10-15 km í þvermál, hafi fallið til jarðar og splundrast en rykið umlukið jörðina. Seinna fannst líklegur gígur eftir loftsteininn í Yukatan í Mexíkó. Enn fremur hefur komið í ljós að Ir-rík leirlög finnast víðs vegar um heim frá ýmsum tímum, og greining hefur leitt í ljós að þau tengjast fyrrgreindum aldauðaskeiðum sem Alfred Fischer benti fyrstur á.
Árið 1982 kom svo út við Chicago-háskóla frumgerð steingervingaskrár sem nú telur yfir 30.000 ættkvíslir, og við greiningu á henni - hvenær ættkvísl kemur fyrst fram í jarðlögum og hvenær hún hverfur - varð ljóst að einhverjir atburðir valda útdauðaskeiði á 32 milljón ára fresti (betri aldursgreiningar skýra muninn á niðurstöðu Fischers og Chicago-manna). Slíka lotubundna hegðun er aðeins hægt að skýra með stjarnfræðilegum ferlum, og helst leita menn skýringar í því að sólkerfið hreyfist upp og niður í kringlu Vetrarbrautarinnar þannig að það berst gegnum miðflöt hennar á 31-33 milljón ára fresti - og að þar sé þéttleiki loftsteina meiri en fjær miðfletinum.
Loks má benda áhugasömum á tvær greinar um þessi efni:
„Nýjar hugmyndir um þróun lífsins“ eftir Sigurð Steinþórsson, Þjóðlíf, sept. 1988.
„Um iridíum, eldgos og loftsteina" eftir Kristin J. Albertsson, Náttúrufræðingurinn, 61. bindi, 1991, bls. 1-15.
Sigurður Steinþórsson. „Er vitað hvers vegna risaeðlur dóu út?“ Vísindavefurinn, 13. júní 2000, sótt 9. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=509.
Sigurður Steinþórsson. (2000, 13. júní). Er vitað hvers vegna risaeðlur dóu út? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=509
Sigurður Steinþórsson. „Er vitað hvers vegna risaeðlur dóu út?“ Vísindavefurinn. 13. jún. 2000. Vefsíða. 9. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=509>.