Sólin Sólin Rís 05:12 • sest 21:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:09 • Síðdegis: 20:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:12 • Síðdegis: 14:14 í Reykjavík

Hvernig var 9. sinfóníu Beethovens tekið á sínum tíma og af hverju er hún svona fræg?

Árni Heimir Ingólfsson

Í lokakafla 9. sinfóníu Beethovens er kvæði Friedrich Schillers (1759-1805), Óðurinn til gleðinnar, flutt af söngvurum. Þegar 9. sinfónían var frumflutt höfðu einsöngvarar og kór aldrei stigið á svið í verki sem bar yfirskriftina „sinfónía“ og sýndist sitt hverjum um uppátækið.

Minnismerki um Ludwig van Beethoven (1770–1827) á Beethoventorgi í Vínarborg.

Enskur gagnrýnandi skrifaði eftir fyrsta flutning í Lundúnum árið 1825 að sinfóníuna þyrfti að skera niður um helming og lokakaflann þyrfti að semja upp á nýtt; hann taldi fullvíst að ef Beethoven fjarlægði kórkaflann myndi sinfónían vekja „óblandna ánægju“. Tónskáldið Louis Spohr (1784-1859) botnaði ekkert í verkinu, að hans mati var lokaþátturinn „svo skelfilegur og smekklaus að ég fæ ekki enn skilið hvernig snillingur eins og Beethoven gat fest hann á blað“. Önnur og frægari tónskáld 19. aldar tóku „hina Níundu“ aftur á móti sér til fyrirmyndar: Mendelssohn (1809-1847), Liszt (1811-1886), Mahler (1860-1911) og fleiri sömdu „kórsinfóníur“ undir beinum áhrifum Níundu sinfóníunnar. Jafnvel þeir sem ekki höfðu lengur trú á hinu sinfóníska formi fundu réttlætingu á listsköpun sinni í formgerð hennar og boðskap. Richard Wagner (1813-1883) taldi hana marka endalok sinfóníunnar, því að með innkomu raddanna í lokaþættinum hefði söngurinn borið sigurorð af hreinni hljóðfæratónlist. Með slíkri túlkun gerði Wagner verkið að forsendu þeirrar listar sem hann skapaði sjálfur í óperuheiminum.

Níunda sinfónían er eitt meginverk tónlistarsögunnar og boðskapur hennar hefur verið nýttur í þágu góðs og ills. Hún var leikin við setningu Ólympíuleikanna í Þýskalandi nasismans 1936 og á afmælistónleikum Hitlers fáeinum árum síðar. Frelsissinnaðir námsmenn staðfestu málstað sinn með því að láta Óðinn til gleðinnar óma á Torgi hins himneska friðar í Peking fáeinum dögum áður en herinn framdi þar ógurleg fjöldamorð vorið 1989; síðar sama ár var verkið flutt á tónleikum sem sjónvarpað var um allan heim frá Berlín til að fagna því að múrinn milli austurs og vesturs var fallinn. Óðurinn til gleðinnar hefur enn pólitíska skírskotun, því hann hefur verið einkennisstef Evrópusambandsins frá 1986. Verkið hefur einnig mótað lykilákvarðanir í tæknigeiranum. Sagan segir að þegar japanski raftækjaframleiðandinn Sony þróaði hljómdiskinn á árunum um 1980 hafi þvermál hans og geymslugeta beinlínis miðast við að Níunda sinfónían gæti rúmast á einum slíkum.

Níunda sinfónían hefur verið flutt af ýmsu tilefni, til dæmis var hún var leikin við setningu Ólympíuleikanna í Þýskalandi nasismans 1936.

Ástæða þess að svo margir hafa eignað sér Níundu sinfóníuna er augljós. Hún er stórfenglegt listaverk sem er á sinn hátt hafið yfir stund og stað. Þó er verkið sem slíkt mótað af þeim veruleika sem blasti við Beethoven á síðustu árum hans. Í því býr uppreisn gegn pólitísku ofríki samtímans, afturhvarf til draums um ríki frelsis og jafnréttis sem aldrei varð.

Víða á netinu má finna flutning á Níundu sinfóníunni, til dæmis tónleika Fílharmóníusveitar Berlínar undir stjórn Leonard Bernstein sem haldnir voru í Berlína á jóladag árið 1989 til þess að fagna falli múrsins.

Myndir:


Þetta svar er töluvert stytt útgáfa af umfjöllun um Níundu sinfóníu Beethovens í bókinni Saga tónlistarinnar sem Forlagið gaf út árið 2016 og birt með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.

Upprunaleg spurning Þórönnu var: Af hverju er tónlistin hans Beethovens svona fræg og góð? Hér er henni svarað að hluta.

Höfundur

Árni Heimir Ingólfsson

tónlistarfræðingur

Útgáfudagur

13.3.2017

Spyrjandi

Þóranna Vigdís Sigurðardóttir

Tilvísun

Árni Heimir Ingólfsson. „Hvernig var 9. sinfóníu Beethovens tekið á sínum tíma og af hverju er hún svona fræg?“ Vísindavefurinn, 13. mars 2017. Sótt 27. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=73476.

Árni Heimir Ingólfsson. (2017, 13. mars). Hvernig var 9. sinfóníu Beethovens tekið á sínum tíma og af hverju er hún svona fræg? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=73476

Árni Heimir Ingólfsson. „Hvernig var 9. sinfóníu Beethovens tekið á sínum tíma og af hverju er hún svona fræg?“ Vísindavefurinn. 13. mar. 2017. Vefsíða. 27. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=73476>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig var 9. sinfóníu Beethovens tekið á sínum tíma og af hverju er hún svona fræg?
Í lokakafla 9. sinfóníu Beethovens er kvæði Friedrich Schillers (1759-1805), Óðurinn til gleðinnar, flutt af söngvurum. Þegar 9. sinfónían var frumflutt höfðu einsöngvarar og kór aldrei stigið á svið í verki sem bar yfirskriftina „sinfónía“ og sýndist sitt hverjum um uppátækið.

Minnismerki um Ludwig van Beethoven (1770–1827) á Beethoventorgi í Vínarborg.

Enskur gagnrýnandi skrifaði eftir fyrsta flutning í Lundúnum árið 1825 að sinfóníuna þyrfti að skera niður um helming og lokakaflann þyrfti að semja upp á nýtt; hann taldi fullvíst að ef Beethoven fjarlægði kórkaflann myndi sinfónían vekja „óblandna ánægju“. Tónskáldið Louis Spohr (1784-1859) botnaði ekkert í verkinu, að hans mati var lokaþátturinn „svo skelfilegur og smekklaus að ég fæ ekki enn skilið hvernig snillingur eins og Beethoven gat fest hann á blað“. Önnur og frægari tónskáld 19. aldar tóku „hina Níundu“ aftur á móti sér til fyrirmyndar: Mendelssohn (1809-1847), Liszt (1811-1886), Mahler (1860-1911) og fleiri sömdu „kórsinfóníur“ undir beinum áhrifum Níundu sinfóníunnar. Jafnvel þeir sem ekki höfðu lengur trú á hinu sinfóníska formi fundu réttlætingu á listsköpun sinni í formgerð hennar og boðskap. Richard Wagner (1813-1883) taldi hana marka endalok sinfóníunnar, því að með innkomu raddanna í lokaþættinum hefði söngurinn borið sigurorð af hreinni hljóðfæratónlist. Með slíkri túlkun gerði Wagner verkið að forsendu þeirrar listar sem hann skapaði sjálfur í óperuheiminum.

Níunda sinfónían er eitt meginverk tónlistarsögunnar og boðskapur hennar hefur verið nýttur í þágu góðs og ills. Hún var leikin við setningu Ólympíuleikanna í Þýskalandi nasismans 1936 og á afmælistónleikum Hitlers fáeinum árum síðar. Frelsissinnaðir námsmenn staðfestu málstað sinn með því að láta Óðinn til gleðinnar óma á Torgi hins himneska friðar í Peking fáeinum dögum áður en herinn framdi þar ógurleg fjöldamorð vorið 1989; síðar sama ár var verkið flutt á tónleikum sem sjónvarpað var um allan heim frá Berlín til að fagna því að múrinn milli austurs og vesturs var fallinn. Óðurinn til gleðinnar hefur enn pólitíska skírskotun, því hann hefur verið einkennisstef Evrópusambandsins frá 1986. Verkið hefur einnig mótað lykilákvarðanir í tæknigeiranum. Sagan segir að þegar japanski raftækjaframleiðandinn Sony þróaði hljómdiskinn á árunum um 1980 hafi þvermál hans og geymslugeta beinlínis miðast við að Níunda sinfónían gæti rúmast á einum slíkum.

Níunda sinfónían hefur verið flutt af ýmsu tilefni, til dæmis var hún var leikin við setningu Ólympíuleikanna í Þýskalandi nasismans 1936.

Ástæða þess að svo margir hafa eignað sér Níundu sinfóníuna er augljós. Hún er stórfenglegt listaverk sem er á sinn hátt hafið yfir stund og stað. Þó er verkið sem slíkt mótað af þeim veruleika sem blasti við Beethoven á síðustu árum hans. Í því býr uppreisn gegn pólitísku ofríki samtímans, afturhvarf til draums um ríki frelsis og jafnréttis sem aldrei varð.

Víða á netinu má finna flutning á Níundu sinfóníunni, til dæmis tónleika Fílharmóníusveitar Berlínar undir stjórn Leonard Bernstein sem haldnir voru í Berlína á jóladag árið 1989 til þess að fagna falli múrsins.

Myndir:


Þetta svar er töluvert stytt útgáfa af umfjöllun um Níundu sinfóníu Beethovens í bókinni Saga tónlistarinnar sem Forlagið gaf út árið 2016 og birt með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.

Upprunaleg spurning Þórönnu var: Af hverju er tónlistin hans Beethovens svona fræg og góð? Hér er henni svarað að hluta....